Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1911

Nánari upplýsingar

Númer8805/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8805

p1
Ég fékk þessa skrá í hendur í des. sl. Endursendi hana ekki, hélt eftv. að ég gæti eitthvað sagt um þetta efni. Þegar ég seint um síðir fór að athuga það sá ég að langflestu sem ég veit um þetta efni hef ég svarað áður. T.d. sent allar þulur og vísur um nöfn húsdýra. Einnig allt um mataræði og matarhætti. Hestanöfnin sem talin eru upp kannast ég við, nema muskóttur, vindóttur og móvindóttur, einnig skottóttur, höttóttur og kjömmóttur. Nöfnin voru svo dregin af litunum t.d. leirljósir hestar hétu Ljóska og Lýsingur. Svo komu aukaeinkenni, svo sem Litla Rauðka og Gamla Rauðka. Litli Skjóni og Gamli Skjóni. Ekki Littal Rauðka og Stóra Rauðka, Litli Skjóni og Stóri Skjóni eða Yngri Skjóni og Eldri Skjóni. Ég er ekki nógu kunnug nöfnum sem dregin eru af litum og einkennum hesta, að geta lýst þeim og sleppi því. En ég ætla að nefna nokkur önnur nöfn á hestum sem voru í eigu minnar fjölskyldu, svo sem Hreggviður, Sörli, Bylur, Vísir, Fálki, Valur. Ég hef víst sent áður þessa vísu um hestamennsku á Minni Reykjum hjá Grími langafa mínum. Grímur og BÚI HEUÐUR og Dúi Mangi og GRÝÐUR. Hestanöfnin með stórum staf. Allt fólkið ríður. Hestar voru oft auðkenndir með nöfnum eigendanna, svo sem Magnúsar

p2
Rauðka, Herdísar Brúnka, osfrv. Nöfn vour gefin hestum, annað hvort sem folöldum eða þegar farið var að temja þá. Stundum kennd við þá bæi sem þeir voru frá. Nöfnum héldu hestar þar sem ég þekkti til, þó þeir skiptu um eigendur. Þá eru það nautgripir: Um þá má segja það sama, ég treysti mér ekki til að nefna nöfn þeirra eftir einkennum. En ætla að nefna nöfn kúnna heima á Krakavöllum: Lúða var með annan kjamman svartan, hinn hvítan. Hjálma svört með hvítan haus. Búkolla og Búbót, Stétt, Auðhumla, Rán og Hrönn. Þessar þrjár síustu voru allar mismunandi gráar. Rán var þrílit en aðal liturinn fremur ljósgrár og eins og í hringjum. Eflaust afa verið fleiri kúanöfn, þó eftir litum, þó ég muni ekki eftir þeim. Tvö ung naut voru til heima þegar ég var barn hétu Litur svartur og ólitur hvítur. Búbót og Búkolla voru til á flestum bæjum held ég. Konurnar gáfu þeim nöfnin. Vissu hve mjólkin var mikil búbót. Stundum engin björg til í kotinu nema mjólkurdreytillinn og kannski slátur eða brauðbiti. Ekki treysti ég mér til að telja upp nöfn á sauðfé, enda gert það áður bæði sér og í þulum og vísum. en allar kindur áttu nöfn, sumar fleiri en eitt, til aðgreiningar. Enginn vandi var að þekkja hverja kind með nafni, þó þær virtust líkar hver annarri ef séð var yfir hjörðina. Auðvitað voru til ærbækur, en þær fóru forgörðum þegar flutt var úr sveitinni.

p3
Eitt langar mig til að minnast á sem ég hef oft hugsað um, þó það komi etv. ekki þessum þáttum við, það er hve mismunandi nöfn eru höfð um sama lit eða litasamsetningu eftir því hvort það var á hestum, nautgripum eða sauðfé. Hestar voru skjóttir, nautgripir skjöldóttir en sauðfé flekkótt. Öll með samskonar litasamsetningu. Þegar hausinn var með öðrum lit en búkurinn voru nautgripir hjálmóttir en sauðfé höttótt, kannski hestar líka, þó ég þekkti það ekki. Hestar voru sokkóttir en sauðfé ekki. það var leistótt eða hosótt. Hestar stundum líka leistóttir. Ekkert nafn vissi ég um það ef nautgripir vor með öðruvísi lita fætur en búk. Hestar voru jarpir, en sauðfé mórautt sem var með svipuðum lit. Nautgripi vissi ég ekki til að væri þannig litir en alla vega rauðir. Aftur á móti voru nautgripir bröndóttir, en hestar og sauðfé ekki. Ef sauðfé og hestar voru með svipaða litasamsetningu hét það eitthvað annað, þannig mætti sjálfsagt lengi telja. Hvernig stendur t.d. á því að sum litanöfn á nautgripum eru kennd við herbúnað t.d. Skjöldótt, hjálmótt, en ekki á hestum, sem voru þó notaðir í hernaði.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana