Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1903

Nánari upplýsingar

Númer1708/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 1708

p1
Dreymt fyrir sumri: Öruggt þótti að von væri á votvirðasömu sumri þegar menn dreymdi konu með Margrétarnafni. Ef konurnar voru fleiri en ein táknaði það jafn margar vikur og konurnar voru margar. Ekki þótti vænlegt að dreymna loðnar engjar, það táknaði votvirðasamt sumar. Einn dreymdi t.d. að hann ætti leið um engjar sínar kafloðnar. Hugði hann gott til sláttarins og mældi skákina með því að stíga hana. Hún reyndist 17 faðma löng. Drauminn réði hann fyrir 17 vikna rosa. Það fullyrti hann að gengið hefði eftir.

p2
Sumarboðar: Margir gjörðu sér far um að taka eftir því í hvaða átt þeir heyrðu fyrst hnegg hrossagauksins fyrst á nýbyrjuðu sumir. Þótt það væri ekki á sjálfan sumardaginn fyrsta höfðu þeir trú á því að vindar myndu blása mjög úr þeirri átt á komandi sumri.

p3
Sumarmálahret: Ekki var það talinn æskilegur vottur um gott sumar, að yfir gengi hret eða illviðrakafli um þetta leyti árs. En ef slíka hrynu gjörði þá stirðri tíð, var vonast eftir batnandi veðri að henni lokinni sem haldast mundi nokkurn tíma.

p4
Sumartungl: Veðurfar þótti oft fara eftir því hvernig það var þegar sumartunglið kviknaði. Líkur þóttu á að vindar blésu meira úr þeirr átt en öðrum, þar sem það var statt á braut sinni, þegar það sprakk út sem kallað var.

p5
Sumargjafir voru nokkuð almennar helst til barna. Sömuleiðis tíðkaðist það að konur fengju aflahlut manna sinna þennan dag. Sá siður helst enn víða við sjávarsíðuna. Ver þá konan andvirði þeirra fiska að eigin geðþótta.

p6
Veitingar: Oft var gjörður dagamunur í mat á sumardaginn t.d. bakaðar lummur til að hafa með morgunkaffinu. Skipseigendur gáfu skipshöfnum sumardagskaffi sem venjulega var með sætabrauði og stundum súkkulaði og öðru sem þar tilheyrði. Var það kölluð sumardagsveisla. Ekki var mikið um það að vínföng voru þar með, en þó kom það fyrir.

p7
Sumarnóttin fyrsta: Það þótti mikið um það vert að saman frysi sumar og vetur, sem kallað var. Þá var talið líklegt að sumarið yrði gott fyrir búskapinn. Oft var látinn vatnssopi í ílát, sem látið var standa úti fyrstu sumarnóttina. Sumir þóttust öruggari með að sjá frostmerki ef vatnið var haft í skel.

p8
Sumardagurinn fyrsti: Börn gjörðu sér ýmislegt til gamans í leikjum og öðru gamni, fóru í sín bestu föt og þó sérstaklega í þær flíkur sem þau fengu í sumargjöf. Mikilvægt var því að gott veður væri þann dag. Algengt var og að bjóða hver öðrum góðan dag með ósk um gleðilegt sumar. Störf fóru fram á sama hátt og aðra daga, þó var stundum róið aðeins fyrr þann morgun til að hafa lokið aðgerð og öðrum störfum dálítið fyrr en aðra daga. Það var gjört með tilliti til sumardagsveislunnar. Húslestrar voru lesnir við það tækifæri eins og önnur. Ekki var það gjört á ákveðnum tíma dagsins, heldur var því hagað eftir því hvenær lokið var önnum dagsins.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana