Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1885

Nánari upplýsingar

Númer1641/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 1641

p1
Dreymt fyrir sumri: Ekki kannast ég við að hafa heyrt að menn dreymdi almennt fyrir sumri, en sennilega hafa ýmsir draumspakir menn þó átt vanda fyrir því. Aftur var það altalað í mínu ungdæmi að þá drauma væri að marka, sem menn dreymdi á fyrstu sumarnótt. Voru það kallaðar draumanætur, nýjársnótt, þorranótt og sumardagsnótt fyrsta. Og til enn frekari áherslu um að draumana væri að marka átti að sofa andfætis í rúmi sínu þessar nætur. En engan draum kann ég frá þessum draumanóttum.

p2
Sumarboðar: Ekki kannast ég við það, þó heyrði ég í æsku, að það þætti vita á kalt vor, ef lóan kom snemma t.d. á einmánuði eða jafnvel á góu. Aftur heyrði ég orðtakið: Þegar spóinn vellir graut, þá er úti öll þraut. En hvort hann byrjar að vella strax og hann kemur til landsins veit ég ekki, en ég minnist ekki að ég hafi heyrt spóa vella í kuldatíð.

p3
Sumarmálahret: Oft heyrði ég talað um sumarmálahret og þó aðallega hrafnagusu, sem von væri á 9 nóttum fyrir sumar, því þá verpti hrafninn á hverju vori, og kvað sem þeirri sögu líður man ég ekki betur en að eitthvert hret hafi komið um þær mundir á hverju vori, ekki etv. nákvæmlega 9 nóttum, síðan ég man fyrst eftir, oftast snjó- eða krapaslydda.

p4
Að svara í sumartungl: Það orðtak kannast ég vel við. Það er hvað fyrst er sagt við mann eftir að maður hefir séð sumartungl á lofti. Höfðu sumir trú á því að mikils væri um vert að fyrsta ávarp væri gott og hlýlegt, en meira vissi ég það gert sér til gamans að taka eftir því heldur en lagður væri mikill trúnaður á og sjálfur mátti maður ekki ávarpa aðra til þess að hægt væri að taka mark á ávarpinu. T.d. skal þess getið að ung hjón sem unnust heitt, sáu bæði sama kvöldið sumartunglið. Maðurinn sat inni og var að skrifa þegar kona hans kom inn, ætlaði hún nú að láta hann svara sér í sumartunglið, en hann var líka búinn að sjá sumartunglið út um gluggann, vildi því láta konu sína hefja máls, en hún beið eftir ávarpi bóndans, fór hún þá að láta vel að manni sínum leggja höfuð á öxl hans án þess að sgja orð. Ekki man ég hver endirinn varð, en auðvitað hefir það verið eitthvað hlýlegt hvort þeirra sem varð fyrra til að tala, því samkomulag hjónanna var ágætt. Einu sinni man ég eftir gfóðu svari í sumartungl. Ég var þá í Reykjavík vorið 1911 og úti á götu mæti ég konu sem ég var vel kunnug. Rétt í því að ég er nýbúin að sjá sumartunglið ávarpa hana því ekki, en um leið og hún gengur framhjá mér segir hún: Sælar. Þetta þótti mér gott ávarp, en ekki man ég nú eftir neinu happi sem henti mig þetta sumar.

p5
Sumargjafir: Ekki vandist ég því í uppvexti mínum, að almennt væru gefnar sumargjafir, en ég heyrði mömmu mína tala um að hún hefði þekkt þann sið, og mun það oftast hafa verið heimaunnir munir, svo sem rósaleppar, rósavettlingar og annað slíkt smávegis og var sjálfsagt farið fremur leynilega með svo hlutirnir kæmu á óvart. Vil ég í þessu sambandi geta þess, að ég heyrði talað um að einn húsbóndi sem bjó í nágrenni við mig, þegar ég var barn, hafði haft þann sið að gera upp reikninga við hjú sín á sumardaginn fyrsta og borga þeim sem ekki tóku kaup sitt í kindafóðrum, sem þá var algengt, amk. með flesta karlmenn og jafnvel konur líka. Enda var þetta sérstakt myndarheimili og efnafólk.

p6
Veitingar: Ekki kannast ég við þann sið sem nefndur er í þessum kafla, hvorki að matur né drykkur væri geymdur frá hausti til sumard. fyrsta. Aftur vandist ég því að sumard. fyrsti væri talinn með tyllidögum ársins og ætíð haldinn hátíðlegur sem sunnudagur væri. Lesinn húslestur í vorhugvekjum dr. Péturs Péturssonar biskups, sungnir misseraskiftasálmar síðasta vetrarkvöld eða morgun og aldrei unnin ónauðsynleg verk á sumardaginn fyrsta, heldur skemmt sér úti eða inni eftir ástæðum. Einn var sá leikur algengur, þegar ég var að alast upp, að gefa svonefnda einmánaðarpilta, þe. stúlkunum voru gefnir ógiftir piltar en konunum bændur. Voru svo nöfn piltanna sem hver fékk skrifuð á blað og átti svo hver að draga úr sinn hóp. Þótti þá mikils um vert að ná í skársta piltinn. Sama regla gilti um einmánaðarstúlkur, piltarnir fengu þær. Þessir leikir eru víst alveg niður lagðir nú. Aths. Auðvitað voru það piltar og stúlkur sem komu á einmánuði.

p7
Sumardagsnóttin fyrsta: Vanist hef ég því frá barnæsku að kallað væri að frysi saman sumar og vetur, ef frost var fyrstu sumardagsnótt, og sagði gamla fólkið, að þá yrði gott undir bú, þe. fé vænt og ær mjólkuðu vel meðan fráfærur tíðkuðust. Krakkar gerðu sér til gamans að láta vatn í skel til að vita hvort frysi, annars finnst mér nú vandræðalaust í felstum tilfellum, að sjá hvort frosið hefir að nóttu til og aldrei hef ég heyrt fyrr að húsfreyjur gengju berfættir til að vita hvort frost væri í rót. ekki man ég eftir að sérstakt mark væri tekið á rigningu á sumardagsnótt fyrstu nema þá ef vera skyldi, að það þætti flýta fyrir gróðri.

p8
Sumardagurinn fyrsti: Ég held að húsbændur hafi oftast risið fyrstir úr rekkju etv. húsmóðir á sumard. fyrsta. Var þá almennt siður í gamla daga að fara út ef sæmilegt veður var, signa sig og lesa stutta morgunbæn, koma svo inn og bjóða fólkinu góðan dag og gleðilegt sumar. Voru þetta almennar kveðjur heimilisfólksins þegar það hittist fyrsta sumardag og einnig fyrstu viku sumars er menn hittu kunningja eða töluðu við þá í síma eftir að sími kom. Líka var á seinni árum bætt við sumarkveðjuna, þegar kunningjum eða vinum var heilsað: Ég þakka þér fyrir veturinn, en sú kveðja man ég ekki til að fylgdi þegar ég var barn. Þessar venjur haldast enn þar sem ég þekki til. Hvað matmálstíma viðvíkur var hann alveg eins og á sunnudögum, ætíð einhver hátíðmatur og ekki unnið annað en óhjákvæmileg störf. Fólkið bjó sig í sunnudagaföt og auðvitað spariföt ef það fór að heiman og skemmti sér með ýmsum leikjum stil tiltækir voru sem áður er minnst á. Algengt var að brennimerkja gemlinga á sumardaginn fyrsta, einkum ef tíð var góð, svo útlit væri fyrir að farið yrði að sleppa þeim. Á einum bæ í minni sveit heyrði ég talað um að byrjað væri á vorverkum ef tíð leyfði t.d. ávinnslu túna. Um húslestur er áður getið. Margar húsfreyjur höfðu efflaust þann sið að fara í fjárhúsin með bændum sínum á sumardagsmorguninn fyrsta.

p9
Dagurinn var almennt helgaður ungum stúlkum og nefndur yngismeyjadagur, eins og fyrsti einmánaðardagur var kallaður yngismannadagur. Þá var siður að stúlkurnar þar sem mannmargt var á bæjum og etv. víðar héldu upp á daginn með því að gefa kaffi og gott brauð með, en piltarnir héldu aftur upp á yngismannadaginn á sama hátt. Heyrt hef ég að í sumum sveitum hafi þetta verið öfugt. Í minni sveit var það almæli að eftir því sem viðraði á fyrsta sunnudag í sumri yrði tíðin að mestu leyti fram í fardaga. Svo mikið er víst, að eftir mörgum köldum vorum man ég þegar illa viðraði á fyrsta sunnudag í sumri, t.d. vorið 1910. Þá var blindbylur fyrsta sunnud. í sumri enda batnaði ekki tíð til muna fyrr en upp úr miðjum mai, ef ég man rétt.

p10
Nýir hættir: Breytingar á viðhorfi manna til sumardagsins fyrsta finnst mér engar hafa orðið nema ef segja megi að hann sé orðinn enn meiri helgidagur síðan hann var gerður að messudegi í þjóðkirkjunni. Skilst mér að æskulýðshreyfing, skólar, dagblöð, útvarp og önnur fjölmiðlunartæki eigi þar stærstan hlut að, jafnvel UMF hreyfingin, sem breiddist svo ört út á fyrsta og örðum tug þessarar aldar, og átti svo ríkan þátt í þjóðfélagslegum ramförum, sem kunnugt er. Lækningajurtir. Öllum þeim spurningum sem fremsettar eru, get ég ekki svarað. Aðeins veit ég að margir suðu vallhumalssmyrsl úr nýjum vallhumli og ósöltuðu smjöri, uppskrift hef ég enga, en soðið þar til allt var komið í mauk, síðan látið í hreina dós eða glerkrukku með loki og geymt á köldum stað. Var þetta ágætur áburður á sár og fleiður og víða notað áður en vaselín kom til sögunnar. Kellingareldur var áður fyrr notaður ofan í sár til að stilla blóðrás, sömuleiðis var algengt í mínu ungdæmi að leggja munntóbakslauf við skurði, sérstaklega á fingrum, ef mikið blæddi, en báðar þessar aðferðir held ég að læknar hafi kveðið niður stuttu eftir síðustu aldamót og ráðlagt fremur joð sem oft var notað með góðum árangri.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana