Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1944

Nánari upplýsingar

Númer3335/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 3335

p1
Í spjalli þessu merkir gamalt fólk, þá sem fæddir eru fyrir miðja síðustu öld sbr. aldur sögumanns. Það var trú manna í Breiðafjarðareyjum, að dreymdi menn ís á sjó, vissi það á góðan aflafeng það sama vor og sumarið sem eftir fór. Að dreyma brim vissi einnig á afla. Slæmt þótti ef menn dreymdi kafgresi eða mjög sprottið gras. Það þótti vita á þurrka og lélega sprettu. Það átti að merkja kalt vor ef heiðlóan kom snemma, en þurrkatíð framan af sumri, ef krían var hljóðlát, fyrst eftir að hún kom. Kæmi lundinn aftur á móti í fyrra lagi, átti það að merkja gott vor og sumar. En enginn gat verið viss um að öll harðneskja í veðri væri hjá, fyrr en spóinn heyrðist vella. Þá er úti vetrarþraut - þegar spóinn vellir graut. Flestir þeirra sem eldri voru töldu sumarmálahretið árvisst, en enginn var viss um að það væri síðasta hretið á vori. Uppstigningardagshretið (t.d mannskaðaveðrið 1906), Krossmessuhretið og kóngsbænadagshretið, gátu þá öll verið eftir. Gamalt fólk lagði mikið upp úr Kóngsbænadeginum til veðurspár, þó Kyndilmessan, Öskudagurinn og höfuðdagurinn væru mestir spádagar um veðurfar. Þess má geta að á Kóngsbænadeginum var fátækum jafnan gefið og þeim gert gott. Hvað einstaklingana snerti hafði það mest gildi til fregna af framtíðinni að láta svara sér i sumartunglið. Slíkt þurfti að sjálfsögðu ekki að bera upp á fyrsta sumardag, en fór þannig fram, að þegar einhver sá sumarmálatunglið í fyrsta sinn það vorið, mátti sá ekki yrða á neinn að fyrra bragði, heldur láta yrða á sig og þeirri setningu þá svarað í sumartunglið. Margt varð af þeirri setningu ráðið um gæfu eða ólán sumarsins, þótt flestar væru þær almenns eðlis. Það var því allt eins hljómurinn og merkingin sem máli skipti. Ungar stúlkur lögðu mest upp úr þessu oþul.

p2
Ekki var farið í kausptað fyrir sumardaginn fyrsta, en til hans munað við venjulega úttekt sem annarra hátíða. Að fögnuðu gekk sumardagurinn fyrsti næst jólum. Mikið viðhaft í mat og gjafir gefnar. Konur gerðu leppa, sokka eða brjósthlífar. Prjónuð stykki, einskonar hálsbúnaður til skrauts og hlýinda, gjarna útprjónað. Brjósthlífin var fest með prjónum bandi aftur fyrir háls en þar var heppsla á. Hlífin náði svo niður á brjóstið og var mikið eftirlæti í þá daga. Karlmenn gáfu konum eitthvað til skrauts og gagns t.d. klúta, en sjaldan heimaunna hluti. Ekki gáfu húsbændur hjúum eða þau sérstaklega heldur hver þeim er hugur sagði. Sumargjöfin var gerð í laumi, en afhent með sumaróskum og kossi á sumardagsmorguninn fyrsta. Kveðjurnar voru formálalausar og ekki var gestum sem komu gefin sumargjöf. Það tíðkaðist í sláturtíð í Breiðafjarðareyjum að taka frá kjöt til reykingar í þrennum tilgangi. Til jóla, sumardagsins fyrsta og kofnatekjunnar, og þótti sá búa í lakara lagi sem ekki bjó fólk sitt með hangikjöt í kofnafar. Rafabelti af lúðu voru og tekin frá til sömu þarfa, en ekki tíðkaðist að taka annan mat frá sérstaklega. Kökur voru bakaðar fyrir sumardaginn fyrsta, sumardagskökurnar úr rúgmjöli og voru þær hafðar 3 kvartél í þvermál og tæpur þumlungu rað þykkt, þar sem nóg voru efnin. Ekki voru þær skreyttar. Að kvöldi síðasta vetrardags eða snemma á sumardagsmorguninn, skammtaði húsfreyja fólkinu. Bóndi hennar var þá gjarna viðstaddur. Sumardagsmorguninn færði húsfreyja svo öllum kaffi í rúmið og góðgæti með og vildi roskið fólk gjarna sjá sérstakar sumardagskleinur þar á meðal. Öldruð hjú vildu ekki vita upp á sig þá skömm, að vera seint á fótum þennan dag. Svo það færi ekki eftir, og var almennt risið snemma, gjafir gefnar og kveðjur fram bornar með kossi.

p3
Kl. 9-10 var svo skammtað þrímælt og var allur stóri matur, það er kjöt, rykklingur oþh. borinn fram á sjálfri Sumardagskökunni. en hjá trúræknum húsbændum var lesin húslestur milli kl. 11 og 12, en hádegiskaffi borið á eftir sov sem venja var við lestra á sunnudegi. Þennan dag voru allir í sínum bestu fötum, farið var í leiki úti ef viðraði, krakkar í skollaleik eða stórfiskaleik, en piltar glímdu, ef margir voru. Ekkert verk mátti snerta nema gegningar og ekki var heldur róið við Breiðafjörð sumardaginn fyrsta. Hér verður að nefna að ekki var heldur róið á sunnudögum, en bæri svo við voru þeir kallaðir sunnudgasníðingar er það gerðu. En væri róið eftir langvarandi gæftaleysi og bæri það upp á helgan dag, var fátækum gefinn bátshluturinn, en einstaka menn gáfu þó kirkjum bátshlutinn. Tíðkaðist því ekki að gefa húsmóðurinni afla, enda átti hún allan þann dún, sem fannst eftir hroðaleit. Sumardaginn fyrsta fóru bændur með húsfreyjum sínum til gegninga og í húsin, en sjaldan í annan tíma og sumir aldrei nema þá. Margir eyjabændur snertu aldrei á skepnu nema til flutninga og slátrunar, en stunduðu sjó og hlunnindi en flestir þó heyskap eitthvað, einkum slátt. Fólki var tíðrætt um drauma sína og þótti kerlingum ívið meira mark á þeim takandi en hversdagsdraumum. Hvort frysi saman sumar og vetur var ekki athugað með sömu áhyggju og á landi, enda ekki fært frá í Breiðafjarðareyjum nema þá smáræði. Matarsiðir sem og allt mannlíf í eyjunum breyttust mest í fyrra stríðinu og ekki síst á tímum Landsverslunarinnar og Ameríkusiglinganna, ekki hefði t.d. neinn bakað sína sumardagsköku úr bankabyggi.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana