LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1900

Nánari upplýsingar

Númer8605/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8605

p1
Nautgripir: Ég þekki lítið til kýrnafna sem dregin voru af hornalagi. Eina þekkti ég sem kölluð var Krubba nefnd krubbhyrnd. Ef lýst var kú var sagt að hún væri stórhyrnd, úthyrnd, krapphyrnd, öngulhyrnd eða kollótt. Nöfn nautgripa voru fremur dregin af lit svo sem Rönd, Branda, Rauðkusa, Rauðka, Krossa, Grána, Huppa, Leista, Laufa, Bletta, Skjalda, Hryggja, Dimma, Hrefna, Surtla, Sverta, Kola, Hjálma. Algengt var ef kvíga fæddist í flór að hún var kölluð Flóra. Eftir lundarfari fengu kýr nöfn eins og Frekja, Fenja, Vina, Blíða, Gæfa. Sauðfé: Nöfn voru mörg um hornalag sauðfjár svo sem hringhyrnd, úthyrnd, kúðhyrnd, öngulhyrnd, skeifhyrnd, krubbhyrnd, þríhyrnd, ferhyrnd, vaninhyrnd, kníflótt. Nöfn dregin af hornalagi: Hringhyrna, Kúða, Vaininhyrna, Skeifa, Krubba, Þríhyrna, Fera, Hnífla. Nöfn dregin af litum: Móra,Svört, Surtla, Grámóra, Grána, Héla ljósgrá, Bílda hvít með dökka vanga. Hatta hvít með svart grátt eða mórautt höfuð. Kápa belgurinn dökkur að mestu, hvítur kviður og fætur og oft hvít í andliti. Botna belgur einlitur, kviður hvítur og fram á kverk og hvítt milli læra up að rófu, dökkir fætur. Oftast hvítar doppur á augnabrúnum. Golsa belgur hvítur, dökkt andlit, kviður og fætur. Hosa dökk með hvítar hosur á fótum. Arna arnhöfðótt, dökkur belgur, hvítur kragi um háls, hvítir fætur og hvít krúna eða blesa.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana