Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1912

Nánari upplýsingar

Númer8519/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8519

p1
Hestar: ég kannast við alla þessa liti á hestum sem taldir eru upp í skránni og fleiri, svo sem kúfóttur, steingrár, litföróttur og hélaður. Bleikir hestar sem kenndir voru við litinn, Bleikur og Bleik, svo og Fífill. Bleikálóttar hryssur nefndu sumir kyngálur eftir hryssu Ásmundar á Bjargi úr Grettissögu. En ekki man ég eftir bleikálóttum hesti, sem nefndur hafi verið eftir litnum. Brúnir hestar eða svartir voru nefndir Brúnn, Krummi, Hrafn, Blakkur og Skúmur. Hryssur voru nefndar Brún, Brúnka, Nótt, Dimma og Surtla. Gráir hestar oftast nefndir Gránar og hryssurnar Gránur, hvaða litbrigði sem á þeim var. Oft voru hvítir hestar líka nefndir Gránar, þó voru dæmi þess að hvítir hestar væru nefndir Hvítingi eða Hvítingur. Heyrt hef ég getið um að hryssa hefði heitið Hvít, þó var það ekki algengt þar sem ég þekki til. Jarpir hestar kallaðir Jarpur og Jörp eða Irpa. En þó var nokkuð algengt um jarpa hesta sem höfðu ljósari granir að nefna þá Grana. Leirljósir hestar nefndir Leiri eða Lýsingur. Ég man ekki eftir nafni á hryssum, sem kennt væri við þennan lit. Litföróttir hestar stundum nefndir Litfari um að hryssur væru nefndar eftir þessum lit man ég ekki til. Moldóttir hestar nenfdir Moldi og hryssur Molda. Móálóttir nefndir Mósi og hryssur Mósa. Eins var um mósótta, en mósóttir hestar höfðu ekki dökka rák eftir bakinu og fax og tagl var ljóst, en á móálóttum var tagl og fax dökkt og dökk rák eftir hryggnum eins og á bleikálóttum. Sumir nefndu albleika hesta fífilbleika. Muskótt kannast ég ekki við að hafa heyrt. Dreyrrauðir hestar nefndir Dreyri, Dreyra. Sótrauðir efndir Sótar eða Sóta, ef það var hryssa. Ljósrauðir með ljóst

p2
fax og tagl nefndir Glóar og hryssan Glóa. Svo voru margir rauðir hestar nefndir Rauður og Rauðka. Skjóttir hestar oftast kallaðir Skjónar, en þó oft eftir litnum á móti þeim hvíta svo sem Brúnskjóni, Rauðskjóni, Jarpskjóni, Gráskjóni, Bleikskjóni, Móskjóni. Vindóttir hestar nefndir Vindur eða Vinda . Vindóttur hestur var eiginlega moldóttur, ljósbrúnn með ljóst tagl og fax. Blesóttir aðal litur dökkur, en hvít blesa frá enni og niður á flipa. Þeir voru nefndir Blesar og Blesur. Höttóttir ljósir, hvítir með dökkt höfuð nefndir Hettir eða Hetta, ef það var hryssa. Kinnóttir hvítir með dökkar kinnar og oft dálítið skjóttir. Ég man ekki eftir öðru nafni kennt við þennan lit en Kinna. Kúfóttur var dökkur á skrokkinn með hvítt höfuð og oft sokkóttur. Kúfur voru sumir nefndir og Kúfa. Skottóttir dökkir með hvítt tagl og oft sokkóttir. Ég hef aðeins séð einn hest albrúnan með hvítt tagl og hvíta afturfætur upp að hófskegginu. Hann hét Skotti og var reiðhestur sr. Eiríks Stefánssonar á Torfasöðum, Biskupst. Sokkóttir dökkir með hvíta fætur. Ef þeir voru nefndir eftir lit hétu þeir Sokki og Sokka. Stjörnóttir dökkir með hvíta stjörnu í enninu, þeir voru nefndir Stjarni og Stjarna. Sumir hesta höfðu 2 stjörnur á enni. Þeir voru nefndir Tvistur. Ég hef ekki heyrt neitt nafn á hryssu dregið af þessu. Steingráir hestar eru nokkuð dökkir og slær á þá eins og bláleitum blæ. Ég man ekki eftir nafni dregið af þessum lit. Hélóttir eru dökkir oftast brúnir með ljósum hárum innan um. Hryssunafn Héla. Ég man ekki eftir hestsnafni dregið af þessum lit.

p3
Hestum voru gefin alls konar nöfn öðrum en eftir litum. Eftir faxi var Faxi nefndur svo og Glófaxi og Freyfaxi. Ég gleymdi að geta um 3 nöfn á gráum hestum, sem ég þekki, það er Skolur, Korgur og Krapi. Glámur var með hvítan hring í augunum og Hringur sömuleiðis. Skuggi var brúnn. Eftir vexti man ég eftir Stóra Brún og Litla Rauð. Nöfn sem áttu að benda til vilja voru Þytur Gustur, Stormur og eftir gangi Stígandi og Léttfeti. Roði var nafn á rauðum hesti og hryssur hétu Brana, Píla og Lipurtá og Fluga. Hestar voru oft kenndir við bæi, þó þeir ættu sér önnur nöfn upphaflega, sérstaklega ef þeir voru aðkeyptir. Þeir voru líka oft kenndir við eigendur sína, þó þeir hefðu nöfn. Ég vandist því að folöldum væri gefið nafn oft nyfæddum, en þar sem stóðeign var mun það ekki alltaf hafa verið gert. Ég held að þar hafi oftast verið kennt vi litinn, og þá tæpast verið hægt að tala um eiginlegt nafn. Grautur var nafn á víxlgengum hesti. Það var stundum skipt um nöfn á hestum, ef eigandaskifti urðu, enda var ekki nærri alltaf látið fylgja nafnið, en væri nafnið látið fylgja var oftast farið eftir því þar sem ég þekkti til. Fyrir utan þau nöfn sem ég hef hér talið eru fjöldi nafna á hestum sem ekki eru dregin af lit eða neinu sérstöku. Svo sem Sleipnir. Sjálfsagt er það nú komið frá hesti Óðins. Sörli oft brúnn eins og Sörli í Skúlaskeiði, en Sörlar hétu fleiri hestar en brúnir, það man ég. Goði, Smyrill, Þröstur, Nasi. Nasi var oft dökkur með hvítan blett við eða um nasir. Fálki oftast grár. Kópur er líklega fyrst nafn á gráum hesti, en ég veit um jarpan hest sem hét Kópur. Þokki, Valur hann var ljósgrár. Gáski og Gletta eru mér kunn nöfn. Smári, Hæringur og Baldur. Perla er algengt nafn á hryssum og höfuðar líklega bæði til

p4
fegurðar og gæða. Gyrðir hét hestur sem var til hérna hjá okkur í Galtarholti. Hann var jarpskjóttur, en þó að mestu leyti jarpur með hvíta rönd yfir herðakambinn niður á bógana. Lokkur var brúnn með hvítan lokk neðst á faxinu og aftur á bakið. Hrani og Hrappur eru vel kunn hestanöfn, óháð lit, en eiga máski að höfða til skaplyndis. Nautgripir: Já, það var mismunandi orðum farið um hornalag nautagripa. Sumar voru stórhyrndar aðrar smáhyrndar og hnýflóttar. Ég man eftir nöfnum á hyrndum kúm eins og Stórhyrna, Hnýfla, Hornaskella hún var mjög stórhyrnd. Það var sagað dálítið ofan af hornunum eftir það var hún ævinlega kölluð Hornaskella. Ég man ekki eftir fleiri nöfnum á kúm, sem miðuð eru við horn eða hornalag, enda eru miklu færri kýr hyrndar hér á landi en kollóttar. Þekki ekki til nafna eins og Flátta, Þríspen eða Stássa eða önnur sem höfða til útlits nema litar. Svartar kýr hef ég þekkt sem hétu Dimma, Surtla og Nótt. Hvíta kú þekkti ég hún var alhvít nema eyrum rauðleit og granirnar. Hún hét Rjúpa. Rauðar kýr eru mjög algengar og eiga sér margs konar nöfn. Ég man eftir Rauðku og Reyði, nöfn sem beinlínis eru dregin af litnum. Nöfn á gráum kúm dregin af litnum man ég eftir Grána, Mús, Héla og Mygla. Branda var bröndótt. Huppa var mest dökk en með hvíta huppa og oft eitthvað meira hvít. Hryggja var hvít á kvið og fótum og upp á síðurnar en dökk á bakinu og oft var hausinn að mestu dökkur. Skjalda var skjöldótt, oft eins mikið hvít eins og dökk. Díla var mikið vít en með dökkum dílum eða blettum.

p5
Húfa var dökk með hvítan hausinn. Skrauta var skjöldótt og Flekka sömuleiðis. Kolóttar kýr þær eru brúnsvartar á litinn og oft skírðar Kola. Krossa er dökk, rauð eða svört eða kolótt að aðallit, en dálítið skjöldóttar á hausnum, hvít blesa og út á kinnarnar. Allar kýr af hvaða lit sem er geta borið annars konar nöfn. Ég þekki nöfn eins og Flóra, gráskjöldótt fædd í flórinn. Rella líka gráskjöldótt en var mjög rellinn kálfur. Búkolla, Búbót og Ljómalind eru klassisk nöfn. Busla, Gæfa, Rósalind, Randa var bröndótt með mjóar hvítar rendur hér og þar um skrokkinn. Laufa var gráskjöldótt, en þó meira grá með hvítar smáskellur á hausnum. Auðhumla er mjög algegnt kýrnafn. Bláma blágrá. Svo eru það nöfnin Lukka, Baula, Rósrauð og Lísa. Drífa var mjög ljósgráskjöldótt. Bolanöfn þekki ég mjög fá,. Man þó eftir Glámi rauðhúfóttum og Surti hann var svartur. Ég held að allir hér áður hafi skírt kýr sínar meðan hvergi voru mjög margar kýr á bæ. Ég veit ekki um þetta núa. Kýr eru víða svo margar, en sums staðar engar. Þetta er allt orðið svo breytt.

Sauðfé: Það sem ég man eftir um hronalag á kindum eru þessi lo. Afturhyrnt þá víssu endar hornanna aftur. Gleiðhyrnt hornin gleið mynduðu hálfhring út frá höfði. Hringhyrnt, hornin mynduðu krappari hring en gleiðhyrnt. úthyrnt, þá vísuðu bornin meira út en á gleiðhyrndu fé. Vaninhyrnt var aðeins það fé, sem dregið var í eins og það var kallað. Þá voru boruð smá göt gegnum hornin ofanvert og sterkur þvengur dreginn þar í gegn hnýttur saman hnakka meginn á kindinni. Meðan bændur áttu sauði gerðu margir þetta en það urðu að vera ...geldingar svo hornin risu vel upp frá höfðinu.

p6
Mörgum fannst þetta fallegt og þótti tignarlegt að sjá stóran hóp fallegra sauða alla vel vaninhyrnda. Heyrði ég bændur tala um þegar ég var krakki, en sauðaeign lagðist að mestu niður þegar fráfærur hættu. Framhyrndu fé man ég ekki eftir nema ferhyrnt fé, þá stóðu 2 hornin oft beint fram en önnur 2 til hliðar. Ég held að hér um slóðir sé lítið af ferhyrndu fé. Svo var það hnýflótt, hornin oftast lítil, stundum smá stubbur. Krapphyrnt fé hafði venjulega stutt en gild horn, sem lágu nærri höfðinu. Ekki veit ég hvort það er sama og krókhyrnt, en ég kannast ekki við að talað sé um krókhyrnt eða framhyrnt fé, ekki heldur snaghyrnt eða öngulhyrnt. Nöfn kinda af hornalagi voru Hringhyrna, Gleiðhyrna, Afturhyrna, Úthyrna og Hnýfla og Kolla, ef kindin var kollótt. Ég man eftir mjög fáum ám vaninhyrndum, en væri um það að ræða voru þær nefndar Vaninhyrna. Það var auðvitað farið ýmsum orðum bæði um vöxt og byggingarlag saufjár. Þær voru stórar og litlar,þunnvaxnar eða þykkvaxnar, fótstuttar eða háfættar, fríðar eða grettar og víst margt fleira. Lagðprúðar eða ullarstuttar. Ég man eftir nafninu Rytta um rýra kind. Hniðra um lita bústna kind. Tjusla var rýr og skjátuleg. Brúska hafði mikinn brúsk á enninu. Hvíta féð er langalgengast. Langflest er gult í framan og á fótum. Margt af því er þó vel hvítt á lagðinn, sumt er þó allt gulleitt, á því eru oft illhærur. Það eru löng hár sem sjást best þegar búið er að taka af því á vorin. Ull af því þykir ekki góð. Svo er til alhvítt fé skjannahvítt, ljósgrátt, mógrátt eða dökkgrátt. Það er oft vænt og holdasamt. Mórautt er ýmist vel mórautt eða grámórautt. Það er oft fallegt ungt, en verður oft með aldrinum ryrt og skjátulegt.

p7
Það er sagt að útfjólubláu geislarnir hafi þessi áhrif á það. Svart er bæði hrafnsvart, mósvart og grásvart. Grásvart fé er oft mjög vænt. Golsótt fé er ljóst að ofan, en dökkt að neðan og um hausinn og upp undir dindilinn að aftan. Botnótt er aftur á móti dökkt að ofan, en hvítt á kvið og fótum, bæði golsótt og botnótt getur haft gráan, svartan eða mórauðan lit með þeim hvíta. Arnhöfðótt, svart grátt eða mórautt með hvíta bletti á höfði og í hnakka, oft líka sokkótt. Oftast hef ég séð svartar kindur með þessum lit. Sumar hafa verið forystukindur. Hálsótt, hölsótt segja sumir Árnesingar man ég var. Hálsótt fé er hvítt með svartan haus, mórauðar eða gráar, flekkótt svart og hvítir flekkir hér og þar um skrokkinn. Líka stundum mórautt eða grátt. Ég ímynda mér að mögótt sé hið sama og ég hef vanist að væri kallað botnótt, og golótt sé sama og gottótt eða golsótt eins og sumir segja. Kindur voru nefndar eftir litum: Svört, Surtla, Dimma. Mórauðar kindur Móra eins og sagt er hér í Borgarfirði og Mora eins og árnesingar segja. Gráar kindur nefndar Grána, Þoka, Muska. Svo er það Kápa, kápóttar kindur eru dökkar að ofan höfuð og bak aftur á malir, en hvítar að neðan upp á malirnar ogg oft síðurnar til háls. Svo er það Golsa, Hálsa, Hosa, dökk með hvíta fætur. Arnhöfða, Flekka og Botna. Gul var gulleit, Bílda var bíldótt hvít með dökka flekki við augun. Svarta eða mórauða oft smádílótt um allan skrokkinn. Sumir nefna kindur eftir fyrri eigendum, því hef ég aldrei vanist. Af skaplyndi var Frekja dregið. Það voru og eru ekki margir sem skírðu allar kindur sínar, en það var þó til og er kannski ennþá, en flestir skírðu þó alltaf einhvern hluta af fé sínu. Sumir þekktu hverja kind mað nafni, en þeir áttu víst fremur fátt fé að ég held, en það er til mesti sægur nafna á ám og hrútum raunar líka. Ég læt hér fylgja nokkur nöfn sem ég man eftir í svipinn.

p8
Nöfn á ám: Brúða, Píla, Ljósbjört, Rosta, Frenja, Frekja, Fríska, Padda, Skegla, Rjúpa, Dúfa, Doppa, Díla, Gullbrá hvít gul um höfuð. Gibba, Flýra, Augnbletta hvít með svartan blett hjá öðru auganu. Títla og Mjallhvít. Lukka, Háttprúð, Snotra og Snoppa, Hrútanöfn: Gulhnakki hvítur með gulan hnakka, Prúður, Blíður og Þorri. Geitum hef ég aldrei verið samtíð aog veit ekkert um nöfn á þeim. Ég hef örsjaldan sé geitur. Það voru hér í Galtarholti og víðar til geitur en búið að farga þeim öllum þegar ég kom hingað. En það sér ennþá móta fyrir rústum þar sem geitakofinn stóð, Hólinn sem rústirnar eru á heitir Geithóll.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana