Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1904

Nánari upplýsingar

Númer8403/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8403

p1
Kæru skráningarmenn! Um hundinn mætti mikið skrifa ef vilja og færni væri til að dreifa en hjá mér er fátt um svör sem fyrr. Algengustu samheiti voru: hundur, hvutti, rakki, seppi, grey var ævinlega sagt í vinalegum tón þegar kallað var í hundinn. Þá var það nafnið hans og greyið mitt. Klódýr og hrædýr heyrði ég aldrei um hunda, ketti eða tófur. Mismunandi hundakyn var lítið talað um meðan ég var í sveit. Þó blöndun hafi trúlega verið nokkur. Hundarnir sem ég taldi íslenska voru yfirleitt þéttvaxnir, hnarreistir með standandi eyru, flestir snögghærðir. Heimilishundurinn hét ákveðnu nafni og alltaf nefndur því og var meiri persóna en margur reiknar með í heimilinu, því vel vaninn og vitur hundur var í smalamennsku oft á við tvo til þrjá menn hundlausa. Svo var ratvísi þeirra oft ómetanleg. Við að finna fé í fönn og menn í snjóflóðum. Gerðu hundar það sem enginn maður getur gert. Hundar fóru í flakk í nokkra daga stöku sinnum. Sem gæludýr voru þeir ekki en yfirleitt var látið vel að þeim því að vitrir og góðir fjárhundar voru ekki bara framúrskarandi vinnukraftur, þeir voru vinir sem aldrei brugðust og ég vissi um mann sem þótti svo vænt um hunda sína að ég efa að þeim hafi þótt vænna um náin skyldmenni. Ég vissi að sumir hundar skildu ótrúlega margt sem við þá var sagt. Að hundum úr þéttbýli hafi verið komið í sveitir heyrði ég ekki minnst á. Hundaeign í þéttbýli er nútíma della. Svo er hestur sem hann er hafður, heyrði ég um hest, en aldrei um hund. Ekki vissi ég til að hvolpar væru seldir en ég heyrði að þegar hundafár gekk þá hefðu þeir verið seldir. Hvolpa var hægt að láta til annara þegar þeir gátu étið og lapið. Tíkur voru kallaðar lóða um fengitímann og hundar í lóðaríi. Tík var kölluð hvolpafull

p2
um meðgöngutímann. Að gjóta var algenga orðið þegar tík eignaðist afkvæmi. Ekkert var fylgst með í hvaða röð hvolpar fæddust eða röð á spena. Hvolpum var drekkt, settir í poka með steini í, sökkt í vatn í nokkrar mínútur, tekið upp úr og grafnir. Að hvolpar hefðu fjáraugu heyrði ég ekki. Spori átti að gera það að verkum að ekkert óhreint kæmist að. Ekkert heyrði ég um hvítan blett við auga, það var fátítt því þeir voru síður látnir lifa. Lit hunda var líst svipað og þið nefnið: strútóttur, móstrútóttur, mórauður, flekkóttur, kápóttur, snoppóttur. Nöfnin voru stundum dregin af litnum en ekki alltaf. Hundar voru flestir snögghærðir þar sem ég þekkti. Að fara úr hárum var það kallað þegar háraskipti urðu. Ekki man ég fleiri orð um raddir hunda en: ýlfra, ýla, urra, bofsa, gelta, gjamma, góla og spangóla. Að sjóða grottann, sjógól, nágól og gjárífur heyrði ég aldrei. Um ratvísi hunds við ég segja litla sögu. Við áttum hund sem Mosi hét. Hann var ratvís og einn af þeim skildi ótrúlega margt sem við hann var sagt. Bærinn Skólabrekka sem er vestan við Þingvallavatn var okkar viðkomustaður þegar við fórum til og frá Reykjavík og nú segi ég frá ferð sem ég fór frá Miðfelli að Skálabrekku um vetur gangandi á ís yfir vatnið. Veður var þungbúið en logn. Þegar ég var að nálgast Sandey fór að snjóa og svo þétt var drífan að ég sá mjög lítið frá mér. Ég gerði sem ég gat til að halda stefnunni en það var ekki auðvelt og þar kom að ég sá að ég mundi vera að villast. Þá varð það mitt ráð að segja við Mosa: "Mosi minn, ég held ég sé að villast og nú bið ég þig að fara að Skálabrekku, ég kem á eftir þér." Hann lét ekki segja sér þetta tvisvar, leggur strax af stað og ég á eftir. Sú ganga endaði með því að eftir 25 mínútur komum við beint að bæjardyrunum á Skálabrekku. Mér hefur oft dottið þetta í hug þegar ég hef heyrt menntamenn tala um skynlausar skepnur.

p3
Um spásagnir hunda veit ég ekki. Tíkarmjólk var ekki nefnd til neins. Hundstungan græðir en kattartungan særir, heyrði ég en um lækningar í sambandi við hunda heyrði ég ekki en ég get vel trúað að fólk hafi gert tilraunir með þetta. Fólk reyndi margt í neyð sinni og læknisleysinu. Hundsbit sá ég aldrei en heyrði að vígtennur hefðu verið klipptar úr grimmum hundum ef þeir voru góðir smalar annars drepnir. Ef hundar flugust á í svo miklu æði að þeir hlýddu ekki eigendunum var stundum skvett á þá vatni, ótæpilega. Hundaþúfur eru þekktar og allir vita hvernig hundar koma þar við sögu en orðtakið: "Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér." Þetta orðtak vissi ég að var aðallega um menn sem voru litlir fyrir sér en létu digurbarkalega. Hundar voru yfirleitt lokaðir inni ef fara átti á mannamót en fyrir kom að þeir færu á eftir og sögur voru um að hundar hefðu truflað ....gerðir. Hjá okkur var bæli hundsins í eldiviðarkofa sem innangengt var í. Þar lá hann á mottu vetur og sumar. Hundinum var gefið í litlu trogi um 20 sm. á kant. Hundsstein heyrði ég ekki nefndan. Hundinum var gefinn venjulegur matur og mjólk, ruður, roð og bein. Ég kannast við orðið hafirðu lofað hundi beini, hefur þú ávallt svikið það. Um menn sem ekki voru orðheldnir. Ekki veit ég hvað hundinum var ætlað mikið af mjólk en ég veit að mjólk var alltaf í matnum og aldrei varð ég var við veikindi í hundunum. Ég sá ekki að neitt þjakaði nema ellihrörnun þegar aldur færðist yfir. Algengasta orðið þegar sigað var, var irrdan. Þegar kallað var í hundinn var það nafnið í hlýlegum róm, þá komu þeir og þá var sjálfsagt að láta vel að þeim með strokum og hlýlegu tali. Ekki vissi ég til að þeim væru kenndar kúnstir nema við féð. Þær helstu að sækja, reka og halda hópnum saman í rekstri en þegar sigað var þá var það til að reka

p4
fénað eitthvað í burtu frá túni eða engjum. Öll þessi verk gerðu vitrir og vel vandir hundar ótrúlega vel eftir skipunum með fáum orðum og alltaf þeim sömu. Ég vil eindreigið benda ykkur á að lesa rækilega bók sem heitir Fjárhundurinn eftir John Holmes, þýðandi Stefán Aðalsteinsson ef þið hafið ekki leið hana. Borgarbókasafnið hefur hana. Bókin er skrifuð af þrautreyndum manni í þjálfun og meðferð hunda og með myndum, formálarnir eru líka góðir. Eftir að hafa lesið bókin er ég á þeirri skoðun að hundar okkar sem reyndust vel hafi verið sérstaklega eðlisgreindir því þjálfuninni var svo mikið áfátt. Hundafár gekk ekki meðan ég var í sveit en ég heyrði að það hefðu verið skæðar pestir og engin lækning. Hundar voru hreinsaðir reglulega og sullir sem fundust við slátrun voru brenndir. Ég hef ekki heyrt neitt um hunda í draumum en ég heyrði eitthvað um hunda sem fylgjur en allt óglöggt. Ég heyrði sögur sem bentu til að hundar hefðu skyggnigáfu ekki síður en menn. Áður en byssur komu held ég að hundar hafi verið höggnir. Hundsskinn voru eitthvað notuð og sagt var að þau væru mjög teygjanleg, það svo fært yfir á mann sem var á þönum út um allt. Orðafar man ég var: kjaftur, trýni, augu, fætur. Þrjá bita heyrði ég ekki nefnda. Mörg orð og málshættir tengdir hundum voru aðallega um menn í niðrandi merkingu sem kom til af því að margir litu niður á þessar skepnur sem ég tel vegna þess að margir hundar voru lélegir smalar, sem ég tel aðallega vegna þess að þeir voru ekki vel þjálfaðir, það er vandi og maðurinn þarf að setja sig vel inn í hvað má í hverju tilfelli. Ég vandi ekki nema Mosa eða réttara sagt gamli hundurinn sem var orðinn ellimóður en gerði vel svo ég sendi þá saman og sagði: "Sæktu," þá fór sá gamli og hvolpurinn með, þannig lærði Mosi að sækja það er mesti vandinn

p5
en í hvert skipti sem þeir komu með kindurnar tók ég innilega á móti þeim og gaf þeim stundum góðan bita. Því hélt ég áfram þegar Mosi var orðinn einn. Það hefur góð áhrif og vitur hundur leggur sig fram og gerir eins vel og hann getur. Að kenna honum að reka vel var gott tækifæri þegar rekið var til Reykjavíkur. Vekja athygli á þeim sem vildu fara út úr þetta. Gekk fljótlega svo vel að Mosi var alltaf viðbúinn á báða kanta þó ég segði ekki neitt. Ég gat farið á eftir hópnum beint. Mosi sá um að engin færi útúr. Þjálfunin sem hann fékk hjá mér var lítilmótleg miðað við það sem John Holms segir og sýnir í bók sinni og því segi ég það að það voru fyrst og fremst gáfur hundsins sem gerðu að hann gerði gott gagn. Reynsla mín var að Mosi skyldi ótrúlega margt sem ég sagði við hann eins og sýndi sig þegar ég villtist. En hvað um okkur mennina, við þykjumst gáfaðir, erum árum saman í skólum en hver skilur mál hundsins? Það eina gelt sem ég skyldi var þegar hann tók til að gelta þó lokaður væri inni, hljóðið var öðruvísi en venjulega, skoltarnir opnuðust minna, hljóðið myndaðist framar. Þetta var kallað gestagelt og þegar að var gætt var maður að nálgast, var þá stundum fyrir utan tún og jafnvel gangandi. Spurningar urðu áleitnar, var heyrnin svona ákaflega næm? Eða var þetta skyggnigáfa á fylgjur? Eða? Ég verð að viðurkenna að ég get ekki svarað. En þetta var staðreynd.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana