LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

StaðurKvísker
Annað staðarheitiTvísker
ByggðaheitiÖræfi
Sveitarfélag 1950Hofshreppur A-Skaft.
Núv. sveitarfélagSveitarfélagið Hornafjörður
SýslaA-Skaftafellsýsla (7700) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1917

Nánari upplýsingar

Númer8500/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið4.1.1988
Nr. 8500

p1
Ég er upp alinn í einbýli þar sem ekki var hafður nema einn hundur. Aðeins í tvö skipti var um tík að ræða og átti önnur þeirra einu sinni hvolpa en hin aldrei. Ég er því illa í stakk búinn til að svara spurningum um hunda, því vel er trúlegt að ýmislegt hafi verið með öðrum hætti hér í sveit en hér var, en því skal þó tjalda sem til er. Oftast munu menn hafa sóst eftir að fá hunda undan tíkum sem höfðu reynst vel sem fjárhundar en oft eða oftast var óvíst undan hvaða hundi þeir voru. Trúðu sumir að ekki væri víst að allir hvolpar sem tík gaut í einu væru undan sama hundi. Það var því víðast lítil kynfesta í hundastofninum ena voru þeir mjög misjafnir bæði að útliti og eiginleikum. Þó tel ég að meirihluti þeirra hunda sem ég man eftir hafi verið með reist eyru og hringaða rófu. Sagt var að dýrhundar Jóns Bjarnasonar í Skaftafelli (f.1806, d.1884), hafi verið stórir en hann gerði talsvert af því að elta uppi tófur með hundum, átti a.m.k. um tíma tvo hunda og eina tík og var hún best til veiðanna, en ekki veit ég hversu mikið þessir hundar voru stærri en algengt var og ekkert um útlit þeirra að öðru leyti. Ekki veit ég til að útlit hunda hefði nein áhrif hvernig um þá var talað eða á þá kallað, nema þá sem sérnafn. Menn töluðu um hundinn, rakkann eða seppann, en ef menn töluðu við hundinn, sögðu menn oftast hvuti (hvuti minn), sjaldnar hvutti. Einnig var sagt: "komdu greyið," en ekki man ég til að ég heyrði talað um grey, en aðeins hundsgrey. Hins vegar var stundum sagt við börn: "greyið mitt," eða "litla greyið," jafnvel "greyskinnið." Aldrei heyrði ég notað orðið deli um hund en hér var það þekkt um mann í mjög niðrandi merkingu.

p2
Eins og áður er vikið að voru hundar ólíkir útlits og voru því hundar hvers heimilis þekktir hvar sem þeir sáust í sveitinni. Kom jafnvel fyrir ef rakki fylgdi manni milli bæja að menn áttuðu sig fyrr á hve hundurinn var en maðurinn. En aldrei heyrði ég heimili dæmd eftir hundum þess enda voru ekki miklar líkur til að sérkenni hunda erfðust á sama bæ. Ekki veit ég til að hvolpar hafi verið seldir hér í sveit, en þó getur verið að menn hafi keypt hunda a.m.k. eftir hundafár. Um verð hér veit ég ekki og raunar ekki hvort um nokkur kaup var að ræða. Ekki er mér kunnugt um hvað gamlir hvolpar voru þegar þeir voru látnir, tel hvolp sem ég fékk hafa verið fjögurra vikna. Flestir kannast við þau vandræði sem urðu með hundana ef í nágrenninu var lóðatík (tík í lóðaríi, eins og oft heyrðist sagt um það ástand) en lítil not urðu að "lóðarökkum," við smölun. Einnig var að sjálfsögðu minna að treysta á hvolpafulla tík við smölun en góðan hund og því voru tíkurnar færri en hundarnir. En þó var reynt að sjá um að tíkur væru það margar að hægt væri að halda hundastofninum við en ekki veit ég samt til að nein samtök væru um það. Ég held að menn hafi helst ekki viljað hafa tíkur fleiri en svo að hægt væri að ala flesta hvolpana undan þeim, því flestum þótti vont verk að eyða hvolpum. Eftir því sem ég hef heyrt mun þeim oftast eða alltaf hafa verið drekkt, enda mun það hafa þótt besta leiðin. Ekki veit ég um hvort yfirleitt var nokkuð tilstand við haft þegar kom að því að tíkin gaut (heyrði ekki notað annað orð yfir það að tík fæddi af sér hvolpa, en grun )(ekki vissu) hef ég um að þetta orð hafi einnig verið eitthvað notað um ær sem létu labmi(). Þó var þess gætt að tíkin hefði gott bæli til að gjóta í. Ekki veit ég til að nokkru skipti í hvaða röð hvolpar voru fæddir, en vel má vera að menn hafi gætt að hvort þeir voru allir blindir, á það heyrði

p3
ég aldrei minnst. Eftir að "Þjóðsögur," Jóns Árnasonar komu út, þekktu menn kreddur þær sem þar er sagt frá um hunda en varð ekki var við að menn færu eftir þeim. Þó býst ég við að menn hefðu síður fargað alspora hvolpi en þeim sem var hálfspora, en ekki vegna þess að menn teldu þá öruggari gegn draugum heldur af því að þeir voru sjaldgæfir. Mig minnir að ég hafi séð einn alspora hund og var hann í engu betri en aðrir hundar. Ekkert veit ég um hvort þessar kreddur voru þekktar hér um slóðir þegar "Þjóðsögurnar," voru gefnar úr. Ekki man ég eftir nema einu örnefni hér í sveit sem kennt er við hund (engu við hvolpa), en það er Hundafoss í Skaftafelli. Þar lá stígur skammt ofan við fossbrúnina og var því hætta á að hundur sem fylgdi manni þar yfir lenti í fossinn ef lækurinn var í vexti og er líklegt að það hafi komið fyrir þó engar heimildir séu mér kunnar um það. Eins og áður er getið þótti oft bagi að þegar hundar voru í lóðastandi en ekki veit ég um nema eitt dæmi þess að hundur hafi verið geltur, hann reyndist hafa mjög litla ratvísi og mun það ekki hafa komið með öllu á óvart og var til þessa rakka vitnað um að óheppilegt væri að gelda hunda. Heyrt hef ég að sauðarleggur hafi einhvern tíma verið bundinn í skott á hundi til að fæla hann frá bæ þar sem tík var fyrir og einnig að púðurskot hafi verið reynt í sama tilgangi. Hér var einu sinni mógulur hundur með skærgula bletti yfir augunum. Ég heyrði þá nefnda auka augu, en man ekki eftir að talað væri um fjáraugu. Ekki minnist ég að nein trú hafi verið í sambandi við þessa bletti. Ekki man ég hvort ljós rófubroddur var nefndur þjófaljós, en kannast þó við orðið en talað var um að hundur hefði ljós í rófunni ef bláendinn var vel hvítur en rófan að öðru leyti dökk, en ekki veit ég til að nein trú hafi verið í sambandi við það. Litur hunda var með ýmsum hætti og voru a.m.k. að

p4
hluta til notuð önnur orð yfir liti þeirra en annara húsdýra (veit ekki um hvort sömu orð voru notuð t.d. um ketti). Hundur sem var með annan lit á hálsi og jafnvel ofurlítið aftur á bógana var strútóttur og framan við það var bætt litnum, mósvart eða gul, o.s.frv. Sama var ef hann var flekkóttur, þá var litnum bætt framan við, "flekkóttur," þegar honum var lýst. Þá þurfti ekki að fara í grafgötur um að hvítur (eða svartur) hundur sem sagður var kjömmóttur hafði a.m.k. annan kjamman af öðrum lit en skrokkinn. Mest tel ég hafa verið um svara og hvíta liti en mórauðir hundar og mógulir voru þó margir til, vel gulir sjaldgæfir. Ekki man ég til að hafa heyrt talað um kápótta og snoppótta hunda. Nöfnin: Jökull, Skuggi, Lappi, Týra, Krummi og Skjöldur voru dregin af einkennum og held ég að þau þurfi varla skýringar við nema að Lappi var með ljósan fót þó dökkur væri og Týra með ljós í rófu. Annars var reynt að hafa nöfnin þannig að þau heyrðust vel en þó efaðist enginn um að Lubbi myndi vera loðinn en líklegt var að Snotra væri snögghærð. Trúlegt var að Kátur hefði verið leikfullur sem hvolpur og að Tryggur hafi snemma reynt að fylgja manni, en Snati, Smali, Tóta og Kjói sögðu ekkert um eðli þeirra sem þau nöfn báru, nema þó með Smala, hvað honum var ætlað. Þegar hundum var eytt (skotnir eftir að byssur komu til sögur) voru skrokkarnir grafnir en meðan reiðingar voru notaðir mun einstaka maður hafa haft hundsskinn undir þeim og þótti minni hætta á að hestar meiddust ef það var gert. Ekki veit ég hvort nokkur munur kann að hafa verið gerður á hvort hundur ýlaði eða ýlfraði, held að það hafi verið það sama. Aftur á móti voru skrækur, urr, bofs, gjamm, gelt og spangól aðgreint í frásögn. Hundur skrækti ef stigið var á rófuna á honum, urraði ef aðkomuhundur ógnaði honum, bofsaði ef hann rak upp eitt smá gelt til að vekja á sér athygli, gelti þegar hann var að reka gripi og spangólaði af leiðindum og stundum

p5
að tunglinu. Ekki veit ég til að hér hafi verið talað um nágól eða sjógól, þó ég kannist við orðið nágól, en rámar í að ég hafi einu sinni heyrt mann tala um að hundar sem urruðu að hvorum öðrum væru að "sjóða grottann." Orðið gestagelt kannast ég vel við og einnig að hundur sem gelti hátt og mikið væri sagður gjárífur. Vel vissu menn um ratvísi hunda en engar sögur um það kannast ég við sem gerst hafa hér um slóðir. Ekki veit ég um neina hunda með spádómsgáfu nema þó að einn hundur sem ekki þótti um neitt sérstakur fór úr bæli sínu í slagveðurs rigningu og settist skammt frá húsum en stuttu seinna hrundi veggur á einu húsi. Eftir það fór hann aftur inn. Ekki hef ég heyrt neitt um tíkarmjólk. "Það er smátt sem hundstungan finnur ekki," var sagt um þann sem var mjög smásmugulegur með að finna að, en var sjaldan notað en hitt var mér sagt að oft hefði heyrst: "hrein er hundstungan," hefur líklega ekki þótt athugavert þó hundar sleiktu ílát, þó mun það ekki hafa tíðkast hér eftir 1870. Engar sagnir hef ég um að lækningamáttur hafi verið tengdur hundum eða líffærum þeirra. "Maður verður að hafa þetta eins og hvert annað hundsbit," var stundum sagt ef maður varð fyrir skaða sem ekki varð bættur. Þetta orðtak er þó varla frá söguöld sbr. Grágás. Hundar sem bitu menn tel ég að hafi verið taldir óalandi og svo var það með hunda sem sannanlega drápu fé. Eitt dæmi veit ég um að klipið var af vígtönnum í tveimur ungum hundum sem tóku sig saman um að elta fé og óttast var að mundu bíta það, þetta virtist koma að gagni. Sagt var um þessa hunda að þeir væru of "eltnir." Þegar hundar ruku saman mátti búast við eða var nærri víst að þeir hefðu "hundasiðinn," eins og stundum var sagt um menn, þ.e. ráðast allir á þann sem undir verður. Besta ráðið við að skilja hunda var að hella yfir þá köldu vatni

p6
en væri það ekki við hendina var stundum reynt að beita svipum og fyrir kom að eigendur tóku í skott sinna og drógu þá sundur. Ekki man ég til að ég hafi heyrt talað um hrælykt af hundum. Ekki man ég til að nein orðtök hafi verið hér um hundaþúfur. Ekki kannast ég við orðtakið: "að vera eins og hundur í hverri hofferð," en oft fylgdi hundur húsbónda sínum ef hann fór af bæ. Ekki veit ég til að hundar hafi valdið truflun við messu hér í sveit en verið hef ég við messu þar sem aðkomuprestur tónaði og hundur spangólaði þá af öllum mætti, en í honum heyrðist aldrei þegar sóknarpresturinn tónaði, þó hann lægi við kirkjudyrnar. Nokkuð mun hafa verið misjafnt hvernig aðbúnað hundar höfðu en þó munu þeir alls staðar hafa átt visst bæli og víðast á góðum stað. Um einn hund vissi ég þó sem aldrei kom í hús en valdi sér ból á húsþaki en mun þó hafa leitað skjóls í allra verstu veðrum. Þetta háttalag stafaði ekki af því að fólkið amaðist við að hann hefði gott skýli. Hér var þó yfirleitt amast við að hundar væru inni í íbúðarhúsum þó þeir væru víða innan bæjardyra á nóttunni en á sumum bæjum var sérstakur smákofi handa þeim. Víða var hafður kassi með hefilspónum eða öðru slíku fyrir hundana að liggja í en gat líka verið smá skot. Að vori og sumri til munu hundar á einstaka bæ hafa verið hafðir úti á nóttunni. Vel man ég eftir undi sem þótti lélegur smalahundur en gætti túnsins vel á nóttunni, fór nokkrar ferðir umhverfis það á hverri nóttu og stuggaði kindum frá. Alltaf var haft sérstakt ílát til að gefa hundunum í "hundaílát," en þeim er ekki auðvelt að lýsa, því þau voru með ýmsu móti, oft einhver uppgjafa ílát. Ílátið þurfti þó að halda, því í því var hundunum gefin mjólk eða annað sem þeir gátu lapið. Ekki veit ég til að trog væru smíðuð handa hundum og því síður að steinn væri klappaður og lagður til eða steinn með vel lagaðri laut fundinn

p7
og notaður til slíkra hluta, þó verið geti að eitthvað af þessu hafi verið notað hér í sveit. Hundar fengu leyfar frá heimilisfólkinu en stundum var þó hirt eitt og annað (t.d. lungu) beinlínis handa hundum og þá soðið og súrsað. Ég kannast vel við orðtakið að: "horfa til augna," en raunar oftast notað um menn. Ekki veit ég til að neitt sérstakt mál hafi verið notað til að skammta hundi mjólk enda líklegt að skamturinn hafi farið að einhverju leyti eftir því hvað mikið var til. Ég man ekki þá tíma að fært var frá og setið yfir ám en mér skilst að margir hundar hafi þá lært að hlýða hverri bendingu smalamanns og mismunandi raddbeitingu. Vel má þó vera að sumir hafi vanið þá á að hlýða einstökum orðum en þegar ég man fyrst eftir voru fyrirskipanir yfirleitt aðeins "ridd" og "svei þér," og hjá einstaka "geltu" ef hundurinn átti að vera kyrr en láta heyra til sín. Svo var farið að kenna þeim merkingu einstakra orða, svo sem "rektu," "vertu á eftir," "farðu fyrir" og "taktu." Þessum orðum eða þeim síðustu fylgdu bendingar og reyndist þetta vel ef menn gáfu sér nægan tíma en á það vantar oft. Aldrei heyrði ég folald eða annað sem hundur hefði étið nefnt þegar hundur var skammaður. Ekki veit ég til að hundum væru kenndar neinar kúnstir en einum hundi man ég eftir sem oft sat þegar maður kom á bæinn og rétti fram hægri framlöppina og var greinilega ánægður ef í hana var tekið. Veit þó ekki til að reynt væri að venja hann á þetta. Ég veit ekki um nein ráð sem dugðu við að fá hunda til að hætta að elta bíla, nema að skjóta á þá púðurskotum. Hundar voru einnig notaðir til veiða, hér til að taka máfaunga (veiðibjöllu). Einn hundur var hér sem komst upp á að halda heilum hóp niðri með því að velta þeim á bakið og gæta svo að þeim þangað til maðurinn sem ekki gat fylgt honum á spretti, kom. Þó var það merkilegast við þennan hund að hann lærði að meta hvort ungar voru "tækir," þ.e. full búnir og snerti ekki við hinum. Var svo fljótur að ákvarða þetta

p8
að hann var jafnan látinn velja úr blönduðum hópum. Hundafár mun síðast hafa komið hér um slóðir seint á síðastliðinni öld. Heyrði ég sagt að Þórður faðir Þorbergs rithöfundar hafi bjargað sínum hundum með því að byrgja þá inni meðan fárið gekk yfir. Að öðru leyti er ég ófróður um hundafár, nema hvað ég hef heyrt að refum hafi mjög fækkað á s.l. öld þegar gekk mjög skætt hundafár. Um aðra sjúkdóma í hundum veit ég ekkert. Í Alþingistíðindum kemur fram að menn voru sumir svo bjartsýnir þegar setja átti lög um hreinsun hunda að sullaveiki yrði með öllu útrýmt á fáum árum og gætu hreppstjórar því vel séð um inngjöfina. Aðrir töldu að hreppstjóri yrði að skipa mann til þess, því þetta myndi verða langtíma verkefni og reyndist það rétt. Fyrst þegar ég man til var alltaf talsvert um sulli í gömlum kindum og voru þeir alltaf brenndir en ekki var haldin skrá yfir þá við heimaslátrun eins og gert var í sláturhúsum. En hér í sveit mun síðast hafa látist maður að talið var af völdum sullaveiki árið 1891. Vitað er að sá maður sagðist ekki hafa varast þá hættu sem af hundum gat stafað og lagði ríkt á við menn að varast hættuna sem af þeim stafaði. Ekki heyrði ég neitt talað um hunda í draumi, nema smá hunda Sturlu Sighvatssonar. Aðeins einu sinni hef ég heyrt um hund sem fylgju, en þeir sem alltaf vissu fyrir gestakomur sögðu sjaldan frá hvað fyrir þá bar, bara að maður sem þeir tiltóku væri á leiðinni. Annað veit ég ekki um hvers skyggnir menn hafa orðið varir. Eins og ég hef áður getið, þótti sjálfsagt að aflífa hund með skoti eftir að það var hægt og ég hef engar sagnir um hvernig það var fyrir þann tíma. Aldrei var talað um nef og munn á hundi heldur trýni og kjaft en þó oft væri talað um lappir á hundi varð hann fótasár en ekki lappa og alltaf var talað um augu á hundum.

p9
Ekki veit ég til að tala hafi verið höfð á bitum sem hundum voru gefnir, veit ekki um neina trú í því sambandi. Lítið mun hér hafa verið ort um hunda og er mér ekki kunnugt neitt um þulur og gátur nema það sem er í prentuðum heimildum. Það sem nefnt er í síðustu spurningu kannast ég allt við, en hef þó aldrei heyrt notað orðtakið: "Veit hundur hvað étið hefur." Einnig held ég að "það er eins og hundur hund hitti á tófugreni," sé komið frá Skáld-Rósu, heyrði það ekki notað nema þannig að mér var kunnugt um að sá sem það gerði kunni vísuna. Hundslappadrífa var notað hér, aftur á móti síladrífa um sama fyrirbæri. Heyrt hef ég sagt um mann að hann var eins og barinn rakki en það getur hafa verið einstaklingsbundið.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana