Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1899

Nánari upplýsingar

Númer3090/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 3090

p1
Seinni part vetrar fóru menn frekar að hlakka til sumarkomu. Var þá stundum orðin lítil heyföng. Þá fóru menn að dreyma. Ef mann dreymdi að hlaðan væri orðin hálffull af heyi var það fyrir harðindum og jafnvel heyleysi, en ef mann dreymdi að maður væri orðinn sama sem heylaus, svolítið stabbakríli eftir, þá var það svo að öllu mundi vera borgið og að lokum stóð svolítið stabbakríli eftir í hlöðunni.

p2
Ef fraus saman vetur og sumar mátti þá af því ráða að rjómi á trogum ætti að vera þykkri og betri málnyt. Á sumard. fyrsta var sjálfsagður hlutur að allir færu snemma á fætur. Fyrst var drukkinn kaffisopi og lummur með og svo hugsað um gripi sem inni voru og svo lesinn húslestur og sungnir sumarsálmar svo skammtaður hádegismatur, hangikjöt og pottbrauð og flot með. Engar gjafir voru gefnar.

p3
Ef lóan kom snemma var sagt að þá yrði hart vor. Svo kom mariuerlan og var henni alltaf fagnað. Svo var það steindepillinn, þótti heldur dauft yfir vorinu þar til hann fór að klappa steininn eins og það var kallað. Svo var það unga fólkið,sem hlustaði eftir hrossagauknum, hvar það heyrði fyrst hljóðið í honum, uppi unaðsgaukur, vestri vesalsgaukur, norðri nágaukur, austri auðsgaukur og suðri sælugaukur.

p4
Hrafnagusa kom þegar krummi verpti 9 nóttum fyrir sumar og krummi verpti á ýmsum stöðum og mátti þá ráða nokkru um veðurfar, ef hann verpti vestan í Fellinu, sem kallað var voru oft norðaustanvindar og kalt vor, en ef hann verpti í Stekkaklettum var miklu betra tíðarfar. Klekjaðir út um krossmessu og komnir í flug um Jónsmessu. Ekki má gleyma spóanum, þeim kynjafugli. Ekki var talið neitt mark á smávelli í honum fyrr en hann fór að langvella. Þegar spóinn vellir graut þá er úti öll vorsins þraut.

p5
Svo voru það öll hretin. Sumarmálahret, Krossmessuhret, Vinnuhjúahret, Fardagahret og Jónsmessuhret. Því var svo trúað þegar öll þessi hret voru um garð gengin að sumarið væri þá komið.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana