Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1879

Nánari upplýsingar

Númer1621/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 1621

p1
Dreymt fyrir sumri: Ekki man ég að menn dreymdi fyrir sumri frekar var að menn dreymdi fyrir heyskap á ýmsan hátt. Sumarboðar: Ef farfuglar komu snemma t.d. lóa og spói töldu menn það góðs viti og þegar spóinn var kominn töldu menn von góðs veðurs. Þegar spóinn vellur graut - þá er úti vetrarþraut. Því var trúað. Ekki man ég að tekið væri mark á skordýrum. Sumarmálahret: Það var oft talað um að mundi batna eða versna með sumarmálum, en aldrei var talið víst sumarmálahret.

p2
Sumartunglið: Það var almennt að tala um sumartunglið og sumir létu svara sér í sumartunglið. Fóru menn þá út til að sjá sumartunglið í fyrsta sinn. Komu svo inn og sögðu ekki neitt, en biðu þess að einhver yrti á þá. Var það kallað að láta svara sér í sumartunglið og tóku sumir mark á því hvað við þá var sagt. Ekki voru það þó nema fáir sem mark tóku á því. Sumargjafir: Um 1890 má heita að sumargjafir væru aflagðar og þá farið að taka upp jólagjafir, en eldra fólk sagði mér að mikið hefði verið um það í þeirra uppvexti eða um miðja öldina, um 1850. Voru það oftast einhver tóskapur, fallegir vettlingar, sokkar, háleistar og jafnvel fallegir rósaleppar, fallega bryddir skór úr svörtu skinni, en minna um búðarvarning. Þó gáfu piltar það stundum, t.d. silkiklúta eða skýluklúta,

p3
svuntuefni eða slifsi. Fyrir kom að krökkum var gefið lamb. Auðvitað var farið leynt með þetta. Til var að sumir gáfu öllu heimilisfólkinu eitthvað. Veitingar. Aldrei man ég til að tekið væri frá neitt sérstakt til sumardagsins fyrsta, en á öllum betri bæjum var gefið hangikjöt og hveitibrauð, magálar hangnir, lundabaggar ofl. Var þá mikið skammtað svo að menn luku ekki átmat sínum, en geymdu til næstu daga. Einhver góður grautur var þá gefinn t.d. hnausþykkur grjónagrautur með rúsínum og kanil og sykri. Þá var sjálfsagt að þeir sem brúkuðu vín fengu sér staup með morgunkaffinu, enda voru svoleiðis mönnum oft gefin brennivínsflaska í sumargjöf. Oft var á farið snemma á fætur og sumum fært kaffi í rúmið með alls konar kaffibrauði amk. lummum og kleinum, og oft jólaköku.

p4
Annars var afar misjafnt hvað haldið var upp á sumardaginn fyrsta og fór það ekki eingöngu eftir efnum. Ekki man ég neina sérstakar kökur væru bakaðar fyrir sumardaginn fyrsta eða veitingar þann dag voru kallaðar nokkru sérstöku nafni. Fyrir utan kaffi og brauð strax að morgninum var svo seinna um daginn kaffi með kaffibrauði. Sumardagsnóttin fyrsta. Sumir tóku mark á því hvort að fraus saman sumar og vetur, svo sem segir í vísunni: Frjósi sumars fyrstu nótt - fargi enginn á né kú - gróðakonum gjörist rótt - gott mun verða undir bú. Ég vissi til að sett var út skál eða diskur með vatni til að sjá hvort frysi. Annars voru menn hættir að trúa þessu í mínum uppvexti. Ekki man ég að neitt mark væri tekið á því að rigndi og aldrei heyrði ég að gengið væri berfætt til að kanna frost.

p5
Sumardagurinn fyrsti: Ævinlega var farið snemma á fætur á sumardaginn fyrsta og get ég vel trúað að það hafi þótt góðs viti, að geta þá vaknað snemma og það man ég að menn komu hér snemma á sumardaginn fyrsta, taldi ég að þeir kæmu til þess að fá saman við kaffið, því faðir minn átti alltaf brennivín, þó að hann brúkaði það lítið sjálfur og síðutu ár sín algjör bindindismaður. Hann átti jafnan einiberjabrennivín á flösku. Vanalega fóru foreldrar mínir jafnt á fætur. Móðir mín til að taka til brauð með kaffinu. Buðu þá allir hver öðrum gleðilegt sumar og þökkuðu fyrir veturinn, venjulega með kossi. Væru sumargjafir gefnar voru þær venjulega gefnar strax að morgninum. Menn fóru í spariföt, því sá dagur hefur jafnan hér á Norðurlandi verið frídagur og haldinn sem sunnudagur, ekkert gjört nema nauðsynleg störf. Þá var morgunverður svipaður og vanalega. Þá var jafnan þrímælt, en miðdagsmatur var hangikjöt ef til var, oft reyktur magáll eða lundabaggi.

p6
Líka súr lundabaggasneið eða sviðakjammi og svo flatbrauð og pottbrauð. Það þótti ekki vel búið, ef ekki var til hangikjöt á sumardaginn fyrsta en sums staðar mun það nú ekki hafa verið til. Þegar þrímælt var var vanalega drukkið molakaffi um hádegi kl. 12 og aftur kl. 6. Á sumardaginn fyrsta var oftast kaffibrauð, lummur eða pönnukökur eða kleinur með því kaffi sérstaklega þó með miðaftanskaffinu. Á sumardaginn fyrsta þótti sjálfsagt að fara í útileiki. Söfnuðust þá saman oft krakkar frá nokkrum næstu bæjum, var þá farið í stórfiskaleik eða eyjaleik, skollaleik sitjandi, ef úti var. Mátti á skollinn sjá hvar setið var áður bundið var fyrir augu hans. Ef skollaleikur var inni var allt á ferð og flugi. Feluleik eða kóngsstólsleik og átti þá að komast á kóngsstólinn og þurfti þá kóngur að fyrirbjóða öllum að komast á kóngsstólinn. Sæi hann ekki manninn svo að hann kæmist óséður á kóngsstólinn sagðist hann fyrirbjóða kenginum og var kóngur þá úr tign. Úr 1890 fór að tíðkast handbolti eða slagbolti, var þá liðaskipti í 2 hópa, aðrir inni hinir úti. Þeir sem inni

p7
voru máttu ekki snerta boltann, máttu þeir slá boltann með priki eða þar til gjörðu tré og hlaupa svo á mark, sem væri æðilangt frá, oft 40-50 m. koma svo aftur og slá. Ef boltinn fór hátt og þeir sem úti voru gátu gripið hann mátti stinga honum í völlinn og allir hlaupa í borg, þeir er úti voru. Eins voru menn komnir inn ef einhver er út var hitt mann með boltanum á milli marka. Sá sem gaf upp boltann mátti aldrei fara með hann úr borg, en mátti kasta honum þaðan í hver sem var. Sennilega er til lýsing á þessum leik einhvers staðar, því hann var mikið leikinn fyrir og eftir aldamótin og jafnan úti. Voru margir með strengi eftir sumardaginn fyrsta vegna þessa boltaleiks, því við hann er hlaup mikil. Í þessum leik tóku þátt bæði unglingar og fullorðnir. Úr því krakkar voru 8-10 ára þóttu þeir oft góðir í þessum leik. Ekki man ég eftir því að riðið væri út á sumardaginn fyrsta. Það var afar sjaldgæft að heilar sveitir tækju sig saman til leika. Aftur á móti man ég eftir einni samkomu um aldamótin

p8
á milli Blöndósinga og Sauðkræklinga. Þeir komu saman á svokallaðri Móbergsgrund, sem er vestast í Litlavatnsskarði hjá eyðibýlinu Móbergsseli. Var það einhvern tíma seint í júni. Þar var sungið, drukkið og farið í boltaleik, ræður haldnar og skemmt sér vel. Þar voru olíuvélar til að hita kaffi og eitthvað mun hafa verið þar af mat. Var þetta ágæt skemmtun sem spilltist þó dálítið við helliskúr sem gerði, en þarna voru stór tjöld, sem þá var farið inn í. Allir komu þarna ríðandi. Fram um aldamót var jafnan lesinn hér húslestur á fyrsta sumardag og síðasta vetrardag, og þá oft sungið fyrir og eftir, var hann ævinlega lesinn að morgni dags. Ég heyrði talað um það að húsfreyja færi í fjárhús á sumardaginn fyrsta, en ekki var það hér. Sagt var að yngismenn ættu að fagna Hörpu og áttu þeir að fara á fætur og hita morgunkaffið, en lítið var úr því hér að þeir gerðu það. Ekki man ég að tekið væri mark á veðri fyrsta sumardag en á sunnudaginn fyrstan í sumri átti helst að vera sólskin og þurrkur, því eftir því fór eldiviðar og töðuþurrkur.

p9
Nýir hættir: Nú er miklu minna haldið upp á sumardaginn fyrsta en áður var að vísu er hann almennur frídagur hér á Norðurlandi og gefið er kaffi og brauð og breytt til ím at eins og á sunnudegi væri. Allar sumargjafir eru hættar og voru það nú reyndar töluvert löngu fyrir aldamót. Alveg er hætt að fara í leiki á bæjunum, en það hélst nú hér fram undir fyrra stríð. Fólksfæðin á bæjunum er orðin svo mikil, unglingarnir oft í skóla langt frá. Meiri skemmtanir eru nú en áður og því síður þörf fyrir þessa leiki,sem áður voru. Mér finnst að vetur hafi verið harðari þá en nú, en oft að batnaði með sumri. Batnandi ásetning hefur líka sín áhrif, að menn fagna ekki eins sumri og í æði mörg ár er vetrartíð út apríl og fram í maí, en lítil sumartíð.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana