Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1896

Nánari upplýsingar

Númer1800/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 1800

p1
Inngangur: Svör við spurningum þessa lista hefi ég mjög fá og ófullkomin, sem kemur tilaf mörgum ástæðum, en einkum af tveim. Ég hefi aldrei verið með fólki sem hefur tekið neinar kreddur mjög hátíðlega og svo vantar mig hæfileika til að færa í letur nokkuð um þessi mál. En sumardagurinn fyrsti hefur svo langt sem ég man verið gleðidgur sem oft hefur verið beðið eftir með óþreyju og tekið með fögnuðu. En lengst af ekki verið mikill hátíðisdgur í venjulegri merkingu þess orðs, t.d. oft unnið eitthvað þann dag að vorverkum, ef veður leyfði og gemlingar voru oftast brennimerktir þá á meðan ég var að alast upp, en sú regla er nú ekki haldin lengur. Árið 1908 var UMF Reykdæla stofnað hér í sveit. Sumardagurinn fyrsti var valinn sem heilladagur til stofnfundarhalds og síðan hefur á vegum félagsins verið fagnað sumri með

p2
einhverskonar skemmtisamkomu á sumardaginn fyrsta. Nú hin síðustu ár hefur sumarfagnaður sá aðallega verið helgaður börnum og unglingum. Dreymt fyrir sumri: Við þessum lið kann ég engin svör. Margt fólk er draumspakt og ég hefi ýmislegt heyrt um a fólk hafi dreymt fyrir sumri eða vetri, en treysti mér ekki að fara neitt inn á það mál. Sumarmálahret: Hrafnahret hefur mér virst vera nokkuð árvisst. En það er um það leyti sem hrafnar fara vanalega að verpa eða 9-19 nóttum fyrir sumar. En það er mjög oft að þá gerir hér krapa eða hretviðri. Því má skjóta hér inn að ýms nöfn voru notuð á hinum margvíslegu

p3
veðurfarsbreytingum, t.d. var talað um pálmakast, bændadagarumbu, háskakast, en sjaldan átti að viðra sama á páskum og pálma, hrafnahret, sem átti að koma 9-14 dögum fyrir sumar eða um það leyti sem hrafnar fara vanalega að verpa. Ef lítið varð úr þessum köstum var fremur búist við kuldakasti upp úr sumarmálunum. En almennt mun hafa veirð nokkur trú á vþí að þegar spóinn var kominn og farinn að vella graut, sem kallað var, að þá væru verstu vorköstin liðin hjá. Þó vissi ég dæmi til að sú trú gat brugðist hrapalega. En það var vorið 1914, þá kom spóinn fyrr en ég veit dæmi til að hann hafi gert í annan tíma. En vorið 1914 er langversta vor, sem komið hefur á þesari öld amk hér í Borgarfirði. Síðasta nafnið sem ég heyrði getið um á vorköstum var uppstigningardagshryna. Sumartunglið: Að svara í sumartunglið hef ég þekkt frá bernsku, en það

p4
var þannig að sá sem vildi láta svara sér í sumartunglið átti strax eftir að hafa séð í fyrsta sinn sumartunglið gangna inn til fólksins, án þess að mæla orð frá vörum fyrr en einhver ávarpaði hann. En það sem við hann var sagt boðaði gott eða illt, allt eftir því hvert ávarpið var. Set hér eitt sýnishorn: Fyrir 60 árum sagði við mig drengur sem ég þekkti vel. "Ég á að deyja ungur". "Hvers vegna heldur þú það"? segi ég. "Ég lét svara mér í sumartunglið, og stúlka sem var gestkomandi gekk hjá mér og bauð mér góða nótt, en það boðar skammlífi, þeim sem svarað er í sumartungl." Piltur þessi varð stór og hraustlegur og hinn mesti atgerfismaður, gekk menntaveg, var nýlega búinn að ljúka embættisprófi, nýtrúlofaður myndarstúlku og miklar vonir voru við hann tengdar, en þá veiktist hann snögglega og kvaddi þennan heim. Ekki veit ég hvort svarið í sumartunglið hefur verið þarna að rætast, en svona fór það. En ýmsir munu hafa lagt nokkurn trúnað á svar í sumartunglið.

p5
Sumargjafir: Sumargjöfum hef ég ekki vanist og er alveg ófróður um þær. Veitingar: Veitingar á sumardaginn fyrsta voru álíka og t.d. venjulega á sunnudögum og aldrei þekkti ég neinn sérstakan undirbúning í matargerð að haustinu í því sambandi. Sumardagsnóttin fyrsta: Heldur mun hafa þótt spá góð ef frost var fyrstu sumarnótt, að saman frysi suma rog vetur, sem kallaðv ar. Og til að ganga úr skugga um það hvort frosið hefði var oft sett út blaut tuska kvöldið áður eða vatn látið standa úti í grunnu íláti. En eldra fólk taldi að þá yrði gott undir bú það sumarið, sem kallað var. En það skildist mér vera meint þannig, að væg næturfrost héldu gróðrinum hæfilega niðri og hertu hann, gerðu hann kjarnbetri og grös

p6
yrðu í sprettu lengur fram eftir sumrinu, en þar með yrðu nytjar af kúm og ám betri, mjólkin meiri og betra búsílag. En mikið var lagt upp úr því meðan nálega öll lífsafkoma byggðist á heimafenginni matbjörg. Ekki vissi ég til að fólk væri að athuga næturfrostið með því að ganga berfætt kringum bæinn. Heldur var snemma risið úr rekkju á sumardaginn fyrsta, og ekki mun það hafa þótt spá góðu að sofa þá yfir sig, sem kallað var. Ég held að það hafi á víxl komið í hlut hjónanna að verða fyrst á fætur til að fagna sumri. Að fólk klæddist sparifötum eða að um neitt skemmtanahald væri að ræða á sumardaginn fyrsta man ég ekki til fyrr en eftir að UMF hreyfingin kom með sína vakningaröldu. Sumargjöfum hef ég ekki vanist. En húslestur var lesinn eftir hádegið og oft sungnir sálmar fyrstu 2 áratugi aldarinnar, en varla mikið lengur.

p7
Aldrei heyrði ég daginn nefndan öðrum nöfnum eða helgaðan sérstöku fólki. Fyrstu sumardagar: Um þetta er ég mjög fáfróður og kann á því lítil skil. Ég hef heyrt að fyrsti sunnduagur sumarsins ætti að líkjast töðuþerrinum og mánudagurinn útheysþurrkinum. En ekki hef ég heyrt mikið upp úr þessu lagt. Nýir hættir: Á þessum þætti kann ég engin skil. En þær breytingar sem orðið hafa felast að nokkru leyti í því sem að framan er sagt en lifnaðarhættir allir og að ýmsu lífsskoðanir fólks og lífskjör hafa tekið gegngerum breytingum. Í þeim breytingum eiga vafalaust sinn þátt blöð, skólar, sími, útvarp, sjónvarp og ýmsir hugsjónamenn, sem hafa kunnað að nota hin margvíslegu hjálpartæki ugsjónum sínum til framdráttar. Og mér hefur virst breytingarnar hafa verið að gerast með vaxandi hraða alla öldina, frá síðustu aldamótum.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana