LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1903

Nánari upplýsingar

Númer8452/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið1.5.1987/14.11.1987

Nr. 8452

p1
Það er nokkuð síðan ég hætti að skrifa um gömul störf og atvik gamla tímans. Ég er orðin gleymin og gömul en vil þó ekki fara vitlaust með. Ég er ný komin frá Reykjavík, þar er margt að sjá. Borgin stækkar ár frá ári. Mér blöskrar öll þau ósköp, óteljandi eru þeir bílar sem renna sitt á hvað eftir vegum, þetta sjá nú allir. Eftir því sem borgin stækkar en í sveitum landsins fækkar óðum bæði mönnum og skepnum. Bóndi er bústólpi að sagt var. Það er hörmulegt að sjá þó þetta eigi að vera framför á Íslandi, þá held ég að nokkuð sé djúpt í árina tekið. Það er aumt að sjá stór tún fölna og sölna víða í dag. Svo bændur þurfa að fara í vinnumennsku og snapa eftir einhverju starfi í kauptúnum. Loks þegar upp eru risin falleg steinhús víða um landið, þá standa þau auð - tóm og yfirgefin. Ég spyr: Hvað er að ske? Hvað tekur við? Elliheimili .. þangað eigum við að fara! eða barnagæsla í kaupstöðum. Hvar eru hinar verðugu húsmæður? Í fiskivinnu eða ýmsu öðru slíku. Svo vilja þær ekki eiga mörg börn sem kannski eru ráð við enda þurfa þær öðru að sinna. Það er ágætt að sitja í þingsölum og keppa um völdin. Ég er nú ein eftir í minni íbúð og reyni að sætta mig við það. Börnin gift og farin burtu. Ég stari út í geyminn. Sólin skín og allt vex í sveitinni sem vill sýna okkur það fegursta sem hún á í fórum sínum. Er ekki réttast að stalddra við og athuga stjórnmálin á Alþingi. Ef ég mætti ráða þá léti ég allar mæður ala upp sín börn og gömlu ömmurnar geta æði lengi hjálpað til.

p2
Lítið er ég kunnug hundalífi, þó faðir minn væri sérstakur skepnuvinur þá átti hann aldrei nema einn hund. Hrafn hétu hundar pabba. Þegar sá fyrsti gaf upp andann þá fékk pabbi sér annan svartan hund sem fékk nafnið Hrafn. Þessir Hrafnar eltu pabba hvert sem hann fór, þeir áttu mjög góða daga í kílakoti. Ég man vel eftir Hrafni þeim yngsta. Hann var mesti gáfu hundur. Hann átti til að gera mannamun á fólki. Ef betri gestir komu í Kílkot þá lagðist Hrafn fram á lappir sér og snéri sér móti heimreiðinni og bauð gesti velkomna. Aftur á móti ef verra fólk bar að garði þá snéri afturendi Hrafns móti heimreið. Þá urraði í Hrafni. Hann átti til allavega gelt gestagelt, mjög virðulegt, en ef skepna kom í gróanda túnsins þá gelti Hrafn allt öðru vísi með mikilli frekju uns allar skepnur þutu út fyrir völlinn. Það var eins og Hrafn vissi hvað honum bar að gera svo ekki þurfti að segja honum það.    Man ég eftir piparkarli á næsta bæ sem átti til að stríða Sveini bróður  sem oft var uppsigað við karlinn. Einu sinni tík hann Svein og lést ætla að kaffæra hann í vatninu. Sveinn litli spriklaði og öskraði af ótta. Þetta heyrði Hrafn og hljóp sem mest hann mátti til þeirra og stökk á karlinn og beit hann þá sleppti karl Sveini. Hrafni var vel launað og lifði mest á góðgæti eftir þetta.

p3
Um hunda yfirleitt: Það er ekki ætlun mín að lýsa náið hundum né öðru þó ég sendi ykkur þetta.   1926 flutti ég upp til Krossdals í Kelduhverfi með eiginmanni mínum Þórarni Jóhannessyni, einkasyni bóndans í Krossdal. Þórarinn var mesti hundavinur og átti venjulega 2-3 hunda.   Einn hét Ljótur, loðinn og lubbalegur, annar hét Búi, hvítur og meinlaus og Krummi hét sá þriðji. Þórarinn hafði þess hunda ávallt með sér hvert sem hann fór enda oft á veiðum og grenjaleitum.   Hann var mjög natinn og góður við sína hvutta. Sá um að dallur þeirra væri fylltur daglega. Þeir áttu ágætt hundaskot. Allir hundar eru að mestu horfnir, helst teymdir um götur Reykjavíkur með gullband um hálsa!!!   Þið afsakið þessi fáu orð. Nú slæ ég botn í þessi skrif og bið ykkur vel að lifa.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana