LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1943-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

SýslaA-Barðastrandarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1933

Nánari upplýsingar

Númer17245/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/18.12.2009
TækniSkrift
Nr. 17245

Heimildarmður: Lýður Björnsson, f. 06.07.1933, Starhólmur 4, Kópavogur.

s1
1. Gufudalskirkja var læst á tímabili og lykill geymdur hjá bóndanum. Þar var unnt að vitja lykils ef nauðsyn bar til, t.d. vegna líks sem beið greftrunar. Slík bið var stutt. Ég hef ætíð talið að kirkjan hafi verið lokuð til að losa hana við átroðning en hann útheimti aukin þrif. Kirkjan var sópuð fyrir messur og hreinsuð og þvegin gólf a.m.k. árlega.

2. Þjóðsögur herma að menn hafi verið taldir öruggir gegn öllu óhreinu innan við grátur en ekki heyrði ég um þetta vestra. Tekið skal fram að ljós var látið loga í kirkjunni þegar lík stóð þar uppi. Bergsveinn Skúlason birtir í einhverri bók, seinni frásögn Kristínar Sveinsdóttur, húsfreyja í Neðri-Gufudal af þessum sið þar. Lík vill hafa ljós í kirkju. Hún sagði okkur krökkunum í Fremri-Gufudal frá þessu og var sú gerð öllu rammari en hin prentaða. Mér hugkvæmdist því miður ekki að fá þá gerð sannreynda fyrr en of seint. Amma mín Guðrún Jónsdóttir Þórisstöðum og ömmubróðir, Þórður Jónsson meðhjálpari á Hofstöðum, keyptu bæði líkkistu alllöngu fyrir dauða sinn og geymdu þar á kirkjuloftinu., þetta átti að lengja líf þeirra eða svo var mér sagt.

3. Kirkja var ekki lögð niður á þessu tímabili. Gufudalskirkja stendur enn. Á því ekki svar við þessari spurningu.

s2
4. Viðhorf til kirkjunnar breyttist ekki á fyrrnefndu tímabili.

5. Gufudalskirkja var byggð árið 1908 og þá utan kirkjugarðs. Hún stóð áður innan garðsins. Menn umgengust kirkjugarðinn af virðingu og ýmsir fóru út í kirkjugarðinn á messudögum eða við einhver önnur tækifæri og signdu yfir leiði ættingja, vina eða kunningja. Ég hef haldið þeim sið.

6. Virðuleg framkoma þótti við hæfi í kirkjunni. Utan messutíma mátti fólk skvaldra þar og jafnvel hlæja, æskilegt var þó að þetta væri á lægri nótunum. Hrekkjabrögð þekktust á fyrri tíð. Guðjón Jónsson (Á bernskustöðvum), segir frá því að strákar tóku kólf úr klukku og földu, kom þetta meðhjálpara í vanda en strákunum var skemmt. Frá Fremmri-Gufudal var gengið til kirkju (3 km) og skipt um föt við klapparnef við Álftadalsá hjá Stórasel.

7. Gufudalskirkja var einvörðungu notuð til kirkjulegra athafna 1942-1953,

8. Heimaskírn var alkunn regla, ég man ekki eftir skírn í kirkju þessi ár en játa að ég sótti hvergi nærri allar messur. Sr. Þórarinn Þór söng messu við upphaf danssamkomu í Miðhúsaskógi 1949 og þótti vel til fundið.

s3
Sr. Guðmundur Guðmundsson var síðasti presturinn í Gufudal. Hann sleppti kalli árið 1905 og hefur kirkjunni síðan verið þjónað frá Stað og loks frá Reykhólum. Messað var þegar prestur boðaði jarðarfarir að auki. Kirkjubrúðkaup heyrði ég ekki talað um.

9. Ég hef heyrt að skírnarvatn væri kraftmikið gegn óhreinu, það væri vígt.

10. Menn hétu á Strandakirkju, peningum, þekki dæmi um þetta. Ekki var heitið á Gufudalskirkju en kirkjan fékk gjafir sem sóknarkirkja, þar lágu ættingjar og vinir. Við krakkarnir stríddum mömmu með því að hún og grannkonan Kristín Sveinsdóttir í Neðri-Gufudal, ættu í keppni um það hvor gæfi kirkjunni veglegri gjafir, málningu, dregil og platta með mynd af kirkjunni sem var seldur henni til ábata. Guðmundur Andrésson gullsmiður gaf silfurstjaka á altari. Ofnasmiðjan gaf kross úr ryðfríustáli á 50 ára afmælinu.

11. Kannast ekki við þetta um messur undir beru lofti, sbr. 8.

12. Gvendarbrunnur er í túninu á Þórisstöðum, vatnið þótti gott en ekki heyrði ég um lækningarmátt.

13. Guðmundur Arason á að hafa vígt Gvendarbrunn þennan en ekki er þess getið í sögu hans og ekki

s4
heldur í prentuðum þjóðsögum. Hann á einnig að hafa vígt Gufudalsháls og forðað með þessu slysum, hálsinn er mjög brattur, ekki síst að vestan (Kollafjarðarmeginn, vestur er þarna gagnstætt suðri skv. málvenju). Þarna heitir Gvendaraltari (mynd í Árb. Barð. 2003). Á það skyldi leggja 3 steina, væntanlega ævaforn siður. Vegur um Gufudalsháls lagðist af um 1950, undant. slóði meðfram raflínu.

14. Það væri þá helst steinar, Gullsteinn á Gufudalshálsi (mynd í Árb. Barð. 2003) og Grásteinn við Gufudalsvatn, menn umgengust þá af varfærni (Mynd af Grást. Árb. Barð. 2005). Hvorugur steinninn tengist landdísum í sögnum. Um landdísir er rætt í Árb. Barð 1974, en örnefni þeim tengd eru í vesturhluta N.Ís, V.Ís. og Barð. Við vestan verðan Arnarfjörð. Landdísarörnefni eru talsvert fleiri en framkom 1974.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana