Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1919

Nánari upplýsingar

Númer8917/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1987
Nr. 8917

p1
Komið þið sæl! Þið senduð mér skrá 68 í des. 1987. Að vísu er ég Jónasson ekki Jónsson eins og skráð er á umslagið. Ég hefi nú alltaf ætlað að svara bréfi ykkar, en það hefur dregist og engin sérstök ástæða fyrir því, nema leti og einnig það að mér finnst nú einhvern veginn að ég hafi ekkert fram að færa sem þið hafið ekki nú þegar. Ég var nú aldrei í hópi þeirra bænda sem þekktu allar sínar kindur með nöfnum. Hjá mér voru það eyrnamerkin sem ég þekkti kindurnar mínar á. Mundi númerin frekar en nöfnin, þó þau væru fyrir hendi. Einhvers staðar á ég að eiga ærnafnavísur sem hefjast svo: Að ég hripa ærnöfn fór upp úr ..... minni Þankasvipur þó er mjór því mig fipar vesöld stór. Yfir kindum oft ég stóð uppi á tindum, hólum hreyfði yndi hryggjarslóð þó herti vindur kuldaflóð. Mér til stunda styttingar stíla mundi nöfnin tvær og hundrað tvinnar þar tíu fundnar viðbættur. Mig minnir fastlega að vísur þessar séu til á prenti og þá ykkur að sjálfsögðu kunnar, því hef ég ekki leitað að þeim í dóti mínu heldur skrifað vísurnar eftir minni og læt eina ærnafnavísuna fljóta með: Branda, Brúða, Breiðhyrna Bjartleit, Lúða, Spíra Hekla, Kúða, Hrynhyrna Hæglát, Skrúða, Týra.

p2
Man ekki eftir öðrum orðum um hornalag nautgripa en tilgreind eru í bréfi ykkar. Nöfn eins og Hyrna, Hnífla ofl. eru dregin af hornaglai. Nöfn dregin af lit: Húfa, Huppa, Hryggja, Grána, Branda, Rauðka, Þrílit, Sveskja, Surtla, Skrauta, Flóra, Frenja, Skessa, Gæfa, Gyðja, Reiður, Frekja, Búbót, Búkolla eru af ýmsum tilefnum.

p3
Hestar: Þekki flest litanöfn hesta sem upp eru talin. Muskóttur kannast ég ekki við. Hestar með ljósan hring í auga öðru eða báðum voru kallaðir glaseygðir og nafnið Glæsir oft af því dregið og eins Glámur. Engri reglu man ég eftir um að hvenær hross voru skírð. Oft voru nöfnin tengd vaxtarlagi eða lit t.d. Háleggur, Jarpur, Bleikur, Glói, Tvístjarni. Þristur þrístjörnóttur. Blakkur, Brúnn, Skuggi, Krummi, Hrafn, Mósi, Gráni, moldi, Lýsingur, Léttfeti, Sörli, Þytur, Sokki, Skjóni, Gráskjóni, Móskjóni, Jörp, Skjóna, rauðka, Grána, Mön, Fjöður, Snegla, Sunna, Stjarna, Per,a. Ekki er hægt að neita því að hross taka stundum nöfn af fyrrverandi eiganda eða þeim bæ sem þau eru frá og gat oft farið vel á því, en gat þó stundum verið misnotað, þe. gert í niðrunarskyni við þann sem hrossið átti áður. Faðir minn keypti rauða hryssu af Sigfúsi á Króksstöðum, líklega um 1925 og var hún kölluð Siffa.

p4
Sauðfé: Hornalag, stórhyrnd, úthyrnd, hringhyrnd, skeifhyrnd, kúphyrnd, vaninhyrnd, afturhyrnd. Nöfn dregin af hornalagi: Kúpa, Vaninhyrna, Langhyrna, Stutthyrna, Hringja, Skeifa, Hringhyrna. Litir hvítt, svart, svargolsótt, mógolsótt, golsótt, kolótt = Kola, Kríma, Hríma, Hula. Mórautt ljómsórautt, dökk mórautt, grámórautt, grátt, ljósgrátt, grábotnótt, móbotnótt, svartbotnótt, arnhöfðótt, svartflekkótt, móflekkótt. Nöfn dregin af ullarlit. Mjöll, Gul, Svört, Surtla, Sveskja, hrefna, Móra, Hosa, Hatta. Fossa keypt frá Fossi. Ófeig fór niður um snjóbrú á læk og fannst lifandi nokkrum dögum síðar.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana