Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1907

Nánari upplýsingar

Númer8736/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8736

p1
Nokkur hrossanöfn: Bleikur, Blesi, Brúnn, Fálki, Faxi, Fluga, Gylfi, Glófaxi, Glæsir, Gráni, Gráskeggur. Hrímfaxi, Jarpur, Léttir, Lýsingur, Léttfeti, Nasi, óðinn, Ófeigur, Rauður, Reykur, Roði, Skjóni, Smári, Sokki, Snarfari, Stjarni, Stormur, Sörli, Tvistur, Þröstur. Bleikskjóna, Blesa, Bleik, Brúnka, Díana Dúfa, Elding, Fjöður, Fluga, Freyja, Fífa, Gletta, Glóa, Grána, Gráskjóna, Harpa, Héla, Hrefna, Irpa, Irsa, Jarpsokka, Jarpgrána, Jörp, Kala, Ljónslöpp, Ljóska, Leirljós, Litla Jörp, Mýra, Molda, Nös, Olga, Palietta, Perla, Rauðka, Rauðskjóna. Silfra, Skjóna, Sokka, Stjarna, Tinna, Úranía, Vala, Venus, Viktoria.

p2
Eins og sjá má eru mörg þessara nafna sem ég hefi tínt saman úr mínum bókum á margvíslegan hátt tengd viðhorfi okkar til hrossanna. Mörg nafnanna eru vegna litar þeirra og önnur út frá ýmsum öðrum einkennum, svo sem vilja, skapi, gangi og fegurð þeirra. Hestalitir eru mjög fjölbreytilegir og skal ég nefna nokkra þeirra. Rauður, hvítur, jarpur, grár, svartur eða brúnn sem kallað er bleikur, sótrauður, moldóttur, glófextur, þá er hann t.d. rauður með mjög ljóst faxið og er hann þá máske skýrður Glófaxi. Leirljós er ein tegund af bleikum lit, móálóttur. Rauðir litir eru margir. Ljósrauður, dökkrauður, dreyrrauður, svo eru skjótt hross á marga vegu, blesótt, skottótt, stjörnótt, kinnótt, sokkótt og höttótt. Út frá þessum litum er tilvalið að fá ágæt nöfn. Svo eru nöfn sem tengjast skapi, fegurð og vilja. Einnig geta nöfn á hestum verið tengd við bæi sem þeir eru fengnir frá og líka menn sem þeir eru fengnir frá. Yfirleitt held ég að hross séu ekki skírð fyrr en þau eru fullorðin og mun það kanski vera til þess að sjá hvað í þeim býr fyrst. Þegar ég skrifa þessar línur er ég með mynd af þremur íslenskum hestum fyrir framan mig og undir myndinni stendur: Hann er fallegur íslenski hesturinn. Margt er í íslenskum bókmenntum ritað um náin tengsl manns og hests. Hann er orðlagður fyrir ratvísi, þolni og nægjusemi. Talið er fullvíst að íslenski hesturinn hafi komið með víkingum frá Noregi á landnámsöld, enda hafa landnemar ekki getað án hans verið í stóru vegalausu landi. Síðan hefur

p3
aldrei verið flutt til landsins annað hestakyn og íslenski hesturinn er því hreinræktaður víkingahestur eins og hann stundum er nefndur. Auk miðlungsstærðar er eitt af sérkennum íslenska hestsins að hann hefir yfir að ráða 5 mismunandi gangtegundum. Þe. Fetgangi, brokki, tölti, skeiði og stökki. Tölt og skeið eru gangtegundir, sem óvíða þekkjast annars staðar en á Íslandi. Myndin er tekin í sumarhaga við Egilsstaði. Margt mætti segja um ratvísi hesta, jafnvel þó þeir séu fluttir um langan veg í lokuðum bíl þá segir eitthvert skilingarvit þeim sem þeir hafa í hvaða átt þeir eigi að fara til þess að koamst heim í það land þar sem þeir voru uppaldir, því þar vilja þeir vera og hvergi annars staðar. Ég hefi átt mörg góð hross um ævina, þó ég sé nú enginn hestamaður. Svo set ég hér í endirinn 2 vísur sem ég gerði um 2 reiðhesta sem ég hef átt og á raunar enn: Með hófum kletta og klungur sker kæti rétta vekur Fallega Léttir fótinn ber fljótt hann sprettinn tekur. Eins og þjóti ör af streng er ég hleypi Þresti Engin gleði gleður dreng sem góðum ríða hesti. Mikið hefur verið ort um hesta og reiðmennsku og væri það mikið safn, ef það allt væri saman komið á einn stað.

p4
Nokkur nöfn á kúm: Auðhumla, Björg, Branda, Búbót, Búprýði, Flóra, Freyja, Gyða, Góð, Gæfa, Hnífla, Hrefna, Hryggja, Hvít, Kolbrún, Rauðka. Skrauta, Stássa, Surtla, Svört, Sunna, Búkolla. Branda. Ég hef ekki heyrt um nöfn á kúm sem dregin hafa verið af hornlagi, nema einni man ég eftir sem var hníflótt og var hún nefnd Hnífla. Hennar hníflar voru mjög litlir og lausir eins og þeir væru bara fastir í skinninu, svo það var hægt að hreyfa þá til og frá. Auðhumla og Búkolla eru bæði gömul og góð nöfn,sem ég man fyrst eftir í gömlum smásögum, sitt nafnið í hvorri, en ekki man ég nú vel söguþráðinn, sem tengdist þeim. Björg og Búbót mun vera dregið af afurðum þeirra. Þeas. Mjólkinni sem þær leggja til í búið. Búprýði, Stássa og Skrauta þeirra nöfn eru dregin af fegurð þeirra og þær taldar prýða kúahópinn. Flóra hefir fæðst í flórinn og hefir hlotið sitt nafn af því. Foreldrar mínir áttu 2 kýr, það mun hafa verið um 1920 eða þar um bil. Önnur þeirra var hvít, en hin svört. Þær voru kallaðar Hvít eða Sunna og Svört. Ég held að hvítar kýr séu mjög sjaldgæfar, amk. hef ég enga aðra séð. Gæfa hefir verið góð mjólkurkýr og aldrei verið neitt að henni og það verður að koma fram í nafninu.

p5
Góð hefir verið blíðlynd og þess vegna fengið þetta nafn. Hrefna og Turtla þurfa að vera svartar. Rauðka rauð. Kolbrún, GYða og Fryeja er u nú bara nöfn svona út í loftið: Hryggja er með öðruvísi lita hrygglengjuna heldur en kroppinn og það getur verið á marga vegu og ekki gott að lýsa því. Brandur og Branda voru eins á litinn dökkbrúndöndótt og læt ég fylgja með þessa mynd af Brandi. Hann var mjög stórt og fallegt naut og mikil kynbótagripur. Mikið og margt mætti skrifa um nöfn á kúm og af hverju þau eru dregin en ég hef það ekki á valdi mínu svo að ég læt þessu skrifi mínu lokið. En samt að endingu. Óvíst er að íslensk þjóð hefði lifað af ef hún hefði ekki haft þessar skepnur, kyr, kindur og hross til að lifa á.

p6
Sauðfjárnöfn: Askja, Alvara, Auga, Álka, Álft, Benna, Bylgja, BJört, Bjartleit, Bjarteyg, Björk, Bleiknös, Blökk, Blanda, Blaka, Bletta, Blesa, Blíð, Bauga, Botna, Brana, Branda, Brúska, Brá, Breiðhyrna, Breiðleit. Brúða, Bára, Dagfríður, Dama, Dagbjört, Dáfríð, Dagmar, Dindilbjört, Dimm, Dirgja, Dís, Doppa, Drottning, Eva, Einhyrna, Einspen, Eyra, Eygló, Eilíf, Fanna, Falleg, Fála, Fenja, Fishúfa, Fjára, Fjárprúð, Fjallasól, Fjú, Fífa, Flekka, Fín. Fagurkinn, Frænka, Freyja, Frigg, Fröken, Fríð, Fora, Geira, Geirhyrna, Gylta, BYða, Gjöf, Gletta, Gljáfögur, GLitbrá, Gleiðhyrna, Glaðleg, Glöð, Glaðhyrna, Glenna, Glókolla, Gná, Gola, Golsa, Góa, Góð, Grána, Grett, Gríður, Gremja, Gróflekka, Gráleit, Grána, Grásíða, Gráblesa Gráskjóða, Gröm, |p7 Gullhyrna, Gulbrá, Gul, Gullhnakka, Gullhúfa, Harpa, Hátign, Háleit, Háttprúð, Hetja, Heiða, Herleg, Hempa, Héla, Hýrleg, Hýreyg, Hyrna, Hláka, Hnífla, Hnota, Hnakka, Hniðra, Hosa, Hornbrota, Grein, Hress, Hreinka, Hreinhvít, Hringhyrna, Hrukka, Hrönn, Hraust, Hvítleit, Hvöt, Hækla, Hæglát, Irsa, Íris, Kanika, Kaninka, Kápa, Kempa, Kinna, Klukka, Kola, Konni, Kolla, Koldimm, Kolbrún, Koltrína, Krúna, Krubba, Kríma, Kúpa, Kúða, Kviklind, Lafhyrna, Langleit, Lagðsíð, Lágfóta,Lipurtá, Lilja, Lilla, Linda, Litfríð, Lítil, Ljúf, Ljótunn, Ljót, Ljóska, Lóló, Lúða, Lús, Lúðusystir, Löt, Mara, Maddama, Mjöll, Mjóna, Mjallhvít, Mjóleit, Minnihyrna, Morgunfrú, Móra, Mókolla, Móhyrna, Móðagrána, Mura, Mús, Mera, Naum, Náttfríður, Nurta, Ófeig, Ósk,

p8
Panna, Perla, Ponta, Prýði, Prinsessa, Randa, Rauðhetta, Raun, Reisn, Rifeyra, Rjúpa, Rjóð, Rósfríður, Rut, Rósa, Salvör, Sigin, Sigurfljóð, Skála, Skvísa, Skvetta, Skoppa, Skrýtin, SKeifa, Skrudda, Skrúða, Skýjadís, Skota, Sléttleit, Slykja, Slétt, Sletta, Slæða, Smáfríð, Snilld, Snotra, Snædís, Snót, Snæbjört, Snúra, Snjöll, Sólrún, Sóley, Sólbjört, Spjálka, Spjóta, Spýra, Stubba, Stórahyrna, Stolt, Stórakolla, Stygg, Surtla, Sunna, Sunneva, Svala, Svana, Svartkolla, Svanhvít, Svört, Tign, Tíra, Trítla, Traust, Trix, Trína, Tunna, Tvíreifa, Ugla, Unnur, Úthyrna, Vatnadís, Vola, Viktoría, Viðra, Von, Væn, Vör, Hanþippa, Þoka, Þrifleg, Þrilla, Æsa Ögn, Ör, Ögn, Örugg. Bílda, Geit, Þerna, Gæf, Alda, Nóra, Óþekkt, Drífa, Nótt, Njála, Ramóna, Krukka, Fjóla.

p9
Hrútar: Abel, Angi, Depill, Draupnir, Durgur, Fífill, Gyllir, Gramur, Hrútur, Hrani, Hreinn, Kjarni, Klettur, Kollur, Kópur, Kyllir, Ljómi, Logi, Mergur, Markús, Máni, Nökkvi, Óðinn, Plató, Prins, Roði, Skuggi, Snær, Sómi, Spakur, Svartur, Víkingur, Veturliði, Ægir, Örvar, Össur, Ötull. Þessi fjárnöfn hef ég tínt saman úr mínum gömlu og nýju fjárbókum, sem taka nú yfir æði langan tíma eða allt frá 1929, þegar ég byrjaði að búa og til þessa dags. Allan þennan tíma hefi ég hirt kindur að vetrinum, enda eru þær mínar uppáhaldsskepnur. Sum nöfnin hafa aðeins gengið eina kindarævi, önnur hafa verið notuð lengi í sömu ætt rétt eins og gerist í ættum manna. Eins og sjá má eru mörg þessi nöfn aðeins lýsing á kindinni sem heitir því. T.d. hornalag gefur tilefni til nafns og svo síðast en ekki síst litur kindarinnar og ýmislegt fleira, svo sem skapgerð hennar, fyrri eigandi hennar, og svo máske eitthvað annað í sambandi við þessa og þessa kind sem gefur tilefni til nafns og skal ég nú taka nokkur dæmi,

p10
en varla verður það tæmandi, því að svo margt þyrfti að taka fram, ef að vel ætti að vera. Ég byrja þá á kind sem hét Auga, hún var hvít með svartan hring kringum annað augað og af því fékk hún sitt nafn. Álka var kollótt óvenju hálslöng og því var nafnið dregið. Álft var óvenju snjóhvít. Brúska var með óvenju loðinn brúsk framan á enninu, en brúskur heitir ull sem vex ofan við augun á miðju enninu. Blanda synti einhvern tíma yfir Blöndu og þá var tilvalið að láta hana heita þetta. Blíð var óvenju góð í sér og þótti gott ef henni var klappað á kinnarnar. Dindilbjört var svört með hvítan dindilinn. DImma var svört. Doppa var hvít með svartan blett á bakinu. Drottning var stór og falleg á allan hátt mjög tignarleg. Fála og Fenja voru báðar mjög styggar. Féskúfa hlaut nafn af því að hún var með féskúf, en það kallast féskúfur þegar hárið ofan á nefinu skiftir sér eins og á vel greiddum manni. Fagurkinn það var mjög fríð kind. Fora var forustukinda, en þær fara á undan hópunum þegar þær eru reknar. Geira var með dökkar randir í hornunum. Svoleiðis randir í hornum eru kallaðar geirar. Góð þótti gott ef henni var klappað á kinnarnar svipað og Blíð. Góa þegar hún var lamb fannst hún ekki fyrr en á Góu. Gná er víst bara stytting á kvenkenningunni auðargná.

p11
Grön var hvít með svört hár í kringum munninn. Héla var ljósgrá. Hækla var hvít með svört hár í kringum klaufirnar. Irsa er gamalt tröllkonunafn. Kápa var hvít með svartar hliðarnar og hrygginn,. Lagðsíð var með óvenju mikla ull. Löt var vanalega aftast í hópnum sem rekinv ar. Mús var mjög lítil kind. Skota var af skosku kyni. Spjálka var með mjög stór horn. Skeifa var með horn lík í laginu og skeifur undir hest. Vör var með svarta neðri vörnina, annars hvít. Örugg hana var ekki hægt að refka ef hún vildi ekki fara sjálf, annars fara kindur út í hvað sem fyrir er ef að ein fer á undan. ÉG læt þetta nægja um nöfnin, þó að margt fleira mætti um þau segja. Fjórir aðal litir á sauðfé hvítt, svart, mórautt og grátt, svo eru oft fleiri en einn litur á sömu k indinni, en sjaldan allir. Ef hausinn er öðruvísi en skrokkurinn er hún sögð höttótt. Stundum eru kindur með hvítan skrokkinn og rassinn ogkviðinn aftan til öðru vísi á litinn og heitir það botnótt. Stundum er andlitið á kindinni svartröndótt en kindin hvít að öðru leyti. Það heitir bíldótt. Svipaður litur er á golsóttu fé, nema þar eru meira mislitar aftur eftir skrokknum, annars er ekki gott að lysa þessu nákvæmlega, það þyrfti að vera mynd af því. Í skrá 68 stendur þessi setning sem ég get vel tekið undir, að það sé alkunna að ýmsum

p12
fjárbændum hafi ekki orðið nein skotaskuld úr því að þekkja hverja sauðkind í stórri hjörð með réttu nafni og í því sambandi vildi ég nefna 2 menn sem ég man eftir sérstaklega. Þeir voru svo glöggir á fé í réttunum á haustin, að af bar. Þeir voru báðir skagfirðingar að mig minnir. Annar hét víst Friðrik, en var alltaf kallaður Friggi í Pollagerði Hann kom oft í Mjóadalsrétt á haustin að hirða fé fyrir skagfirðinga um 1930 eða þar um bil, en Mjóadalsrétt var skilarétt í Bólstaðahlíðarhr. um árabil, en er nú lögð niður fyrir mörgum árum. Friggi þessi þekkti fullorðnu kindurnar án þess að skoða markið og reyndist það oftast rétt, sem hann sagði þegar markið var skoðað og litið í markatöfluna. Hinn maðurinn sem ég nefndi var marka Hjörleifur. Hann hafði það öðruvísi. Það var sagt að hann liti ekki í aðra bók en markatöfluna, enda kunni hann hana utanbókar. Hann var ekki við að draga sjálfur í réttunum, en aðrir lýstu mörkunum og hann vissi alltaf hver átti markið. Einhverju sinni var verið að draga en hann var ekki við, en kemur að þar sem menn eru að vandræðast með kind, sem þeir voru með. Hann grípur í eyrun á kindinni og segir. Stendur heima, stíft og gagnbitað, dóttir Jóns á Krikjubæ og síðan er þetta haft að orðtaki. Hér læt ég þá staðar numið um blessaðar kindurnar.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana