Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1916

Nánari upplýsingar

Númer9448/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið3.5.1990
Nr. 9448

p1
Sumardagurinn fyrsti: Dreymt fyrir sumri. Ég man enga drauma fyrir sumri tengda fyrsta sumardegi, en síðari hluta vetrar dreymdi menn stundum fyrir tíð á útmánuðum og vori. Yfirleitt kindur. Hver ær í draumi táknaði viku, svartar ær auða jörð, hvítar snjóuga. Það var spurningin eilífa, nóg eða ekki nóg hey, sem vakti þessa drauma. Sumarboðar: Menn tóku eftir og höfðu orð á komutíma farfugla, þrastar, lóu, kríu ofl. en tóku lítt mark á þeim. Helst var að marka spóann: Þá er úti vorsins þraut - þegar spóinn vellur graut. Eitthvað á þessa leið er vísubrotið. Að sjálfsögðu fylgdust menn með gróðri jarðar. Hann byrjaði með því að fór að "lifna framan undir", í skjóli veggja þar sem sólar naut. Síðar kom "sauðgróður" og þá átti að vera óhætt að sleppa lambám. Ég heyrði aldrei að mark væri tekið á skordýrum. Sumarmálahret: Þetta hret heyrði ég nefnt, en engin trú var á því. Hafnahret kallaðist hrafnagusa. Hún kom 9 nóttum fyrir sumar, og á henni sá einn átrúnaður, að hún væri nokkurn veginn árviss, annað ekki. Hún boðaði ekkert sérstakt, það ég man. Sumartunglið: Maður sem sá sumartunglið átti að þegja og bíða þess að til hans væri talað. Það sem sá sagði var svarið í sumartunglið. Menn höfðu gaman af þessu, en tóku varla mikið mark á. Þó vildu menn heldur fá gott svar en illt. Sumargjafir tíðkuðust ekki, þar sem ég þekkti til,en ég heyrði þeirra þó getið, dæmi visubrot: Sendi ég þér í sumargjöf - sinina undan bola. Veitingar: Á æskuheimili mínu vissu allir af sumard. fyrsta, er hann rann upp, fögnuðu honum, en eingöngu í huga sér. Ekkert tilstand var, ekki í mat, vinnu eða neinu. Þetta var huglægur dagur á allan hátt. Sumardagsnóttin fyrsta: Það fraus eða fraus ekki saman sumar og vetur, oft haft orð á, en varla trú. Ekki man ég hvort þótti gott né hvort illur fyrirboði. Geri þó ráð fyrir að samfrysting hafi fremur vitað á illt, kalt vor. Ég minnist þess ekki að út væri sett vatn í dalli, enda yfirleitt nóg um polla, en þó heyrði ég minnst á þessa vatnsdalla. Ekki gekk móðir mín berfætt kringum bæinn til að kanna hvort frost væri í rót og enga trú man ég í sambandi við regn fyrstu sumarnótt. Sumardagurinn fyrsti: Eins og áður sagði var þessi dagur hversdagslegur í öllu, en vakti þó fögnuð í huga. Menn buðu gleðilegt sumar og þökk fyrir veturinn, annað ekki. Fyrstu sumardagar. Ég minnist þess ekki að nokkur trú hafi á þeim verið. Nýir hættir. Ennþá bjóða menn gleðilegt sumar og fagna vetrarlokum í huga sér. Annað óbreytt, það ég veit.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana