LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1910

Nánari upplýsingar

Númer8552/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8552

p1
Hestar: Það er áhugavert að rifja upp nöfn á húsdýrum eins og í þessari skrá. Var nafn hesta oft tengt lit t.d. Brúnn, rauður, Jarpur, Gráni, Mósi, Bleikur, svo komu marglitir við sögu. Stjarni, Blesi með stjörnu í enni eða blesu á höfðu. Skjóni jarpbrúnn, rauðmóbleikskjóttir. Glófextur með glóbjart fax, kinnóttur með bletti á kinnum í öðrum lit. Höttóttur höfuð og háls í öðrum lit. Kúfóttur annar litur á eyrum og ofan á höfði, Skottóttur, tagl af öðrum lit. Sokkóttur annar litur á fótum. Moldóttur, vindóttur, sérkennilegur litur, sambland af daufbláu og mórauðu. Leirljós gulleitur. Litföróttur marglitur. Móálóttur moldbrúnn. Kannast ekki við muskóttur, líklega líkt og moldótt. Svo eru litir útfrá aðal litum dökk og ljósbrúnt og rautt og grátt, jarpt. Og svo Lati Brúnn, Stóri Gráni, Gamli jarpur, Glói, Höttur, Sokki, Vindur, Skotti, Moldi. Svo voru nöfn eins og Vinur, Léttir, Þytur, Þokki, neisti ofl. sem áttu að lýsa þessum góðu vinum mannsins. Hestar voru líka kenndir við bæi sem þeir voru frá og stundum við fyrri eigendur með auknefni, en ekki skift um nafn. Kvenkynsnöfnin voru svo í sama máta oftast held ég að hafi verið farið að hugsa um nafn á hrossum þegar farið var að veita tryppum athygli, nema fólk sæi einhverja sérstaka eiginleika hjá fölöldum sem bentu til að um gæðingsefni væri að ræða.

p2
Nautgripir: Ég kannast ekki við að nöfn kúa hafi verið á nokkurn hátt tengd hornalagi enda man ég aðeins eftir ekki kú hyrndri þar sem ég átti heima. Hún var rauðskjöldótt og var kölluð Skjalda. Mikil mjólkurkýr og stór og falleg. Ég kannast ekki við Flátta, Þríspena eða Stássa. Aftur á móti Rauðka, Rósa, og Skrauta, Branda, allt dregið af lit og svo Búbót, Búkolla, eflaust dregið af góðum eiginleikum. Kýrnar voru mjög ólíkar að líkamsbyggingu. Góðar mjólkurkýr voru oft beinaberar með stórt og sítt júgur og áttu því erfitt með hreyfingar í misjöfnu umhverfi. Stundum voru settar á þær sem voru óvenju júgursíðar, júgurpokar þeim til hlífðar. Kýrnar voru ólíkar í skapi eins og reyndar öll dýr. Mikla elsku sýndu þær sumar þeim sem mjólkuðu þær. Sleiktu með sinni hrjúfu tungu eins og þær náðu til, aðrar voru skapstirðar og hristu hausinn í vandlætingu, einstaka var mannýg. Naut gátu orðið hættuleg, ef þau vurðu gömul, kálfar voru fallegir eins og öll ungviði.

p3
Sauðfé: Ég man eftir margskonar hornalagi á kindunum, afturhyrnd, hringhyrnt, krókhyrnt, vaninhyrnt, en þá voru hornin gerð þannig. Festur vír í hornin og með því höfð áhrif á vöxt þeirra, svo var ferhyrnt, en ekki var sótt eftir því vegna þess það þótti rýrara til frálags, en þætti kannski heppilegri búskaparhættir nú, þegar lömbin eiga að vera létt. Líka var kollótt og hníflótt. Það var talið vænna fé, vel vaxin kind átti að vera breið um bóga og lend, ekki mjög háfætt, andlitsfríð og lagðprúð. Flest var féð hvítt, því ullin var verðmeiri af hvítu en mislitu, en gaman var að sjá lömbin sem voru í skrautlitum, höttótt, hvítt með svart eða mórautt höfuð, flekkótt, stundum þrílitt, golsótt, skrokkurinn hvítur en fætur og kviður dökkt. Botnótt, afturhlutinn dökkur. Arnhöfðótt, kannski dökkt með hvítan blett eins og hettu á höfði. Hálsótt þá voru dökkir flekkir á hálsi. Hosótt með dökkan einn eða fleiri bletti á fótum en aðallitur hvítur. Kannst ekki við golótt eða mögótt. Nöfnin voru svo Grána, Móra, Hvít Gul, Flekka, Botna, Golsa, Assa, Hálsa, Kolla, Hyrna, Krókhyrna, Hnífla, Svört, Frenja, Þoka, Skrauta, Gribba, Fríða, Rós, hrútar, Bósi, Dónald, Trölli, Gimbill ofl. Geitur þekkti ég ekki fyrr en á Siglufirði þegar ég var þar í síld. Þar var gömul geit, furðuleg skepna. Hún át mikið salt og vr sólgin í sigarettur.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana