Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1917

Nánari upplýsingar

Númer2756/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 2756

p1
Sumarboðar: Um þetta man ég eftir vísupartinum: Vetrar úti þá er þraut - þegar spóinn vellir graut. Amma mín fór oft með þennan vísupart þegar hún heyrði í spóanum, fyrst eftir að hann kom. Sumarmálahret: Það var álitið að vont veður kæmi um sumarmálin. Ekki þori ég að segja um hvaða nafni þetta óveður hét vestur þar. Ég man eftir því að einhverju sinni gerði bleytuhríð um sumarmál. Þá sagði amma mín: Nú er hrafninn að verpa. En ekki man ég eftir því að hún talaði um hrafnahret eða þh. Ekki man ég hvað fólk sagði um að tíð mundi batna eftir sumarmálahret. En ég man eftir einu vori þar sem tíðin batnaði eftir sumarmálahretið. Sá sumardagur fyrsti verður mér minnisstæður, þá fór ég í lengstu skíðaferð, sem ég hefi farið. Um morguninn þennan dag, sumardaginn fyrsta, kom bóndi á næsta bæ að Hamri og bað um aðstoð við að leita að kindum. Hann hafði ekki náð fé sínu öllu, sumarmálahretið skall snögglega á. Allt var á kafi í snjó, og ég fór á skíðunum mínum í leitina. Norðaustan hvassviðri gerði er leið á daginn og fylgdi skafhríð. Þá hætti ég allri leit, en renndi mér niður skaflann í Hallsstaðahjöllunum og niður að sjó. Þessi sumardagur fyrsti var kaldranalegur dagur. En næstu daga brá

p2
til hlýinda og öll vetrarveður voru úr sögunni. Eitthvað hálfum mánuði síðar átti ég leið um þessar sömu slóðir, og var þá ólíkt um að litast. Sumartunglið: Orðtakið kannast ég við, en ekkert slíkt var haft um hönd vestur þar, það ég veit til. Sumargjafir tíðkuðust ekki. Veitingar: Ekki var mikil breyting í mataræði, eitthvað var bakað, pönnukökur eða lummur og soðið kjöt, saltkjöt eða hangikjöt. Segja má að ekki hafi verið mikið um að vera á einn eða annan hátt, oftast var allt á kafi í snjó, langt frá því að sumarlangt væri, hvað sem almanakið sagði. Sumarnóttin fyrsta. Fólk vildi að frost væri þessa nótt. Amma mín talaði um að það frysi saman sumar og vetur og var ánægjuhljóð í henni í sambandi við það. En ekki talaði hún nánar um það hvað þetta boðaði. Ekki var sett út vatn til að ganga úr skugga um þetta. Ekki man ég hvað fólk sagði um það ef rigndi fyrstu sumarnótt. Ekki tíðkaðist að neinn færi berfættur út til að finna hvort frost væri í rót.

p3
Sumardagurinn fyrsti: Ég tel mig mega fullyrða að fólk fór á fætur eins og vanalega. Ekki heyrði ég um að árvekni manna á sumrinu færi eftir því hve snemma þeir fóru á fætur á sumardaginn fyrsta. Eitthvað mun amma mín hafa talað um það að menn ættu gjarnan að fara snemma á fætur á sumardaginn fyrsta. AMk. man ég eftir því, að þegar ég var krakki fór ég á fætur fyrir allar aldir á sumardaginn fyrsta í eitt einasta sinn. Ég tók eftir því að þetta var alls ekki vel þokkað uppátæki hjá mér. Fólk vildi fá að sofa eins og vanalega og tók þetta ekki vel upp fyrir mér og ég gerði það ekki aftur. Ekki man ég eftir að talað væri um að fagna sumri eða heilsa sumri. Fólk bauð hvert öðru gleðilegt sumar, kannski með einhverjum semingi eða athugasemdum, ef hríðin barði utan baðstofuna. Lítið man ég eftir því að fólk byggist sparifötum eða betri fötum. Ég held að ekki hafi slíkt verið venja. Störf voru eins og aðra daga að vetri, matseld, gegningar, að því undanteknu að ekki voru unnin þau störf sem ekki voru nauðsynleg, ekki mokuð hús eða þul. Vorstörf voru ekki byrjuð svo snemma. Gemlingar voru ekki brennimerktir. Ekki farið í leiki. Engin samkoma í sveitinni í tilefni sumarkomu. Húslestri man ég ekki eftir þennan dag. Heimsóknir og gjafir nágranna ekki. Um sumardagshlut bónda er ekki að ræða þarna. Ekki fór húsfreyja með bónda í fjárhúsin. Ekki man ég að fólk ræddi um hvort sumarið legðist vel eða illa í það. Fyrstu sumardagar. Um þetta minnist ég ekki að hafa heyrt. |p4 Nýir hættir: Hér sunnanlands og sjálfsagt víðar í kaupstöðum eru mikil hátíðahöld á sumardaginn fyrsta. Skrúðgöngur barna setja svip á þennan dag. Lítið hefi ég fylgst með þessu og tel mig ekki góðan heimildarmann um það. Líklega eru dagblöð allgóðar heimildir um þetta. Svo langt hefur þetta gengið, að um skeið, og er kannski ennþá, var farið að kalla sumardaginn fyrsta "barnadaginn". Það heyrði ég e
inn ágætan skólmann segja, nokkrum árum eftir að ég kom til Rvk. Það kunni ég illa við, það má vel nota gamla nafnið á þessum degi, þó börnum sé gerður dagamunur þennan dag.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana