Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1922

Nánari upplýsingar

Númer8546/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8546

p1
Hestar: Viðbótarlitir á hestum eru td.Rauðlitföróttur, jarplitföróttur, brúnlitföróttur og bleiklitföróttur. Brúnn litur er bæði svartur og móbrúnn. Auk móálótts er til mósótt án dökkrar manar. Músgrátt gæti verið sama og múskótt. Bæta má við skjóttu litina gráskjótt, leirskjótt, kúfskjótt, sporðskjótt, moskjótt. Einnig er til nösótt og toppótt og glámótt. Það var algengast að horn fengju nafn af litnum en mikil frávik voru frá því. Stundum voru þau nefnd eftir skapgerð Hrani. Augnlit Hringja. Gangi Léttir, Bæ Skuggahlíðarskjóni. Fyrrv. eiganda Sveinfríðar Blesa. Atferli eigenda Nudd Skjóna. Kossarauður, Milligjafa Skjóni osfrv. Þá tíðkaðist nokkuð að láta heita eftir hrossum. Fyrir löngu eða á sinni hluta 19. aldar var hryssa keypt úr Eyfjarfallasveit á bæ einn í Flóa. Sú var rauð á lit og var kölluð Fjalla Rauðka. Á þriðja tug 20. aldar var afkomandi hennar látinn heita eftir henni og líka kölluð Fjalla Rauðka. Hrossum voru gefin nöfn snemma á ævinni og ekki þótti ráðlegt að breyta nöfnum við eigendaskipti.

p2
Nautgripir: Lítill munur var gerður á hornalagi nema hnýflótt kallaðist það þegar hornin voru laus. Nöfn nautgripa fóru lítið eftir útliti gripanna. Bæta má við litina rílótt, rjúpótt, hosótt, huppótt, húfótt, hjálmótt. Nöfn nautgripa fóru mest eftir lit en þó með ýmsum afbrigðum. Kolhúfa, Svartasól, Kolskjalda. Kýr voru kenndar við fyrri eigendur Skjalda Gests. Stundum eftir látbragði Þula. Eftir bæjum Hæra, Skeggja, Hella. Eitt sérkennilegt nafn skal talið með en sagan til þess er svona: Á bæ einum í Flóa var til tík sem hét Píla. Kálfur á bænum hljóp um túnið með tíkinni. Eftir það var kvígukálfurinn kölluð Kúpíla. Börn nefndu kálfa stundum sérkennilegum nöfnum sem festust svo við, Græja.

p3
Sauðfé: Við hornalag á sauðfé má bæta: Skeifhyrnt sem mun vera sama og hringhyrnt og kúphyrnt, en það er afbrigði af afturhyrndu. Ef að sauðkind var kölluð Hyrna fylgdi því venjulega eitthvert forskeyti, Árbæjarhyrna. Skeifhyrndar kindur hétu gjarnan Skeifa. Viðbót við liti á sauðfé: Botnótt = svart, grá-mó-botnótt. Yrjótt eða syrjótt, bíldótt, kápótt. Eitt lengsta nafn sem um getur var ekki kennt við litinn á kindinni. Sú kind var hyrnd og var í upphafi kölluð Hyrna. Svo brotnaði af henni annað hornið eftir það hét hún Hyrnareinhyrna. Þá brotnaði hitt hornið líka, þá kallaðist hún Hyrndaeinhyrnukolla. Næst gerist það að hún á 2 lömb eitt vorið en slíkt var fremur fátítt áður fyrr. Eftir það hét hún Hyrndainhyrndakollatvílemba. Vorið eftir vr hún geld. Það er síðast vitað um þetta langa nafn að ærin var lölluð Hyrndareinhyrnukollóttatvílembugeld. Þetta er líkast bæjarnafni i V. Skaft. Þykkvabæjarklaustursnorðurhjáleiga. Geitfé þekkir undirritaður ekki.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana