LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1955-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

ByggðaheitiSandgerði
Sveitarfélag 1950Miðneshreppur
Núv. sveitarfélagSandgerðisbær
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1948

Nánari upplýsingar

Númer17190/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/2009
TækniTölvuskrift
Um áheit
Hefur þú heitið á eitthvað þér til hjálpar eða þekkir þú fólk sem hefur gert það? Hversu algengt er þetta? Hefurðu heitið á eitthvað einu sinni, tvisvar eða oftar, eða þekkirðu fleiri dæmi?
Ég sjálfur hef ekki verið með áheit en til mín sem formanns sóknarnefndar hefur komið fólk með áheit á Hvalsneskirkju. Það skeður nokkrum sinnum á ári.

Undir hvaða kringumstæðum og hvernig fer eða fór áheitið fram (t.d þegar mikið lá við)?  
Það virðist vera við hina ýmsu atburði, almennt er fólk ekki að segja af hverju áheitið er.

Er þér kunnugt um hvort áheit séu hugsanlega kynbundin eða aldurstengd? Geturðu lýst þessu?
Frekar hjá eldra fólki.

Á hvað var heitið? Var heitið á kirkjur, hjálparstofnanir eða -starfsemi, helga menn, ákveðnar persónur (t.d. einstæðinga eða manneskjur sem eiga við andstreymi að stríða), dýr, hluti eða annað? Tilgreindu nákvæmlega hvaða kirkjur, persónur eða stofnanir, ef hægt er.
Það virðist vera fjölbreitt á hvað er heitið. Þegar ég var í foreldrahúsum var oft talað um áheit sem bárust tveim kirkjum, Strandakirkju og Hvalsneskirkju.

Kannast þú við að áheit geti bæði verið í gamni og alvöru? Er eða var t.d. heitið á börn að gera þeim eitthvað til glaðnings ef þetta eða hitt gengi eftir? Nefndu dæmi.
Eftir að Lottóæði rann á landann hef ég oft heyrt að viðkomandi segist heita á einhvern, oft vinnufélaga eða vin, ef hann fái stóra vinninginn, oftast fylgdi með út að borða eða glaðningur.

Hvað telur þú að hafi ráðið því að sumar kirkjur, stofnanir eða persónur þykja eða þóttu góðar til áheita?  
Strandakirkja og Hvalsneskirkja eiga merkilega sögu, báðar standa við brimótta strönd þar sem alvarleg sjóslys hafa verið í aldanna rás. Oft var þetta fólk tengt sjósókn sem hafði þessa trú að áheit á viðkomandi kirkju færði blessun fyrir viðkomandi.

Hver var tilgangurinn með áheitinu eða áheitunum?
Sennilega að standa við áheitið, oftast ef viðkomandi ósk rættist eða bæn þess hafi gengið eftir og þar með fer viðkomandi að trúa á áheitið.

Hverju var eða er heitið?
Oft peningagjöf eða vera betri maður.

Báru áheitin árangur? Kanntu sögur af því hvernig áheit urðu fólki til góðs?
Stundum, menn voru frekar til í að segja frá áheitum ef þau gengu eftir og rættust.

Hvenær og hvernig fer/fór „greiðsla“ fram?
Oft komið með í umslagi, stundum afhent presti eða sent í pósti.

Finnst þér vera takmörk fyrir því í hvaða skyni má nota áheit af þessu tagi? Má t.d. nota þau til þess að fá atvinnu eða vinning í lottói? Útskýrðu hver takmörkin eru, ef hægt er, og af hverju.
Öll áheit til kirkju eru notuð í kirkjustarfið. Einstaklingar sem áheita á hvorn annan eða frændur eða félaga hafa frjálsar hendur um sín mál.

Er álitið betra að heita á sumt fremur en annað og hvers vegna? Á það almennt við um áheit eða er það mismunandi eftir aðstæðum? Hvað ræður valinu? Fór þetta hugsanlega eftir stærð mála?
Mjög margir heita á kirkju, sennilega út af guðstrúnni og virðuleik kirkna.

Hvað heldur þú að gerist ef áheit er ekki innt af hendi?
Veit ekki, það fer eftir hvernig viðkomandi er þenkjandi, er hann heiðarlegur eða svikull.

Var eða er talið athugavert að heita á eitthvað ef ekki hefur verið greitt fyrir síðasta áheit og af hverju?
Þekki ekki svona atvik.

Þekkir þú sögur um áheit á kirkjur (Strandarkirkju eða aðrar kirkjur)? Getur þú rifjað upp slíkar frásagnir?
Já sjómenn og aðstandendur hétu á Hvalsneskirkju, sennilega af því hún sést langt að frá sjó. Margir sjómenn notuðu hana sem mið (áður en nútímatækni kom í báta). Það var trú manna ef sjólag versnaði við ströndina og bátar áttu eftir að koma í vör, að senda einhvern og hafa kirkjudyrnar opnar þar til allir bátar höfðu komið í land.

Hvaða áhrif hefur það á útkomuna ef sagt er frá áheitinu? Er það gert fyrirfram eða eftir á? Hve algengt er fólk greini frá slíku?
Þekki ekki aðeins að greint sé frá áheiti ef viðkomandi ósk hafi ræst.

Annað sem tengist áheitum og þú vilt benda á.
Hef stundum hugsað ú í það að eldra fólk er mjög meðvitað um áheit. En nútíma unga kynslóðin, er hún eins meðvituð um áheit? Eldra fólk hafði ekki áheit í flimtingum, þetta var alvarlegt mál.


Um kirkjur
Hvað réði því aðallega hvar kirkjunni var valinn staður? Rifjaðu upp frásagnir í þessu sambandi, ef til eru, og gjarnan einnig um smíði guðshússins sem yfirskilvitlegar þykja.
Kirkjur að Hvalsnesi hafa verið þar frá 12. öld, sennilega af því að Hvalsnes var í hundruði ára fjölmennasta byggðahverfið á hinu forna Miðnesi. Eitt af því sem væntanlega hefur ráðið um búsetu þar er að þaðan er stutt á fengsæl fiskimið, góðar varir fyrir útvegsbændur.

Var eða er kirkjan látin standa opin eða ólæst um lengri eða skemmri tíma? Í hvaða tilgangi er/var það gert?
Fyrr á öldum var kirkjan ólæst en eftir að alls konar misyndismenn fóru um sveitir hefur kirkjan ávallt verið læst. Það var trú manna ef bátar voru á sjó og veður versnaði að senda einhvern til að hafa kirkjudyrnar opnar þar til allir bátar voru komnir að landi.

Er kirkjuhúsið eða hluti þess talið búa yfir verndarmætti? Fyrir hverju þá og hvernig?
Ekki hef ég heyrt af því. Má vera að svo sé. Þegar flutningaskipið Wilson Muuga strandaði fyrir framan kirkjuna 19. desember 2006 hófust miklar tilfæringar um að reyna að ná skipinu af strandstað. Við messu á aðfangadag, 24. des. 2006, kom í ljós að hitakerfi kirkjunnar var bilað, gat hafði komið á hitatúpu kirkjunnar eftir að tekist hafði að ná skipinu af strandstað hafði útgerðarmaður skipsins samband við formann sóknarnefndar og sagðist vilja færa kirkjunni gjöf af því hve vel gekk að ná skipinu af strandstað, hann hafði frétt af bilun hitatúpunnar og færði kirkjunni andvirði nýrrar hitatúpu.

Hver er/var afstaða fólks gagnvart því að leggja niður kirkju eða að eiga þátt í að taka hana ofan? Hafa viðhorf gagnvart þessu hugsanlega breyst í tímans rás?
Þegar siðaskiptin voru á Íslandi kom skipun um að kirkja að Hvalsnesi skildi rifin. Enginn vildi taka þátt í að rífa kirkjuna þar til þrír menn létu tilleiðast og rifu kirkjuna. Þeim var sagt að þeim skyldi hefnast fyrir að rífa kirkjuna sem og gekk eftir. Þeir veiktust allir mjög alvarlega og varð vart hugað líf þó þeir hafi ekki látist. Í dag myndi enginn láta sér detta í hug að rífa Hvalsneskirkju, slíkt musteri sem hún er. Það má vel vera að gamlar og litlar trékirkjur sem kalla á mikið viðhald og eiga vart peninga til reksturs og viðhalds séu rifnar.

Hefur viðhorf fólks gagnvart kirkjunni sem helgu húsi breyst á einhvern hátt svo þú vitir til? Á hvaða hátt og hvernig kemur það fram?
Þar sem ég starfa líka sem leiðsögumaður og tek á móti miklum fjölda manna í Hvalsneskirkju finn ég það á fólki að það ber mikla virðingu fyrir kirkjunni, tekur ofan, talar ekki hátt, dásamar það sem fyrir augu ber.

Hvernig var afstaða manna til kirkjunnar tengd grafreitnum umhverfis hana og legstöðum ættingja og vina?  
Það er vel hugsað um leiði í kirkjugarðinum sem eru norðan við kirkjuna og aðstandendur bera mikla virðingu fyrir kirkjunni.

Er eitthvað sem ekki þykir sæma að athafast í kirkju eða annað sem talið er æskilegt að gera? Tengist þetta hugsanlega ákveðnu svæði í guðshúsinu? Má t.d. klappa eða hlæja í messu? Segðu frá öðrum hugmyndum um hegðun fólks í kirkju.
Fyrir nokkrum áratugum var allt miklu þyngra í kirkjunni, það mátti ekki klappa, ekki hlægja. Í dag er allt orðið svo frjálst í kirkjum. Almennt er ekki klappað í messu, þó kemur fyrir að kirkjugestir hlægja af því sem er spaugilegt sem getur komið frá presti í hans máli. Finnst vera að ágerast að börn séu á flakki í miðri athöfn. Það er sennilega af nýju uppeldisstefnunni, að leyfa börnum að njóta sín, en stundum truflar þetta athafnir.

Hvers konar hlutverki gegnir kirkjan sem samkomuhús fyrir ýmsa veraldlega viðburði? Hvaða óskráðar reglur eru í gildi utan messutíma, má t.d. klappa á tónleikum?
Hér í Sandgerði erum við með Hvalsneskirkju og safnaðarheimili í Sandgerði. Það er meiri virðuleiki yfir athöfnum í kirkjunni, þar er oft klappað fyrir tónlistaflutningi. Í safnaðarheimilinu fara fram fjölbreyttari athafnir og þar er oft hlegið hressilega.

Hvaða máli skiptir sjálf kirkjubyggingin við trúariðkanir fólks? Er jafngilt að stunda trú sína og helgihald utan byggingarinnar og að fara í kirkju, t.d. að skíra heima? Hvenær er þá helst farið í guðshús?
Kirkjan skiptir miklu máli vegna trúariðkana. Kemur fyrir að skírt sé í heimahúsi. Oftast farið til kirkju um jól.

Kannast þú við trú á einstaka gripi í kirkjum? Hefurðu heyrt um sérstaka trú á altarissakramenti eða kaleika, mátt skírnarvatnsins (lækningamátt, vörn gegn illum öflum o.fl.)? Geturðu lýst þessu?
Nei.

Við hvaða tækifæri og af hvaða tilefni eru kirkjunni gefnar gjafir? Hvers konar gjafir er helst um að ræða? Hvaða væntingar hafa gefendur til kirkjunnar?
Oftast til minningar um látinn fjölskylduvin eða einhvern nákominn.

Messur, giftingar og aðrar helgiathafnir undir beru lofti hafa tíðkast um nokkurt skeið. Fara slíkar athafnir hugsanlega fram á ákveðnum stöðum og ef svo er hvaða? Hvað er þetta gamall siður? Greindu frá því sem þú veist um þetta.
Ekki hér í Sandgerði.

Þekkir þú lindir, brunna eða læki sem sérstök trú er tengd við? Yfir hvaða eiginleikum eiga þeir að búa? Tengist trúin ákveðnum árstíma?
Ekki hér í Sandgerði.

Þekkir þú sögur af stöðum sem hafa verið vígðir af helgum mönnum? Eða af stöðum sem tengjast dýrlingum eða öðrum helgum mönnum á einhvern annan hátt? Geturðu sagt frá þessu?  
Nei.      

Segðu frá öðrum stöðum sem sérstök helgi eða átrúnaður er á.
Hóll í Sandgerði sem heitir Álfhóll, þar má ekki vera með jarðrask. Börnum var kennt að bera virðingu fyrir hólnum.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana