68 Auðkenni og nöfn húsdýra
Nr. 8513
p1
Við þá mörgu hestaliti
sem taldir eru í skránni vil ég auka þessum: Steingrár, apalgrár, svartur,
ljósaskjóttur, Svartskjóttur, glámóttur, tvístjörnóttur, rauð, svart, brún
eða jarptoppóttur, mósóttur, glámblesóttur og fífilbleikur. Fá hestanöfn
held ég að séu dregin af augnalit hesta. Hringur mun vera eitt af fáum
þar er átt við hesta með hvítan hring í augum. Þeir voru kallaðir glaseygðir.
Oft voru þessir hestar glámóttir eða stórblesóttir, þó var það ekki algild
negla. Hestnafnið Skór var dregið af því að sá hestur hafði einn
eða fleiri hófa hvíta. Sporður var nafn á hestum, sem voru með hvítan blett
á lend, sem etv. líktist fisksporði. Gyrðir var stundum nafn á hestum,
sem voru með hvíta rönd yfirum sig aftan við bógana. Ég man eftir bleikum
hesti með hvíta síðu. Hann var kallaður Vængur. Þannig var algengt að gefa
hrossum nöfn eftir lit og geðslagi. Ég nefni hér t.d. Prati, Hrani, Villingur,
Víkingur, Rosti, Halur, Hugi, Hörður, Ljúfur, Vinur, Strokkur, Frekja,
Fluga, Brana, Funi, Logi, Gammur og Ör. Oft vor þau folöld skírð
sem setja átti á vetur. Sumir gefa hrossi ekki nafn fyrr en það er tamið
og menn fá hugmynd um hvað í þeim býr, en engin algild regla held ég að
sé um þetta.
p2
Ef hross voru aðkeypt
var stundum bætt bæjarnafni framan við nafn hrossanna t.d. Tungu Brúnn,
Teigs Skjóna osfrv. Stundum voru nöfn gefin eftir vaxtarlagi hrossanna,
t.d. Stóri Rauður, Litli Jarpur, Kubbur og Krangi ofl. slík nöfn. Stundum
var skipt um nafn á hrossum við eigendaskipti en oftar munu þau hafa haldið
sínu nafni. Nautgripir: Talað var um stórhyrndar kýr, úthyrndar, upphyrndar,
hringhyrndan, smáhyrndar, hníflóttar, sverhyrndar og svo kollóttar. Þær
munu oftast hafa verið algengari en þær hyrndu. Hyrna var algengt nafn
á hyrndum kúm önnur eru mér ekki kunn. Ég held að nöfn á kúm
hafi fremur verið dregin af lit þeirra en vaxtarlagi eða útliti og ekki
kannast ég við önnur nöfn af þvi tagi en þau sem eru tilfærð í skránni.
Allir þeir litir á nautgripum sem taldir eru á skránni eru vel þekktir
hér auk þeirra vil ég nefna húfóttar kýr með ýmsum lit, krossóttar, blesóttar,
doppóttar, síðóttar, hálsóttar, sokkóttar, huppóttar og stjörnóttar. Óskað
er eftir vísum um kyr og læt ég hér fylgja lítið sýnishorn.
p3
Oddur Benediktsson
bóndi á Tumastöðum í Fljótshlíð orti eftirfarandi vísur um kýrnar sínar:
Fellur mér nú flest til happa en fáir gallar Hálsa, Branda, Huppa, Lappa
Hreyta allar. Og þessa: Á ég kýrnar ágætar um þær ..... vanda Ég
held þær séu himneskar hún Hálsa og hún Branda. Næst kemur hér vísa, veit
ekki um höfund: Líneik, Hrísal, Laufa, Dröfn Litla Bón og Rjúpa Allar vilja
þær ofaní görn uppsprettuna súpa. Sjálfsagt kannast margir við vísurnar
um hana Hélu, ekki veit ég um höf. Nú er Héla fallin frá fyrirtak
af kúnum Furðar sig því enginn á að ég hleypi brúnum. Þegar
Héla þurfti naut þótti aukast vandinn Reipið sleit og bálkann
braut og bölvaði eins og fjandinn. Héla mín var hamóð þá henni
þurfti valda stundum tvo og stundum þrjá stráka til að halda.
p4
Sauðfé: Flest er
upptalið á listanum um hornalag á sauðfé, sem ég hef heyrt og vanist þar
um nema upphyrnt, snúinhyrnt og hneppinhyrnt.
Nöfn dreegin af hornalagi
kinda voru nokkuð mörg, sennilega jafn mörg og lo. á hornalaginu t.d. afturhyrna,
úthyrna, osfrv. Flest sauðfé var hvítt og vellótt, þe. gult á haus og hnakka
og jafnvel á ull, þá svart, grátt, ígrátt og mórautt. Nokkuð var um golsótt,
flekkótt, kápótt og botnótt, þe. svart, grátt eða mórautt, en hvítt undir
hverk og aftan á lærum. Arnhöfðótt þe. hvítt undir kverk og hnakka og krúnu,
en ekki í lærum. Svart eða morbaugótt fé var hvítt en dökkt um augu. Þá
var til grá eða svartkolsótt og bíldótt, geithálsótt, þe. svart aftur um
bóga, en hvítt að aftan. Svart eða morkrúnótt, svart eða morblesótt, sokkótt,
svart eða morhæklótt, þe. hvítir afturfætur. Svartdropóttar kindur eru
til en fáar. Ég held að nöfn kinda hafi verið dregin af öllum kindalitum,
svo sem svört, Móra, Grána, Arnhöfða ofl. Sum kindanöfn voru dregin af
skapgerð svo sem Spök, Stygg, Harka, Gæfa ofl. Læt þessu hér með lokið,
vona að þið hafið af því einhver not.