Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1909

Nánari upplýsingar

Númer8544/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8544

p1
Góðir Þjóðháttafræðingar! Nú verður lítið um svör hjá mér og bið ég ykkur velvirðingar á því. Því miður er mér svo ókunnugt um allt það efni sem spurt er hér um eins og ég hefi áður greint frá í svörum mínum, hef ég aldrei búið í sveit og þar af leiðandi ekki kynnst dýrum eða á nokkurn hátt sem heitið getur nema það sem ég hefi heyrt í mæltu máli eins og t.d. um nöfn á húsdýrum. Nöfn á hestum hafa orðið til af ýmsum ástæðum og munu flest þeirra höfða mest til þeirra augnalit og ýmsum öðrum einkennum,svo sem skapferli, gæðum, fjöri og fegurð. Mig langar til að geta hér um eitt nafn á hesti, sem mér var persónulega kunnugt og kært. Það var á æskuheimili móður minnar sem var í Unaðsdal á Snæfjallaströnd. Bróðir hennar átti hest sem hét Unaður, og er ég ekki í neinum vafa um að það hefur verið dregið af nafni staðarins og einnig að hann hafi verið úrvals reiðhestur, því til staðfestingar set ég hér smá frásögn. Þegar móðir mín átti sitt fyrsta barn var blessuð ljósmóðirin sem var mikið líkamlega bækluð sótt á Unaði út á Snæfjallaströnd þar sem hún átti heima. Annar hestur þótti ekki betri til að þjóna því hlutverki, enda hafði hún lofað hann og prísað að lokinni ferð fyrir góða þjónustu. Ekki veit ég til að nokkur annar hestur hér á landi hafi borið þetta fallega nafn nema hann Unaður í Unaðsdal og því set ég þetta hér, af því þetta er svolítið sérstakt, því það eru

p2
svo fjöldamargir hestar sem heita sömu nöfnum. Eg vissi um einn hest í mínu byggðarlagi sem hét Gulltoppur. Mun hann hafa haft gulleitan ennistopp eftir nafninu að dæma. Þetta er það eina sem ég veit um hesta. Sjálf hefi ég aldrei setið hest sem heitið getur. Um nautgripi veit fafar lítið. Hef aðeins heyrt nöfn á nokkrum kindum án þess að vita fyrir víst um tilurð þeirra. Ég tel að litur og sérkenni þeirra ráði mestu um nafngiftina, einnig hornalag, sbr. nafnið Hyrna. Ég hef heyrt nafnið Blúnda á kind og finnst mér líklegt að hún hafi verið lagðfalleg og mórauðar kindur kallaðar Mórur, og svona má lengi telja. En hér læt ég nú staðar numið sökum þekkingarskorts. Mér finnst nafnið Búbót á kúm hljóti að koma til af nythæð þeirra og smjörgæðum. Geitfé hefi ég séð en meira ekki. Ég bið svo afsökunar á þessum ófullnægjandi svörum mínum og takið viljann fyrir verkið. Ég óska svo Þjóðháttadeildarfólki öllu gleðilegs árs og góðsgengis, með þökk fyrir samskiftin á liðnum árum. Þökk fyrir jólakortið.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana