LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1908

Nánari upplýsingar

Númer8579/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8579

p1
Auðkenni og nöfn húsdýra: Húsdýr nefnd eftir útliti, svo sem litasamsetningu. Annars var ég til þess að gera ungur, þegar ég ætti að umgangast þessa gripi og er því ófróður um þessi nöfn. En t.d. hestanöfn hljóta flest að vera enn við lýði hjá þessari reiðhestaþjóð. Ég set þá hér fáein nöfn sem koma upp í hugann. Stígandi, Sleipnir, Faxi, Korgur, Ófeigur, úði, Fantur, Garri, Breki, Hringur, Goði, SKolur, Grani, Gammur, Valur, Þröstur, Hrafn, Krummi, Röskvi, Rígil, Glaumur, Móalingur, Hæringur, Gustur, Stormur, Moli, Glámur. Svo voru Litli Rauður, Litli Brúnn osfrv. af því að fleiri rauðir hestar voru til sem aðeins voru nefndir eftir litarhætti. Ég held að flest hross hafi hlotið sitt nafn fyrir tamningu, svo þau hafi ekki fengið nöfn sín eftir gæðum eða notagildi. Hringeygður hestur hlaut ekki sérstakt nafn, þó hann væri með hing í auga. Víst gat hann heitið Hringur, en það var alls ekki nein föst regla með það. Yfirleitt var hestum ekki gefin nöfn fyrr en um það leyti og tamning fór fram og oft fór nafngift eftir fyrstu reynslu. T.d. mátti láta spakan hesta heita Spakur. Latur, Draugur Lati brúnn, Litli Rauður osfrv. Annars var svo að stórir hópar hrossa voru án nafna. Þau börðu kaldan klakann umhirðulítil og einskis virt, því miður. En gaman var að sjá þau rísa upp af morgunblundinum í grænum hvammi, þegar morgunsólin var búin að verma glansandi búkana og gróðurinn búinn að leysa af þeim vetrarhaminn. Þá brosti lífið.

p2
Það var eins með hryssurnar og hestana þær fengu nöfn eftir ýmsu útliti og lit: Svala, Rösk, Snegla, Trissa, Skorpa, Varta, Nótt, Ljónslöpp, Perla, Skessa, Stjarna. Það var þarna eins og með hestana. Yfirleitt var þetta nefnt eftir litarhætti, Brunka, Svört, Nótt, Rauðka, Bleik, Grána, Skjóna, Blesa, Sokka, Dúna. Svo var grásokka, Mósokka, Brúnsokka, Rauðsokka. Annars er það nú svo að nú er mikið um allskonar ræktun hrossa og alltaf kom ný og ný nöfn fram þar sem vonlegt er. Áður fyrr var hrossaeign bænda miðuð við brúkunarhross eingöngu og tíðum þá notuð svipuð nöfn, jafnvel ætt fram af ætt. Kýrnar: Þær voru yfirleitt mjög fáar á móti því er seinna varð. Algengustu nöfn þeirra voru einfaldlega Laufa, Búbót, Hryggja, Skjalda, Dumba. Þá var mikill meiri hluti nautgripa hyrndur og það með ýmsu móti. Ég man t.d. eftir nauti heima sem var með mjög stór horn útistandandi og vísuðu fram og upp. Eftir þessu man ég nú kannski sérstaklega, því einu sinni man ég að hann kom æðandi á móti mér með hausinn niður við jörð og varð ég þá svo heppinn að lenda akkúrat á milli hornanna og kom ekki það illa niður að ég meiddi mig ekki til muna. Annars var svo að bændur sóttu frekar eftir kollóttum kúm. Nú til dags ætti að vera mjög þægilegt að nálgast t.d. nöfn kúa. Því bændur hafa skráð svo mikið nautgripi sína upp á síðkastið eftir þá miklu ræktun sem framkvæmd hefur verið. Ég veit nú ekki hvað bændur hafa lagt mikla rækt við nöfn. Nú er það mest númer og flokkar.

p3
Sauðfé: Þar er geysi mikill fjöldi nafna t.d. Kúpa, Hringja, Spíra, Hyrna, Svört, Nótt, Surtla, Dimma, Háhyrna, Golsótt hvítt á belg og búk, svartan rass og andlit að mestu leyti. Höttótt svartur frampartur, annað hvítt. Þessar kindur voru svarthöttóttar grámórauðar. Þær voru höttóttar litur skipti ekki máli. Bíldótt máski alhvítt með svarta bauga kringum augu. Eins gat það verið af öllum litum. Svo var það nú með öllu móti flekkótt og í öllum litum. Holsótt kind var með kannski hvítan búk en svartar lappir. Annars fannst mér það sem ég þekkti til þetta vara töluvert eftir því hver maðurinn var sem tók að sér að lýsa lit einnar flekkóttar kindar. Sauðkindin íslenska er af afar mörgum kynjum. Sumir fjárstofnar eru t.d. afar spakir, annar ljónstyggur. Einn er skjannahvítur hinn gulur. Einn er háfættur annar lágfættur. Mér virtist sem unglingur að sauðfjárstofnar vera afar ólíkir. Þetta á í raun það sama um öll okkar tömdu húsdýr. T.d. er það með hestinn. Þeir eru svo ólíkir sem nótt og dagur og þá má síst gleyma hundinum. Enda svo auðséð sá miklu munur þar. Því íslenski hundurinn svo gjörólíkur öðrum stofnum sem hér bera fyrir. Ef svo væri að ég legði út í að svara til hlýtar öllum spurningum ykkar, þá mundi það leiða af sér stórar og langar ritgerðir. Ég sem ungur drengur þekkti þessa mállausu vini mína og einmitt best fyrir hvað þeir vour afa ólíkir.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana