Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1896

Nánari upplýsingar

Númer1658/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 1658

p1
Gömul vísa: Sumarhug og sumarþrá - sumrið vakna lætur - sumar í auga sumar á brá - sumar við hjartarætur. Tæplega er hægt að túlka betur þær kendir og þrár sem íslenska þjóðin hefir borið í brjósti gagnvart sumarkomunni, en þessi gamla vísa gerir. Þegar hríðarbyljir útmánaða vetrarins æddu fyrir snævi þakta jörðina og allt landið var ein fannbreiða, þá var það vinin um sumarkomuna sem gaf fólkinu þrek til að standast öll áhlaup metrarins. Sumardagurinn fyrsti var því sá dagur sem miklar vonir voru bundnar við, því bæði var það að samkv. tímatalinu, var þá veturinn liðinn og nokkurn veginn öruggt að óðum styttist þar til sumars og sólar færi að gæta. Oft gat þó útaf því brugðið að fyrsti sumardagurinn flytti með sér sunnanblæ og sólaryl eins og vonir flestra höfðu staðið til, því stundum var hríðin aldrei svartari en þá og frosnepjan sjaldan kaldari og þá voru mikil vonbrigðin hjá öllum bæði ungum og gömlum. En þrátt fyrir það lifði vonin í brjóstum fólksins um batnandi veður og betri haf. Mjög margir tóku mark á draumum sínum í sambandi við árferði, bæði sumar og vetur og gera það raunar enn þann dag í dag.

p2
Draumar þessir voru með ýmsu móti og margvíslegir og einnig voru ýmsir svipaðir draumar ráðnir á ýmsa vegu. T.a. var talið að ef menn dreymdi mikið brauð, þá væri það fyrir góðri tíð. Dreymdi menn hins vegar mikla veiði úr sjó eða vötnbum, var það talið boða vonda tíð og ennfremur ef menn dreymdi mikið hey, einkum ef það var flatt eða nýslegið, þótti það fyrirboði um mikinn snjó. Ef menn í draumi þóttust vera að reka saman margt fé eða sáu það rekið saman boðaði það hríð eða ofsaveður. Aftur á móti ef mennd reymdi að þeir sæju marga nautgripi í hóp með ærslum og ólátum var það talið boða hlákuveður með miklum stormi. Ymsir hér um slóðir munu hafa tekið mikið mark á því hvað vorfuglar komu snemma og eins á ýmsum háttum þeirra. Það þótti góðs viti ef vorfuglar komu fyrr en venjulegt var og alveg sérstaklega ef spóinn kom snemma, "Því þá er úti vorsins þraut, þegar spóinn vellir graut", segir gamall málsháttur og var almennt trúað á hann. Ekki var það almenn trú hér að sumarmálum fylgdu hretviðri, en ef svo var var það almennt nefnt sumarmálahret. Átrúnaður þessi var mikið frekar bundinn við aðra hátíðisdaga svo sem páska, uppstingingadag og hvítasunnu. Þegar svo bar við að sumarpáskar voru þótti það fyrirfram víst að þá yrði

p3
hart vor. En ef páskar og hvítasunna voru óvenjulega snemma þótti það boða góða tíð að vori amk. fram eftir sumri, en hætt mundi þá við hretum síðsumars. Ýmsir munu hafa haft það að leik að láta svara sér í sumartunglið, sem kallað var. Sá leikur fór þannig fram, að sá eða sú sem sá fyrsta sumartunglið á lofti í fyrsta sinn gætti þess að hafa ekki orð á því við aðra, fyrr en einhver annar hafði ávarpað hann eða svarað spurningu hans um annað óskylt efni. Yfirleitt var þett aðeins haft til gamans, en var ekki neinn átrúnaður í sambandi við það. Eftir að ég man eftir mér, tíðkaðist ekki eða mjög lítið að fólk gæfi hvað öðru sumargjafir, en þó mun það hafa verið gert hér löngu fyrr, og þá einkum gefið börnum og ungum stúlkum, því þær áttu sérstaklega að fagna Hörpu. Alls staðar var það siðvenja að gera fólki vel til í mat á sumardaginn fyrsta eftir því sem ástæður leyfðu og mögulegt var. Þar sem ekki var auður í garði var matarforði heimilanna oft orðinn fremur lítill síðari hluta vetrar, en þó vissi ég oft til að húsfreyjurnar treyndu eða geymdu eitthvað af því besta sem til var í búinu til að geta gefið fólki sínu það á sumardaginn fyrsta. Oftast var þetta hangið kjöt eða annað góðmeti svo sem magálar og sperðlar, svo og súrmatur alls konar og harðfiskur ef til var. Lítið var um það að matur væri keyptur til hátíðabrigða, þó man ég

p4
oft eftir að farið var í kausptað fyrir sumarmálin til að kaupa ýmislegt smávegis og var þar helst um að ræða kaffi, sykur og etv. efni til brauðgerðar, því illt þótti að geta ekki gefið brauð með kaffinu á sumardaginn fyrsta. Aldrei vissi ég til þess að matur væri tekinn frá að haustinu til að geyma hann til sumardagsins fyrsta. Ef hægt var var alltaf gefið brauð með morgunkaffinu á sumardaginn fyrsta, en sérstakar kökutegundir man ég ekki til að væru bakaðar í því tilefni, brauðið var aðallega lummur, kleinur og etv. jólakaka og þótti þá mikið framreitt ef 3 tegundir af brauði voru framreiddar. Það þótti boða gott árferði ef nægt frost var fyrstu sumarnóttina og var það kallað að þá frysi saman sumar og vetur og ýmsir höfðu á þessu trú eins og þessi vísa ber með sér: Frjósi sumars fyrstu nótt - fargi enginn á né kú - gróðakonum gerist rótt - gott mun verða undir bú. Ekki þekki ég nein dæmi þess hér að vatn hafi verið látið standa úti í trogi eða skel þessa nótt til að sannreyna hvort frost hafi verið og ekki heldur að heimafólk hafi gengið berfætt í kringum bæinn á sumardagsmorguninn fyrsta í þeim tilgangi, en gamlar sagnir hef ég þó heyrt um að svo hafi verið gert, en ekki veit ég um sannleiksgildi þeirra.

p5
Ekki minnist ég þess að nein föst regla væri viðhöfð um það fara snemma á fætur á sumardagsmorguninn fyrsta eða fyrr en venjulega og mun þar hafa verið ferið eftir venjum heimilisins. En það er mér minnisstætt frá því ég var barn og unglingur, að oft vöknuðum við systkinin snemma á sumardagsmorguninn fyrsta, því lengi höfðum við hlakkað til þess dags og þráð að veður yrði þá gott og svo mun hafa verið um flesta bæði unga og gamla. Vonbrigðin urðu því mikil þegar það kom fyrir að hríðin lamdi baðstofuþekjuna og gluggarnir voru loðnir af hélu þennan morgun, og þegar svo bar við var ekki um annað að gera en kúra sig niður í rúmið aftur og bíða í von um að veðrinu slotaði. En þegar ég rifja upp minningar frá æskudögum mínum, finnst mér samt að mikið oftar hafi sólin skinið inn um gluggann og morguninn hafi gefið fyrirheit um gott veður þann daginn og þá var sjálfsagt að klæða sig strax og fagna sumrinu. Algengast var það að húsbændur færu fyrstir á fætur og mun sá vani hafa verið viðhafður á sumardaginn fyrsta eins og venjulega. Alltaf var það venja, og er enn, að fólkið bauð hvað öðru gleðilegt sumar og þakkaði fyrir veturinn á sumardagsmorguninn fyrsta. Þeir sem höfðu föstum störfum að sinna, svo sem gegningum fóru til verka sinna eins og venjulega en oftast var lagt kapp á það að ljúka þeim heldur fyrr en venja var og oft

p6
munu menn hafa flýtt á ýmsan hátt fyrir sér daginn áður, ef því varð við komið til þess að geta átt meira frí á fyrsta sumardag. Ekki minnist ég þess að fullfrísku fólki væri færð morgunhressing í rúmið, nema ef vera kynni að það hefði verið gert við börn, einkum ef veður var slæmt. Framan af æfi minni var alls staðar hér í sveitum borðað þrisvar á dag, það var morgunmatur, miðdegismatur og kvöldmatur. Fyrst þegar ég man eftir var aðalmatur á sumardaginn fyrsta skammtaður að morgninum og var þá svo ríflega skammtað að flestir geymdu sér eitthvað af matnum þar til síðar. Flestir klæddu sig í betri föt, en þeir notuðu hversdagslega og þó einkum börn og kvenfólk, sem ekki þurfti að sinna útiverkum, því ekki var fólki ætlað að vinna önnur störf þennan dag en þau sem ekki var hægt að fella niður. Á einstökum heimilum vissi ég þó að föst venja var að brennimerkja gemlinga á sumard. fyrsta, en það var ekki almennt gert. Þegar ég var unglingur var það víðast venja að lesa húslestur alla hátíðis og helgidaga og þá ekki síður á sumardaginn fyrsta en aðra daga. Húslestur var venjulega lesinn á sumardaginn fyrsta um eða fyrir hádegið og voru þá jafnframt sungnir sumarsálmar. Eftir það var farið að hugsa aum að skemmta sér eithtvað ef veður var gott. Aðlgengustu skemmtanir vour útileikir eða glímur. Oft kom fólk saman af tveimur eða fleiri bæjum og var þá oft glatt á hjalla einkum þar sem var margt af ungu fólki og börnum.

p7
Í þessum leikjum tóku allir þátt sem rólfærir voru og ekki höfðu alveg skorist úr leik, en það gat komið fyurir að einstakir menn kysu heldur að taka hnakk sinn og hest og ríða til annarra bæja og hitta kunningja og stundum var þá jafnvel lítill vasapeli með í förinni. Útileikir þeir sem mest voru iðkaðir voru stórfiskaleikur, öðru nafni eyjaleikur, stopp og frí eða þá að hlaupið var í skarðið. Þá var einnig farið í bændaglímu ofl. íþróttir voru um hönd hafðar svo sem hlaup og stökk og höfrungahlaup ofl. Almennar samkomur voru stundum haldnar fyrir heilar sveitir og jafnvel fyrir stærri svæði á sumard. fyrsta og voru þær ávalt vel sóttar, ef veður var gott. Víða var sá siður tíðkaður að húsfreyjan fór í fjárhúsin á sumard. fyrsta til að skoða féð og fóðurbirgðir. Á þeim árum voru konur yfirleitt kunnugar í fjósum og þurfti því ekki frekar venju að koma þar þennan dag, því konur mjólkuðu þá yfirleitt kýr sínar og fylgdust vel með meðferð á þeim. Alltaf var talað um sumard. fyrsta ef rætt var um þann dag og þekki ég engin önnur nöfn á honum. Sumir höfðu trú á því að veðrið á sunnudaginn fyrstan í sumri gæfi til kynna hvernig eldiviðarþurrkurinn og jafnvel töðuþurrkurinn yrði það sumar.

p8
Ef sólskin og þurrkur var þann dag, þá mátti búast við góðum eldiviðar og töðuþurrki, en ef úrfelli eða dumbungsverður lá yfir þeim degi, þá var einskis góðs að vænta. Það sem hér að framan hefur verið skráð miðast að mestu leyti við þær venjur og siði sem tíðkuðust í mínu ungdæmi eða þe. fram á fyrsta og annan tug 20. aldar. Nú eru flestar þessar venjur aflagaðar að miklu eða öllu leyti. Eins og öllum er kunnugt þá hafa hraðfara breytingar átt sér stað á lífsvenjum fólksins og svo til öllum lifnaðarháttum, nú síðustu 40-50 árin. Ekki þarf að efa það að mörgu hefir þessi breytingaralda skolað burt og þám. flestum þeim siðvenjum sem hér að framan er talað um. Nýir siðir og lifnaðarhættir hafa aftur komið í staðinn. Við skulum segja að flest það nýja sé til bóta, en þó ekki allt. Ástæðurnar fyrir þessum breytingum eru margar og margþættar og tæpast hægt að eigna þær neinum sérstökum aðila, hvorki útvarpi, blöðum, kennurum eða öðru sérstaklega, því margir samofnir þræðir eru þar að verki og vil ég engan dóm á það leggja hvað á þar gildasta þáttinn. Einu er hægt að slá alveg föstu og það er að fólkinu í landinu ætti að líða mun betur nú en áður var, en hitt er svo aftur annað mál hvort það er nokkuð ánægðara en áður var, þó það hafi nóg að bíta og brenna eins og það er kallað.

p9
Hin svokallaða menning hefir að sumu leyti vissa annmarka í för með sér og gamalt máltæki segir: Það þarf sterk bein til að þola góða daga. Ekki er hægt að ákveða með neinni vissu hvenær hinar mörgu og miklu breytingar hafa orðið á háttum fólksins með því að tilgreina viss ártöl, því vitað er að mikill munur er á á venjum fólks enn í dag, þó allt stefni það í þá áttina að gamlir siðir og venjur leggist af og falli í gleymsku og því er þarft verk og gott að halda til haga því sem vitað er um lífskjör og lifnaðarhætti forfeðra sinna og formæðra. En hvað sem öllu öðru líður þá er það nokkurn veginn víst að sumardagurinn fyrsti verður enn um langan aldur þjóðlegur hátíðisdagur í hugum fólksins því ólíklegt er að öll lífsþægindin, hraðinn og hávaði nútímans geti kæft þrána í brjósti íslendingsins eftir sumri og hækkandi sól.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana