LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiDaglegt líf
Spurningaskrá86 Daglegt líf í dreifbýli og þéttbýli á 20. öld

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1916

Nánari upplýsingar

Númer11299/1994-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.11.1994
TækniSkrift
Svörin eru miðuð við Ísafjörð.

I.

1.
Ég fæddist í húsi Magnúsar Ólafssonar. Sólgötu 1 (Gatan var áður kölluð Steyphúsgata, vegna þess að þar var fyrsta steinsteypta húsið á Ísafirði byggt, og kannski á öllu landinu).

Í þessu húsi man ég ekki eftir mér, en ég held þar hafi verið búið þröngt, því ég heyrði seinna að á sama tíma hefðu búið þrjár fjölskyldur og kannske fleiri um það leyti, sem ég fæddist. Steinna tók Magnús Ólafsson húsið allt til eigin nota. Ég veit að við bjuggum á fleiri stöðum, en ég veit ekki hvar.

Ég man lítillega eftir mér í húsi á Torfnesi, sem gekk undir nafninu Franski spítalinn. Var byggt, sem sjúkraskýli fyrir franska sjómenn.

Ég man fyrst vel eftir mér í „Vallaborg“. Vallaborg var byggð til að bæta úr sárasta húsnæðisskortinum sem var algjör á fyrstu árum eftir fyrri heimsstyrjöldina. Vallaborg var tveggja hæða steinhús með trégöflum. Þrjú stigahús eins og nú er sagt. Í hverju stigahúsi voru fjórar íbúðir, tvær niðri og tvær uppi. Stigahúsið, eða inngangurinn var byggt út úr húsinu. Þar var stigi upp á efri hæðina og niður í kjallarann, báðir úr tré. Steinsteyptur veggur var á milli stigahúsanna, eða réttara sagt , hverjar fjórar íbúðir aðskildar með steinvegg.(Þá kallaðir brandveggir).

Inngangur var beint í eldhúsið og stofan þar innaf. Dyrnar í næstu íbúð við hliðina og fyrirkomulagið eins. Ekki var eldfastur veggur á milli þessara tveggja íbúða, og íbúðirnar uppi alveg eins og þær niðri. Einn reykháfur var fyrir hverjar fjórar íbúðir. Eldavél kolakynt og kolak.ofn í stofu. Ekki var rafurmagn lagt í húsið fyrr en 1938-39. En ég man eftir þegar skólpleiðsla var lögð í húsið og eldhúsvaskur, en vatnssalerni kom um líkt leyti og rafmagnið, en þó nokkru fyrr. (leiðrétt: Vaskur í eldhús ca 1928).

Það voru þrír útikamrar, sem fylgdu húsinu. Íbúðin hefur líklega verið milli 40 og 50 fermetrar og fylgdi kjallaraherbergi með hverri íbúð, og var það jafn stórt og stofan og eldhúsið. Eldhús og stofa voru jafn stór. Geymslur skiptust þannig. Neðri íbúð hafði innra kjallaraherbergi, sem var betra með stærri glugga. Efri íbúðin hafði fremi geymsluna, og var gengið í gegnum hana í innri geymsluna, en efri íbúðin hafði líka þakgeymsluna (háaloftið) og var tréstigi upp úr eldhúsinu. Við systkinin vorum 9. Átta bræður og ein systir tíu árum eldri en ég. Einn bróðirinn næst elstur var alinn upp hjá skyldfólki og systirin varð eftir hjá afa og ömmu í Grunnavík þegar pabbi flutti til Ísafjarðar. Það var þröngt búið. Sjö bræður og foreldrarnir í 45 ferm. íbúð. Elsti bróðirinn fór snemma á sjó. Þá rymkaðist á meðan. Hann giftist líka ungur og fór að heiman. Þrengst var heima frá því ég var sex ára til tíu ára aldurs (enda ekki pláss). Borðstofuborð, „kommóða“ og koffort. Hjónarúm og annað rúm, bæði sundurdregin í notkun, en hægt að ýta þeim saman svo þau styttust um helming. Þá voru rúmföt, sem legið var á í „flatsæng“ sett upp í þessi tvö rúm til geymslu á daginn. Það var líka til „harmonikubeddi“. Honum var þrýst saman eins og harmonikubelg þegar hann var ekki í notkun og lokaðist þá með breiðri fjöl, þegar búið var að fella hann saman og var þá hægt að sitja á honum. Þetta var bagalegt fyrir þá, sem voru kvöldsvæfir sem og ég var, og sofnaði ég oft einhversstaðar á gólfinu úti í horni.

2.
Ég man bara eftir þessum einu flutningum en þó óljóst.

3.
Vatn frá byrjun. Eldhúsvask um átta ára aldur.

4.
Kolaeldavél, olíuvél, prímus, venjuleg mataráhöld ásamt hakkavél, sem var mikið notuð af okkur bræðrunum (okkur þóttu góðar fisk og kjötbollur).

5.
Heima voru ódúkuð trégólf. Ekki vóru steinstéttir né malbik svo for barst inn á gólf á skóm. Við bræðurnir byrjuðum snemma að þvo gólfin. Aðallega þó eldhúsgólfið. Við bræðurnir, ég og Sigurður, sem var fjórum árum eldri en ég vorum látnir skúra saman. Það lenti eðlilega meira á þeim tólf ára en þeim átta ára. Móðir mín sá um hreinlætið. Ég man nú ekki hve oft var gert hreint. Líklega tvisvar á ári. Þá tekin niður gluggatjöld, þau þvegin og gluggarnir. Grænsápa var mikið notuð. Borin var grænsápa í það sem skítugast var og lagt í bleyti. Stanga sápa var mikið notuð við þvott á fötum svo og Flikk og Persill, sem var þvottaduft. Þvottur var þveginn í eldhúsinu. Notaðir voru trébalar til þvotta, þvottabretti skrúbbar (sumir skrúbbarnir voru samskonar og notaðir voru til fiskþvotta, en grófari skrúbbar notaðir á gólf og utanyfirföt Skrúbbur=bursti). Þvottur var soðinn í stórum potti á eldavélinni.

Það var hjálpast að við hreingerningar og þvotta, eftir getu hvers og eins. Kona sem gekk í hús og þvoði þvotta fyrir gjald, kom viku til hálfsmánaðarlega og þvoði aðalþvottinn. Hún tók átta krónur fyrir þvottinn. Þegar þveginn var stórþvottur var þröngt í eldhúsinu. Eitt sinn þegar ég var fimm ára og verið var að þvo stórþvott, var ég að snúast í eldhúsinu, einn bræðranna að þvo upp, og nýbúið var að færa þvottinn upp úr suðupottinum í bala sem stóð við eldavélina. Ég gekk afturábak, rak hælana í balann og hlammaðist á rassinn ofan í balann, með sjóðandi heitum þvottinum og suðuvatninu. Ég brann töluvert á rassinum og bakinu. Ég var rifinn úr fötunum og þakinn með kartöflumjöli, og borinn í rúm. (Svona lagað gleymist ekki).

6.
Hér um bil vikulega um rúm og nærfatnað. Sjaldnar um utanyfirfatnað.

7.
Í eldhúsinu. Vísa til nr.5. Þvotturinn var skolaður í læk sem rann skammt frá húsinu.

8.
Þegar við vorum yngri vorum við þvegnir upp úr þvottabölum. 1925 var sjúkrahús Ísafjarðar byggt. Þar voru baðklefar, sem leigðir voru út og kostaði eina krónu baðið. Sjúkrahúsið var stutt frá heimilinu okkar. Eftir að við fengum eldhúsvaskinn (var þá 7-8 ára) byrjuðu eldri bræður mínir á því að þvo sér niður að mitti iðulega og tókum við yngri það upp eftir þeim. Þessi vaskur var steyptur vaskur emileraður að innan, og enginn tappi í botninum. Hann var skrúfaður á vegginn og allar leiðslur utan á veggnum. Stór og ljótur, en okkur fannst það ekki þá. Við urðum því að hafa vatnsfat hjá okkur við vaskinn ef við vildum hafa heitt vatn til þvotta. Heitt vatn var af skornum skammti. Í eldavélinni var vatnspottur, fyrir aftan eldhólfið, og tók nokkra lítra. Aldrei sauð í þessum pottum, en þó vel volgt. Annað vatn heitt þurfti að hita í potti á eldavélinni. Handþvottur eftir þörfum.

9.
Heima sá ég aldrei spítt á gólf. Lús var útlæg. Ég sá lús. Geitur sá ég aldrei. Einn vetur komu yngri bræður mínir heim með lús. Pabbi þvoði hár þeirra með steinolíu og síðan makað á þá grænsápu og marg þvegið og skolað og þá var það vandamál úr sögunni.

10.
Pabbi átti kindur og geitur.

Í morgunmat var oftast kaffi og brauð (kannske mjólk). Mjólk var af skornum skammti á Ísafirði. Töluvert var um geita eign á Ísaf., og mjólk úr þeim nýtt. Ekki man ég hvernig geitamjólkin var á bragðið, en hana drukkum við, sauðamjólkina líka. Hádegismatur, fiskur og grautar flesta daga vikunnar. Sunnudaga nýtt kjöt, á miðvikudögum saltkjöt. Kvöldmatur: hafragrautur, slátur, oftast súrt. Pabbi keypti alltaf súr, sem var hafður út í hafragrautinn, eins voru líka súrsaðir lundabaggar, vélindin, bringukollar og fleira. Súr þekktist ekki nema á vestfjörðum og eitthvað norðantil í Dalasýslu. Súr er mjólkurafurð búin til á svipaðan hátt og skyr, en látið súrna. Misjafnt var hve súrinn var þykkur. Því sumir síuðu eitthvað af mysunni frá. ( Hann (súrinn) var þykkur, sem við fengum frá Stíg frænda okkar á Horni). Mamma sá um matreiðsluna, við bræðurnir hjálpuðum til eftir getu.

11.
Kjöt var saltað í tunnu (eikartunnu). Læri komið í geymslu í „Íshúsi“. Sviðnir hausar og lappir. Búnir til lundabaggar, slátur soðið og súrsað. Sauðfjárafurðir fullnýttar og var það mikil búbót. Soðmatur var ódýr. Svo voru eldri bræður mínir sjómenn. Meira var notað af nýjum fiski. Ýsa og steinbítur voru ekki eins góð útflutningsvara og eftir að hraðfrystihúsin komu. Þá var nær eingöngu saltfiskur.

Á barnsárum mínum var lítið um garðrækt. Það skorti land til garðræktunar. Þegar ég fór í sveit fékk ég kartöflur og rófur í kaup. Þegar ég var 12-13 ára fékk pabbi erfðafestuland til túnræktunar. Þar komum við upp kartöflu og rófugarði. Þá var ekki kálmaðkurinn til að hrella mann. Við fórum til berja fram á Seljalandsdal, þar sem nú er skíðaland Ísfirðinga, en mest af þeim átum við fersk, eða seldum til að fá vasaaura. Smávegis sultað með rabbarbara ef hann fékkst. Auðvita hafði þetta mikla þýðingu fyrir afkomu heimilisins. Okkur skorti frekar föt en mat.

12.
Ekki voru teljandi breytingar á matarvenjum okkar frá sumri til vetrar. Slátur náði nærri saman. Á vorin komu svartfuglseggin til Ísafj. frá Hornbjargi. Það var mikil tilbreytni. Valin egg kostuðu 25 aura stykkið, óvalin 10-15 aura.


II. Heilsufar.

1.
Sjúkrahús Ísafjarðar var byggt 1926. Þá var gamla sjúkrahúsið tekið sem elliheimili. Áður hafði „Elliheimilið“ verið í kjallara Hjálpræðishershússins, sem var tiltölulega nýbyggt. (Samningur milli bæjarins og hersins). Vilmundur Jónsson var Héraðslæknir, Kristín kona hans var líka læknir.

Eiríkur Kjerúlf og Halldór Georg voru líka í Ísafirði. Einhvern tíma voru þeir allir á Ísaf., því ég man eftir Skúla Halldórs og Kjella Kjerúlfs. Vilmundur var sjúkrahúslæknir, og mjög vel liðinn. Ég veit minna um hina tvo áðurnefndu. Kjartan Jóhannsson kom til Ísafj. þegar ég var í gagnfræðaskóla. Ísafjörður hefur haft góðu læknaliði á að skipa. Þá voru tveir tannlæknar. Steinback og Baarregaar. Baarregaar var danskur. Steinb. flutti suður nokkru eftir að Baarregaar kom til Ísafj.

2.
Það var ekki farið til læknis með smá skeinur og gigtveiki. Ég fékk brjósthimnubólgu og fór tvisvar á Sjúkrahús Ísafjarðar, þá var ég 12 og 13 ára og fram á 14. ár. Ég missti mikið af vetrinum fyrir ferminguna úr skólagöngunni. Vilmundur læknir tók úr mér hálskirtla þegar ég var 10 ára.

3.
Ég man eftir nafninu „Helga hómópati“, hún var orðin gömul kona þegar ég vissi hver hún var. Eitt sinn var leitað til hennar, en ekki eftir að ég man eftir mér. Ég heyrði líka talað um Englending sem stundaði trúboð og lækningar, líklega Hvítasunnumaður. Ég heyrði að hann hefði verið vel liðinn. Kannske var hann með eitthvað læknisnám. Þetta hefur verið áður en ég fæddist og hann verið kallaður út í herinn. Eftir stríð lauk hann læknisnámi. Pabbi hafði nokkurn áhuga á þessum manni. Hann hét Nysbeth. Ég hef aldrei séð það skrifað, og eflaust ekki rétt stafsett, en ef maður hefur þrjá fyrstu stafina með íslenskum framburði þá kemur nafnið rétt út. Gæti verið að hann hafi komið aftur til Íslands og þá til Akureyrar.

4.
Taugaveikis faraldur braust út þegar ég var 9 ára. Veikin var rakin til sveitabæja inn í firðinum, þrír bæir voru settir í 20 ára sóttkví. Þeir máttu ekki selja afurðir sínar til bæjarins. Ung stúlka úr næstu íbúð við okkur dó, ásamt fleirum sem ég þekkti ekki. Börn vissi ég um sem dóu úr barnaveiki, en þekkti lítið. Sullaveiki þekkti ég ekki. Holdsveiki ekki heldur. Stífkrampa kynntist ég ekki. Berklum kynntist ég of mikið. Brjósthimnubólga flokkast undir berklalög. Systir mágkonu minnar dó úr berklum þegar ég var krakki. Konan sem elsti bróðir minn giftist, (systir Torfeyjar sem dó úr berklunum), var ekkja með þrjú börn. Þau voru öll berklaveik en ég held að aðeins elsta barnið Efemía hafi dáið úr berklum úr næsta nágrenni. Vinafólk en ekki skylt. Tveir bræður mínir fengu berkla. Magnús og Eiríkur. Magnús dó á Vífilstöðum 1945. Eiríkur var höggvin, sem kallað var. Rifin voru fjarlægð annasvegar, og það lungað látið falla saman. Eiríkur dó í svefni, líklega úr hjartabilun því hann blánaði eftir andlátið.

Það var mikið um berkla á Ísafirði. Eflaust hefur þröngbýlið átt hlut að því máli.

Ég nefndi brjósthimnubólgu hér fyrir ofan, og þar datt úr hjá mér að ég var tvisvar á „Sjúkrahúsi Ísafjarðar“ með brjósthimnubólgu um tólf ára aldurinn nálægt sex mán. í hvort skipti. Pabbi fékk Spönsku veikina og beið þess aldrei bætur. Mamma fékk barnsfararsótt þegar hún eignaðist fyrsta barnið. Hún var ekki heilsuhraust eftir það. Það var fyrsta barn af tíu, stúlka sem dó nýfædd. Pabbi og mamma voru á Sjúkrahúsi Ísafj. þegar ég var 10-12 ára. Pabbi fyrst og seinna bæði.

5.
Eins og áður segir voru töluverð veikindi í fjölskyldunni en ég veit ekki dæmi um að heilu fjölskyldur hafi látist, en tveir og þrír úr sömu fjölskyldu og þá helst úr berklum. Ég slapp vel og var talin sérlega hraustur af trúnaðarlækni tryggingafélagsins. Sigurður bróðir minn fékk ekki tryggingu keypta, þó var hann hraustur maður, aldrei misdægurt, en hann var með berklabakteríuna í sér. Hann fórst í sjóslysi.

6.
Ég kynntist ekki farsóttum, nema þessari taugaveiki, sem ég hefi nefnt og svo þessari „Brjóstveiki“ eins og hún var kölluð í gamla daga. (Brjósthimnubólga, Lungnabólga og berklarnir).

7.
Eflaust var það mikil ógnun heimilinu þegar heimilisfaðirinn og móðirin voru heilsulaus. Þá voru engar tryggingar, og litlir peningar fyrir læknishjálp og meðulum. Veikindi voru töluverð rædd, en lítið um drauma. Það var rætt um lækna. Yfirleitt var þeim læknum, sem ég þekkti til hrósað.


III. Vinna barna.

1.
Við bræðurnir byrjuðum snemma að snúast í kringum rollurnar hans pabba. Það var fært frá þegar ég var krakki. Fimm til sex ára fór ég að sækja ærnar „út á hlíð“ Eitthvað var ég fiskvinnu. Breiða saltfisk á grjótreita og umstafla saltfiski. Líklega hef ég verið átta ára þetta eina sumar, sem ég vann í fiskinum. Ég fór í sveit 9 ár gamall. Bærinn hét Tunga og er fyrir botni Skutulsfjarðar. Ég var kallaður „MJÓLKURPÓSTUR“ Ég fór með mjólk út á Ísafjarðarkaupstað á hesti, ýmist með kerru eða reiðinghest. Ég þurfti að skila til fastra kaupanda þeirra mjókuríláti sem var oftast flöskur, nema á Sjúkrahúsið og Elliheimilið sem fengu mjólkina í 20 lítra brúsum. Það var erfitt fyrir 9 ára strák, en ég var stór eftir aldri. Þegar mjólkurferðinni var lokið, (sem tók 4-5 tíma) tóku við ýmsir snúningar. Fyrsta sumarið mitt í Tungu var fært frá. Þá varð ég að smala á kvöldin ef ærnar komu ekki heim sjálfar, sem þær gerðu oft. Ég náði alltaf í hestana þegar þess þurfti. Hestarnir voru þrír, allt kerrujálkar. Svo þurfti að sækja kýrnar, ef ekki var annar krakki yngri til þess. Það var farið í „Mógrafir“ og stunginn upp mór til eldsneytis. Mér fannst gaman í móvinnunni. Mónum var grindað til að þurrka hann. Síðan þurfti að „heykja“ hann og keyra heim og stafla í mógeymsluna. Mótekja var bæði í Tungudalnum og eins í Leynilág, sem var upp á Hnífafjalli. Það þurfti að reiða móinn niður á veg (leiðin vestur í Önundarfjörð).

Þaðan var mónum ekið á hestkerru heim. Það var líka heyjað fram á fjöllum, og heyið reitt niður á jafnsléttu og ekið heim á langkerrum. Þetta átti við Tungudalinn, en úr slæjum úr Leynilág og Austmannsfjöllum var reitt niður á veginn í Dagverðardal (leiðin í Önundarfjörð). Ég var notaður í þessa flutninga. Var strax laginn við hesta. Svo var það vinnan við heyþurrkunina. Ég var aldrei í slættinum. Ekki má gleyma vorvinnunni, raka saman húsdýraáburðinum, mala hann í taðkvörn og bera (dreifa) aftur á túnin.

Eftir fermingu vann ég í algengri saltfiskverkun og í „Íshúsi“. Það var eingöngu frysting á beitusíld. Þá var nýlega búið að setja upp frystitæki, en hafði verið fryst með kuldablöndu, sem var framleidd með snjó og salti. Ég var orðin kunnugur þessari frysti aðferð því pabbi vann í ísstússi, og maður var að forvitnast þar þegar maður var að færa pabba kaffi.

Við áttum heima út í „Krók“ (Sauðakrókur á landakorti). Þar áttu menn árabáta, og svo voru settar vélar í stærri árabátana, og þá voru komnir trillubátar. Við vorum ekki háir í lofti þegar við fórum að stokka upp lóðir fyrir trillukarlana, sem allir voru kunningjar okkar. Seinna fengum við svo að læra handtökin við að beita lóð, og þá þurfti maður að vera svo stór að maður næði yfir balabrúnina og ná niður á botn til að leggja niður fyrstu krókana. Við fengum 10 aura fyrir að stokk'upp lóð (100 króka) en 25 aura fyrir að beita lóð.

Við fengum líka lánaða minni róðrarbátana, og rérum til fiskveiða fram á fjörðinn. Þetta svæði var norðan til á eyrinni. Þarna ólust upp góðir sjómenn.

2.
Ekki veit ég til að börn hafi byrjað svona snemma að vinna nema sem leik eða til að fá sér aura fyrir sendiferðir (og stokka upp lóðir þar, sem bátar voru). Sumir krakkar komust í vinnu við að breiða saltfisk, en varla fyrr en um 10 ára aldur og þá með foreldrum eða áttu heima nálægt fiskreitum. (Fiskreitar voru ekki í mínu nágrenni nema smávegis breitt á fjörukamb, en trillubátasvæði og þrjú íshús af fjórum.

3.
Það munaði um hvað sem var. Sem dæmi heyrði ég foreldra í næstu íbúð segja: Það munar þó alltaf um matinn, sem hún fær. Þarna var um unga stúlku að ræða dóttur hjónanna, sem vitnað er til, en stúlkan réði varla við barnið sem hún var að passa.

Þetta viðhorf held ég að hafi ráðið miklu eða mestu. Það má auðvita segja að vinnuþjálfun í hófi hafi verið til góðs að einhverju leyti, eins og var með stráka sem lærðu ungir að stokka upp og beita lóðir. Allir strákar í Króknum kunnu að róa og fara með róðrarbáta.

4.
Smávegis hefur kannske verið lagt heldur hart að börnum við vinnu, en ekki vissi ég mikið til þess, og þá frekar í sveitinni. Ég var í sveit hjá góðum húsbændum, og nógan mat var þar að fá. Ég tel mig hafa haft gott af veru minni í Tungu. Það var alfarið pabbi, sem réði minni vist í Tungu og ég var alveg sáttur við það.

5.
Já. Yfirleitt byrjuðu börn frá velstæðum heimilum ekki að vinna eins snemma og þeir sem minna höfðu handa á milli, og þau börn, sem komu frá velstæðum heimilum fóru ekki í sveit nema þá til skyldmenna.

6.
Nei, ekki vissi ég til þess nema í örfáum tilvikum, eins og með litlu stúlkuna sem var ekki nógu sterk til að lyfta og bera barnið, sem hún átti að passa og fékk að borða fyrir. Ég heyrði um börn, sem var misboðið, og þá frekar úr sveitavist. Fólkið í Tungu var hneikslað á því að drengur á öðrum bæ var látinn „vinna á túni“ þegar hann kom heim frá fermingunni. „Þetta var tökubarn“.


IV. Heimanám barna.

1.
Á heimilum á Ísafirði vissi ég ekki um kvöldvökur í því formi, sem var á sveitaheimilum. Ég var einn vetur í Tungu (veturinn sem ég var 12 ára). Þar var alltaf lesinn húslestur á hverju kvöldi og sungnir sálmar. Húslestur var lesinn alla sunnudaga allt árið og þá um miðjan daginn. (Hundarnir tóku líka þátt í helgihaldinu og spangóluðu með sálma söngnum).

2.
Ekki mikið, enda plássið lítið. Pabbi keypti á þessum árum Alþýðublaðið. Þau komu að sunnan mörg í einu eftir því hve langt var á milli ferða. Þá voru neðanmálssögurnar lesnar upphátt, og fleiri en heimilismenn komu til að hlusta á. Pabbi las og allir hlustuðu í grafarþögn. Það var lesið í eldhúsinu. Ég man best eftir Tarsansögunum. Húsbóndinn í næstu íbúð, Sigurður, kallaður Siggi á Nesinu. Gildrunes hét smánes utan til við Krókinn. Þar átti Sigurður timburbæ, sem ég man vel eftir og þá kominn í eyði. Við fórum alltaf framhjá þessum bæ þegar rollur voru sóttar og reknar í hagann. Þetta var leiðin út í Hnífsdal. Sigurður var alltaf kenndur við Gildrunes bæinn og kallaður Siggi á Nesinu.

Siggi á Nesinu las fyrir okkur krakkana sögur á kvöldin. Hann átti handskrifaðar sögur, sem hann las fyrir okkur. Best man ég eftir „Krókarrefssögu“ og „Vilmundar sögu viðutan“ Við vorum spenntir fyrir hetjusögunum. Friðþjófssaga frækna var ein af skrifuðu bókunum hans. Menn lögðu það á sig að fá lánaðar bækur og skrifa þær allar upp. Það voru fleiri bækur lesnar eins og Simbilina fagra og fleiri slíkar, en þær voru ekki eins góðar í okkar augum.

3.
Skólaskylda var við 10 ára aldurinn, þegar ég varð skólaskyldur. Ég byrjaði lestrarnám sjö-átta ára að ég held. Gömul kona Halldóra hét hún og átti heima í Króksbænum, kenndi mér og fleirum. Fyrst byrjaði hún að kenna okkur að þekkja stafina og stafa. Þá að kveða að og síðan að lesa. Það voru bara einkatímar hjá gömlu konunni. (Skrift og reikn. fékk ég tilsögn í hjá pabba) Stundum var erfitt fyrir okkur strákana að sitja við lestrarnám og fylgja línunni eftir með aðstoð bandprjóns gömlu konunnar. Maður var allur á iði, biðum bara eftir að komast út og í fjöruna. Jafnaldri minn og besti vinur og félagi, var líka í lestrarnámi hjá Halldóru. Hann hét Magnús Kristjánsson, sonur Kitta í Krók. Hann átti heima á Króksbænum og var kenndur við eins og fleiri, sem þar áttu heima. (Í Króksbænum bjuggu þrjár fjölskyldur). Eitt sinn er Maggi var í tíma Hjá Halldóru, var von á bræðrunum Kitta og Geira af sjó. Við þurftum alltaf að vera við þegar „Metta“ kom að landi, og biðum við þá í „Vörinni“ þ,a,ð, það. Ætli hann pabbi sé ekki kominn að var sagt að Maggi hafði sagt. Við Maggi lærðum áralagið á „Mettu“.

4.
Ég held að almennt hafi ekki verið lært í Kverinu fyrr en á öðru eða frekar á þriðja ári í barnaskóla. Veturinn sem ég var í Tungu lærði ég kverið. Áður hafði ég lesið „Biblíusögur“. Vegna lesturs í „Húslestrarbókum, sem maður hlustaði á kannaðist maður við flest í „Biblíusögunum“ og „Kverinu“.

Gamall maður, Elías hét hann, sem mamma og pabbi þekktu úr Grunnavíkinni, kom stundum heim og bauðst til að lesa húslesturinn. Mamma átti Péturspostillu og Biblíu frá 1866. Biblíu....

5.
Ekki man ég eftir miklum hvatningum heima, en þó hælt þegar komið var með góðar einkunir heim. Aðstaða til heimanáms var ekki góð. Ein stofa, sem var svefnherbergi líka. Eitt borð, og voru þá stundum árekstrar um not á borðinu. Ég naut aðeins stuðnings Sigurðar eldri bróður míns, sérstaklega í landafræði. Reikningur og skrift lágu létt fyrir mér og minnið gott, svo ég þurfti ekki að lesa oft til að kunna lexíuna. Pabbi og mamma skrifuðu bæði sérlega vel. (Ég var líka hissa á hvað mamma var góð í reikningi við þau skilyrði, sem þá voru.) (Ari Arnalds kenndi pabba skrift og reikning).

6.
Ég sá aldrei prest á heimili mínu nema þegar yngsti bróðir minn var skírður. Það virðist hafa verið aflagt í mínu ungdæmi. Kannske hefur það verið vegna þess að prestar komu í hús og tilkynntu dauðsföll vegna slysa. Það var mikið um skipsskaða á Ísafirði á þessum árum, og haft fyrir satt að prestar hafi helst ekki farið út eftir að stórviðrum slotaði í sjávarplássum. (Þetta heyrði ég um Vestmannaeyjar og Ísafjörð á fullorðinsárum). Okkar prestur hafði ekki afskipti af kristinfræðikennslu fyrr en fermingarundirbúningur hófst.

T.d. um prestaheimsóknir: Ég var vélstjóri á M/S Esju skipi Skipaútgerðar Ríkisins. Við vorum nýflutt í Laugarnessókn. Dyrabjöllunni var hringt og Svafar sóknarpresturinn stóð utan dyra. Selma konan mín fór til dyra. Henni varð svo mikið um að hún hljóp inn því hún þekkti prestinn og hélt að hann væri að boða váleg tíðindi. Móðir hennar fór til dyra og talaði vð prest og málin skýrðust. Hann var bara að koma í kynningarheimsókn. Þetta var á stríðsárunum.

7.
Ekki var ég var við að kviðið væri fyrir því, sem kallað var „að ganga til prestsins“. Eins og áður er sagt var ég ekki var við húsvitjanir. Í barnaskólanum sá Sigurður (stúdent) skólastjóri um kristinfræðina, og kenndi með mikilli prýði, en aðeins í efstu bekkjunum.

8.
Tæplega tel ég að Íslendingasögur hafi verið lesnar fyrr en á 9 ára aldri. Börn lásu ævintýrabækur. Sautján ævintýri. Grímsævintýri. Æskan og Bernskan og fl. Nokkuð var lesið af þjóðsögum. Tröllasögum, álfasögum, huldufólkssögum og útilegumannasögum.

Síðan komu bækur eins og Ívar Hlújárn, Hrói höttur, Ben Hur, Persivarl Keen. Guliver í Putalandi, Oliver Twist, Perlumærið. Skytturnar las Siggi á Nesinu fyrir okkur, en ég las þær aftur seinna. Sem sagt. Eftir Íslendingasögurnar komu hetju sögur. Svolítið af Indjánasögum.

9.
Já að einhverju leyti. Við vildum allir líkjast hetjunum Gunnari á Hlíðarenda, Skarphéðni og fleiri köppum. Auðvita var litið upp til Njáls, Síðu Halls, Þorgeir Ljósvetningagoða. (Mér líkar ekki hvernig Hrafn Gunnlaugsson lýsir Þorgeiri og bæ hans í kvikmynd sinni).

10.
Það hefur sjálfsagt verið einstaklingsbundið hvað lært var af ljóðum. Rímur voru að miklu leyti dottnar út hjá yngra fólki, sérstaklega börnum (frekar að börn í sveit lærðu rímur). Dálítið var lært af þulum (Bokki sat í brunni, og þulum Theodóru). Í skólanum voru skólaljóðin lærð. Ég hélt mikið upp á ljóðið um hinstu för Eggert Ólafssonar. Þrútið var loft. Þetta var alltaf að ske í sjávarplássum, að menn fóru á sjó og komu ekki aftur. Já börn og fullorðnir lærðu ljóð. Misjafnt var um hve mikið var sungið. Mamma söng mikið, en pabbi minna. Eitt af ljóðunum sem mamma söng var. Oft er „hermanns“ örðug gangan eitt sinn hlaut ég reyna það. Konur sungu við að svæfa börn við að spinna og prjóna. Sum af okkur systkinunum sungu önnur ekki (fleiri sungu).

11.
Dálítið var kveðist á, en ekki mikið þegar ég var barn.

12.
Ég var nú ekki mikill ljóðunnandi. En þó lærði maður ljóð eftir helstu ljóðaskáldin okkar, eins og Jónas Hallgrímsson, Einar Ben, Hannes Hafstein. Stefán frá Hvítadal.

Sálma var ég látin læra, og lærðust líka um leið og aðrir sungu þá. Heilar ljóðabækur les ég ekki, frekar ákveðin ljóð, sem manni var bent á. Fáir eða jafnvel engir lásu þyngri ljóð fyrr en í Gagnfræðaskóla eða á þeim aldri ef þeir fóru ekki í framhaldsskóla.

Á Ísafirði starfaði Unglingaskóli í tveim deildum á mínum barnaskóla aldri. Ég var í yngri deild. Þegar lögin um Gagnfræðaskóla komu.
Ég settist í annan bekk Gagnfr. skólans. Guðmundur Hagalín kenndi bókmenntasögu í Gagnfr. skólanum, og um leið að nota bókasöfn (hann var bókasafnsvörður á Ísaf.). Guðmundur hélt að okkur ljóðum eftir Gothe og Shiller. Ljóðum eftir Bairon og Tennison. Það kom upp í huga mér þegar ég var að skrifa þetta ljóð, sem var látinn lesa í bókasafnstíma og kann það enn, ljóð eftir Tennison Lávarð. Ég las það bara einu sinni. Förunautar árla morguns eigra ég. Farið þið en þeytið hornið þegar fer að standa á mér.

María Guðsmóðir heyrði ég minnst á, en ekki meira, eða sá það aldrei.

13.
Eflaust hafði ljóðið einhver uppeldisáhrif á unglinga, þó maður geri sér það ekki alveg ljóst. Það situr lengi í manni setningar eins og í ljóði Þorsteins Erlingssonar Fossinn. „Því nú selst á þúsundir þetta, sem fyrr var þrjátíu peninga virði“.

14.
Já. Sumir eða flestir úr fjölskyldunni sungu. Ég nefndi það í númer 10, að sungið hefði verið á heimilinu.

15.
Já, ég las ævintýri, þjóðsögur. Draugasögur voru sagðar. Eins voru sagðar sögur af Stökklum, sem sökktu róðrar bátum. Þá kostuðu menn út einhverju svo sem austurtrogum eða lóðabelgjum. Stökkullinn réðist á allt, sem flaut og reyndi að sökkva því, og þá var róinn lífróður í land. Annað fyrirbæri, sem sagðar voru sögur af var Fjörulalli. Það var óvættur, sem hélt sig í fjörum. Það var lífsspursmál að láta Fjörulallann ekki komast upp fyrir sig eða ofar í fjöruna því þá var Lallinn búinn að vinna orustuna.

16.
Maður hafði beyg af þessum draugum og skrímslum. Eitt sinn er við krakkarnir í Króknum vorum að leik á götunni fyrir neðan Króksbæinn, en sú gata lá með fram fjörunni. Þá heyrðum við skruðning í fjörunni. Það var eitthvað ferlíki, sem skreið þar eftir fjörunni. Við Maggi gripum þá upp grjót og grýttum Lallann, sem þarna var á ferð, því það var örstutt að hlaupa inn í Króksbæinn þar sem afi Magga átti heima. Við hittum Lallan og hann rak upp ógurleg hljóð, sem reyndust vera úr tveimur eldri strákanna, sem voru nýbúnir að segja okkur Fjörulalla sögur.

Þeir skriðu hvor á eftir öðrum. Höfðu poka yfir sér frá þeim fremri og yfir á þann aftari, og hengu lufsur út frá þeim. Einnig dógu þeir á eftir sér dósir í bandi, sem átti að tákna hljóðin sem mynduðust þegar þetta skelja skrímsli hreyfði sig. Eins var með drauga. Þeir sem eldri voru hræddu þá yngri með draugasögum, en sumt eldra fólkið trúði þessu. Við strákarnir vorum látnir sækja súrmat ofan í kjallara. Þar var ekkert ljós og þó við værum með kerti þá lýsti það ekki nema rétt í kringum okkur og við þurftum að fara varlega til að reka ekki tærnar í. Það var nú smá beygur í 7-8 ár strák að fara þessar ferðir, en við neituðum því að við værum hræddir. Pabbi átti geitur á þessum árum. Þær komu sjálfar heim til mjólkunar. Þær brugðu sér í kirkjugarðinn, sem var nokkru neðar en við bjuggum. Þá þurfti að sækja þær til að mjólka þær. Ekki var frítt við að maður kviði fyrir þeirri för, og þó sérstaklega ef geiturnar voru inní girðingu sem var utanum grafhvelfingu, ég held ein sex lík í hvelfingunni, og það var komið hauströkkur. Geiturnar smugu gengum allar girðingar bara ef þær komu hausnum, þá komst skrokkurinn á eftir. Fyrir það voru þær illa séðar.

17.
Fjölda margt fólk trúði á huldufólk, en minna á álfa og tröll og illvætti. Þó var slæðingur, sem trúði að allt þetta væri til, og jafnvel dauðir ættingjar gætu orðið þeim meinlegar fylgjur.

18.
Lítið var til af bókum á mínu æskuheimili, en Bókasafn Ísafj. var gott bókasafn og ég notaði það mikið. Áður hef ég talið upp nokkuð af unglingabókum, sem ég las og Siggi bróðir minn sem var 3½ ári eldri. Hinum fylgdist ég ekki með. Eftir fermingu las maður Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum og svo eftir Fallada. Vors skipstjóri, Garman og Vors, Síðasti víkingurinn, sem er sjómannasaga frá Lofsten. Sult eftir Hanson. Pabbi las eftir Kristnamurti. Babbit og fleira. Sumir lásu Vesalingana (þar á meðal ég). Leyndardómar Parísarborgar flaut með, Kynlegur þjófur. (Læknir dáleiddi mann og lét hann stela). Kapitola var komin úr tísku, samt las ég hana til að sjá hvað fólkið sótti í. Alfreð Deifus var vinsæl bók í mínu ungdæmi. Bækur Jóns Trausta vóru vinsælar. Mamma las svoleiðis bækur og kom mér á bragðið. Þegar Kiljansbækurnar fóru að koma út og heitu[?] Fuglinn í fjörunni og þú vínviður hreini, las ég þær með miklum áhuga. Það er of langt mál að telja upp allt, sem maður las á þeim árum. Þorgils Gjallandi fannst mér góður.

19.
Pabbi keypti alþýðublaðið, og las sumt upphátt. Mikið var rætt um til dæmis Ólafs Friðrikss. málið.


V. Vinna og menntun barna á aldrinum 10-14 ára.

1.
Ég byrjaði 10 ára samkvæmt skólaskyldu. Ég var fyrst í skóla í sveitinni inn í Skutulsfirði, því ég var í Tungu þann vetur. Næstu þrjá vetur í Barnaskóla Ísafj. Skóladagur byrjaði með því að allir mættu til morgunsamkomu. Sungnir voru sálmar og lesið úr hugvekjum. Nemendur efsta bekkjar lásu. Þetta lagðist af áður en ég komst í efsta bekk. Það voru rennihurðir á milli skólastofanna þannig að þrjár stofur tengdust í einn geym. Fög voru öll þau venjulegu. Skrift, reikningur, landafræði, náttúrufræði, saga, kristinfræði, söngur, leikfimi. Skólinn byrjaði 1.okt og lauk 14. maí. Venjulega voru rúmlega 20-24 börn í bekk. Heima lærði maður oftast lestur, skrift og kristinfræði svo hitt var bara viðbót. Agi var góður, einstaka baldnir strákar í efribekknum, og þá aðeins við einn kennarann. Í Barnaskóla Ísafjarðar kenndi sami kennarinn sama fag í öllum bekkjum skólans, eftir því sem þeir komust yfir. Jón Hróbjartsson kenndi öllum landafræði og skrift, Jóhann Einars kenndi líka skrift í yngri bekkjum. Það var ekki eins og nú að einn kennari kenndi bekknum öll fögin.

2.
Ekkert samband var á milli foreldra og kennara á þeim tíma. Engir foreldrafundir. Ekki veit ég hvort kennari hefur rætt við foreldri svona í einrúmi.

3.
Hvorki var í mér kvíði né tilhlökkun.

4.
Foreldrar mínir töldu barnaskóla af hinu góða. Það var skólaskylda, svo þurfti ekki að hvetja. Fleiri vildu komast í nám en komust.

5.
Einfaldlega af því að ekki voru til efni, og var í orði á móti og sagði þennan hafa komist af án náms.

6.
Lítil eða engin varð á högum mínum.

7.
Ég ólst upp á „Kreppuárunum“ svo lítið var um að aukavinnu fengist. Ég hnýtti á tauma fyrir sjómenn, sem nenntu ekki að snúast í smá snatti. Ég fékk 25 aura fyrir að hnýta 100 öngla á 100 tauma. Það var notaður hver tími sem best henti. Um aðra veit ég ekki hvort þeir höfðu einhver störf, bestu vinir mínir hnýttu á tauma ef þeir fegnu.

8. og 9.
Fullorðnir fengu ekki vinnu og því síður börn. Ef börn hafa fengið vinnu hefir það verið til að drýgja tekjur heimilisins og hafa fyrir skólabókum.

10.
Um aðra veit ég ekki, en pabbi réði mig í þá vinnu sem ég fékk og í sveit. Ég snérist dálítið í kringum pabba á vinnustað hans í „Íshúsinu“ enda stutt að fara og maður þekkti alla, sem unnu þar og vann þar sjálfur eftir fermingu, sem snúningastrákur.

12.
Engin önnur en sem sagt er hér að ofan. Ég fór með kaffi til pabba á vinnustað.

13.og 14.
Vegna þess að ég las ekki spurningarnar yfir áður en ég byrjaði að skrifa þá er ég búinn að lýsa sumarvinnunni í kafla III. Vinna barna. Eins og þar stendur var ég hjá óskyldum og ókunnugum. Sú sumardvöl var mér góð, (reyndar var ég einn vetur líka). Ég lærði margt nýtt og ný viðhorf.

15.
Það var talað um góð uppeldisáhrif, en eflaust var það meira til að létta á heimilunum. Pabbi réði mig í sveitina.

16. og 17.
Móður afi og amma bjuggu á Oddsflöt í Grunnavík. Þau dóu bæði með stuttu millibili þegar ég var 5 ára. Stígur á Horni var frændi í móðurætt og mikill vinur pabba. Hann gisti hjá okkur ef hann kom til Ísafjarðar. Pabbi seldi fyrir hann svartfuglsegg, sem hann sendi til Ísafjarðar með öðrum frá Horni þegar hann kom ekki sjálfur. Pabbi keypti súr af Stíg. Súr er mjólkurafurð, sem mikið var notuð á vestfjörðum, og ég hef áður lýst. Föður afi og amma bjuggu á Múla í Þoskafirði. Það var lengra þar á milli, en þó komu skyldmenni með fjárrekstra til Ísafjarðar til sláturnar. Þeir ráku féð yfir Þoskafjarðarheiði og komu með Djúpbátnum til Ísafjarðar. Smávegis var um gistingar í stuttan tíma.

18. og 19.
Kannske er hægt að segja að veturinn í Tungu hafi verið fósturheimili. Ég tel mig hafa haft gott af þeirri vist.

Næst elsti bróðir minn var tekinn í fóstur af frændfólki, og átti víst að vera stutt, vegna veikinda mömmu (pabbi og mamma bjuggu þá á Oddsflöt með afa og ömmu). Ingvar bróðir ílengdist hjá fósturforeldrum sínum.

20.
Eins var með Guðfinnu systur mína. Hún varð eftir í Grunnavík hjá afa og ömmu þegar pabbi og mamma fluttu til Ísafjarðar. Þegar hart var í ári og sumir komust betur af en aðrir þá var algengt að börn voru tekin í fóstur og oft vildi það verða eins og með Ingvar bróðir að fólk vildi ekki missa barnið þegar það var búið að festa rætur og komin tengsl milli fósturforeldra og barnsins.

Mikið var um að sjómenn fórust á þessum árum, (eins og alltaf) og engar voru tryggingar. Þá þótti það sjálfsögð skylda að ættingjar fyrst og fremst og vinir sem komu til hjálpar og oftast í því formi að tekin væru börn til fósturs. Verra var ef ættingjar og vinir voru ekki aflögufærir. Þó skeði það oft, tekin voru börn þangað sem neyð var fyrir. Í næstu íbúð við okkur fórst heimilisfaðirinn frá konu og fjórum ungum börnum. Ég var sjö ára þá. Þá um svipað leyti fórst tengdasonur gömlu konunnar sem kenndi okkur bræðrunum (og fleiri úr Króknum) að lesa. Þar stóð ekkjan eftir með þrjú börn, og enga ættingja. Seinna giftist elsti bróðir minn þessari konu og gekk börnunum í föður stað. Í fyrra tilfellinu giftist konan ekki aftur, en yngsta barnið, sem þá var nýfætt og óskírt var tekið í fóstur af barnlausum hjónum.

21.
Um líkamlegar refsingar var ekki að ræða af hendi foreldra. En það var ætlast til að við gengdum og það gerðum við. Ef pabba þótti ólæti og mikil úti í leikjum og ærsli of mikil vorum við kölluð inn, og þá kom ekki annað til greina en gegna þótt okkur findist ekki ástæða til.

22.
Nei aldrei, og vissi ekki til þess í næsta nágrenni.

23.
Nei aldrei. Maður heyrði sögur, en þær voru löngu liðnar eða fjarlægar.


VI. Ferming.

1.
Þáttur fjölskyldunnar var í því fólgin að fylgjast með því að lært væri það sem læra átti.

2.-3.-4.
Þegar ég fermdist vorum við 52 fermingarbörn. Það var Ísafjarðarkaupstaður og Eyrarhreppur + Arnadalur. Séra Sigurgeir var prestur á Ísafirði þá. (Síðar biskup). Ég held við höfum gengið til prestsins einu sinni í viku seinni part vetrar. Mér finnst nú að kennslan hjá prestinum hafi meira verið að kanna hve mikið við kynnum. Nokkra sálma lærðum við hjá presti. Í Barnaskóla Ísafjarðar var góð kristinfræðikennsla, Skólastjórinn Sigurður (stúdent) hafði verið í Guðfræðideild Háskólans, en hætt námi). Hann sá um að allir kynnu kverið, sem gengu upp úr efsta bekk. Þar af leiðandi þurfti prestur ekki að beita sér eins. (Jafn gott því hópurinn var stór).

Fermingargjafir voru fáar. Þrjátíu og fimm krónur í peningum. Mynd af kvöldmáltíðinni (eftir prentun). Skrautritað nafn mitt fermingardagur og nafn gefanda, sem var „ömmusystir “mín og sonur hennar. Og þar með upptalið. Fermingarsystkini, sem áttu heima í Ísafirði þekkti ég öll og nokkur úr nágrenninu. Ekki gæti ég talið þau öll upp. Ekki fermdust allir jafn aldrar mínir. Börn Finns Jónssonar og Vilmundar læknis voru ekki fermd (Séra Sigurgeir var prófdómari í kristinfræði í Barnaskóla)

5.
Ég fékk föt, sem kostuðu 35 krónur (á þessum árum var hart í búi hjá okkur, pabbi var á sjúkrahúsi, ég hafði líka verið þar um veturinn. Það voru „Jakkaföt“. Áður átti maður blússuföt, þessi föt breyttu engu í lífi mínu.

6.
Nei. Ég varð ekki var við neina breytingu hvorki á mér eða á viðmóti annara til mín.

7.
Hvorki hlakkaði né kveið. Aðal atriðið var að fá vinnu en hún var af skornum skammti. Þó var eitt. Ég ætlaði mér ekki að verða sjómaður, eins og þrír eldri bræður mínir.

8.
Nei. Ég var ennþá hinn sami. Þó heyrði ég sagt hálffullorðinn strákurinn, fyrir fermingu. En fullorðinn eftir fermingu.

9.
Ekki átti ég neina sérstaka framtíðadrauma. Ég hefði getað sætt mig við að fara í smíðanám. Járnsmíði eða trésmíði.


VII. Árin eftir ferminguna.

1.
Framtíðin var á huldu. Ég fór eftir fermingu í Unglingaskóla Ísafjarðar, sem breyttist í Gagnfræðaskóla þegar ég hafði lokið fyrri bekk Unglingaskólans. Þeir sem sátu fyrri bekk Ungl. sk. settust í annan bekk „Gagnfræðaskólans“ Þá var bara sumar vinna.

2.
Ég bjó áfram í foreldrahúsum, og fyrsta árið eftir að ég gifti mig, þá höfðum við fengið stærri íbúð og ég beið eftir að fá íbúð, sem var að losna. Þó varð ekkert af því. Ég flutti til Reykjavíkur.

3.
Ekki var ég hvattur, heldur lattur. Ég lét innrita mig í Unglingaskólann. Heimilisástæður ekki góðar. Pabbi var á sjúkrahúsi og eldri bræðrum mínum fannst ég ætti að reyna að fá vinnu og leggja til heimilisins. Úr Unglingaskólanum fór maður sjálfkrafa upp í Gagnfræðaskólann. Lengra nám kom ekki til greina, því fjárhagsaðstoð var engin.

4.
Þetta olli spennu milli okkar bræðranna, en ekki foreldranna. Ég stóð þetta allt af mér, án nokkurs sársauka. Pabbi og mamma voru sátt við gjörðir mínar, en ég varð að sjá mér sjálfur fyrir bókum. Vinnu var heldur ekki að fá og of ungur til að keppa við reynda sjómenn. Þegar ég hafði lokið Gagnfæðaskólanum og var atvinnulaus. Þá um haustið var auglýst vélstjóranámskeið. Pabbi hvatti mig til að nota tímann og fara á námskeiðið. Það gerði ég, og það varð mitt ævistarf.

5.
Ég vann í íshúsinu um sumarið sem ég fermdist. Íshússtjórinn var kunningi pabba. Hann átti heima stutt frá okkur. Pabbi hafði unnið í íshúsinu og ég var þá oft að sniglast í kringum karlana. Þar var fryst með snjó og salti, en búið að breyta í vélfrystingu þegar ég fór að vinna þar. Þá losnuðu snjógeymslurnar, og allt breyttist. Kælivökvinn var ammoniak, sem lyktar illa. Ég vann við að frysta beitusíld. Ef mikið barst að af síld í einu, og frystiklefinn fylltist og eftir var síld, það var gripið til gömlu aðferðarinnar og fryst með snjó og salti (Kuldablanda). Ég vann líka í saltfiski hjá Ingvari Péturssyni saltfiskverkanda. Þar var tekið á móti saltfiski úr „útilegubátunum“. Fiskurinn látinn standa í stæðum og „verkast“ t.d. í hálfan mánuð. Þá rifinn upp, vaskaður og hlaðið í stæður aftur með nýju salti. Og svo hófst fiskþurrkunin.

6.
Samskipti við vinnuveitendur voru góð. Ingvar var bæði vinnuveitandi. Elí Ingvars var aðstoðarm. Ingvars. Við Elí vorum í sama knattspyrnufél (og samkomulag gott). Eins og áður er sagt þekkti ég Sveinbjörn íshússtjóra, en Íshúsfélagið var hlutafélag.

7.
Það má segja að Ísafj. hafi verið fiskverkunarstöð. Fiskveiðar og fiskverkun. Fyrst saltfiskverkun, síðan frysti vinnslan. Margir af smærri fiskverkendum eins og Ingvar Péturs, Jón Andrésson, voru með skyldulið, kunningja, fólk sem átti heima í nágrenninu. (það var gott að hafa vinnufólkið í nágrenninu ef fiskur var á reitum og sást til regnskúrs). Fólk sem vann við fiskþurrkun var oft íhlaupafólk, sem fór heim eftir breiðslu. Þá oft krakkar. Þarna var alltaf gott samkomulag.

8.
Ég var vel undir búinn líkamlega. Stór og sterkur eftir aldri. Ég hafði verið við svo mörg störf þótt ekki væri um fasta vinnu. Einu gleymdi ég þegar talað er um vinnuna hérna að framan. Ég vann um tíma í Bæjarvinnunni á Ísafirði. Við klóaklagnir og vatnslagnir. Ég var 20 ára þegar ég fékk fast starf. Það var sjómannsstarf þótt ég hafi aldrei ætlað mér á sjó.

9.
Ég var 26 ára þegar ég fór að heiman. Á þessum árum var ég lítið heima. Síldveiði á sumrin. Útilegubátur var aðalheimilið. Við vorum þar sem fiskaðist. En lögheimili hjá foreldrunum. Þá voru allir farnir að heiman, líka þeir tveir sem yngri voru en ég.

25 ára gifti ég mig. Við bjuggum með pabba og mömmu þann vetur. Ég átti von á íbúð í húsi Gríms rakara (faðir Ólafs Ragnars Grímssonar). Áður en það til þess kom, var mér boðið aðstoðarvélstjóra pláss á „Esjunni“. Ég tók boðinu, og var vélstjóri hjá „Skipaútgerðinni“ í 40 ár.

Pabbi dvaldi hjá okkur í 8 ár eftir að mamma dó. Síðustu árin dvaldi hann á Hrafnistu.

10.
Nei, ekki fyrr en ég fór á sjóinn.

11.
Mér féll vélstjórastarfið vel. Maður fann til stolts þegar sagt, þetta verður að bíða þangað til Indriði kemur.


VIII. Dauðinn og daglegt líf.

1.
Enginn skyldmenni mín dóu á þessum árum nema afar báðir og ömmur. Ég hafði farið til Grunnavíkur með mömmu, en ég man ekki eftir þeim, og var eflaust ekki sagt frá dauða þeirra. Stúlka úr næstu íbúð dó úr taugaveiki þegar ég var 8 ára. Við vorum dágóðir vinir. Hún las sögur fyrir mig og yngri systir sína. Við sáum öll eftir henni. Eins fórst heimilsfaðir í næsta stigagangi frá konu og fjórum börnum. Maður skynjaði eitthvað skelfilegt hafði hent þessa fjölskyldu þó maður væri of ungur til að skilja allan veruleikan.

2.
Nei, enginn úr fjölskyldunni deyr, eða vinir eða kunningjar.

3.-10.
Þessum spurningum get ég ekki svarað af eigin reynslu.

11.
Á þessum árum hugsaði maður lítið um dauðann. Það urðu margir skipsskaðar á Ísafirði á þessum árum, tveir og þrír á vertíð. Þetta var nú fyrir 10 ára aldur minn, sem þessi stóru áföll voru). Þessi óhugur síaðist inn í mann, þótt maður hafi ekki haft vit á hve miklum þjáningum og örbyrgð þetta olli þeim sem ástvini misstu. Þetta var bara svona, þetta fylgir sjómennskunni.

Þegar ég var 12 og 13 ár var pabbi á Sjúkrahúsi Ísafj. Þá var Sigurður bróðir byrjaður á sjónum. Ég þurfti alltaf að vaka og fylgjast með hvort bátarnir, sem bræður mínir voru á væru komnir að þegar vont veður var, og fara inn á Sjúkrahús og láta pabba vita, annars sofnaði hann ekki. Og svona hefur það verið um fleiri.

12.
Ekki veit ég það, en sjóslys voru tíðari. Bátar minni og ekki eins vel útbúnir. Veðurfregnir ekki eins góðar. Svo varð fólk meira „úti“. Klæðnaður ekkert líkt því, sem nú er, fólk bara króknaði: Það var talað um dauðann á næsta leyti og að dauðinn væri allsstaðar nálægur. Maður heyrir ekki svona tal lengur.

13.
Lík voru látin standa uppi á heimilum nokkuð almennt, ef pláss var. Sumsstaðar var ekki pláss, eins og þar sem aðeins var eitt herbergi. Líkhús var á Sjúkrahúsinu og þar var gengið frá öllu. Ekki veit ég hver undirbjó lík undir greftrun í heimahúsum. Gæti hafa verið frá Sjúkrahúsinu. Ég hef aldrei verið við kistulagningu, aðeins séð opna kistu áður en lokið var skrúfað á.

14.
Oftast í kringum viku.

15.
Ég var aldrei var við að fólk syrgði ofsalega. Flestir syrgðu í einrúmi. Fólk lét stundirnar líða áfram. Og eins og alltaf var misjafnt hvað fólk var fljótt (eða seint) að jafna sig.

16.
Ég veit ekki hvort kirkjan hefur nokkuð haft tilburði til að sefa sorg hjá syrgjendum, en sumir syrgjendur hafa eflaust fundið fyrir létti innan kirkjunnar, og alltaf fundu menn ritningargreinar, sem pössuðu fyrir þann sem leitaði. Ég get ekki nefnt sérstakt dæmi, en ég vissi að fólk settist út í horn eða á rúmið sitt með sálmabók og fletti og las þegar eitthvað bjátaði á.

17.
Ég þekkti engann sem var forlagatrúar. Menn sögðu þetta eru forlög. Það er þó ekki forlagatrú.

18.
Fjölmargir óttuðust dauðann, og hvað tæki við eftir andlát. Hetjusögur um menn sem hvorki brá við sárum eða dauða, og vistun vopndauðra í Valhöll hafði sums staðar áhrif. Ég og mínir kunningjar og vinir hugsuðum lítið um dauðann á þeim árum sem um er spurt.

19.
Ég var ekki var við að fullorðið fólk ræddi um dauðann við börn eða unglinga. Nema að góðu börnin færu til Guðs, en vondu börnin færu fjandans til.

20.
En almennar umræður um dauðann voru ekki miklar í mánu mágrenni. Kannske hefur maður ekki hlustað eftir þeim umræðum.

21.
Á þeim árum sem um er spurt, sluppum við eða okkar fjölskylda við sjóslys. (Það var ekki fyrr en á stríðsárunum að Sigurður bróðir minn fórst í róðri með m/b Guðm. Magnúss. frá Hafnarfirði).

(22.) 23.
Eins og áður sagði hugsaði ég lítið um dauðann á þessum árum (10-20).

Afstaðan til dauðans breytist eflaust hjá flestum með aldrinum. Eitt breytist þó ekki. Við erum aðeins vistuð hér skamma stund, mis skamma þó og þar standa ekki allir jafnir.

24.
Nei.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana