LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1950-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

SýslaS-Múlasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1940

Nánari upplýsingar

Númer17211/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/9.11.2009
TækniTölvuskrift
Nr. 17211

Heimildarmaður: Hanna Ingólfsdóttir f. 02.06.1940, Ásvegi 21, 760 Breiðdalsvík.

s1
Þjóðminjasafn Íslands.
Ég þakka bréfið þó ég geti ekki gefið nein svör um áheit nema í eitt skipti sem var bara grín. Ég hét á samstarfskonu mína að gefa henni helminginn af stóra vinningnum ef ég fengi hann, hún varð undrandi á örlæti mínu þangað til ég sagðist ekki eiga neinn miða.

Um kirkjur veit ég lítið. Beruneskirkja sem var okkar kirkja þegar ég var að alast upp var alltaf ólæst. Ég held að engum hafi dottið í hug að þannig ætti það ekki að vera. Fólki þótti vænt um kirkjuna sína. Það gekk hljóðlega um og talaði helst ekki saman ef það var nauðsynlegt þá var hvíslað. Að hlæja eða klappa var held ég aldrei gert enda voru aldrei neinir viðburðir þar nema messur. Mér finnst þetta hafa breyst, orðið léttara yfir öllu sem betur fer. Til dæmis var ég á aðventukvöldi í Eydalakirkju fyrir rúmu ári þegar ég kem í kirkjuna er búið að stilla upp, María og Jósep sitja framan við altarið með jötuna á milli sín en Jesú var ekki þar, þau höfðu gleymt að taka hann með niður af söngloftinu þar sem hirðingjarnir biðu. Svo byrjar athöfnin, hirðingjarnir koma niður og einn þeirra heldur á Jesú. Fyrirfram var búið að segja þeim hvar þeir ættu að stoppa en það var of langt frá jötunni til að hann gæti lagt hann í hana svo hann henti honum Jesú litla bara í jötuna. Það braust út allsherjar hlátur í kirkjunni og ég varð ekki vör við að neinum væri misboðið. Presturinn okkar hvetur fólk yfirleitt ekki til að klappa til dæmis þó börnin syngi eins og englar á aðventukvöldum. Ég veit um giftingu sem fór fram utanhúss í sveitinni en fjölskylda brúðgumans átti landið. Guðmundur góði á að hafa farið um landið og vígt vatnsból þar sem hann gaf sér tíma til að stoppa, eitt slíkt er hér á Breiðdalsvík.

Ykkur er velkomið að senda mér spurninglista, kannski get ég svarað einhverju.
Kveðja Hanna Ingólfsdóttir.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana