Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1893

Nánari upplýsingar

Númer1559/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 1559

p1
Sumarmálahret: Það var álitið að oft fylgdi hrakviðri sumarmálum. Nefnt sumarmálahret. Því var trúað að tíð myndi batna er slíkt hret var um garð gengið.

p2
Sumartunglið: Kannast við að svara í sumartunglið. Sá eða sú sem rak augun í sumartunglið mátti ekki mæla neitt fyrr en einhver hafði ávarpað hann, en af þeim orðum mátti marka hvað framtíðin bar í skauti sínu. Því var að gömul kona ein fór út að kvöldi til að taka inn þvott og rak augun í tunglið. Er hún kom svo inn sagði dóttir hennar. "Nú er þér kalt mamma". Gamla konan þykktist við og sagði að sér yrði þó enn kaldara áður en árinu lyki. Varð henni og að trú sinni segir sagan. Sumargjafir: All algengt var að sumargjafir væru gefnar, einkum börnum. Oft voru það flíkur, sem viðkomanda vanhagaði um. Sumardagsnóttin fyrsta: Tekið var mark á veðri fyrstu sumarnótt. Það var kallað að frysi saman sumar og vetur ef frost var fyrstu sumarnótt. Það var álitinn góður fyrirboði. Til skamms tíma kveðst hafa tískast í Fljótum, þar sett út að kveldi vatn í skel, sem svo var vitjað um snemma að morgni. Sennilega fundið upp upphaflega til að hressa upp á mannskapinn í k uldatíð, því að fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Veitingar: Í sumarmálamat tíðkaðist sums staðar að pottkökur úr rúgmjöli voru bakaðar og úthlutað á sumardaginn fyrsta, einni heilli köku handa hverjum. Fylgdi henni þ á lítil smjörskaka og svo auðvitað hangikjöt, reyktur magáll ofl. góðgæti (uppl. úr Fljótum).

p3
Sumardagurinn fyrsti: Snemma var risið úr rekkju á sumardaginn fyrsta. Því var trúað að árvekni manna sumarlangt ætti að fara eftir fótaferð fyrsta sumardag. Er komið var undir bert loft að morgni var kallað að fagna sumri, heilsa sumri. Húsmóðir fór fyrst á fætur sem endranær. Sagt var Guð gefi þér gleðilegt sumar. Fólki var færður sumarglaðningur í rúmið fyrsta sumardag. Sumardagsskammturinn var gefinn strax að morgni. Sumargjafir gefnar að morgni. Ekki afhentar með neinum ákveðnum formála. Þakkað með kossi og Guðlaun. Menn bjuggust betri fötum á sumard. fyrsta. Heimilisstörfum var háttað þennan dag eins og á öðrum helgi- og tyllidögum. Ekki þekktist að gemlingar væru brennimerktir. Farið var í leiki á sumard. fyrsta. Fullorðnir og börn tóku þátt í þeim. Það voru hafnarleikir, hlaupið í skarðið, risaleikur, skessuleikur, eitt par fram fyrir ekkjumann ofl. Sums staðar var lesinn húslestur á sumard. fyrsta. Lesið var fyrir hádegi. Sums staðar voru sungir sálmar líka. Ekki vissi ég til að nágrannar skiptust á heimsóknum.

p4
Fyrstu sumardagar: Einna mest var tekið mark á því hvernig viðraði á sunnudaginn fyrstan í sumri. Átti að viðra svipað í stórum dráttum allt sumarið.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana