Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1902

Nánari upplýsingar

Númer2326/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 2326

p1
Einn draum man ég glöggt frá vorinu 1917, en þá var ég á Gili í Öxnadal hjá föður mínum Emil Petersen og ráðskonu hans Guðnýju Jónsd. Guðnýju dreymdi á sumardagsnóttina fyrstu að barið var á Gili og gekk hún fram, er þar kominn maður all stórleitur og heldur á tildrulegum sóp í annarri hendi. Ekki yrti hann á Guðnýju, en tók sig upp og fór loftförum og hvarf fram til fjalla, en snýr þar við og tekur til við að sópa dalinn. Það sá hún að kústurinn var mjög stríhærður og slitinn og að beita varð kröftum, en fönnin, sem var mikil þyrlaðist upp, svo rétt grillti í manninn löngum stundum. Vel sóttist honum að sópa dalinn niður um sig, en undir fjallabrúnum sátu eftir stórir skaflar í skálum. Maðurinn vharf út dalinn og verður henni þá litið inn til jökulskila í dalbotninum, og sér að dregur upp fannabólstra. Þessi draumur var fyrirboði stysta sumarsins á þessari öld. Guðný bar berdreymin og hafði mjaðmir sem sögðu fyrir um veður.

p2
Sumarboðar voru ekki bundnir við sumardaginn fyrsta, en það get ég sagt um skordýr að sæust flugur skríða á sköftum þegar landið allt var ein fannabreiða, þá boðaði það sumarkomu. Þessar flugur líktust nýbornum lömbum þær skröngluðust áfram og ég held þær hafi komið upp í gegnum snjóinn. Köngulær skriðu úr hýðum sínum út á fyrstu hnjóta. Annars var mest tekið mark á skýjafari, sæist Máríutása á himni var það öruggt batamerki og sumarkoma. Maríutása voru ský samfelld um allan suðurhiminn, en þó eins og ullarreyfi greitt og sást um þessi ský í heiðan himinn alls staðar. Hrafninn verpti 9 nóttum fyrir sumar og á harðindaárum 1915-20 brást aldrei hrafnahret, og var sagt að breitt væri yfir hrafninn með því að þau hret byrjuðu með logndrífu. Sumarmálahret voru á hverju vori, en best man ég 1917, vegna þess að faðir minn orti

p3
kvæði þann fyrsta sumardag, en þá brast á síðasta vetrardag. Þetta er fyrsta erindið: Hví fer ei sól að signa vöggu þína - sumarið unga fætt á þessum degi - þoka á fjöllum, hríð á himinvegi - harðindi og frost þér banaskeyti sýna. Sú stórhríð stóð í viku. Ekki var þörf að bera út vatnsskál þá fyrstu sumarnótt, en það var gert, þar sem ég þekkti til. Væri góð tíð að sjá hvort skændi. Menn þurftu að vita hvort gott yrði undir bú. Látra Björg var á gangi á Árskógsströnd síðasta vetrardag, þegar hún orti þessa vísu: Hláku nú ég hlýja vil - hríðar undan flyja byl - falleg eru skýjaskil - skildi hann ekki svía til. Svarað í sumartungl. Sumartungl voru oft löngu fyrir sumarmál. Sá sem fyrstur sá

p4
sumartunglið beið þess að yrt væri á hann að fyrra bragði og markaði sitt persónulega sumar þar af. Eitt sinn á Gili lét ég svara mér og kom inn frá útiverkum óskafinn, snjóugur, þá sagði gamlan konan: Óttalegur jarðvöðull ertu strákur, að koma svona inn. Sumarið var mér erfitt. Sumargjafir heyrði ég fyrst nefndar á Árnesi í Tungusveit 1921. En húsfreyjan þar lét nýja sokka, brotna á hæl við hvers manns rúm á sumardagsmorguninn fyrsta, eins var þar skammtaður sunnudagamatur og gefið upp við önnur verk en skyldustörf. Þýðingarmikið var að taka daginn snemma og bauð hver öðrum gleðilegt sumar eftir að út var gengið. Húslesturinn las húsfreyjan. Ég hefi þó gleymt úr hvaða postillu hún las. En auk lesturs voru sungin sumarljóð. Talað var um að sumrið færi eftir sunnudeginum fyrstum í sumri.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana