LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1960-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

SýslaN-Múlasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1950

Nánari upplýsingar

Númer17249/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/20.12.2009
TækniTölvuskrift
Nr. 17249

Heimildarmaður: Vigfús Ingvar Ingvarsson, f. 18.01.1950, Laugavellir 19, Egilsstaðir.


Svör við könnun  – Þjóðháttasöfnun um áheit trú og kirkju

Velkomið er að hafa frekara samband við mig en ég er:

Vigfús Ingvar Ingvarsson, Laugavöllum 19, 700 Egilsstaðir, netfang  

F. 18. janúar 1950 á Desjarmýri í Borgarfirði (eystra) N-Múl. og alinn þar upp.  Átti þar heimili þar til ég flutti í Egilsstaði árið 1976 en var fjarverandi í skóla alla vetur frá 1964-´65 (til og með vetrinum 1975-´76).  Hef síðan átt heima á Egilsstöðum og starfað sem sóknarprestur.  Starfssvæðið nær yfir þéttbýlið og tvær fámennar sveitasóknir.  Tilheyri því að sjálfsögðu þjóðkirkjunni.

Faðir minn hét Ingvar (Júlíus) Ingvarsson og var fæddur árið 1920, einnig á Desjarmýri þar sem hann átti síðan ætíð heima og starfaði sem bóndi (oddviti að aukastarfi).

Móðir mín hét Helga Björnsdóttir og var fædd í Hnefilsdal í Jökuldalshreppi, N-Múl. árið 1919.  Aðalstarf hennar var að vera húsmóðir í sveit.

Ég minnist þess ekki að hafa heitið á neitt í þeim skilningi sem hér um ræðir.  Ég minnist þess heldur ekki að hafa heyrt um áheit fólks í minni fjölskyldu eða á meðal kunnugra.
Ég hef orðið mjög lítið var við áheit á þær kirkjur sem ég þjóna (Egilsstaðakirkja, Vallaneskirkja, Þingmúlakirkja) á starfstíma mínum frá því haustið 1976.  Vera kann þó að einhver áheit hafi farið beint til gjaldkera einhverrar sóknar án þess að mér hafi verið kunnugt um.  Einhverjar gjafir til kirkna kunna einnig að vera áheit þó gefandi hafi ekki getið þess.

Ég man aðeins einu sinni eftir því að til mín hafi komið einhver með áheit á kirkju.  Það var framan af starfsárum mínum að unglingsstúlka kom með umslag með peningum sem hún sagði að væri áheit sitt á Egilsstaðakirkju.  Ég ályktaði sem svo að þetta tengdist prófum í skólanum (vegna tímans) alla vega skildi ég það sem svo að eitthvað hefði gengið farsællega hjá viðkomandi.

Mér er ekki kunnugt um að algengt sé að heita á eitthvað hér um slóðir og þá heldur ekki hverju slík áheit gætu tengst eða hvaða fólk væri líklegast til að heita á eitthvað.

Varðandi viðhorf mín til áheita þá verð ég að segja að þetta er mál sem ég hefi ekki mikið hugleitt en finnst líklegt að sé að einhverju leyti séríslensk hefð miðað við ekki kaþólska þjóð.  Hef aðeins velt fyrir mér, án þess að hafa kynnt mér málið, hvort þetta muni vera dæmi um hve siðbreytingin hafi verið varfærin hérlendis hvað varðar að ráðast gegn ýmsu sem telja mátti kaþólskt.

Ég held að ég fordæmi ekki áheit, t.d. á kirkjur eða líknarfélög ef þetta er í hófi – annars kynni þetta að ýta undir einhvers konar verkaréttlætingarkenningu (kaup kaups gagnvart almættinu).  Mér fyndist áheit í því skyni að fá vinning í lottói eða þess háttar varla viðeigandi.

Varðandi hátterni í kringum áheit er ég fáfróður, finnst að ég hafi helst heyrt þeirra getið í sambandi við veikindi eða eitthvað sem skipti fólk verulegu máli að færi vel.

Eins er að geta að nú síðari árin er komið fram nýtt fyrirbæri þar sem þessi gamli siður er færður í nýjan búning og notaður sem fjáröflun, t.d. fyrir íþróttastarfsemi.  Hér á Egilsstöðum er þessi árin gengið í hús á hverju ári og fólki boðið ,,að gera áheit“ eða „heita á“ einhvern hóp (yfirleitt) sem er að afla fjár.  Oft eru þetta unglingar sem ætla að ganga, hlaupa eða iðka einhverja íþrótt eða t.d. sitja yfir námsbókum svo og svo lengi (eða sem lengst).  Fólki er þá boðið að greiða einhverja sjálfvalda upphæð (sem er þá alveg úr takt við gömlu hugsunina því upphæðin er þá óháð hvernig til tekst) eða upphæð sem miðast við tiltekin árangur eða afköst/tímalengd.  Í síðara tilfellinu er hugsunin einnig býsna ólík hefðbundnum áheitum – því peningarnir ganga til þess sem lánast eitthvað en ekki að sá sem fyrir láni verður láti eitthvað af hendi rakna.

Ég þekki ekki einstök dæmi um áheit á Strandarkirkju en veit að þau hafa verið mjög algeng.

Varðandi fyrirspurnir um hvar kirkju var valinn staður hef ég ekki margt að segja.  
Veit að Guðjón Samúelsson valdi Egilsstaðakirkju stað við norðurenda aðalgötu þorpsins (Lagarás) í móum sunnan í Gálgaási eins og sést á skipulagsuppdrætti frá 1948.  Hilmar Ólafsson, arkitekt kirkjunnar, ákvað árið 1967 að færa kirkjustæðið meira upp á Gálgaásinn og svolítið til hliðar við stefnu götunnar.  Þar með tók hann meira mið af að um væri að ræða höfuðkirkju Héraðsins sem blasti við er ekið væri í átt til Egilsstaða heldur en um væri að ræða þorpskirkjuna.  Í báðum tilfellum mun hafa verið um praktísk sjónarmið að ræða fremur en einhver söguleg tengsl við tiltekinn blett.

Frá einu atviki get ég sagt varðandi smíði Egilsstaðakirkju (hún var byggð á árunum 1968- 1974) sem einn þeirra sem vann að kirkjusmíðinni, þá ungur maður, sagði mér.  Hann var að vinna hátt uppi yfir kirkjuskipinu og féll marga metra niður á gólf kirkjunnar en reis á fætur ómeiddur.  Honum var þetta mjög hugstætt og þetta mun hafa þótt athyglivert meðal þeirra sem fylgdust með byggingu kirkjunnar.

Ekki kannast ég þó almennt við hugmyndir um sérstakan verndarmátt kirkjuhússins eða hluta þess þó margir muni kannski telja minni hættu á slysum eða óhöppum í kirkju en annars staðar.

Varðandi viðhorf fólks til helgi kirkjuhússins þá skiptir nokkuð í tvö horn hvað það varðar.  Eldra fólk og fólk tengt sveitinni og einhvers konar kirkjulegri menningu ber jafnan mikla virðingu fyrir kirkjum og þá sérstaklega altarinu og svæðinu umhverfis það.  Hins vegar hitti ég oft (það á við um allan minn starfstíma) fólk, sérstaklega yngra fólk af Reykjavíkursvæðinu sem er lítt kirkjuvant (sumir t.d. aldir upp í þá kirkjulausu hverfi) og umgengst kirkjur sem hvert annað hús (t.d. fólk sem kemur til að halda tónleika í kirkju) nema því sé leiðbeint um annað (þetta á kannski sérstaklega við hvað varðar altarið).  Þessum hópi tilheyrir víst einnig að einhverju leyti fólk sem kemur úr ýmis konar fríkirkjum (amerísk ættuðum) þar sem trúariðkun tengist ekki kirkjuhúsum eða neinum búnaði sem helgi er á.

Þessu skylt eru siðir í kirkju, t.d. hvort klappað er.  Í Egilsstaðakirkju hefur frá upphafi verið klappað á tónleikum og t.d. í ýmiss konar barnastarfi (kirkjan var vígð 1974).  Síður hefur verið klappað í eldri kirkjum – í hinum minni (eldri) sveitakirkjum er líka minna um að þar fari eitthvað annað fram en helgihald.  Þó virðist nú síðustu árin fólki almennt farið að finnast eðlilegt að klappa í kirkjum hér um slóðir, t.d. ef börn syngja þar á aðventusamveru.  Viss togstreita er um það til hvers sé eðlilegt að nota kirkjur en flestir virðast sammála um að umgangast skuli kirkjur af nokkurri virðingu.

Varðandi helgi kirkjulegra gripa eða þess háttar kannast ég helst við að sumt eldra fólk drepur fingrum ofan í skírnarvatn og ber að augum sér.  Þetta mun eitthvað tengt gamalli trú á lækningamátt skírnarvatns og þá líklega sérstaklega í sambandi við augu.

Enn eitt dettur mér í hug að minnast á, nokkuð annað mál, en það er tiltölulega hröð breyting varðandi trúarlegt atferli bæði presta og einnig annarra.  Þar á ég við að þegar ég hóf prestskap (1976) var ekki gert ráð fyrir að fólk signdi sig í neinum athöfnum.  Signingar og hneigingar presta við altari voru líka nær óþekktar með lútherskra presta hérlendis.  En nú hefjast messur og alls kyns helgiathafnir nær undantekningalaust með signingu og nýlega útskrifaðir prestar (um og fyrir síðustu aldamót, a.m.k.) virðast hneigja sig fyrir framan altarið og signa sig við upphaf messu (og kannski oftar).  Almennt hefur áhersla á sýnilegt trúarlegt atferli og ýmislegt táknrænt, t.d. liti, farið mjög vaxandi síðustu áratugina hérlendis.  Þess er að geta að meiri áhersla er síðari ár varðandi fræðslu fermingarbarna að kynna þeim starf kirkjunnar og trúarlegt atferli en áður var.  Áherslan á að gera þetta fólk (og að vissu leyti fjölskyldur barnanna) hagvant í kirkjunni, kunna að hafa sér þar og átta sig á ýmis konar táknrænni merkingu kirkjuhússins, búnaðar þess og helgihaldsins.  Hin svokallaða afhelgun sem mikið bar á t.d. framan af 20. öld hefur að vissu leyti snúist við síðustu áratugina (sbr. t.d. grein dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar Boðun og afhelgun, í Kirkjuritinu 2:2009).  Þetta sést t.d. á vaxandi fjölda alls kyns húsblessana og vígsluathafna með einhvers konar kristnu helgihaldi nú síðustu áratugi.

Skírnir fara margar fram í kirkjum bæði við messur en alloft sem sérathafnir en alltaf er nokkuð um heimaskírnir.  Skírnir sem sérathafnir í kirkju (frekar en í heimahúsi) stafa að mínum dómi fremur af praktískum ástæðum en hugmyndafræðilegum.  Þ.e. auðveldara er að fara með börn til kirkju en áður og þær upphitaðar eða hægt að hita þær með lítilli fyrirhöfn.  

Skírnir voru helst tengdar stórhátíðum framan af árum mínum í prestskap en dreifast nú jafnar um árið.  Skýringar tel ég vera m.a. að þá var leitast við að auka á hátíðabrigðin og það kannski praktískt að vera með skírn þegar veisluborð beið hvort eð var.  Á síðari árum hefur veisluhald og alls kyns tilstand í kringum hátíðir orðið svo mikið að fólki finnst ekki á það bætandi.  Einnig er farið að miða meira (á stað eins og Egilsstöðum þar sem margir eru aðfluttir) við það að burtfluttir ættingjar og venslafólk geti verið viðstatt (það á einnig við um aðrar kirkjulegar athafnir sem fjölskyldum tengjast).  

Geta má þess að ég skírði barn við Lindur, volgar laugar sem fóru undir Hálslón við gerð Kárahnjúkavirkjunar.  Skírt var á barmi lindarinnar og vatnið tekið úr henni.  Þetta hafði sterka merkingu fyrir foreldrana og aðra viðstaddra.  Þetta var 19. ágúst, 2006 og í vitund fólks var þetta, meina ég, um leið einhvers konar helgun þessa lands, þar sem fallegt gróðurlendi var dæmt til að fara undir jökulvatn, eða jafnframt einhvers konar viðurkenning eða áminning um helgi landsins og kannski nokkurs konar kveðjuathöfn svæðisins.

Kirkjusókn er mest í kringum stórhátíðir og þá sérstaklega jól (síst um hvítasunnu).  Kannski er aðventan í hugum fólks líka sérstakur kirkjutími en kirkjuleg starfsemi á aðventu á reyndar nú síðari árin í mikilli samkeppni við ýmis konar samkomur og félagslíf sem vísar til þessa árstíma og reynir með einhverja mót að „selja“ aðventustemmingu.  Þá má segja að veturinn sé nú hin síðari ár orðinn sérstakur kirkjutími fyrir allmarga með vaxandi áherslu á þátttöku fermingarbarna og fjölskyldna þeirra í helgihaldi.

Fjölbreytni er vaxandi varðandi ýmislegt í sambandi við helgihald.  Helgihald utan dyra er orðið algengara síðustu árin einkum yfir hásumarið (ég held að vegur kirkjuhússins hafi varla farið minnkandi þess vegna), stundum er þetta tengt einhvers konar helgigöngum.  Kirkjan reynir að ná til fólks í fjölbreyttari aðstæðum og ekki er lengur hægt að miða við jafn einsleita hjörð og áður var gert.  Staður útihelgihalds virðist oftast tengjast því að þar safnast fólk gjarnan saman eða er fagurt og skjólsælt.  Hér hefur t.d. um allmargra ára skeið verið messa flest sumur í Selskógi ofan við Egilsstaði, þ.e. frá árinu 1995 (á sviði útileikhússins þar).  Áður voru slíkar guðsþjónustur (einfaldar) helst tengdar útisamkomum á þjóðhátíðardegi (sjá bls. 374 í Egilsstaðabók – frá býli til bæjar, útg. af Egilsstaðabæ 1997, fleira í 18. kafla þeirrar bókar kemur inn á efni þessa bréfs).

Varðandi giftingar utandyra sem þekkjast þó ekki séu þær mjög algengar hér um slóðir.  Ekki kannast ég við að þær fari fram á stöðum sem sérstök helgi er á – fremur þar sem náttúrufegurð er mikil eða staðurinn tengist brúðhjónunum sérstaklega.  Giftingar eru oftast fremur einfaldar athafnir hér um slóðir og ekki hef ég heyrt af galsafengnum samkvæmum (gæsa og steggjapartíum) fyrir brúðkaup sem sögur hafa farið af syðra.

Ekki er talið varlegt að skilja Egilsstaðakirkju eftir opna án eftirlits en reynt að hafa hana nokkuð mikið opna að sumarlagi enda mikið um að ferðafólk komi í kirkju.  Hinar kirkjurnar í mínu prestakalli munu almennt opnar.  Að einhverju leyti munu ferðaþjónustuhugmyndir búa að baki vaxandi áherslu á að ferðafólk komist í kirkju.  Frekar tek ég eftir að útlendingar komi í kirkju í ótvíræðum trúarlegum tilgangi sem ferða menn, þ.e. setjast hljóðir niður um stund til að biðja eða íhuga.

Ég lýk þessu tilskrifi með atriði sem amma mín sagði mér þegar ég var barn eða unglingur. Hún var prestsfrú á Desjarmýri en fædd í Gulverjabæ í Flóa árið 1895.  Þetta lýsir tegund af áheiti.  Bóndi þar í sveitinni, fékkst einnig við sjómennsku tíma og tíma, Sigurjón Bjarnason hét hann og var einnig Sunnlendingur að uppruna (fæddur á bænum Sperðli í Rangárvallasýslu síðla á 19 öld).  Þegar hann réri (dagróðrar á trillubát) til fiskjar á vorin (eða í annan tíma þegar óvíst var með hvort eitthvað fiskaðist) þá hét hann (stundum) á þessa ömmu mína að gefa henni fisk ef eitthvað aflaðist (eða hvað sem hann nú miðaði við) og ef þetta gekk eftir þá kom hann við hjá ömmu minni og færði henni nýjan fisk og hafði við orð að það gæfist vel að heita á hana.

Egilsstöðum 20. desember, 2009                
Vigfús Ingvar Ingvarsson

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana