Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1911

Nánari upplýsingar

Númer8491/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8491

p1
Tegundin: Heyrði hunda aldrei nefnda klódýr, né hrædýr. Hundspottið þitt var skammaryrði á hundinn. Hundakyn: Ég átti alltaf hreinræktaða íslenska hunda. Þeir voru fremur snoðnir, með hringaða rófu og stutt upprétt eyru, lágir í vexti, trygglyndir og hændir að húsbónda sínum. Heimilishundur: Heimilishundar lögðust stundum í flakk, oftast út af tíkarstússi. Stundum voru þeir (karlhundar) þá geltir, en það var ekki svo góð lausn því að þeim hætti þá til að fitna um of og verða latir. Jú, það má nú segja að hundurinn bar með útliti sínu og framferði heimilinu vitni. Vel fóðraður hundur var matmóður sinni til sóma. Á svipmóti hundsins sást, hvort heimilisfólk umgekkst hann eins og vin sinn. Tamning hvers hvolps var undir smalanum komin. Óvaninn eða illa vaninn hundur var öllum hvimleiður. Því má segja, að þó upplagið væri misjafnt að "svo er hundur sem hann er hafður", og þekkti ég þennan málshátt.

p2
Gæludýr (hundar) voru ekki til í sveitum meðan ég bjó í sveit. Aldrei vissi ég til að sveitafólk tæki þéttbýlishvolpa í betrunarvist. Verð á hundum: Vissi ekki til að slík sala færi fram í mínu nágrenni. Fullorðnir hundar voru naumast látnir af hendi, enda voru þeir svo elskir að sínum húsbónda, að þeir samþýddust treglega örum. Heppilegast var að fjárhundsefni væru fædd um miðjan vetur, því að þá voru hvolparnir á besta aldri til þess að venja þá við fjárstúss að vorinu (um sauðburðinn). Hvolpur var látinn til nýs eiganda ca. 2ja mánaða gamall. Aldrei vissi ég til þess að ætlast væri til gjalds. Þá sligaði heldur ekki samfélagið sú peningagræðgi, sem nú er einkennandi. Mín tík fékk alltaf að halda einum hvolpi fyrstu vikur eftir got og þá þótti gott að losna við hann þegar hann varð það stór að honum var ofaukið. Hundur verður til: Jú, ég kannast við þessi orð: lóðatík og tíkin er lóða. Líka talað um hund í tíkarsnatti og alltaf rætt um hvolpafulla tík þegar svo stóð á. Ekki þótti þrifnaður af þegar hópur hunda safnaðist um eina tík með áflogum og gjammi.

p3
Hins vegar voru sem minnst afskifti höfð af dýrunum við þessa sína náttúrulegu athöfn. Hér má við bæta, að karlhundar virtust ekki hafa hina minnstu ..... til afkomenda sinna, hvolpanna nema síður væri. Kæmi óvelkominn aðkomuhundur á bæ þar sem tík lá á hvolpum, dugði að sýna honum þetta ungviði. Hann var þotinn með það sama. Fæðing: Já, tíkin gaut. Þetta gekk oftast fljótt og vel. Þegar lasleiki sást á tíkinni var vani að láta nýtt hey í ból hennar og þar ofan á hreina flík, gamla. Þar ól hún afkvæmi sín, oftast 3-5 og þursleikti þau um leið og þau fæddust og lagði sér við brjóst, sem önnur móðir. Börnin á bænum fylgdust náið með þessum atburði og fögnuðu þessum nýju einstaklingum og heimilisvinum. það var alsiða að láta tíkina sjálfa velja þann hvolp, sem settur var á. Það var gert með þeim hætti, að teknir voru allir hvolparnir úr bóli sínu og settir á gólfið. Tíkin tók hvolpana í munn sér einn í einu og færði þá í bólið aftur. Var þá valinn til lífs sá, sem hún tók fyrst. Vissi aldrei til að hvolpar fæddust sjáandi. Nýgotnum hvolpum var drekkt (ca. viku gömlum). Alltaf var þó einn látinn lifa þar til tíkin var um það bil geld. Auðkenni: Talað var um fjárglirnur og þótti kostur. Hvítan rófubrodd á hundi heyrði ég nefnt leiðarljós. Það er nokkuð örugg vísbending ef hvolpur byrjar að bofsa í bæli

p4
sínu um það leyti, sem hann er sjáandi (rúml. 1/2 mán), að hann verður geltinn hundur og er það stór kostur á fjárhundi. Litir hunda og nöfn: Já, hundar voru líka hvítir, gráir, svartir, gulir, en um kápóttan eða snoppóttan hund heyrði ég aldrei enda er ekki snoppa á hundi heldur trýni. Aftur á móti er snoppa á kind og hesti. Nokkur hundanöfn: Týri, Tryggur, Tinna, Táhvít, Trýna, Tobbi, Tótólfur, Tobbi, Tobba, Tóti, Smali, Sámur, Spori, Slubba, Slubbur, Snotra, Surtur, Sesar, Skuggi, Sponni, Lappi, Lubbi, Vaskur, Hvatur, Kaffon, Píla, Neró, Kátur, Polli, Offi, Nói, Kópur, Kjói, Móri, Frýna, Píla, Pollý, Skopra. Hárafar: Vissi ekki til að hundshár væru notuð. Sumir hundar urðu lystalitlir og daufir meðan þeir voru að fara úr hárum. Rödd hunda: Heyrði ei talað um að "sjóða grottann". Vissi um að vitrir fullorðnir hundar settust á rassinn og ýmist ýlfruðu eða spangóluðu er þeir vissu húsbónda sinn á sjó og veður og sjólag spilltist til muna. Var þá grunað að hætti gæti verið búin þeim, sem á sjónum voru. Hljóð milli ýlfurs og "gráts", var nefnt

p5
nágól og kom frá hundi, sem syrgði vin sinn og sumir sögðu það geta boðað feigð. Gestagelt var algengt og var hressilegt og glatt hjá íslenskum hundum enda voru þeir uppveðraðir ef einhver kom og eins ef farið var með þá til bæja. Ratvísi, þefskyn: Hundar hafa mjög þroskað þefskyn, svo að þeir eru öruggir að rekja feril manna og dýra jafnt í snjó sem á auðri jörð. Með viti sínu og ratvísi hafa þeir mjög létt störf manna við skepnuleit, í fjallgöngum og ferðalögum og oft bjargað lífi með þessum eiginleikum sínum og tryggðinni. Nefni hér eitt dæmi af mörgum um skynsemi og athygli hundsins. Eitt sinn var ég að láta féð inn um vetur, taldi inn. Þegar ég leit út undan mér sá ég að það var eitthvert aukabasl á hundinum innan um féð. Þegar ég var að enda við að láta inn sá ég, að seppi hafði tekið fyrir eina ána og varnað henni að komast að fjárhúsdyrunum. Kom í ljós, að þetta var kind frá næsta bæ og þetta gerði hundurinn þarna í rökkrinu að sjálfsögðu ósagt. Mörg áþekk dæmi gæti ég tínt til um mína góðu vini hundana, sem ég umgekkst, þau 50 ár, sem ég var í sveit.

p6
Spádýr: Þegar hundur liggur á kviðnum teygir framlappirnar fram og leggur hausinn milli framlappanna spáði hann gestum. Ég vissi ekki til að þeir gætu spáð nema góðum gestum því að þar voru ekki á ferð nema góðir gestir í minni sveit. Öll dýr úti í náttúrunni vita á sig veður og er hundurinn þar ekki undantekning. Stingi hundurinn trýninu undir bóginn og hringaði sig vel saman þar sem hann lá, þótti það vita á verra veður. Höfðu þá líka hraðan á meir en ella. Vissi hundinn fara óbeðinn út á haga og gjamma í hrossum til að ýta þeim heim í fyrra lagi enda brast þá í hörkubyl áður en langt um leið. Tíkarmjólk: Hef ekkert um þetta að segja. Lækningar: Kannast við málsháttinn, "kattartungan særir, hundstungan græðir". Vissi ekki til að neitt væri nýtt úr hundinum. Þegar hundur féll frá var hann vandlega urðaður í heilu lagi. Vissi til að menn létu hundinn sleikja smá skeinur eða skurði og var reynslan sú, að slíkar skeinur höfðust vel við og kom ekki illt í.

p7
Hundsbit: Lítið var um grimma hunda áður en íslenski hundurinn fór að blandast með útlendum. Þó var það til. Það kom fyrir að hundar eltu fénað úti um hagann og bitu og þá venjulegast í hæklana og upp í lærin. Stundum voru vígtennur klipptar úr þessum hundum, en yfirleitt þótti sama að farga dýrunum fljótt. Hundsbit þóttu gróa illa. Hrælykt: Ekki var talað um hrælykt í þessu sambandi heldur hundalykt. Hún finnst aðallega þegar hundarnir koma blautir inní hlýju. Lyktin hverfur þegar þeir eru orðnir þurrir. Áflog hunda: Mest kvað að áflogum hunda í sambandi við tíkasnatt og hafði þá sá sigur, sem sterkastur var. Vissi að gripið var til ráðs ef úr hófi keyrði að hella köldu vatni yfir óróaseggina. Hundaþúfa: Hundaþúfur voru smáþúfur, sem hundar höfðu fyrir venju að míga utan í þegar þeir fóru fram hjá. Orðtakið, "Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér", á við að eitthvað sem er lítilsháttar þykist vera mikið. Hér má við bæta, að hundar ....... ógjarnan á heimatúni, en hylltust til að nota tún nágrannans til þeirra nota einkum ef ........ voru milli bæjanna. Hundur í mannaferð: Kannast ekki við þetta orðtak, "eins og hundur í hverri hofferð". Það var algengt að hundarnir fylgdu

p8
húsbændum sínum til bæja. Hundarnir þurftu jú ofurlitla tilbreytingu líka. En margir skildu hundana eftir er farið var til kirkju. Mér er í minni að eitt sinn þegar ég fór til kirkju komust tveir hundar inn í kirkjuna um messuna og upphófu áflog mikil. Meðhjálparinn varð að skakka leikinn og kom hundunum út, en missti aðra skóreimina í hundskjaft í átökunum. Þetta þóttu hin verstu messuspjöll. Bæli hunds: Athvarf hunds var yfirleitt í svokölluðum bæjardyrum eða kjallarainngangi. Oft áttu þeir kassa með heyi í eða ullarflóka, jafnvel gæruskinni til að liggja í. Þar sem ég þekkti til voru hundar hafðir inni um nætur. Hundsdallur-hundstrog: Voru skálar eða smátrog. Gat verið úr timbri, leir ellegar emeleruð ílát eftir ástæðum. Þurftu bara að taka sæmilegan skammt fyrir hundinn eftir því sem hann þurfti í það málið. Hundsteinn: Kannast ekki við þetta öðruvísi, en af annara frásögnum af lestri bóka. Hundsmatur: Hundum voru gefnir matarafgangar

p9
sem til féllu, þar með talin bein og roð. Kjötbein þóttu hundum hinn mesti fengur og bruddu þau stundum strax upp til agna. Ef beinin voru mjög torunnin grófu hundar þau stundum úti og vitjuðu þeirra svo síðar, stundum löngu seinna. Höfðu beinin þá mýkst. En líka gat verið að krummi finndi beinið og hefði það á burt og þótti seppa það skaði mikill. Elduðu dýr þessi stundum grátt silfur og var sú viðureign á köflum brosleg. Oft var hundum veittur súrmatur margskonar því engu var hent. T.d. súr lungu ofl. Orðtakið "að horfa til augna" kannast ég ekki við, en hitt heyrði ég, "að mæna eins og hundur á bita". Hundslap: Heyrði orðið notað um þegar fólki voru bornar lítilfjörlegar góðgerðir. T.d. "grauturinn, sem ég fékk var eins og hundslap". Smalahundur - fjárhundur: Sjálfsagt þótti heppilegast að venja hvolpana strax og þeir fóru að geta fylgt manninum eftir og kom tamningin í hlut fjárhirðisins. Árangurinn var svo kominn undir lagni smalans og upplagi hvolpsins. Dæmi: hundi sigað, "isk" á fé. Hundi sigað á hross, "irdan". Hundi sagt að taka kind "takt-ana". Hundur skammaður

p10
"Svei þér". Sæst við hann: "komdu greyið". Sagt var stundum, helst við flökkuhunda, sem fólk vildi losna við: "þú hefur étið folald". Þetta var ótrúlega áhrifaríkt, en máske hefur það ekki síður verið raddblærinn, en orðin sjálf sem hrifu. Hins má geta, að hundar skildu oft viss orð, sem menn létu sér um munn fara a.m.k. vissi ég til þess, að tík, sem varð óvart áheyrandi að því að ráðgert var að taka hvolpa hennar, fór með þá og faldi þá. Hundahreinsun: Í minnis veit var þess vandlega gætt, að allir létu hreinsa hunda sína einu sinni á ári. 2-3 menn sáu um framkvæmdina á hreinsun. Þess var gætt, að hundar kæmu ekki á blóðvöll þegar slátrað var heima og sullum, sem í ljós komu í slátri var þegar í stað brennt. Örugga vitneskju hef ég um atvik, sem gerðist stuttu eftir aldamótin, 1908. Maður kom á bæ og fékk að borða. Að máltíð lokinni var pottur og öll matarílát sett fyrri hundinn og hann látinn sjá um uppþvottinn. Að sjálfsögðu var um að kenna fráfræði fólksins. Þetta er löngu liðin tíð. Hundar í draumi: Vissi það vera fyrir gestakomu.

p11
Hundur sem fylgja: Fylgispök og vitur tík, sem ég átti hafði örugglega fyglju mér tengda löngu eftir að hún dó. Þetta lýsti sér þannig að þegar ég var að heiman varð konan mín þráfaldlega vör við dýrið á vappi í eldhúsinu. Þetta reyndist gerast á þeim tíma, sem ég var lagður af stað heim úr kaupstað. Konan var svo farin að tilreiða mat minn eftir þessari ábendingu hundsins. Bendir þetta ekki til þess að dýrin hafi sál og framliðnir hundar séu húsbændum sínum sinnandi að lokinni jarðvist. Fullviss er ég þess, að hundar hafa skyggnigáfu. Og er ég ekki einn um þá skoðun. Maður og hundur: Jú, oftast voru notuð þau orð um líkamshluta hundsins, kjaftur, trýni, glyrnur, lappir o.s.frv. Kveðskapur, sagnir:

Hann er mér trúr og tryggur,
með trýnið svart og augun blá.
Fram á sínar lappir liggur,
líki bónda hjá.

p12
Orð og málshættir: Hundspottið þitt var skammaryrði. Hundaart var sama sem óart, vísast máske til þess viðhorfs, sem karlhunduar höfðu til afkvæmanna. Hundslegur var skömmustulegur. Að fá hvolpavit hygg ég að oftast hafi tengst kynhvötinni. Að liggja hundflatur fyrir öðrum vísar til þess, að svo virðist sem hundurinn væri sáttfús án takmarka (ei langrækinn). Það er hundur í honum = það er ólund í honum við mig. Að koma eins og hundur og fara eins og hundur, þýddi skort á mannasiðum. Hef heyrt sagt: Ég hef aldrei vitað annað eins, alla mína hundstíð og kattarævi". Halasneyptur hundur þ.e. lét rófuna lafa niður og hljóp eftir að hafa beðið ósigur t.d. í tíkarstússi. Líka var talað um að vera eins og rófulaus hundur í svipaðri merkingu. Veit hundur hvað étið hefur, vísar til þess þegar hundur hefur t.d. stolið kattamatnum og verður skömmustulegur á eftir. Þessi málsháttur má heimfærast á menn og

p13
var stundum gert. Eftirfarandi orðatiltæki og málshátt í listanum kannast ég við svo og skýringar þeirra.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana