Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1906

Nánari upplýsingar

Númer9099/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið10.3.1989
Nr. 9099

p1
Auðkenni og nöfn húsdýra. Svo sannarlega vildi ég óska þess, að ég væri svo pennafær að ég gæti skrifað langa ritgerð um auðkenni og atferli dýra. Því auðkenni hvers einstaklings er ekki aðeins í útliti, heldur og einnig í hegðum og framkomu gagnvart öðrum dýrum og einnig gagnvart mönnum. Svo breytilegt og einstaklingsbundið að undrum sætir. Tökum fyrst útlitið á kindum. Ef um skyldleikarækt er að ræða virðast kindur í stórum fjárhóp mjög áþekkar í fljótu bragði, og þeim sem er óvanur fé sýnast þær allar eins. En glöggur fjármaður þekkir hvern einstakling í stórri hjörð og gefur þeim öllum nöfn eða svo var það áður fyrr. En nú síðan númerin komu til sögunnar hefur þetta breyst. Hjá hrossum og nautgripum er þessu eins varið. Hver einstaklingur hefur sitt útlit og sín séreinkenni og að mörgu leyti meir áberandi en hjá sauðkindinni. Það sem eykur fjölbreytni hjá hrossum og nautgripum er ma. hvað litir eru breytilegir. Skapgerðareinkenni hjá áðurnefndum húsdýrum eru ekki síður margbreytileg en hjá mannfólkinu. Ég minnist þess að húsdýrum voru oft gefin nöfn út frá vaxtarlagi og lit, og svo einnig lundarfari. Til áréttingar ætla ég að taka eitt dæmi um það. Ég var 10 og 11 ára þegar í 2 sumur var fært frá hjá foreldrum mínum. Það var víst gjört til búdrýginda í fyrri heimsstyrjöldinni. Ærnar voru eitthvað um 60-70 sem fært var frá. Auðvitað urðu þær allar að hafa nöfn. Eitthvað af yngri ánum hefur

p2
sennilega verið nafnlaust, því faðir minn segir um eina kvíaána. Það er best að þessi heiti Snegla. Mér er þetta svo minnisstætt vegna þess að ég skildi ekki nafnið fyrr en nokkru síðar. Í mínum búskap var þetta ofast konan mín Sigríður Beinteinsd. sem gaf húsdýrunum nöfn, og virtist mér hún hafa næman smekk fyrir því hvað hentaði best hverjum einstakling. Þegar litið er til baka og minnst þeirra húsdýra sem maður hefur átt og unnið með og einnig séð hjá öðrum á langri ævi, hljóta mörg atvik sem vert er að minnast koma upp í hugann. Auðvitað er margt sem tímans tönn hefur máð út, en svo eru önnur atvik sem eru greinilega afmörkuð í minninganna sjóði. Vegna þess að ÞHS fór þess á leit við mig að ég rifjaði upp nöfn á þeim húsdýrum sem ég hefi lifað með, þá langar mig að geta sumra þeirra að nokkru um leið og mér kemur nafnið í hug og verða þá hestarnir þar efstir á blaði. Hestar: Það hefur ekki verið nein tilviljun að hesturinn fékk þá nafnbót að vera kallaður þarfasti þjónninn, þar sem ferðalög og aðdrættir til lífsviðurværis auk heimavinnu byggðust að miklu leyti á honum, og ég minnist þess alls frá mínum æskuárum og fram til fullorðinsára. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að vinna með samstilltum dráttarhestum við plægingu og slátt. Þegar þeir voru orðnir vanir þurfti lítið fyrir þeim að hafa, aðeins að gæta þess, að þeir beygðu ekki of fljótt þegar út á enda spildunnar var komið. En nú er hlutverki brúkunarhestsins að mestu lokið. Því eftir sinni heimsstyrjöldina varð það æ almennara að bændur tækju vélarnar í þjónustu sína.

p3
En reiðhesturinn heldur að nokkru hlut sínum. En ólíku er þó saman að jafna. Þar sem ferðamaðurinn átti allt sitt undir því að hesturinn skilaði honum heilum heim með úthaldi sínu, þreki og ratvísi í náttmyrkri og hríðarbyljum eða hinu sportferðalög á seinni hluta 20. aldar. Þegar ég var að alast upp hjá foreldrum mínum minnist ég þess að nöfnin á hrossunum voru flest eftir lit, t.d. Gráni, Rauður, Brúnka og Grána. Svo breyttist þetta og þó var stuðst við litinn í sumum tilfellum, svo sem Valur, Blakkur, Fífill, Sóla, Blesa, Blesi, og Glæsir. Síðasta nafnið bendir til þess að folinn hafi verið fallegur þegar honum var gefið nafn. Gráni var reiðhestur föður míns, viljugur og man ég frekar lítið eftir honum. Rauður var reiðhestur móður minnar. Traustur hestur sporléttur. Um hann orti Símon Dalaskáld: Hér ótrauður málamar með húsfreyju á Brekku Flýgur um hauður og fjörgynjar Fagur Rauður Guðrúnar. Sóta var lengi mitt reiðhross. Frábærlega fótlipur og viljug. Um hana orti Sigríður Beinteinsd. Mjúk í gangi merin sling makkan hringar Jóns í fang Grasið angar grænt í kring grjótið spryngur fróns um vang. Af dráttarhestum frá mínum árum í foreldrahúsum man ég sérstaklega eftir Blakk, BLæsi og Blesa. Þeir voru allir mjög góðir vinnuhestar. Hér að framan hefi ég dvalið við minningar frá æsku og unglingsárum og mun hér á eftir geta um nokkur afbæjarhross sem eru mér sérstaklega minnisstæð. Skotta frá Stórabotni, brún með hvítt tagl, afburða skeiðhross. Krummi frá Litlabotni, fótlipur klárhestur, mjög viljugur og þó taumléttur. Toppa frá Þysti móbrún með hvítan lokk í faxi, fótlipurt og skemmtilegt reiðhross. Þar var einnig Glói, fífilbleikur, hörkuviljugur og fótlipur klárhestur. Á kappreiðum Fáks vannhann oft til verðlauna fyrir eiganda sinn. Önnur afbæjar hross sem ég og þó fremur

p4
kona mín munum eftir frá Stórabotni: Valur, ljósgrár, Smyrill grádröfnóttur. Ljósaskjóni, gráskjóttir. Faxi vindgrár og Dvergur steingrár. Kona mín man eftir þessumm nöfnum frá Grafardal: Hagaljómi, fagurrauður stjörnóttur. Hæringur moldóttur, en þó eins og þriðja eða fjórða hvert hár væri hvítt. Litlibrúnn, dökkbrúnn. Hrímnir, fæddur jarpur, lengi að verða grár. Fluga sótrauð viljug og lipurt reiðhross. Undan henni voru settir á tveir hestar Fleygir, rauður og flugnir grár að lit. Eitill grár með dökka díla jafnfram segir kona mín að Eitill hafi verið hörkuhestur og nafnið etv. dregið af því. Hér að framan hefi ég dvalið við minningar frá æsku og unglingsárum, en mun næst bæta við nokkrum hrossanöfnum úr mínum búskap og tjá mig um þau um leið. Fyrstu 19 árin í mínum búskap notaði ég hesta til að draga vagna, heyvinnuvélar og heysleða þar sem þessir hestar voru notaðir meira eða minna allt árið vor þeir alltaf í góðri þjálfun, og því eins og hugur manns hvenær sem þurfti að nota þá. Þegar ég hóf minn búskap á Brekku fékk ég sem vagnhest úr búi föður míns Blakk, sem áður er nefndur. Ég var þá búinn að vinna með honum í mörg ár og þekkti hann því vel. Blakkur var mjög góður og öruggur dráttarhestur, sem kom sér vel þegar þurfti að þjálfa óvana hesta til þeirra starfa. Á fyrstu búskaparárum mínum keypti ég móbrúnan 5 vetra fola, sem var taminn. Hann fékk nafnið Korgur. Þennan hest sem var orkumikill og fótlipur þjálfaði ég sem dráttarhest og reyndist hann mjög vel. Nokkru síðar fékk ég í skiptum brúnan dráttarhest sem bar nafnið Goði. Það var þægur hestur í allri brúkun. Vorið 1940 var uppboð haldið á Askarlæk í Skilmannahr. Þar bauð ég í ljósgráan hest sem fékk nafnið Svanur. Þennan hest þjálfaði ég sem dráttarhest. Hann var viljugur og skemmtilegur í allri notkun. Seinast af dráttarhestum nefni ég Þokka. Þessi hestur sem var rauður

p5
bauð af sér góðan þokka hvað útlit snerti og var skemmtilegur í allri brúkun. Þá hefi ég talið upp þá dráttarhesta sem eru mér minnisstæðastir í mínum búskap. Gyðju fékk ég úr stóði og tamdi hana. Hún var reist, falleg og lipurt reiðhross. Litur hennar var grár með sauðleitum blæ. Hana lét ég í skiptum fyrir Goða. Perla jörp hryssa frá Gröf í Skilamannahr. Mjög falleg afburðagott reiðhross og tilþrifamikil á skeiði. Undan henni fékk ég jarpt hestfolald sem hlaut nafnið Þröstur. Hann varð mjög góður reiðhestur og frábær töltari. Syrpa var ættuð úr Húnaþingi. Með henni fékk ég hestfolald sem fékk nafnið Huni. Syrpa hlaut nafnið vegna framleiðslu sinnar. Hún var með folald með sér og annað í sér þegar hún kom. Út af Syrpu fékk ég tvær hryssur báðar rauðar. Önnur hlaut nafnið Blesa hin Komma, en nöfnin segja annars til um lit þeirra. Önnur nöfn til viðbótar Harpa, fædd um sumarmál og fékk nafnið vegna þess. Úði grár léttur og góður reiðhestur. Hross em nú eru til hér á bæ bera þessi nöfn: Fluga, Jörp frábært reiðhross. Fönn grá hefur tilþrifamikið skeið. Mjöll grá, ótamin. Nös brúnskjótt, gott krakkahross. Hrímnir grár, þægilegur til reiðar. Svanur grár, ganglipur og skemmtilegur reiðhestur. Gullbrá, leirljós með gulum blæ, fallegt hross með góðu tölti, en lítið þjálfuð. Stökkull ótaminn foli undan Gullbrá með sama lit og hðún. Nafnið fékk hann vegna þess að hann stekkur fir hliðgrindur. Ég held að hross hafi fengið nöfn á ýmsum aldri, allt frá því að verða folöld og fram til þess að þau voru orðin fullorðin. Stundum um tamningu og tundum vegna þess að þau voru aðkeypt og fylgdi ekki nafn. Nautgripir: Þeir eru sérstaklega merkilegar skepnur fyrir utan það að geta breytt grasi í eina hollustu næringu sem völ er á fyrir mannfólkið. Ég held að það væri á hugavert rannsóknarefni að rannsaka hegðun þeirra og lundarfar, sem að sumu leyti er líkt og hjá mannfólkinu. Kýr vilja rannsaka allt

p6
í kringum sig. Af sumum er þetta kallað forvitni. Það er alltaf einhver sem tekur að sér að stjórna hópnum og lætur hinar ekki komast upp með annað en að hlýða. Sumar eru ljúfar og góðar í umgengni, aðrar eru kaldlyndar en gera sér þó mannamun. Ef einhver er að tala um að þær séu nautheimskar, þá ætti sá hinn sami að hugsa málið nánar. En ég ætlaði víst að skrifa kýrnöfn og er því best að hætta öllum vangaveltum. Hefðbúndin kýrnöfn sem að því er virðist tíðkast um allt land eru: Ljómalind, Búbót, Búkolla og Huppa. Ég hefi átt kýr með öllum þessum nöfnum. Hyrndar kýr hafa aðeins verið ein og ein í mínum búskap, og þá hlotið nafnið Hyrna. Þó hefi ég heyrt um nöfnin Stutthyrna og Hnífla. Nöfn sem tengd eru gráum lit, Sæunn, Dröfn, Bása, hrönn, Héla, Mygla, Grána, Gráskinna. Flestar voru þessar kýr hreingráar fyrir utan Myglu sem var muskugrá. Skjöldóttar kýr eða flekkóttar báru nöfnin Skjalda, Skrauta, Kinna og Flekka. Kýr sem höfðu einhver litaeinkenni á haus, en höfðu að öðru leyti nokkuð hreinan lit báru nöfnin Stjarna, Perla, Dropa, Laufa, Gríma, Bauga, og húfa. Hreinlitar kýr báru nöfnin Dimma, SVört, Rjúpa, Mjöll, Kola, Kolbrún, Rauðka, Dumba, Branda og Rauðskinna. Og að síðustu nöfn sem eru óháð þessari flokkun hér á undan. Sylgja er rauð með hvítan blett fyrir ofan hupp. Bletturinn líkist sylgju. Doppa var hvít með kolóttum doppum. Kúla var frá Kúludalsá. Móna var mjög falleg sem kvíga. Frekja, Frenja, Blíða, Gæfa, Gjöf, Hít, Dysgja, Bót. Þessi síðustu nöfn skýra sig sjálf að mestu. Vegna þess að beðið var um nafnavísu læt ég hér eina þótt hun hafi rímgalla. Vísan er um kýrnar hjá foreldrum mínum og er eftir móðurömmu mína Guðrúnu Guðmundsd. en hún dó árið 1910. Þá var ég 4 ára. Búbót heita Kata og Kinna Kýrnar hérna nú Skjalda, Húfa, Skrauta, Dimma Skulu auka bú.

p7
Sauðfé: Eins og hjá hrossum og nautgripum er skapgerð sauðfjár margvísleg. Sumar eru styggar og hörkutól, aðrar eru spakar og gæfar í umgengni, sumar rásgjarnar aðrar hagaspakar og halda sig á sömu slóðum ár eftir ár. En flestar þekkja þær vel fjármanninn sem hugsar um þær og eru spakari við hann en aðra. Að útliti getur sauðfé veri þybbið, þéttvaxið, jafnvaxið, hnellið, föngulegt, bústið, krangalegt eða krangi, rytjulegt eða rytja og nöfn sem eru dregin af vaxtarlagi og útliti er t.d. Dyrgja, Digragrána. Háleit, Ögn, Kempa, Budda, Grýla, Skessa, Prúð, Stubba, Lágfóta, síðklædd. Eg nöfn voru gefin eftir hornalagi sem er margvíslegt, þá fengu ær þessi nöfn: Breiðhyrna, Mjóhyrna, langhyrna, Stutthyrna, Kúphyrna, Háhyrna, Úthyrna, Gleiðhyrna, Skeifa, Hrinhyrna, Krókhyrna, Upphyrna, Klumbra, Stróka, hornin uxu beint upp. Skála komin af hringlaga. Þegar ær báru sérstök einkenni á hornum eða haus, fengu þær þessi nöfn: Rönd, Rák, Fjöður, Brúska, Arnhöfða, Kola, Kríma, Gulbrún, Grábrún, Rif, Nebba, Smáleit, Stórleit, Frekna, Bílda, Dropeysa, Glyrna, Stóreyg, Hvasseyg. Nöfn eftir lit og litareinkennum: Fönn, Mjöll, Birta, Snæfríð, Fífa, Rjúpa, Ljósbrá, Gulbrá, Svört, Tinna, Stórasvört, Litlasvört, hrefna, Héla, Grána, Gráflekka, Grákolla, Digragrána, Gullbrá, Heiðgul, Gulkolla, Móra, Golsa, Hatta, Flekka, Móbotna, Grábotna, Bletta. Eins og ég hefi áður vikið að er skapgerð fjárins margvísleg. Hér fara á eftir nokkur nöfn sem benda til skapgerðar: Flenna, Fála, Glenna, Snegla, Stygg, Spök, Gæf, Hetja, Vina, Forusta og að síðustu nöfn sem mér finnst fyrir utan áðurnefnda flokka: Gæfa, Rella, Snudda, Brynja, Væta, Bræla, Gefjun, Iðunn.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana