LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1907

Nánari upplýsingar

Númer8492/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8492

p1
Nokkur svör við spurningaskrá nr. 66 frá þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands. Eins og segir í inngangsgrein þessarar spurningaskrár, hefir hundurinn frá fyrstu tíð verið einna handgengnastur manninum allra húsdýra enda hundstryggð jafnan við brugðið og það er sannmæli sem í ljóðlínunum stendur: "Milli manns og hests og hunds hangir leyniþrjáður," og ég held að svo verði áfram meðan íslenskur landbúnaður verður stundaður en hann á nú í vök að verjast um þessar mundir. Tegundin: Sum þessi nöfn sem nefnd eru í þessari grein hef ég ekki heyrt áður, svo ég muni, aftur eru sum kunn eins og hundur, rakki, seppi, héppi en þó maður segi greyið mitt við hund. Þá er það ekki af því að hann heiti grey heldur af því maður er að tala vel til hans af því hann hefir eitthvað vel gert og gæti maður alveg eins sagt góði minn. Garmur er gamalt nafn á hundum og hef ég ekki heyrt það annars staðar nefnt en í frægu kvæði eftir Jónas Hallgrímsson, sem heitir "Óhræsið," þar sem hann segir frá móttökum, sem rjúpa fékk, sem flúði inn um baðstofuglugga, konan í húsinu tók á móti henni, en valurinn sem var að elta hana tapaði af henni. Ég set hérna tvær síðustu vísurnar í kvæðinu þó ég viti að flestir kunni þetta kvæði.

p2
Mædd á manna besta
miskun loks hún flaug
inn um gluggann gesta
guðs í nafni smaug.
Úti garmar geltu,
gólið hrein í valnum.
Kastar hún sér í heltu
konunnar í dalnum.

Gæða konan góða
grípur fegin við
dýrið dauðamóða
dregur háls úr lið.
Plokkar, pils upp brýtur
pott á hlóðir setur
segir: "Happ sem hlýtur,"
og horaða rjúpu étur.

Hundsspott var og er stundum notað, sem skammaryrði. Hundslegur er sama og skömmustulegur. Greyskinn er gæluyrði svipað eins og maður segi greyið mitt. Klódýr, hef ég ekki heyrt nefnd svo ég muni, en hrædýr eru þau dýr nefnd sem lifa aðallega á hræum og geta það verið bæði hundar, refir og mörg önnur dýr, sem ég kann ekki upp að telja. Hundakyn: Íslenska hundakynið er að mínu áliti meðal stórir hundar með upprétt eyru og upphringað skott, vitrir í meira lagi, séu þeir vel vandir og hef ég átt hund sem þessi lýsing á við og var hægt að senda hann langar leiðir í smalamennsku

p3
eftir kindum og eru það mikil þægindi í smalamennsku að eiga góðan hund. Mörg hundakyn eru til bæði stór og smá og á marga vegu kynblandaðir allt eftir því til hvers á að nota þá sumir eru aðeins hafðir sem gæludýr, aðrir til að rekja slóðir eftir menn og dýr, því hundar eru mjög lyktnæmir og væri hægt að segja margar sögur af því. Hundar eru mjög vitrar skepnur og tryggð þeirra við eigandann er einstök. Um lyktnæmi hunda skal ég segja og setja hér gamla sögu, sem mér er minnisstæð. Það var haustið 1921, 30. október, sem við fjórir lögðum á stað að smala Gunnsteinsstaðafjall í Langadal í A.-Hún. en þar átti ég þá heima. Veðurútlit var þungbúið og ákveðið var að taka inn féð enda orðið áliðið. Göngum var skipt upp í miðju Strjúgsskarði og haldið vestur það og svo fram fjallið að vestan og gekk það vel að öðru leyti en því að þegar við komum á leiðarenda kom í ljós að einn manninn vantaði og það var sá sem efstur átti að vera. Við biðum um stund til að vita hvort hann kæmi ekki en það brást og var því farið að leita, en án árangurs enda komin dimm hríð og náttmyrkur. Um nóttina gerði stórhríð og hélst hún eina fjóra daga og var komið mikið fannkingi. Þegar upp stytti, alltaf var þó leitað en maðurinn fannst ekki. Enn var lagt af stað að leita en án árangurs. Þá var það einn morguninn að húsbóndinn á bænum, sem hét Hafsteinn Pétursson sagði: "Það kom einhver til mín í nótt og sagði mér

p4
hvar Stefán er (en svo hét maðurinn sem týndur var). Hann er undir snjónum í pokanum í Nýlendugilinu." Enginn hafði heyrt þennan stað nefndan en allir vissu hvar Nýlendugilið var. Var nú lagt af stað upp á þetta gil en það er suður og upp frá bænum á Gunnsteinsstöðum snarbratt klettagil, sem nær ofan frá fjallsbrún og niður í miðja hlíð. Neðst í gilinu var kominn óhemju snjór og var ekki gott að átta sig á hvar helst væri að leita. Svartur hundur var með í förinni og hljóp hann fram og aftur um þessa miklu snjóbreiðu en á endanum stoppar hann, áreiðanlega þar sem skaflinn var dýpstur og fer að krafsa og hamast eins og hann segi lífið að leysa og þarna undir skaflinum á margra metra dýpi fannst Stefán hafði hrapað í klettunum fyrir ofan og ekki stoppað fyrr en þarna. Aðra sögu vil ég segja og er hún til merkis um tryggð hunda, en hvort hún er söm eða ekki skal ósagt látið, en ég get svo sem vel trúað henni, því svipuðu hefir maður kynnst hjá hundum og kemur þá sagan eins og mér var sögð hún. Bóndi nokkur var á ferð gangandi og hundur sem hann átti fylgdi honum, en hvort það var vegna veðurs eða einhverju öðru. Þá dó hann á þessu ferðalagi og þegar hann fannst lá hundur inn hjá honum og þegar hann var færður kom hundurinn með og lagðist við herbergisdyrnar þar sem maðurinn var lagður til og fékkst ekki til að hreyfa sig þaðan hvernig sem að var farið og þegar kistulagt var fylgdist

p5
hundurinn með og þegar jarðað var kom hann með og lagðist á leiðið þegar búið var að moka ofan í gröfina og þaðan fékkst hann ekki til að fara hvernig sem að var farið enda lét hann þar líf sitt því hann smakkaði ekki mat upp frá því. Um þennan hund var kveðin þessi vísa: Sá er meira en trúr og tryggur með trýnið svart og augun blá fram á sínar lappir liggur líki bóndans hjá. Verð á hundum og hvolpum: Oftast held ég að hvolpar hér um slóðir séu gefins manna á milli en ef þeir eru teldir eru þeir eitthvað dýrari ef þeir eru af góðu fjárhundakyni. Ef hundapest hefir gengið og margir hundar hafa drepist var oft látið haustlamb fyrir hvolp. Hundur verður til: Þegar tík sóttist eftir samlagi hunda til fjölgunar var oftast talað um að hún væri í hundastandi eða tíkarsnatti og söfnuðust þá kannski fjöldi hunda um hana og fannst manni það oft leiðinlegar samkomur, enda tók þetta oft marga daga. Hvolpafull var almennt notað um tík um meðgöngutímann. Fæðing: Þegar tík eignaðist afkvæmi var sagt að hún væri að gjóta. Venjulegast var sá hvolpurinn látinn lifa sem þótti fallegastur og sama í hvaða röð

p6
þeir fæddust. Aldrei hef ég vitað til þess að hvolpar hafi fæðst sjáandi. Hvolpar voru oftast höggnir sem deyddir voru, en heyrt hef ég líka að þeim var stundum drekkt. Auðkenni: Um fjáraugu í hundum hef ég ekki heyrt talað, en sumir höfðu trú á að alspora hundar væru vitrari en aðrir en hvort þeim hefur orðið að trú sinni, veit ég ekki. Um hvítan blett á rófubroddi hef ég vitað hund nefndan Tíra, en um þjófaljós hef ég ekki heyrt getið svo ég muni. Það þótti oft gott að hafa hunda með sér í smalamennsku sem var geltinn. Litir hunda og nöfn: Tryggur, Snati, Skuggi, Móri, Týri, Flekkur, Lubbi, Kolur, Vaskur. Litir hunda eru margvíslegir. Svartir, hvítir, mórauðir og margvíslega flekkóttir og oft voru nöfn hunda dregin af því hvernig þeir voru á litinn. Rödd hunda: Hundar ýlfra eða ýla, þegar þeim líður eitthvað illa, urra þegar þeir eru reiðir, gelta þegar þeim er sigað, spangóla þegar þeim leiðist eitthvað sérstaklega. Að sjóða grottann, hef ég ekki heyrt talað um. Gestagelt er gelt í hundi sem er að tilkynna gestakomu. Ratvísi, þefskyn: Um ratvísi hunda vil ég segja stutta sögu bak við Langadalinn hér í Húnavatnssýslu

p7
er annar dalur sem heitir Laxárdalur. Hann er jafn langur og Langidalur og fyrir 50 árum eða svo var hann allur byggður en nú er hann svo til allur kominn í eyði. Strjúgsskarð liggur í gegn um fjallgarðinn milli þessara dala og er skarðið um 5 kílómetrar að lengd og norðan við skarðið á Laxárdalnum í svo sem 5-6 kílómetra fjarlægð var bær sem hét Vesturá. Þar bjuggu fátæk hjón með börn sín sem voru fjórir drengir sem voru á unga aldri þegar þetta gerðist sem mér datt í hug að segja frá. Í kotinu var ekki til annað ljósfæri en einn 10 línu vegglampi. Svo var það rétt fyrir jólin einhverju sinni að eina glasið sem til var á lampann brotnaði og var það ekki álitlegt ekki síst vegna jólanna sem voru í nánd. Vitað var að glös á svona lampa voru til niður í Langadal á bæ sem Gunnsteinsstaðir heita. Einn drengjanna sem mun hafa verið 12 ára eða svo bauðst til að fara og fá lánað glas á lampann og varð það úr að hann lagði á stað einn morguninn í þessum erindagerðum og komst á leiðarenda og fékk glasið og ætlaði svo að snúa við heimleiðis en fólkið vildi að hann biði til morguns en hann lagði af stað heimleiðis hvað sem reynt var til að fá hann til að gista. Það var farið að dimma þegar hann lagði af stað og þegar hann var kominn gegn um Strjúgsskarðið var komið kola myrkur svo honum leist nú ekki á, því framundan var sléttur flói sem ekki var gott að rata

p8
um kolamyrkri en hann heldur áfram lengi lengi og á endanum sér hann þetta er ekki einleikið, hann hljóti að vera viltur af réttri leið, hann stoppar því og hugsar sitt ráð en veit ekki hvað hann á til bragðs að taka, en allt í einu er hundurinn heima kominn til hans og flaðrar upp um hann eins og hunda er siður þegar þeir eru ánægðir. Betur að ég hefði haft þig með í morgun, hugsar drengurinn. Svo þegar þeir hafa sínt hvor öðrum nægilega blíðu leggur hundurinn af stað og drenguinn á eftir og var nú enginn vafi á því í hvaða átt skyldi halda. Á jólunum logaði glatt á 10 línu lampanum og allir voru ánægðir. Um þefskyn hunda hef ég skrifað fyrr á þessum blöðum. Spádýr: Um þann þátt er ég alveg úti á þekju. Tíkarmjólk: Um hana veit ég ekki annað en það að hvolparnir þrífast vel á henni. Lækningar: "Kattartungan særir en hundstungan græðir." Ætli þessi málsháttur hafi ekki orðið til vegna þess að kattartungan er snörp en hundstungan er silkimjúk. Heyrt hef ég að hundafeiti hafi verið borin á brunasár og fleira til að mýkja annað hefir hún

p9
varla gert. Hundsbit: Illt þótti og þykir enn að vera bitinn af hundi, því það gat komið illt í sárið jafnvel blóðeitrun og ekki illa til fundið að jafna óhöppum manna við það enda er oft sagt um þau að hann eða hún verði að hafa þetta og þetta eins og hvert annað hundsbit. Dæmi veit ég til þess að vígtennur voru brotnar úr hundi vegna þess að hann var gjarn á að bíta í hælana á kindum svo að þær urðu haltar. Áflog hunda: Algeng voru áflog hunda þar sem þeir voru margir saman komnir í tíkarstandi eða af öðru tilefni og þótti þá oft gott að hella yfir þá köldu vatni til að skilja þá. Hrælykt: Hrælykt getur ekki verið réttnefni um lykt af hundi nema hann sé kallaður hræ, en viss lykt getur verið af þeim sem ekki er af öðrum dýrum en hún er þegar hundur kemur blautur að utan inn í hlýtt berbergi en þá lykt heyrði ég kallaða útihundslykt. Hundaþúfa: Hundaþúfur sem kallaðar voru, komu til af því að hundar skitu á sömu þúfuna þangað til hún var orðin strýta upp í loftið. Þess konar

p10
þúfur hef ég líka séð upp á eða upp á háfjöllum en þær munu vera eftir tófur en ekki hunda, "Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér." Þetta máltæki finnst mér passa við mann sem er að gorta af eigin afrekum. Hundur í mannaferð: Ég kannast ekki við orðtækið "eins og hundur í hverri hofferð," nema það sé átt við kirkjuferð. Algengt var að hundar fylgdu mönnum milli bæja og á mannamót og jafn vel kirkjuferð ekki undanskilin því oft var ekki þægilegt að halda þeim eftir, þó það væri reynt og voru oft stimpingar við að halda þeim utan dyra meðan á messunni stóð, því ekki þótti hæfa að þeir væru inni. Bæli hunds: Víðast held ég að hundar hafi verið hafðir inni á nóttunni minnsta kosti að vetrinum og var útbúið bæli fyrir þá. Stundum var haft gæruskinn í því og leið þeim vel í svoleiðis rúmi. Sums staðar á bæjum var hundakofi að minnsta kosti í seinni tíð. Vitað hef ég til þess að hundar væru hafðir úti að nóttunni að vorinu og vörðu þeir þá túnið fyrir skepnum, en stundum að vorinu gat verið mikið úrfelli að það hafi átt við að segja að það væri ekki hundi út sigandi. Hundadallur: Hundadallur var stundum smíðaður úr tré en gat líka verið á ýmsa vegu.

p11
Stundum var þetta kallað trog og löptu hundar úr því eða annað lap sem þeim var gefið. Hundssteinn: Á einum bæ hef ég séð svoleiðis stein og var hann með sjálfgerðri holu og var víst einhvern tíma notaður til að gefa hundi í. Hundsmatur: Hundsmatur var oftast einhverjar leifar frá fólki en líka var eldaður grautur sem ætlaður var hundum, ekki veit ég úr hverju hann var en mjólk var látin út á hann. Heyrt hef ég orðtakið að "mæna eins og hundur á bita," og á það stundum við ef mann langar til einhvers sérstaks. Hundslap: Það átti ekki við neitt sérstakt magn, heldur það sem látið var í dallinn í það og það skiptið. Smalahundur, fjárhundur: Ég er nú enginn sérfræðingur í að venja hunda og hef ég þó eignast þá marga og hef haft mína aðferð við þá, en hún er svoleiðis að ég hef farið með þá til kinda og bent þeim í þá átt sem ég vil að þeir fari að skepnunum og svo ef mér líkar hvað þeir gera þá klappa ég þeim og þakka þeim fyrir, en ef þeir gera mikla vitleysu, þá að láta þá skilja að þetta megi þeir ekki gera og á endanum fara þeir eftir þessu, ef þeir eru ekki því vitlausari. En það er ekki sama af hvaða kyni

p12
hundar eru. Viss hundakyn voru og eru eftirsótt og eru borguð hærra verði, annars er oftast hægt að fá hunda gefins. Ekki er þægilegt að venja hunda af að elta bíla og kann ég ekki ráð til þess. Það er ekki húnvetnskur háttur að skamma hunda með því að segja: "Svei þér, þú hefur étið folald." Hundafár: Hundafár hefur gengið stöku sinnum, en sem betur fer, mjög sjaldan og veit ég ekki til að nokkur læknisráð séu við því, önnur en að verja veikum hundum að koma nálægt hinum. Hundahreinsun: Síðan ég man eftir hafa hundar alltaf verið hreinsaðir einu sinni á ári vegna sullahættu, sem að herjaði hér á árum áður eða á fyrri öldum og var það fyrir gáleysi fólks í sambýli við hunda, en það á við liðnar aldir og var það þekkingarskorti um að kenna. Ef sullir koma í ljós við sauðfjárslátrun núna eru þeir annaðhvort brenndir eða gerðir óvirkir á annan hátt. Andi og sál: Ég held að margir trúi því að hundar hafi sál engu síður en menn. Dauði: Hundar urðu sjaldan ellidauðir, satt er það. Ég veit aldrei til þess að hundur hafi verið drepinn öðruvísi en með skoti, eða með svæfingu nú í

p13
seinni tíð. Sumir hundar eru svo hræddir við byssu og forðuðust hana eins og eld og er auðséð að þeir vita til hvers hún er notuð. Maður og hundur: Ég held að margir nefni munn, nef, augu og fætur á hundi, þó aðrir tali um kjaft, trýni, glirnur og lappir. Kveðskapur, sagnir: Ég set hérna tvær vísur sem mér detta í hug þó margar séu að sjálfsögðu til: Heitir Kolur hundur minn hefir bol úr skinni, er að vola auminginn inn í holu sinni. Ég á góða mynd af tveimur hundum sem ég átti fyrir nokkru. Einhverju sinni var ég að skoða þessa mynd og kemur þá lítill drengur og sér myndina og segir: "Þetta eru fallegu hundarnir mínir," en hann hafði haft mikið uppáhald á þeim. "Við skulum gera um þá vísu, þú verður að byrja," segi ég. "Já ég geri það, við skulum hafa hana svona:" Gömlu seppar, góðu héppar glatt í sinni. (En svo kom ekki meira, svo ég bæti við). Er mér því að mér í mynni er minningin um okkar kynni.

p14
Orð og málshættir: Já tungan geymir margt sem tengist mönnum og hundum eins og til dæmis orðið hundspott sem er hálfgert skammaryrði, hundaart og hundslegur er að líkjast hundi, hvolpavit er að byrja á einhverju fræðast um eitthvað. Hundur í manni til annars manns, þýddi að vera lítið um hann. Að koma og fara eins og hundur gat merkt að hvorki heilsa eða kveðja. Að hittast eins og hundar á tófugreni. Mér dettur í hug vísa Vatnsenda-Rósu. Man ég okkar fyrri fund forn þó ástin réni nú er eins og hundur hund hitti á tófugreni. Tíkarspenar nefndust stuttar fléttur á stúlku. Erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja. Það á oft við þegar reynt er að breyta því sem maður hefur einu sinni lært.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana