LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1940-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

StaðurFerstikla 1
ByggðaheitiHvalfjarðarströnd
Sveitarfélag 1950Hvalfjarðarstrandarhreppur
Núv. sveitarfélagHvalfjarðarsveit
SýslaBorgarfjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1929

Nánari upplýsingar

Númer17229/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/19.11.2009
TækniTölvuskrift
Nr. 17229

Heimildarmaður: Vífill Búason, f. 20.10.1929, Ferstikla I, Hvalfjarðarsveit, Borg.


Ég verð að biðjast afsökunar á því að ég get illa skrifað, er með einhverjar bólgur í höndum og þreytist fljótt! Betra er að pikka á tölvuna enda orðinn óvanur skriftum með gamla laginu!

Um kirkjur
Hvað réði því aðallega hvar kirkjunni var valinn staður? Rifjaðu upp frásagnir í þessu sambandi, ef til eru, og gjarnan einnig um smíði guðshússins sem yfirskilvitlegar þykja.
Veit ekki hvað olli þessu staðarvali í upphafi. Fyrsti „bóndi“ á Saurbæ var Hróðgeir hinn spaki. Hann var keyptur burt vegna þrengsla!! Þá fór hann austur í Flóa og byggði í Hraungerði. Bróðir hans var líka keyptur burt af sinni jörð, Leirá, og byggði þá í Oddgeirshólum. Allar þessar jarðir urðu síðan kirkjujarðir. Hef ekki hugmynd um hvað olli staðarvalinu. Kirkjan sem nú er í Saurbæ er frá árinu 1957 (vígsluár). Kirkjan sem var hér áður var flutt í heilu lagi suður í Vindáshlíð í Kjós og þjónar nú sem guðshús K.F.U.K. (saga er til um þá ferð). Kirkjan mín er Hallgrímskirkja í Saurbæ. Mjög vegleg og vel búin, byggð af allri íslensku þjóðinni í þakklátri minningu um sálmaskáldið. Ég var þar meðhjálpari og sóknarnefndarformaður í nokkur ár! Það hefur verið vani að kirkjan væri opin og þjónustu reiðubúin hvenær sem fólk þyrfti að komast þar inn. Nú er farið að vera svo mikið af ruslaralýð á ferð sem ber ekki virðingu fyrir neinu. Því er farið að takmarka opnun hennar.

Var eða er kirkjan látin standa opin eða ólæst um lengri eða skemmri tíma? Í hvaða tilgangi er/var það gert?

Er kirkjuhúsið eða hluti þess talið búa yfir verndarmætti? Fyrir hverju þá og hvernig?
Ekki kannast ég við að verndarmáttur sé talinn fylgja kirkjunni. En gott er að heita á hana. - Mikið meira um það síðar.

Hver er/var afstaða fólks gagnvart því að leggja niður kirkju eða að eiga þátt í að taka hana ofan? Hafa viðhorf gagnvart þessu hugsanlega breyst í tímans rás?
Nei það hefur ekki komið til mála að „taka ofan kirkjuna“.

Hefur viðhorf fólks gagnvart kirkjunni sem helgu húsi breyst á einhvern hátt svo þú vitir til? Á hvaða hátt og hvernig kemur það fram?
Nei, ekkert breyst. Ég finn að fólki þykir vænt um kirkjuna sína! Rétt eins og var.

Hvernig var afstaða manna til kirkjunnar tengd grafreitnum umhverfis hana og legstöðum ættingja og vina?  
Grafreiturinn er óneitanlega nátengdur kirkjunni, hingað bera menn sína bestu vini að lokum.

Er eitthvað sem ekki þykir sæma að athafast í kirkju eða annað sem talið er æskilegt að gera? Tengist þetta hugsanlega ákveðnu svæði í guðshúsinu? Má t.d. klappa eða hlæja í messu? Segðu frá öðrum hugmyndum um hegðun fólks í kirkju.
Í kirkjunni hafa menn ekki uppi háð og spé. Tala ekki hátt né hlægja, ljúga ekki opinskátt! (ekki í „messu“). Við tónlistarviðburði og söngskemmtanir er algengt að klappa og „þakka“.
Aldrei hef ég heyrt gesti grípa fram í fyrir presti né láta í ljósi efasemdir!
Við hjón erum alveg nýbúin að halda hátíðlega upp á 75/80 ára afmæli okkar, með söngskemmtun og komu fram sjö hljóðgjafar og fluttu vinsæl lög og tónverk! Þeim var þakkað með dynjandi lófataki og kröfum um endurtekið efni!

Hvers konar hlutverki gegnir kirkjan sem samkomuhús fyrir ýmsa veraldlega viðburði? Hvaða óskráðar reglur eru í gildi utan messutíma, má t.d. klappa á tónleikum?
Þetta er komið fram!

Hvaða máli skiptir sjálf kirkjubyggingin við trúariðkanir fólks? Er jafngilt að stunda trú sína og helgihald utan byggingarinnar og að fara í kirkju, t.d. að skíra heima? Hvenær er þá helst farið í guðshús?
Skírnir í heimahúsum eru að hverfa. Giftingar eru ekki svo sem nein helgiathöfn! Mér finnst unga fólkið sækja í að fara í kirkju til giftinga eins og til að undirstrika alvöru þeirrar ákvörðunar („nú skal það takast!“).

Kannast þú við trú á einstaka gripi í kirkjum? Hefurðu heyrt um sérstaka trú á altarissakramenti eða kaleika, mátt skírnarvatnsins (lækningamátt, vörn gegn illum öflum o.fl.)? Geturðu lýst þessu?
Ekki neitt svo sem! Þó er enn einhver tiltrú á vígðu vatni. Eftir skírnir er skírnarvatnið borið út og því er skvett á gras. Ég varð vitni að því að fólk sótti í að baða augun upp úr skírnarvatninu. Þess vegna bauð ég fólki að komast í fontinn utan við kirkjudyrnar og þáðu margir það, líklega af mismunandi ástæðum. Þeir sem ekki vildu „sjá“ hvað sem er töldu að það hjálpaði.

Við hvaða tækifæri og af hvaða tilefni eru kirkjunni gefnar gjafir? Hvers konar gjafir er helst um að ræða? Hvaða væntingar hafa gefendur til kirkjunnar?
Kirkjunni eru gefnar gjafir þegar eitthvað happ hefur hent, t.d. þegar menn selja vel eignir sínar og eru „þakklátir forsjóninni“ fyrir hvernig rættist úr málum.
Mér dettur í hug að nefna Hallgrímshátíðirnar sem haldnar voru 1933, 34 og 36. Hátíðirnar voru haldnar í Fannahlíð, birkihlíð sunnan í Saurbæjarhálsinum, beint upp af Gufugerði. Þar var sjálfgerður hátíðastaður, mörg sæti og skjólgott! Þessar hátíðir voru langfjölmennustu hátíðir síns tíma. Eimskip kom með fjölda farþega og biðu skipin út fyrir lendingunni í Saurbæ! Smærri skip og bátar komu með farþega frá Akranesi og fólk kom gangandi og ríðandi úr öllum áttum! Fyrsta hátíðin var fjölmennust og var best veður þá. Allt var þetta gert til að sameina hugann um að minnast sálmaskáldsins kæra. Haldnar voru ræður og unnin heit. Seldar voru veitingar og allt fé rann í Hallgrímskirkju og minnisvarðasjóð. Safnaðist töluvert mikið fé. Fyrir var „loforð“ heimamanna frá árinu 1916. Loforðið var að leggja fram vinnu við Hallgrímskirkju í Saurbæ að upphæð 5.000 kr. „stórar krónur“.
Þegar farið var að tala um minningarkirkju um Hallgrím hófst upp áheitahrina sem ekki er til staðar!

Messur, giftingar og aðrar helgiathafnir undir beru lofti hafa tíðkast um nokkurt skeið. Fara slíkar athafnir hugsanlega fram á ákveðnum stöðum og ef svo er hvaða? Hvað er þetta gamall siður? Greindu frá því sem þú veist um þetta.
Messur, giftingar og aðrar athafnir eru haldnar í kirkjunni en stundum er farið út í náttúruna og t.d. giftingar fara þá fram á fallegum stöðum. Ég man eftir að brúðhjón fóru með prestinn sinn út í hólma í Melalfellsvatni í Kjós! Og bandið heldur enn! Þessi siður er ekki gamall, ég held að hann geti vel enst. (Guð er allsstaðar).
(„Hallgrímur laugaði sárin sín úr lindarvatninu“). Fólk sótti vatn í lindirnar og hafði hjá sér, óháð árstíðum.

Þekkir þú lindir, brunna eða læki sem sérstök trú er tengd við? Yfir hvaða eiginleikum eiga þeir að búa? Tengist trúin ákveðnum árstíma?
Ég þekki það að fólk hafi trú á lækningarmætti vatns úr Hallgrímslindunum. („Hallgrímur laugaði sárin sín úr lindarvatninu“) Fólk sótti vatn í lindirnar og hafði hjá sér, óháð árstíðum.

Þekkir þú sögur af stöðum sem hafa verið vígðir af helgum mönnum? Eða af stöðum sem tengjast dýrlingum eða öðrum helgum mönnum á einhvern annan hátt? Geturðu sagt frá þessu?        
Ég þekki ekki sögur um að helgir menn hafi vígt aðra staði hér um slóðir.

Segðu frá öðrum stöðum sem sérstök helgi eða átrúnaður er á.

Um áheit.
Ég hreifst með þegar fólk var að heita á Hallgrímskirkju og hét á ef mér lánaðist þetta eða hitt!

Get nefnt saklaus áheit frá ungdómsárunum! Ég hafði fest stóra járnhjóladráttarvél við jarðvinnslu, var að herfa og jafna á skurðbakka en vélin fór niðurúr og niður í mó sem var svo laus í sér að viðnám hjólanna var lítið! Ég setti tré undir en vélin ruddi þeim burt. Ástandið eftir þrjá daga var vonlítið. Vélin var komin jafn neðarlega og skurðirnir í kring! Þá hét ég á Hallgrímskirkju, peningaupphæð sem jafngilti þremur daglaunum. Síðan reyndi ég enn einu sinni að keyra vélina upp á trén. Vélin lyfti framhjólunum og ég óttaðist að hún færi aftur fyrir sig! Hikaði andartak en hélt svo áfram. Og nú komu framhjólin niður og ég var kominn upp úr á augabragði! Um svipað leyti vissi ég um að hjón hér í sveitinni áttu veikan dreng, læknir hafði gert eins og hann gat en ekki kom batinn. Eftir marga mánuði í vonleysi hétu þau vænni upphæð á Hallgrímskirkju í Saurbæ. Svo þegar batinn kom nokkrum dögum síðar fóru þau með áheitaféð til kirkjunnar.

Ein gamansaga er hér í viðbót, af nógu er að taka!
Þegar nýja kirkjan var komin upp kom svolítill leki í ljós. Það hafði verið notast við þykkan þakpappa því að á þessum árum fékkst ekki annað betra! (1957). Við klerkur vorum að vandræðast yfir skemmdunum þegar Loftur Bjarnason forstjóri Hvals kom í heimsókn. Hann var í byggingarnefnd og lét sér mjög annt um kirkjuna. Klerkur var sár yfir að kirkjan skemmdist af leka! Var bitur og kannske ósanngjarn. Loftur varð fár við og sagði að erfiðleikar steðjuðu víða að nú um sinn. Hann sagðist víst verða að stöðva veiðar bátanna sinna. Hvallýsi seldist ekki um þessar mundir. Það væri bara engin eftirspurn og allir tankar að fyllast! Kopar væri til í Ameríku en geysidýr. En ef ég gæti nú bara selt dálítið af lýsi. Svo felldu menn talið! Fáum dögum síðar erum við enn að í kirkjunni þá kemur Loftur og er nú léttur í spori!! Hann veifar skeyti til okkar og segir „Ég hef selt allt lýsið og þeir vilja fá meira en ég á til“. Þá var bandaríski bílaiðnaðurinn að selja „fluid-drive“ bíla og í ljós kom að engin olía var betri! Loftur fór svo vestur til að ganga frá samningum og þegar hann kom kom hann með kopar á kirkjuþakið!! Þessi saga er dagsönn. Loftur hafði þá skoðun að gott verk „borgaði “ sig ávallt! Hann hét oft á kirkjuna og jafnan með góðum árangri.

Hvalveiðimenn eru, eða hafa verið, trúir á áheit. Ég tók eftir á ferð um Suður-Afríku að kirkjur á suðurströndinni voru vel búnar og spurði heimamenn. Þeir sögðu að meðan hvalveiðimenn þræluðu við veiðarnar í Suðurísnum höfðu þeir ekki fréttasamband heim. Þeir vissu því ekki hvað beið þeirra þegar þeir komu til byggða! Hétu þá gjarnan á fyrstu kirkju ef friður hafði haldist eða kreppan slaknað! (Var verð á hvallýsi gott?). Þeir voru venjulega með hlaðin skip af lýsi. Verðmætið var oft geysimikið, það skipti því máli hvort verðlag væri í jafnvægi. Norðmenn komu að eftir stofnun „Hvals“, gerðu samning við félagið og kenndu íslendingum veiðar og vinnslu. Strax og norðmenn komu í Hvalfjörð (um 1948) hétu þeir á gömlu kirkjuna okkar og ég man þegar þeir komu fyrir fyrstu jólin með nýjan olíuofn og tank.

1987 var leitað eftir nýtilegum jarðhita hér í sveit. Þar fóru í fararbroddi áhugamenn um fiskirækt. Félagið „Strönd“ var með fiskeldi við Saurbæ. Þeir höfðu áhuga á að byggja aðstöðu í landi. Þá mætti notast við hitaveitu! Hafin var forleit að hita í jörðu og fannst vænlegur staður við Harðavöll milli Hrafnabjarga og Ferstiklu. Þar var boruð hola sem lofaði góðu, (hiti á litlu dýpi). Vænlegur hiti fannst fljótlega en lítið vatn, var því farið dýpra en ekki fannst viðunandi árangur. Fé sem handbært var var mjög til þurrðar gengið. Nú stóðu stjórnarmenn frammi fyrir því að stöðva borun og ekki var fenginn nægur hiti. Komu þeir við í Strönd og áttu erfitt. Seint um kvöldið fóru þeir inn á borunarstaði til að segja bormönnum að hætta borun! Flytja jarðborinn burt! Þá kom fram uppástunga frá Stefáni Teitssyni að heita á Hallgrímskirkju í Saurbæ. Fengi kirkjan allan hita fyrir sig ef hiti fyndist í nótt en að morgni yrði hætt að bora og borinn fluttur burt! Eftir tvo til þrjá tíma „datt borinn niður í helli“. Var borinn þá stöðvaður og bunaði heitt vatnið þá frítt upp úr jörðu. Ca. 85 ° heitt vatn með þrýstingi um 12 m.hæð (sem sagt óskahiti með þrýstingi upp úr jörðu sem lofaði ódýrri dælingu) Hófst þá virkjun og var fyrsti áfangi út að Saurbæ og var fljótleg lagt inn í kirkjukjallarann en síðan upp í kirkjuna! Síðan er kirkjan mín bæði hlý og vistleg. Því má svo bæta við að hver framkvæmdaáætlun Hitaveitu Hvalfjarðar af annarri hefur blessast. Engin áföll sem oft vilja skapa erfiðleika hafa knúið dyra hjá Hitaveitu Hvalfjarðar.

Hjátrú segir þú. En er ekki bara góð trú að telja að gott verk með góðum huga beri með sér gæfu?
Áheit geta verið með ýmsu móti, þurfa ekki að snúast um kirkjur eða „trú“! Mér er enn í minni þegar húnvetnskur maður með bíladellu reyndi að flytja búsafurðir á vörubíl sínum til Reykjavíkur um hávetur! (Þetta var fyrir stríð og vegir óþroskaðir ). Hafði hann með sér fjalir til að komast yfir erfiða skafla á Holtavörðuheiði (þvílík þolinmæði!). Hann þurfti oft á þolinmæði að halda! líka upp úr Svínadalnum. Þar var aur í vegi fram á sumar! Stundum hét maðurinn á dysina Erfingja sem er rétt á vegabrúninni þar sem komið er upp á Ferstikluhálsinn. Þarna er sagt að liggi fjármaður frá Daghálsi. Dysin var óskipuleg grjóthrúga áður en hún fékk búningsbótina hjá þessum manni sem var Guðmundur Jónasson frá Múla í Línakradal, lengst af þekktur sem „Fjallaguðmundur “ eða Guðmundur frá múla. Hann lék sér að fjöllunum og kenndi öðrum að njóta þeirra! (Fyrirtæki hans er ennþá til „Guðmundur Jónasson“).
Eitthvert sinn var hann með einhvern merkismann með sér, bíllinn orðinn yfirheitur og þurfti að hvíla sig! Þá hét hann á „Erfingja“ að gefa honum nokkra góða steina ef vel gengi upp Hallana! Honum gekk vel og þá hlóðu þeir vesturkantinn á Dysinni. Sótti stóra steina langt að og kom þeim vel fyrir. Síðan er Erfingi hin stæðilegasta dys en ekki bara grjóthrúga!
Erfingi er annars friðlýstur síðan herinn réðst á hann 1965, fær samt ekki alltaf frið! Það er önnur saga!

Ágæti fagstjóri!
Mér er ljós að svör mín eru ekki fullkomin en ég hef valið að hafa frásögnina svona eins og í samtali okkar á milli. Lítið hátíðlegt en hreinskiptið! Sé eitthvað óljóst eða þarfnast skýringa er ég alltaf tilbúinn að bæta um. Mér er líka ljóst að tíminn er að renna frá okur. Nær daglega kveðja menn sem fara með verðmætar minningar með sér út í eilífðina. Ég hrökk við nú nýlega þegar mér varð ljóst að nú erum við bara tveir eftir sem unnum að byggingu Hallgrímskirkju í Saurbæ, mjög bráðlega enginn! Þetta líður svo hratt!!
Netfang mitt er vifillbuason@gmail.com líka vifillb@mi.is annað mér viðkomandi hefur þú hjá þér.
Mér hugnast að senda þetta svar í pósti upp á gamla lagið. Enda æði gamaldags!!
Með bestu kveðjum.
Vífill Búason.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana