Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHúsdýr, Nafn
Spurningaskrá68 Auðkenni og nöfn húsdýra

StaðurKvísker
Annað staðarheitiTvísker
ByggðaheitiÖræfi
Sveitarfélag 1950Hofshreppur A-Skaft.
Núv. sveitarfélagSveitarfélagið Hornafjörður
SýslaA-Skaftafellsýsla (7700) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1917

Nánari upplýsingar

Númer8876/1987-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.12.1988
Nr. 8876

p1
Flesta þá liti á hestum sem nefndir eru í skránni kannast ég við, þó man ég ekki eftir að hafa heyrt talað um skottóttan hest, en auk þessara lýsingarorða sem nefnd eru kannast ég við laufóttan hest, var með blett á enni líkan laufi. Tvo hesta vissi ég nefnda Laufa. Algengast var að hrossin væru nefnd eftir litnum: Hvítingur, Lýsingur um hvíta hesta. Gráni um þá sem ekki voru vel hvítir, en þeir gátu líka verið dökkgráir. Bleikur gat verið með ýmsum tilbrigðum frá fífilbleikum í grábleikt. Ég man eftir fífilbleikri hryssu sem nefnd var Fífa, og mun nafnið hafa átt að minna á litinn. Mosóttir hestar voru nefndir Mósi og Mósa og hétu svo þó þeir væru móvindóttir, en vindóttir hestar voru með heldur smáum kringlóttum blettum um skrokkinn ívið dekkri en aðal liturinn. Oft voru mósóttir hestar með dökka rák, mön eftir hryggnum, af því var nafnið Mani komið, en mun ekki hafa verið algengt. Af rauðum lit voru ýms afbrigði og oft voru ljósrauðir hestar glófextir. Það er með áberandi ljósara faxi og tagli en búkhárin. Þeir voru því nefndir Glóar. Faxi gat átt við hvaða lit sem var, ef faxið skar sig verulega úr. Rauður litur gat einnig verið dreyrrauður, þar af nafnið Dreyri, eða sótrauður. Ekki er ég viss um að neinn hestur hafi heitið Sóti, þó mig minni að ég hafi einhvern tíma heyrt það. Jarpur litur var mjög mismunandi dökkur og gátu nöfnin Jörp og Jarpur því átt við mjög mismunandi lit. Það sem kallað var brúnn litur var þó etv. margbreytilegast. Gat verið mjög ljósbrúnt, en einnig svart. Það er dálítið einkennilegt að ég minnist þess ekki að talað væri um svartan hest, þó kýr með sama lit hefði verið sögð svört. Ekki heyrði ég talað um muskótta hesta og engan hest heyrði ég sagðan litföróttan, en kannast þó við að hafa heyrt litinn nefndann. Veit þó ekki hvort orðið var notað hér, því vera kann að það sé hingað komið úr vísu. Ljóst og skjótt og litförótt - lullar undir prestfrúnni, en þó held ég að menn hafi vitað hvernig sá litur var. Skjótt hross vor nokkuð algeng og var talað um rauðskjótt, brúnskjótt og gráskjótt hross. Nöfnin Skjóni og

p2
Skjóna voru algeng og var þá aðallit oft bætt framanvið. Einn hest að mig minnir dökkjarpan með hvíta bletti þvert yfir miðjan skrokkinn, heyrði ég um sem nefndur var Girðir. Annar var dökkur með hvítt höfuð, eyrun og oftast um kjálka, þó dökk, heyrði ég nefndan Kúfur. Dökkjarpur hestur mað hvítan hóf var nefndur Skór. Til voru hestar,dökkir að lit en með hvíta fætur og voru nefndir sokkar. Ekki man ég til að hestar bæru nafn af vilja nema hvað mig minnir að ég hafi heyrt að hestur hafi verið nefndur Vindur. Vera má þó að hestur sem nefndur var Fálki hafi verið nefndur svo af því hann átti bæði fjör og flýti í ríkum mæli, en hann var svipaður fálka að lit og býst ég við að það hafi fremur ráðið nafngiftinni. Ein hryssa var til snemma á öldinni sem nefnd var Bláma og var grá en sló þá á bláleitan lit. Einn hestur hét Tígull var með tígullaga blett á enni. Einn hestur var til nokkru eftir síðustu aldamót sem nefndur var Glámur, en ekki veit ég hvers vegna. Einn brúnsvartan hest vissi ég nefndan Kol og annar með svipuðum lit Sörla, en hvort liturinn réð þar einhverju um veit ég ekki. Nafnið Nasi sagði til um einkenni, hvítur blettur á eða við nasir. Einn hest hef ég séð glaseygðan á öðru auga, en hann bar ekki nafn af því. Nöfnin Vöttur og Víkingur þekktust, en vísuðu ekki til einkenna. Oftast mun trippum hafa verið gefið nafn, sem þau héldu þaðan frá amk. ef ekki skifti um eigendur. Ekki var algengt að hestar væru kenndir við bæi eða fyrri eigendur, en þó kom fyrir að það var gert, einkum ef annar hestur var á bænum með sama nafni.

p3
Nautgripir: Nautgripakynið hér í sveit var frekar smátt og ekki sérlega holdmikið, en mjólkaði sæmilega miðað við fóðurþörf. Litlu fyrir miðja öldina var farið að fá stærri og vöðvameiri gripi að, og er nú það kyn sem aður var hér að mestu horfið. Nú, einkum eftir að sæðingar komu til sögu, er lítið eða ekkert um hryndar kýr, en var áður amk. eins algengt og kollóttir gripir. Ekki var þetta kyn þó mjög stórhyrnt og dálítið var um hnýflóttar kýr. Hér á bæ man ég eftir 3 ættliðum, sem allar voru með svipuðum lit, hvítar nama eyrun. Sú elsta hyrnd með rauð eyru. Sú næsta hyrnd með svört eyru og sú þriðja kollótt með svört eyru. Sú elsta hét Drífa, næsta Hvít og sú seinasta Eyra. Ekki man ég til að hronalag réði nöfnum nautgripa, en litur aftur á móti oft. Ekki veit ég heldur til að júgurlag hefði áhrif á nöfn. Búkolla, Búbót og Gæfa voru algeng nöfn, einnig Skjalda, Huppa, Húfa, Grána, Reyður og Skrauta voru misjafnlega algeng. Þó nautgripastofninn hafi breyst munu nöfnin að mestu þau sömu og áður. Sauðfé: Hornlag sauðfjár var með ýmsu móti og tóku ærnar oft nöfn af hornalaginu, og ef þær voru hornalausar. Kollóttar ær voru oft nefndar Kollur, en oft sett fram við það eitthvað um litinn eða annað til aðgreiningar frá öðrum kindum, svo sem Grákolla, Svartkolla, Mókolla, Ýrukolla og sama gilti um Hyrnurnar, nema að þar kom útlit hornanna einnig td. ef hornin voru sver eins og þau voru oftast á sauðum voru þær oft nefndar Sauðhyrnur, væru hornin nærri bein var sagt að kindin væri spjóthyrnd og nafnið auðvitað Spjóthyrna. Ekki man ég þó til að hafa heyrt nefnda Hringhyrnu, úthyrnu, Afturhyrnu eða Mjóhyrnu, þó hornalagið hefði gefið tilefni að slíkum nöfnum. Ef hornin stóðu mjög upp og aftur var sagt að kindin væri kiðhyrnd. Mun hafa þótt minna á geit. En af því var ekki dregið nafn. Ef annað hornið vísaði meira fram en hitt, voru kindurnar skakkhyrndar og minnir mig að ég heyrði nefnda Skakkhyrnu. Í uppskriftum dánarbúa á sl. öld er minnst á brandkrosslitar kýr.

p4
Algengt var að gleiðhyrndar kindur væru sagðar gashyrndar og hrútsnafnið Gasi var til. Ekki veit ég til að 3 nöfn á hornalagi sem nefnd eru í skrá hafi verið notuð hér, en þau eru krókhyrnt, snaghyrnt og öngulhyrnt. Raunar man ég ekki eftir framhyrndri kind. Lítið var hér um vaninhyrndar kindur og engin nöfn þekki ég sem lúta slíku. Hér er raunar til ein vaninhyrnd ær og er orsök sú að sem gemsi var hún mjög dugleg við að smjúga girðingar og voru því settir krókar úr stálvír á hornin og vandi þetta hana fljótt af að reyna að smjúga girðingar. Gerður var ákveðinn greinarmunur á því hvort kindur voru hyrndar eða hnýflóttar. Horn kinda voru flöt að aftan en kúpt að framan, en hnýflar oftast sívalir og varla meira en 2 tommur að lengd. Hnýfill gat þó verið með öðru lagi en sívalur, ef hann var mjög lítill. Nafngift hnýflóttra kinda hlýddi sömu lögmálum og hyrndra kinda. Sumar kindur voru örðóttar, þe. voru alveg kollóttar en gátu varla talist hnýflóttar, voru stundum nefndar Örður. Ullarlag og litur var misjafn: sumar ær voru alltaf með þunnt reifi en aðrar þykkt. En nöfn vour sjaldan gefin eftir magni ullar oftar eftir lit. Ekki mun nafnið Hvít hafa tíðkast eitt sér, en með viðauka svo sem Brekkuhvít voru til. Aftur á móti voru Svört og Svarsal algeng á svörtum ám. Einnig voru Grána og Móra eða Morsa dregin af lit. Þá voru Flekkur víða, og var oft að litur flekksins framan við. Sama var að segja um bíldóttar ær, að þar fylgdi oft litur nafni. Arnhöfðótt var svart, grátt eða mórautt með hvítan hnakka og náði hvíti bletturinn oft fram fyrir hornin. Algengt var að það væri borið fram atnhöfótt, og sumir sögðu atnefðótt. sumir töldu þó atnefðótt sérstakan lit. Dökkan með hvítum hæklum. Nöfnin Arnhöfða eða Atnefða, var etv. til. Algengt var að fé væri írautt, og kom það oft fram í nöfnum, en stundum var slíkur litur sagður vellóttur. Á sumum bæjum var nokkuð um kindur, sem voru hvítar nema að aftan og á kvið og var sá litur nefndur mögóttur eða golóttur, austan til í sveitinni. Nokkuð var líka

p5
um kindur með gagnstæðum lit, svartar að ofan en hvítan kvið og voru í austanverðri sveitinni sagðar kápóttar, en golóttar í henni innanverðri. Nöfnin Kápa og Gola munu hafa þekkst en lítið var um þau. Geitfé: Geitur voru ekki hér í sveit frá fyrri tíð, þó líklegt sé að geitfé hafi verið hér á landnáms og söguöld sbr. Hafrafell. en hér á bæk voru geitur um árabil, fengnar frá Reyðarfirði, snemma á 3. tug aldarinnar. Hvort orðatiltæki, sem notuð voru í sambandi við lit þeirra og annað hafa átt fyrirmyndir á Reyðarfirði veit ég ekki. Má vera að þau hafi að einhverju leyti verið komin úr þýddum bókum, norskum, svo sem Kátum pilti eða Selli síðstakk. Nafnið krókhyrna, sem ein geitin hlaut var örugglega komið úr síðarnefndu bókinni. Um lit þeirra voru notuð sömu orð og um ær, en hornalagið var alltaf eins, ef þær voru hyrndar. Að talað var um að hafa geitur og kiðlinga er líklegt að hafi verið komin úr bókum, þó verið geti að þetta hafi alltaf verið lifandi mál hér, en hvaðan orðið huðna, sem hér var notað hliðstætt og gimbur, veit ég ekki, en vera má að öll þessi orð hafi verið notuð á Reyðarfirði og þetta orð borist þaðan. En hér var aldrei sagt haðna, eins og víða mun vera.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana