Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1904

Nánari upplýsingar

Númer8683/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8683

p1
Nautgripir: Hyrndir nautgripir hafa löngum verið taldir hálfgerðir vandræðagripir og fer þeim vafalaust fækkandi. Ég hefi helst kynnst stórhyrndum nautgripum. Einni slíkri man ég eftir sem hét Stikla aðra stórhyrnda þekkti ég sem hét Hjarthyrna, rauðlit að mestu, hvít á kvið og júfur. Höfuðlag kúa var mismunandi, langleitar og breiðleitar, hryggurinn gar verið niðursveigður og þótti það galli. Beinn hryggur og breiðar mjaðmir var kostur á kúm. Kýr með breiðar mjaðmir var betur löguð til þess að vel gengi fæðing á kálfi. Slíkt hið sama gildir um konur. Júfrið þurfti og varð þykkara á malarbreiðri kú og þurfti að ná sem lengst fram og aftur en ekki mjög sítt. Þríspena kú hefi ég ekki séð, en fláttu átti ég á fyrstu búskaparárum hafði 4 spenagöt en hægra megin voru spenarnir samvaxnir, var dálítið erfitt að mjólka þá. Hún var sægrá að lit eð a þrílit, mjólkaði heldur vel gróðri mjólk,feitri, hún hét Grána. Holdarfar kúa var mjög misjafnt. Góðar mjólkurkýr mjólkuðu af sér holdin, einkum fyrst eftir burð, aðrar söfnuðu holdum og mjólkuðu illa. Aðal litur nautgripa var svartur, rauður, mismunandi ljós eða dökkur, h vítur, alhvítur sjaldgæfur, Grár misdökkur, flekkóttur, svart og hvítt, rautt og hvítt, húfóttar kýr voru til oft hvítur haus, bolur dökkur svartur eða rauður, hryggjótt, hvítur hryggur, baugótt, kýrin kölluð Bauga, Hetta eða Hryggja. Skjalda var ávalt skjöldótt, svartar og rauðir nautgripir voru oftast hvítir á kvið og júfur.

p2
Nöfn kúa fóru stundum eftir nythæð og mjólkurgæðum t.d. Rjómalind. Naut var í Dýrafirði sem Hvanni hét, fenginn frá Hvanneyri. Hann var lengi notaður sem þarfanaut, en varð mannýgur með aldrinum og þá felldur. Kýr var keypt frá Sæbóli var kölluð Sægrön. Allir kannast við orðtakið nautheimskur. Ég tel þó nautgripi vita sínu viti amk. þótti mörgum kúm ekki sama hver mjólkaði þær. Þar komu orð og atlæti greinilega til greina, því oft mátti sjá þegar mjaltakona kom í bás kúnna og talaði við þær og klappaði þeim, þá lét kýrin þakklæti sitt í ljós með því að sleikja mjaltakonuna meðan hún þvoði og strauk júgur hennar. Í því sambandi datt mér í hug vísan sem einhver álfkona kvað en hún er þannig. Lóló mín lappa lítinn berðu tappa illa gera konurnar þær kunna þér ekki að klappa. Lóló mín lappa.

p3
Íslenski hesturinn: Enginn veit nú með nokkurri vissi hvaðan íslenski hesturinn er kominn í upphafi til Íslands. Á bls. 60 segir Árni Óla í bók sinni Landnám fyrir landám, að Grímur sem Grímsey er kennd við hafi átt eina hryssu. Það eru allar sögur um hesta sem landnámsmenn komu með, þe. íslensku eða réttara sagt norsku landnemarnir fluttu til landsins. Samt fullyrðir Ragnar Tómason í bókinni Hestar bls. 13, að íslenski hesturinn hafi komið með norrænum landnemum til landsins. Ég hygg að það sé fullyrðing út í loftið. Og engin haldbær rök fyrir því. Nú segi ég strax frá því, að ég var enginn hestamaður, átti aðeins 3 eða 4 hesta í þau 52 ár sem ég var við búskap. Kona mín átti eina hryssu þegar við byrjuðum að búa. Hryssan var ljósgrá og hét Skola og undan henni kom hryssa sem var á lit ljósgrá og bar því nafn móður sinnar. Foreldrar gáfu mér svo gráan hest, dökkgráan sem hét Gráni. hann var stólpagripur, varð 29 ára þegar hann féll frá. Gráni var með dökka mön í faxi og aftur á bak og í tagl. Gráni var notaður til alls sem gera þurfti, undir reiðing, fyrir kerru, plóg og herfi og sláttuvél, jafnvel til reiðar.

p4
T.d. reið ég honum eitt sinn ásamt mörgu fleira ríðandi fólki út eftir grundum Rauðasands, sem eru grónar meðfram sjónum. Við Gráni vissum ekki af melskarði þar á leiðinni og vorum eitthvað á eftir, en fram af melbarðinu stökk Gráni með mig á baki og flaug ég fram af honum og vissi ég ekki fyrr til mín en ég sat flötum beinum í sandinum og Gráni stóð hinn rólegasti við hlið mér, og var ég fljótur á bak, því ég fann ekki til neins eftir þetta heljarstökk. Eldri Skola átti annað folald það var rauðjarpur hestur. Þessi systkini þjónuðu okkur vel og dyggilega og voru svo elsk hvort að örðu að þau máttu ekki hvort af öðru sjá. Ég held að litur hafi algengast ráðið nafni, þó kom oft annað til t.d. Reykur, Úði, Fífill. Fífill var ljósrauður, hinir mjög ljósir á lit. Rönd var með hvíta rönd yfir miðjan hrygg og undir kvið. Þess er ekki getið í Grettissögu hvernig Kengála var lit. Ég held það sé óðs manns æði að skýra nafngift hrossa, því hún yrði svo mörg sem mennirnir eru margir eða þó..... Mér dettur í hug vísan um Vakra Skjóna. Ljóskáldiðsegir í eftirmælum um Vakra Skjóna: Lukkan ef mig lætur hljóta líkan honum fararskjóta sem mig ber um torg og tíma Vakri Skjóni hann skal heita honum mun ég nafnið veita þó að meri það sé brún.

p5
Þar sem ég þekkti til var frekar fátt um hross. Að mestu leyti til áburðar, þó voru reiðhestar til á nokkrum bæjum. Almennt var hrossum gefin nöfn ungum, jafnvel á fyrstu dögum. Jónas Hallgrímsson segir í sínu hugljúfa kvæði Grátittlingurinn: Nú var tryppið hún Toppa tetur á annan vetur fegursta hross í haga og hrúturinn minn úti. Grímur Thomsen segir í sínu kvæði um Svein Pálsson lækni: Skal þá læknir ljá þér Kóp Láttu hann alveg ráða Þeim sem fljóði fóstrið skóp fel ég ykkur báða. Nefna mætti Brúnku Bakkabræðra. Margt mætti segja um ratvísi hesta og vitsmuni, jafnvel hefur hesturinn bjargað mannslífum fyrr og síðar. Heyrt hefi ég sagt frá því hestar leggist á hnén til þess að ofurölva menn sem slaga falli síður af baki. Þá heyrði ég roskinn mann segja frá sérstöku atviki um vitsmuni hests, sem fór heim af túninu með töðubagga án þess að maður fylgdi honum. Eitt sinn sem oftar fór klárinn með töðubagga af túni sömu götu og hann var vanur, en á miðri leið mætir hann telpukrakka 2 ára og sat hún í götunni. Klárinn

p6
bítur í öxl telpunnar og kippir henni út fyrir sína götu, án þess að telpuna sakaði nokkurn hlut, labbaði síðna áfram með bagga sína að hlöðunni. Það er alkunna að margir hestar voru svo styggir að ekki var auðvelt að ná þeim í haga, og stundum voru það krakkar sem gátu gengið að þeim eða sá maður sem þeir voru nákunnir. Þannig var Gráni gamli, sem ég hefi fyrr getið. T.d. ef hann var að bíta á grænni há, þá lagði hann kollhúfur við ókunnuga, en við mig var hann auðveldur viðfangs. Ég klappaði honum á lendina og talaði við hann.

p7
Sauðfé á Íslandi: Þegar ég var ungur og fór að taka eftir útliti á fé var meirihluti þess kollóttur, en hyrnt var þó til, bæði gimbrar og hrútar. Nú lýt ég svo á að það sé upphaflegi stofn landsins. Á Vestfjörðum hefur lítið borðið á öskufalli og í vetrarhörkum lifa kindur aþr iðulega af t.d. í fjöllunum. Í því sambandi sagði faðir minn mér frá hagalambi, gimbur sem gekk úti vetrarlangt norðanverðu í Blakknum. Þessi gimbur varð gömul kvíaær og fór aldrei út af fjárgötunum svo að segja. Mjög oft var nafn sauðfjár dregið af hornalaginu, t.d. Skeifa var skeifhyrnd, úthyrnd Úthyrna, Krókhyrna krókhyrnd, Móbrún var með dekkri augabrún. Illa-Svört var skaðræðisgripur þegar hún var nýborin. Blánös var með dökkan blett í annari nösinni. Gribba var ófríð í andliti. Syrja var marglit. Móra dökk mórauð. Grámóra ljósmórauð. Hetta svört að framan aftur á bóga. Golsa var skollit á skrokkinn en kolsvört neðan að nokkru á haus. Gofótt var dökk mórauð eða dökk ofan á baki og síðum, en ljóslit neðan og framan á hálsi. Hnífla var hníflótt, stundum með krók á horni. Ferhyrnt fé er til í Mýrahr. og sjálfsagt víðar, en ekki algengt í Dýrafirði. Vöxtur og byggingarlag sauðfjár hefur lengi verið vandamál í fjárræktinni og í því sambandi öll meðferð og fóðrun. Löngum var sauðféð sett á Guð og gaddinn. Nú er það úr sögunni, en þó kemur upp annað vanadmál þe. offitan, sem þó er tilbúin af neytendum.

p8
Um holdafar sauðfjár var farið ýmsum orðum, t.d. stokkfeit kind, laus á baið, þá leið kindunum allvel. Föst á bakið, kindin var farin að leggja af. Brúnslét kind, þá var kindin ekki beinaber við átak á bringu, farin að skerða var kindin við átak á bringu, þá mátti finna fyrir skörðum á bringu og þ........ þá var kindin orðin grindhoruð og varla lífsvon. Fyrsta merkið um að kindin sé farin að leggja af eða missa hold er að við átak á bak er að gæran finnst föst þegar hendi er ýtt aftur og fram á baki kindarinnar. Um byggingar
lag sauðfjár má segja að sé vísindagrein út af fyrir sig. Þó var löngum talið það sem mestu máli skifti að afurðir fjárins væru sem mestar, ull kjöt og mör og meðan fært var frá var nyt ánna þýðingar mikill þáttur, en afurðir fjárins fer ávalt eftir meðferð og fóðrun og sumarhögum. Nú er mikið lagt upp úr frjósemi ánna, þe. tvílembingum og jafnvel þrílembingum. Fjórlembda á þekkti ég í Dýrafirði á 4. tug þessarar aldar. Vel byggð kind þurfti að vera þéttvaxin helst ekki hrygglöng, breiðan spjaldhrygg og þykkvaxin læri, bringan náði vel fram fyrir bóga og sem breiðust. Höfuðlitir: Hvítt, svart, mórautt og grátt. Þessum litum gat svo verið blandað saman á ótrúlega marga vegu, janvel gat hvít kind haft annað eyrað svart, þá var hægt að kalla kindina Eyru, einnig gat hvít kind haft svartan blett á síðu og var þá kölluð Bletta.

p9
Ef svartur blettur var á baki þá var hún kölluð Sessa. Eigla haði bauga kringum augun. Svarbrún hafði dökkar augabrýr. Flekka var allavega flekkótt, skiftust oft á um liti á flekkóttu, ýmist svartur og hvítt, mórautt og hvítt, grátt og hvítt, svart og mórautt man ég ekki eftir að væri á sömu kinda, stundum voru kindur nefndar eftir því hvar þær gengu í haga t.d. gekk Saxa í Saxagjá í Látrabjargi. Ef hrútur var keyptur í Tálknafirði var hann kallaður Tálkni. Skrýtnasta nafn á sauðkind sem ég hefi heyrt og séð var Andrésarbitinn. Þannig var að bóndi keypti þessa kind af manni sem Andrés hét. Þegar bóndi og gamall smalamaður hans fóru að marka hana upp stóð markið þannig á öðru eyranu að þar stóð biti, en þá sagði gamli smalinn að þetta væri Andrésar biti. Hann yrði að marka sinn bita fyrir ofan Andrésarbitann, og það gerði bóndi og hló að, og síðan var ærin kölluð Andrésarbitinn. Nú ætla ég að bæta nokkrum orðum við um heimaslátrun sauðfjár á blóðvelli, sem kallað var. Þá var hver kind flegin á jörðinni, tekið innan úr, svo byrjað á því að skera magálinn niður frá bringu og í boga út og aftur að lærum. Síðan var tekin netja, bógnetja og síðan vömbinni velt út á völl. Þá mátti ekki gleyma að binda fyrir vélindað sem dregið var úr hólsi og þind þá var búið að skera framanúr, þe. frá hólsi til að losa vélindað úr hálsinum og binda fyrir það. Þegar vömbin var laus var næst að rekja garnirnar. Ekki máttu þær slitna því

p10
skítnaði allt út, kjöt og mör. Þegar garnir voru raktar til enda þurfti að losa langana, langalanga og botnlanga. Síðan var ristillinn rakinn úr garnmörnum. Þá var tekin nýr mörinn, nýrun losuð úr mörnum og síðan var netjan tekin sem geymd var falin í gærunni við skrokkinn. Til þess að hún kólnaði ekki þar til hún var látin utanum nýmörinn og var þetta til samans kallað mörvi. Síðan voru lundirnar skornar úr hryggnum. Þær fóru í bestu lundabaggana ásamt ristli og hálsæðum ofl. Auðvitað þurfti að rista ristlana áður, það gerðu konur venjulega og krakkar héldu í meðan þeir voru ristir og skornir og skafnir, þvegnir í saltvatni. Síðan var skrokkurinn hengdur á rá en ef kjötið átti að verka í hangikjöt, þá var tekið framanaf þe. bringan var skorin eins og venja var en 5 rifin fremstu voru ekki tekin í sundur, heldur var skorið við þessi 5 rif og niður eða upp að hrygg og hann tekinn þar í sundur. Þessi partur af skrokknum var kölluð steila, þe. bringan, skammrifsbrókin og hálsliðirnir, en áður voru bógar báðum megin skornir frá. Síðan var krofinu snúið við, brotin fremstu rifin og síðan var dálitlu salti stráð í skurðinn bæði á steilu og krofi og eitthvað á bóginn. Eitthvað var kjötið látið liggja með salti. Síðan var það hengt upp í eldhúsi reykt.

p11
Meira um liti á fé, þar sem ég ólst upp var okkuð um fofótt sauðfé, það gat verið bæði mógofótt og svartgofótt, bak og síður svart eða mórautt en kviður fram á háls að neðan og aftur upp um læri ljóslitt eða hvítt. Nafn Mógofa eða aðeins Gofa. Hrútavísa: Grani, Vakur, Funi, Freyr Frosti, Jökull, Sómi Höttur, Spakur, Glaður, Geir Gulur, Fífill, Ljómi. Önnur um ær: Skeifa, drífa, Mána, Mjöll Molda, Lukka, Pína Sirja, Fjöður, Þúfa Þöll Þústa, Móra Lúsa. Nokkur orð um nöfn á bitum kjötskrokksins eins og hann var höggvinn í spað. Banakringlan fremsti hálsliður, þótti lélegasti biti af kindarskrokk. Bringan var skorin í heilu lagi svona þumlung niður á rifin, síðan var hún höggvin í marga bita langs og þvers og var bringukollurinn talinn besti bitinn. Bógar skornir af skrokknum og þeir höggnir í spað, leggjastoðir þóttu lélegri en annað, þó betri af lærlegg en lærbitar þóttu í besta lagi, einkum beinlausi bitinn sem skorinn var aftan úr lærinu. Mjaðmarbitinn þótti góður enda þótt lundir höfðu verið teknar en hryggjaliðir voru svona í meðallagi síður voru höggnar skammt frá hrygg og þóttu ávalt góðar, einkum ef ..... var vel feit. Aftasti biti hryggjarins var hárófusterturinn

p12
þótti ávalt eftirsóttur biti, en skammrifsbrókin þótti albesti biti skrokksina. Þetta voru 4-5 fremstu rif síðunnar. Forystufé: Það var löngum mikils virði fyrir bændur að eiga forystufé, sérstaklega þar sem beitarhús voru og eins þar sem fé var beitt og staðið yfir fé langt frá fjárhúsum að vetri til. Það eru til svo margar sagnir um dugnað léttrakra kinda jafnvel yfir erfið vatnsfjöll í því saambndi vil ég benda á hrútinn sem fór fyrir bræðrunum úr Skaftafellssýslu snemma vors alla leið austur á Fljótsdalshérað yfir jökulvötn og eyðisanda og leiddi stóran fjárhóp. Þessi frásögn var flutt á kvöldvöku í útvarpinu fyrir nokkrum dögum síðan. Hér fylgir með Ærbók frá 1944.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana