19 Sumardagurinn fyrsti
Nr. 2516
p1
Dreymt fyrir sumri:
Með ýmsu móti dreymdi menn fyrir sumri, sem og öðru er að tíðarfari snéri.
Mest þótti að marka, ef bónda, húsfreyju eða annað heimilisfólk dreymdi
unga stúlku, sem var tákn hörpu, og mátti eftir látbragði hennar ráða hvernig
sumarið yrði. Væri hún hæg og prúð og gæfi af sér yndisþokka, var það merki
þess að vænta mátti góðs sumars. En ef hún var gustmikil, hrekkjótt eða
stríðin, þótti víst að sumarið mundi verða storma- og rigningasamt. Væri
hún hvítklædd með flagsandi hár, átti það að tákna að hretviðri yrðu fram
eftir vorinu. Vont var að dreyma heyfirningar, það boðaði heyþröng, en
að vera þegar búinn að gefa upp öll hey, þurfti sá hinn sami ekki að kvíða
heyleysi. Dreymdi mann hafrót og að sjór gengi á land upp, táknaði það
aflasælt sumar. Einnig þótti gott að dreyma rauð hross, þriflegar rauðar
kýr og mislitt fé. Það var til merkis um að snemma leysti og sumarið yrði
sólríkt. Aftur á móti var harðindamerki að dreyma gráa hesta, sérlega ef
erfitt reyndist að handsama þá. Hvítar kindur boðuðu frannkomu. Alls konar
fiskafli benti til að ís myndi í vændum og þau harðindi er honum eru oftast
samfara. Þó gat það aðeins boðað mikla snjókomu, hret. Skip á siglingu
voru ótvírætt merki um ískomu og eftir því sem þau voru fleiri og fóru
hraðar var á verra von. Var þar átt við skip undir seglum. Að dreyma graslendi,
komið þar sem sjór var fyrir, gat svo farið að á þeim slóðum yrði samfrosta
ís svo gengin væri á komandi vetri.
p2
Sumarboðar: Töluvert
bar á að tekið væri mark á háttum fugla og dýra. Ef lóan kom snemma var
það góðs viti, þó að jafnaði væru ekki öll hret úti við hennar komu. Ennþá
er úti vorsins þraut - þegar spóinn vellir graut, var sagt og munu þá stórhret
hafa verið liðin hjá er hann vall. Svo var einnig að krían kom ekki fyrr
en hret voru um garð gengin. Ef jötunuxi sást inn í bæ, var von á vondu
veðri, oftast snjókomu. Gestafluga boðaði komu gesta, einnig þegar kisa
setti upp gestaspjót. Enn á gott veður vissi ef kötturinn þvoði sér aftur
fyrir eyrað, en gerði hann það ekki, þá hið gagnstæða. Ekki mátti slíta
niður kóngulóarvef, það var ólánsmerki. einnig átti ekki að drepa járnsmið.
Hann var konungssonur í álögum. Lánsmerki var ef kisa gatu í rúmi manns.
Talið er að hrafninn verpi 9 nóttum fyrir sumar í hörmum þar sem illt er
að komast að hreiðrinu. Það var talið óbrigðult merki harðinda, ef hrafninn
át undan sér. Illa mæltist fyrir að steypa undan hrafni og var ekki gert
nema hann legðist á lömb. Hrafnar 2 fylgdu hverju býli, og voru að vissu
marki heimilisvinir. Sjálfsagt þótti að gefa þeim á Gvendardag, þar fyrir
utan hirtu þeir draf það er til féll á bænum. Ef hrafn settist á bæjarburstina
og gargaði, boðaði það feigð einhvers heimamanns. Steindepillinn iðkaði
þann illa sið að fljúga undir júgrin á kvíaánum svo af hlaust undirflog,
júgurbólga, og var því ekki vel séður af mjaltakonum. Við undirflogi var
notuð hverfissteinaleðja og virtist gefa góða raun.
p3
Sumarmálahret: Sumarmál
eða síðasti sunnudagur í vetri var talið að hret fylgdi sumardeginum fyrsta
eða þeirri helgi og þótti betra að hretið væri fyrir og batnaði upp úr
sumardeginum fyrsta. Þunglega horfði ef vernsaði upp úr sumri, en þó veður
væru válynd þennan dag og engin ytri merki sumars, þá var þó eins og hlekkir
vetrarins brystu og fólk hristi af sér vetrardvalann og gekk ótrautt fram
móti því er koma skyldi. Sumartunglið: Er fólk fór út undir
bert loft og leit fyrst nýtt sumartungl, átti það ekki að mæla neitt, er
inn kom, en bíða þess að á það yrði yrt. Var það sá er fyrst það gerði
sem svaraði í sumartunglið. Var álitið að mark væri á því takandi, þó stundum
fælist í því tvíræð merking, eins og eftirfarandi saga gefur til kynna:
Stúlka ein á bæ var trúlofuð pilti í sveitinni. Hún fer út og sér sumartunglið,
kemur inn og ætlar að setjast á bekk í baðstofunni, en í því hún sest segir
maður við hana: Varaðu þig, hann er valtur. Um sumarið brá pilturinn heiti
við stúlkuna. Átti svarið að hafa verið aðvörun til hennar. Sumargjafir:
Ekki voru almennt gefnar sumargjafir, og engar sérstakar kaupstaðarferðir
farnar í þeim tilgangi. Ef um glaðning var að ræða var
p4
það heimaunnið svo
sem sokkar, vettlingar, illeppar eða smíðisgripur. Áttu þar allir hlut
að máli hver eftir sinni getu. Veitingar: Á sumum bæjum var
venja að búa út og taka frá á haustin mat til sumardagsins fyrsta. Kæfa
var látin í trédall og þjappað vel í hann svo ekki myndaðist loft á milli,
síðan brætt yfir með tólg, sem gerði ílátið þétt, og varði því að kæfan
skemmdist. Síðan hlemmur settur yfir dallinn. Þannig geymdist hún allan
veturinn. Einnig var kæfa geymd í skinnbelg og þótti það öllu betra, þar
sem hann var settur undir farg, pressaði6t þá fitan út í skinnið og gerði
hann loftþéttan. Til var að kæfubelgir væru hengdir upp í eldhúsrjáfur
og látnir nkóta reykjarsvælu um stundarsakir. Síðan teknir í geymslu. Hangikjöt
og magálar vour stundum teknir frá til sumarglaðnings, var þá sett við
þá merki svo þeir þekktust frá og tilheyrðu það eins þessum degi. Sumardagskökur
þekktust, þó ekki almennt. Þær voru eins og aðrar kökur úr heimamöluðum
rúgi að öðru en því að þær voru stærri og þykkri en venjulegt flatbrauð.
Þær voru búnar til dainn áður en átti að baka þær og geymdar í trogi yfir
nóttina. Síðan bakaðar á útbrunninni glóð og þóttu ljúffengar. Einnig voru
bökuð hlóðabrauð og fékk hver heimilismaður sinn skammt. Karlmaðurinn heilt
brauð, ef því var að skipta, en þá var ekki um sumardagsköku að ræða,
p5
brauðið kom í þeirra
stað. Hlóðabrauð var bakað á þann hátt að glóðin var sléttuð til í hlóðunum
og járnplata sem smurð var með fitu að ofan sett í glóðina. Þá var brauðdegið
mótað til og sett á plötuna. Brauðpotturinn smurður innan og honum hvolft
yfir. Varð deigið að hafa sömu lögun og potturinn sem var þrífættur og
sporöskjulagaður. Síðan var velútbrunnin glóð set á pottinn og birgt yfir
með moði. Svo vel varð að ganga frá þessu verki, að brauðið rísi rauðseitt
úr öskjunni, sem hvergi kom við það, og tókst það að jafnaði. Þetta átti
við allan brauðabakstur. Rétt er að geta þess að til var að jólakaka var
bökuð undir potti áður en eldavélar komu, sem var alm. upp úr 1908, en
áður voru kamínur til upphitunar og lítilsháttar eldamennsku hafðar í baðstofum.
Vitanlega varð að hnoða jólabrauðið, en bökun tókst all jafnan vel. Sem
að líkindum lætur var smærra skammtqað aðra daga. Drykkjarföng voru ekki
önnur en kaffi, og ef vel lét eitthvað lítilsháttar út í fyrir þá er það
vildi. Út af þessu brá þegar vorharðindi voru sem er kunn saga. Ekkert
sérstakt nafn var á veitingum annað en hann var nefndur sumardagsskammtur.
Vart þarf að taka það fram að hver borðaði á sínu rúmi með sjálfskeiðing,
sleif eða spæni, er um spónamat var að ræða. Hnífapör og skeiðar voru ekki
almennt komið í notkun fyrr en upp úr aldamótum og þá aðeins handa gestum
til að byrja með.
p6
Sumardagsnóttin fyrsta:
Talið var gott ef frost var fyrstu sumarnótt. Og var þá sagt að frysi saman
sumar og vetur. Þótti það góðs viti, sérstaklega á meðan fráfærur tíðkuðust,
áttu þá ærnar að mjólka vel og vera kostgóðar á komandi sumri. Ekki var
neitt haft til merkis um þetta annað en það að snemma var risið úr rekkju
þennan morgun og fannst þá í grasrótinni hvort frost hafði verið. Eftir
að fráfærur lögðust niður, var þessu minni gaumur gefinn, og er nú með
öllu horfinn. Engar ályktanir voru dregnar af hvort rigndi eða ekki fyrstu
sumarnótt. Og húsfreyjur sváfu vart þennan morgun þar til rjúkandi kaffið
var borið til þeirra í rúmið. Sumardagurinn fyrsti: Ungir sveinar
og ógiftir piltar tóku á móti sumri. Fóru fyrstir á fætur, hituðu kaffi
og færðu öllu heimilisfólki í rúmið ásamt lummum úr möluðu bankabyggi með
sýrópi og etv. kleinu eða hagldabrauði. Óskuðu síðan öll gleðilegs sumars
og þökkuðu fyrir veturinn. Eftir að fólkið hafði gert sér gott af kræsingunum,
fór það að klæða sig og líta til veðurs. Menn höfðu þann sið að bæna sig,
lesa faðir vori og fela sig Guði í nýju sumri. Snéri sá hinn sami sér jafnan
móti austri. Var þetta dagleg venja margra er þeir komu út að morgni. Börn
voru látin lesa bænir meðan þau fóru í fötin. Það þótti skortur á árvekni
að fara seint á
p7
fætur þennan morgun
og oft dregin ályktun af því hverngi hann eða hún myndu duga í önn dagsins
á nýbyrjuðu sumri. Ef um gjafir var að ræða voru þær afhentar strax og
komið var á fætur og búið að fara út til að heilsa sumri. Var þakkað fyrir
þær á sama hátt og fyrir aðrar gjafir. Eftir að mjöltum og gegningum var
lokið klæddust allir betri fötum. Kom þá allt heimilisfólkið saman og hlýddi
á húslestur. Vor- og sumarsálmar voru sungnir. Að húslestri loknum þökkuðu
allir lesaranum fyrir lesturinn sem og vanalega er lesið var, síðan var
drukkið hádegiskaffi. Engum var sagt verk að vinna, en hver og einn réði
sínum gerðum. Þó voru gemlingar brennimerktir, ef það átti að sleppa þeim
þá þegar. Annars ekki. Brennimerking fór ekki fram fyrr en átti að sleppa
fé. Hvergi var byrjað á vorverkum þennan dag, enda sjaldan að voraði svo
vel. Ef gott var veður fóru börn og unglingar og fullorðið fólk í alls
konar leiki. Svo sem hlaupa í skarðið, risaleik, skessuleik, útilegumannaleik,
eitt par fram fyrir ekkjumann og etv. fleiri. Margir riðu út sér til skemmtunar,
ef svo var færi. eða fóru á aðra bæi að heimsækja vini og ættingja. Aðrir
fórugangandi og þeir voru fleiri. Einnig var farið sjóleiðis yfir firði,
ef stillur voru. Ekki þótti hlýða að fara að heiman fyrr en að húslestri
loknum. Áttu það við alla helgidaga, að hlusta varð á lestur áður en farið
var að heiman nema sérstaklega stæði á. Samkomur þekktust ekki á fyrsta
tug aldarinnar, en komu síðar með breyttum venjum. Börn fengu ef verður
leyfði að heita kaffi úti á búum sínum þar sem þau léku sér, í kletti eða
p8
tóttarbroti og þótti
þeim það fengur. Og ekki laust við að gamalt fólk kastaði ellibelgnum
og yrði stundarkorn barn að nýju við fögnuð barnabarna sinna. Það þekktist
lítt að farið væri til fiskjar á sumardaginn fyrsta. Alls ekki á skitterí
til að skjóta fugla eða seli. En um hrognkelsanet var vitjað ef svo bar
undir að ekki hefði að undanförnu veðurs vegna verið hægt að komast í þau.
Húsfreyjur nutu einskis af þeim feng, sem þá var aðeins til matar. Ekki
fóru konur almennt í fjárhúsin þennan dag, nema þær sem höfðu það til siðs
endranær. Fólk ræddi aftur og fram um hvernig sumarið legðist í sig. Komu
þar til draumar, hugboð og alls konar áhrif. Sitt sýndist hverjum. Sumir
voru bjartsýnir og spáðu góðu, aðrir vildu vera við öllu búnir, höfðu rekið
sig á að annað dyggði ekki. Sumardagurinn fyrsti var helgaður ungum piltum.
Maður fram af manni kunnu þá sögu að segja úr ungdæmi sínu. Ekki þekktist
annað nafn á deginum en af því mánuðurinn nefndist harpa var líka svo til
orða tekið: Að taka á móti hörpu. Venja var að skammta aðal mat dagsins
kl. 3 á nóni, var það einnig um sumardagsmat. Ef viðkomandi var ekki heima
þegar borðað var beið hans góðgætið þegar heim kom.
p9
Fyrstu sumardagar:
Fólk setti trú á 3 fyrstu sunnudaga í sumri, sem hér segir. Fyrsti sunnudagur
átti að merkja móþurrkinn. Annar sunnudagur töðuþurrkinn og sá þriðji útheysþurrkinn.
Það var því mikið undir því komið að þessir dagar væru þurrir og sólríkir.
Hret áttu að fylgja vissum dögum svo sem uppstigningardagshret, sem sjaldan
brást eða þá hvítasunnuhret. Og enn mátti vænta að hret kæmi um fardagana,
sem mest var óttast, þar sem sauðburði var þá ekki lokið. Því var trúað
að veðrátta héldist út hundadaga, líkt og þeir byrjuðu, væru þeir góðir
var óttast að tíð spilltist er þeir enduðu. Ef óþurrkar voru allan þann
tíma var hins vegar treyst á bata að þeim loknum. En brigðist það var öll
von sett á að batnaði um höfuðdaginn. Auk þess átti haustið að fara eftir
því sem viðraði þann dag.
p10
Nýir hættir: Í megin
atriðum heldur hin upphaflegi sumardagur fyrsti sér lítt breyttur. Hann
er enn í afskekktri byggðum áþekkur því sem hann var. Vorboðinn fyrsti.
Húslestrar eru af öllu aflagðir þann dag sem og aðra helgidaga. Í þess
stað hlusta þeir er það kjósa á messur í útvarpi og á vor- og ættjarðarljóð,
er þar margt gott og gamalt að finna fyrir þá er muna tvenna tíma. Má segja
að útvarpsmessur gegni sama hlutverki og húslestrar áður. Að því undanskyldu
að þó heimilisfólki fækki tekst ekki að allir hlusti. En þess kröfðust
húsbændur afdráttarlaust af sínu fólki og börn sátu hlóð og hreyfðu sig
ekki og það var útaf fyrir sig ekki svo lítilsvert. Ef gest bar að garði
á meðan lestur stóð yfir, settist komumaður hljóður á rúm og beið þess
að heisla þar til að húslestri var lokið. Víðast hvar var lesið fyrir hádegi
á sunnudögum og strax á eftir drukkið ádegiskaffið. En passíusálmar og
hugvekjur er þeim fylgdu voru lesnir á kvöldin. Einnig voru haustlestrar
að kveldi dags. Mataræði hefur mikið breyst. Fyrir og eftir aldamót var
harðmeti og hákarl megin fæða fólks við sjávarsíðuna. Svo sem harðfiskur,
ryklingur, bæði úr lúðu, heilagfiski og ýsu. Einnig upprifnir þorskhausar
sem mikið var borðað af allt fram undir 1920, en sjást nú ekki lengur.
Til viðbits var lýsisbræðingur, oftast úr sellýsi eða þorskalýsi og hvallýsi,
sem þótti
p11
best. Einnig var
selspik mikið borðað með fiski, hertum og soðnum, sömuleiðis með rúgbrauði.
Þótti þeim er vöndust honum hann góður. Selkjöts var mikið neytt á þeim
tíma er lagnir stóðu yfir. Þar fyrir utan voru selir skotnir. Þótti fengur
að fá sel, skinnin verðmæt og búdrýgindi að matnum. Á meðan gengið var
á skinn og leðurskóm var mikilsvert að fá stóra seli, því selskinnsskór
þóttu fallegir á fæti og hörnuðu ekki þó frost væri. Aftur á móti voru
þeir sleypir í þurrkum á sumrin. Nú er fyrrnefnt mataræði með öllu niður
lagt nema í smaúm stíl. Þess má geta að hvalrekar voru tíðir á öldinni
sem leið. Sagði gamalt fólk frá því að talið hefði verið að oft fylgdi
björg ísnum. Var þar átt við hvalreka sem kom i veg fyrir algeran bjargarskort.
Smám saman tók hinn nýi tími völdin. Það var hætt að skammta fólkinu
og allir borðuðu við sama borð með hnífapörum. Breyttur matartími var ekki
almennt kominn á fyrr en upp úr 1930. Þó sumir héldu enn lengur sinni venju
en gáfust samt að lokum upp, svo allt féll í sama farveg. Átti útvarpið
sinn þátt í breytingunum, því allir vildu fylgjast sem best með því er
það hafði að bjóða.