Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1925

Nánari upplýsingar

Númer8595/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8595

p1
Hestar: Mér eru töm öll þessi nöfn á hestalitum. Það væri helst það vantaði steingráa litinn, en það eru dökkgráir hestar í nokkuð misgráum litum, dekkri hér í grunnin, en yfirhár dökkgráir á fótum og lend og bringu oft líka dekkri á tagl og fax, og snoppan oftast dökk. Kannski verða þessir hestar hvítir á gamals aldri amk. sumir. Hestanöfn fara mjög oft eftir litum, Gráni, Bleikur, Brunka, rauður, Krummi, Blakkur osfrv. ennfremur ef einhver séreinkenni eru í litum fara nöfnin mjög oft eftir þeim. Blesi, Stjarna, Skjóni, Sokka ofl. Það var og er mjög algegnt að hestar fái nöfn eftir framkomu sinni: Gletta, Gustur, Þjálfi Vinur osfrv. Þá er það oft eftir þeirri framkomu sem tryppin sýna í uppvexti og viðkynningu. Líka fegurð Glæsir og til minningar um hvernig þau komast í hendur eigenda, t.d. Sumargjör. Ef eitthvað var alveg sérstakt Silfurtoppur bleikur með grásilfraðan topp. Glámur annaðhvort glámblesóttur eða glámeygur, kannski bæði. Hringur hringeygur. Nös með dökkan blett á nös. Ég þekkti til að hestar voru skírðir eftir fyrri eigendum og þeim bæjum sem þeir komu frá. Tedda eftir Teiti og Skarði frá Skarði. Norði úr Skagafirði og svo lengi mætti telja. Vindótt hryssa sem pabbi átti eignaðist folald sem kallað var Vinduson. Þegar Windston Churchill gekk um í Mosfellssveit á stríðsárunum þótti sjálfsagt að breyta nafni Vindusonar í nafnið Vindson og það festist við hann. Ég held að tilefnin séu ótæmandi. Heima þar sem ég hef þekkt best fengu heimafæddu tryppin oftast fast nafn þegar þau voru tekin í hús að vetrinum. Við eigendaskifti fengu hestarnir nýtt nafn nema það hefði orðið að samkomulagi við fyrri eigendur að nafnið skyldi fylgja. Nautgripir: Ég man ekki mikið af nöfnum sem minna á séreinkenni einstakra kúa, en þeim mun fleiri finnst mér þau nöfn vera sem eru tengd lit á skepnunum. Öll þessi nöfn sem nefnd eru í skránni eru mér vel kunnug, einnig Kola hún var kolótt. Krúna með ábaerandi hvíta krúnu í enninu. Mér finns ég líka hafa þekkt mikið af kúanöfnum sem felast í væntingar um afurðasemi, svo sem Búgót, Auðumla, Lind eða Ljómalind, Gæfa osfrv. ég man eftir kú heima í Mosfellssv. sem var skírð Kreppa, vegna þess að hún fæddist þegar kreppan var að dynja yfir eftir 1930. Hún reyndist léleg mjólkurkýr og mamma sagði að það ætti ekki að nefna skepnur neikvæðum nöfnum, þá reyndust þær oft í samræmi við nafngiftina. Ég þekkti ekki að kýr fengju nöfn eftir fyrri eigendum eða heimkynnum. Sauðfé: Af þessum hronalagsnöfnum þekkti ég aðeins afturhyrnt, úthyrnt, vaninhyrnt og hnýflótt og ferhyrnt. Ég man eftir fjárnöfnunum Hnýfla og Hyrna ekki meir. Jú Kolla var kollótt. Grákolla, Mókolla og þar fram eftir götunum. Hrútarnir fengu oft nöfn úr goðafræði heima. Óðinn, Freyr, Loki og ærnar þá Freyja og Sif og jafnvel Gyðja, ef þær þóttu sérlega glæsilegar, annars finnst mér nöfnin hafa verið frekar hefðbundin. Móra, Grána, Grábotna, Bílda, Surtla. Sumar fengu nafn eftir lundarfari og jafnvel laglegu andliti Snotra, Blíða, Spök. Einnig nöfn til minningar um ymis atvik, Ófeig og Lífseig. Nöfnin skýra sig sjálf, etv. hafði orðið tvísýnt um líf þeirra eð aþær höfðu ekki komið fram að hauysti fyrr en í eftirleit og þess vegna ekki verið fargað. Orð um vaxtarlag hef ég ekki. Ég þekki öll þessi litarnöfn nema arnhöfðótt heyrði ég fyrst þegar ég kem hér austur. Þær kindur sem eru arnhöfðóttar eru yfirleitt svartar eða dökkargráar með

p2
hvítan kraga, kinnar og krúnu í enninu oft hvítsokkóttar. Mér finnst þessi litur vera alger andstæða við bíldótt, þannig að þar er aðal liturinn hvítur og hitt mórautt oftast eða svart. Heimalningar fengu oft gælunöfn og héldu þeim gjarnan, ef þeir voru settir af svo sem Snýkja, Frekja, Rós, Sóley og Gibba, og svo margt og margt. Keli hét hrútur. Sumt fé fékk nöfn úr sögum. Ég man efftir Loðinbarða og ein gimbur hét Kolskara. Geitur: Það voru um tíma 3 geitur heima. Hafurinn kallaður Haffi en geiturnar Fríða og Lukka. Þær vour svo fallegar og skemmtilegar að leika sér með þegar þær voru kiðlingar.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana