Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1900

Nánari upplýsingar

Númer2685/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 2685

p1
Sumarboði: Ef heiðlóan kom snemma var álitið að væri eftir að koma kuldakast. Einnig í sambandi við gróður jarðar. Ef grænkaði í marsmánuði, þá var álitið að það ætti eftir að fölna í apríl. Ef kólnaði um sumarmálin var það nefnt sumarmálakast. Sumartunglið: Mjög mikið mark var á því tekið hvernig manni var svarað í sumartunglið. T.d. er þessi saga: Stúlka kom á bæ, hún var trúlofuð. Henni var boðið sæti og myndar hún sig til að setjast á stól hinn næsta er hún sá. Segir þá húsbóndinn: Nei, varaðu þig á þessum, hann er valtur. Þetta greip hana svo illa að það sást að hún fölnaði við. En á þessu sumri sveik kærastinn stúlkuna.

p2
Sumargjafir: Ekki voru farnar sérstakar kaupstaðarferðir vegna sumargjafakaupa. Samt var kvenfólkinu gefið efni í dagtreyju eða svuntu og auðvitað var það keypt í kaupstað, en hugsað fyrir því þannig að ekki þurfti að vera sérstakar reisur til útréttinga á því. Að ég best veit haft með í innkaupum í kaupstaðaferðinni sem farin var um Jónsmessuna á ári hverju. Veitingar: Í þann tíð var þrímælt. Morgunmatur, sem nefndur var litli skattur og á sumard. fyrsta var borið fram súr svið, brauð og slátur og sykrað skyr með rjóma útá og fengum við börnin vatn í munninn af tilhlökkun og eftirvæntingu að fá sykur út á skyrið, því slíkt var ekki daglegur liður. Með morgunkaffinu: Það var mikið um dýrðir að fá lummur með morgunkaffinu, því það var nú ekki á boðstólum nema á stórhátíðum.

p3
Sumardagsnóttin fyrsta: Það þótti góðs viti ef fraus saman sumar og vetur. Það sást auðvitað t.d. á moldarflögum. Hygg að sumir etv. taki mark á þessu enn í dag, t.d. fólk til sveita. Ekki þekktist að gengið væri berfætt í kringum bæinn á sumard. fyrsta, þar sem ég þekkti til. Ekki man ég eftir að sérstaklega væri tekið mark á ef rigndi á fyrstu sumarnótt. Sumardagurinn fyrsti: Fótaferð var á sama tíma og aðra daga um kl. 7 að morgni. Heilsað var sumri með því að allir buðu hver öðrum Gleðilegt sumar. Matur var eins og áður getur með morgunmatinn. Síðan var kaffi um hádegið og kallað hádegiskaffi. Kl. 3 eh. var miðdagsmatur og venjulega var þennan dag höfð kjötsúpa.

p4
Sumargjafir voru afhentar strax eftir morgunmat. Ekki man ég eftir neinum sérstökum formála og þakkað var fyrir þær á sama hátt og aðrar gjafir eða góðgjörðir. Alltaf var farið í sparifötin. Engum var ætlað neitt verk þennan dag nema það sem sjálfsagt var að sinna skepnum og mjaltir auðvitað, sem ekki var komist hjá og ekki gat beðið. Ekki man ég eftir að gemlingarnir hafi verið brennimerktir þennan dag. Leikir: Farið var í leiki þennan dag. Börn komu af næstu bæjum og kom fyrir að fullorðnir slæddust með. Leikirnir voru þessir: Dúfuleikir, skessuleikir, risaleikir og blindingsleikir. Ennþá fer um mig hitabylgja er mér dettur sumardagurinn fyrsti í hug. Húslestur var lesinn þennan dag á morgnana þegar búið var að borða morgunmatinn. Þá kom móðir mín inn úr eldhúsinu, setti upp hreina svuntu og settist inn við borðið og las húslestur. Las hún úr bók eftir sr. Jón Guðmundsson, er síðast var prestur í Reykjadal.

p5
Bókin heitir Sjöfalt missera.... offur eða 14 heilagar hugleiðingar fyrstu 7 dögum sumars. Skrifuð í Reykjadal 20. apríl 1768. Sálmar voru sungnir t.d. Nú kemur vorið kæra, ef kaldan vermir svörð. Ekki veit ég til að nágrannar skiptust á gjöfum. Fyrsti sumardagur var einnig nefndur fyrsti dagur í Hörpu. Hapra var tileinkuð ungu stúlkunum og einmánaðardagurinn fyrsti tilheyrði ungu piltunum. Það þótti ekki gott ef rigndi á sumardaginn fyrsta, og t.d. var nágrannakona okkar ein sem sagðist ekki hafa matarlyst ef rigndi þann dag. Sunnudagurinn fyrstur í sumri var álitinn merkisdagur fyrir túnasláttinn, en mánudagurinn fyrir sauðburðinn.

p6
Hætt er að gefa sumargjafir. Sumardagurinn fyrsti er orðinn dagur barnanna. En áður var hann fyrir alla. Þeir sem hafa átt mestan þátt í breytingum þessum eru ma. barnavinafélög. En ég get sagt af heilum huga að sumardagurinn fyrsti er ætíð hinn sami í mínum augum og alltaf jafn kær.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana