LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiBúskaparhættir
Ártal1895-1971
SpurningaskráA Efni óháð spurningaskrám

SýslaA-Skaftafellsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1884

Nánari upplýsingar

Númer314/-0
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráEfni óháð spurningaskrám
Sent
TækniSkrift
Nr. 314

Heimildarmaður: Hjalti Jónsson f. 06 08 1884

s1
Jarðabætur, ullarþvottur ofl. vorverk.
Nokkuð var unnið að jarðabótum á síðara hluta 19. aldarinnar, aðallega túnasléttun. Mun það lítið hafa verið byrjað fyrr en Framfarafélagið var stofnað, en Þorleifur Jónsson, Hólum, segir greinilega frá stofnun þess og starfsemi í ævisögu sinni. Sú félagsstofnun var undanfari búnaðarfélaganna. Hér voru flest tún kargaþýfð og voru menn farnir að þreytast á því að kroppa þúfurnar. En verkfærin sem menn höfðu til að ráða niðurlögum þeirra voru léleg og frumstæð. Rist var ofanaf með torfljá og flagið síðan pælt og jafnað með rekum, áburði ekið í það í hjólbörum. Að því loknu var það tyrft. Rekurnar voru lélegar svo að telja má furðu hvað menn gátu unnið með þeim. Í verslununum fengust aðeins blöðin á þær, þau voru einjárnungar úr stálplötu og beygður á þau stuttur hólkur sem skaftinu var stungið í og fest með einum nagla en það urðu menn að smíða sjálfir og má nærri geta að það var misjafnlega gert. Sköftin voru bein og handarhaldslaus. En þó þóttu þær góðar í samanburði við trérekurnar sem voru næst á undan þeim en þá voru pálar notaðir til að stinga með. Þeir voru úr sögunni þegar ég man fyrst. Ristuspaðar þekktust ekki fyrr en um aldamót. Framfarafélagið
útvegaði mönnum rekur og kvíslar á starfsárum sínum sem voru með líkri gerð og nú tíðkast. Trérekur voru til fyrst þegar ég man en þá gamlar. Þær sem ég sá voru þannig gerðar, að 2 þunnar fjalir hérumbil 4-5 þml. breiðar og 10 þml. langar voru festar sín á hvora hlið á beinu skafti sem var svo þynnt jafnt fjölum og myndaði blaðið. Spöng úr gyrði eða þunnu plötujárni var negld á það að ofan og önnur að neðan, breiðari, sem tók niðurfyrir tréð og myndaði eggina. Var hún kölluð vari (rekuvari). Búnaðarfélag var stofnað hér í Nesjum árið 1894 og komu þau svo hvert af öðru hér í sveitunum á næstu árum og gengu í Búnaðarsamband Austurlands en það var stofnað um aldamótin. Ekki voru þó allir bændur í búnaðarfélögunum á fyrstu árum þeirra en komu smátt og smátt. Ákvæði var um það í lögum þeirra að hver félagsmaður skyldi vinna sína menn sem gengið höfðu á búnaðarskólana. Þeir unnu að búnaðarvinnu hjá bændum haust og vor, voru kaupamenn um sláttinn hjá einhverjum bónda í sveitinni og kenndu börnum að vetrinum. Búnaðarvinna var kölluð sú vinna er laut að jarðabótum, svo sem túnasléttur, garðahleðsla, túngarðar, nátthagar, matjurtagarðar, (vanalega
kallaðir kálgarðar) og skurðagröftur. Búnaðarfélagið keypti fyrsta plóginn sem hingað kom um aldamótin eða litlu síðar og með honum herfi. Réði það mann í þjónustu sína sem var búfræðingur frá Hvanneyri og hafði verið í Noregi um 2-3 ára skeið og mikið unnið þar að plægingu. Var það Guðbjartur Þorláksson síðar bóndi á Austurhól. Keyptir voru 2 úrvals dráttarhestar og vann Guðbjartur með þeim að plægingum heilt sumar og plægði aðallega óbrotið land. Næsta vor var svo byrjað að herfa flögin en það reyndist lítt vinnandi ver með herfi því er keypt hafði verið. Það var tindaherfi með beinum tindum ferköntuðum, tætti ekki plógstrenginn með grasrót nema að litlu leyti og gáfust flestir upp við það. Þá voru spaðaherfi og diskaherfi ekki komin til sögunnar og fengust ekki fyrr en 10-12 árum síðar. Tilbúinn áburður þekktist ekki og
grasfræ ekki heldur fáanlegt svo menn gáfust upp við þessa aðferð í bili en ristu ofan af þúfunum og plægðu flögin. Þá voru ristuspaðar komnir og fyrirristuhnífar svo túnasléttuninni miðaði miklu betur áfram en áður þó ekki væri hægt að telja framfarirnar stórstígar fyrr en dráttarvélarnar komu sem ekki var fyrr en um 1930. Snemma í júnímánuði var byrjað að smala geldfénu (sauðum og gemlingum) til að rýja það. Var það þá orðið rýjandi þegar vel voraði og gróður kom snemma en í vorharðindum var það

s2
að sjálfsögðu seinna. Voru þá gengin öll fjöll, féð rekið til réttar, rúið og rúningarnir svo reknir aftur til fjallanna. Að því loknu var ullin þvegin. Voru hlóðir byggðar við læk sem þurfti að vera nokkuð vatnsmikill eða annað vatn sem hægt var að þvo úr. Stór pottur var settur á hlóðirnar og var þvælið hitað í honum. Þegar það var orðið suðuheitt var ullinni dýft í pottinn h.u.b. einu reifi í einu og hún látin liggja í þvælinu um stund. Síðan færð upp úr pottinum með priki og lögð á grind til dæmis klár - meis, sem tók yfir hálfan pottinn og látið síga þar úr henni mesta þvælið. Síðan var hún borin í lækinn og skoluð þar vandlega. Var hún skoluð í körfu sem stóð niðri í læknum eða ef karfa var ekki til var notaður kláfur sem net var riðað utan á. Var það gert til þess að straumurinn tæki engan lagð með sér. Þvælið var keita sem blönduð var með vatni. Var hlandi safnað í tunnur, eina eða fleiri, eftir því hve mikil ull var á heimilinu. Varð að byrja það á útmánuðum, jafnvel á þorra, til þess öruggt væri að nóg yrði í ullarþvottinn enda talið betra þvottaefni því eldra og stækara sem það var. Þegar kom fram yfir aldamót var farið að nota keituna minna en í stað hennar "sóda" sem þá var orðið auðvelt að fá í versluninni og brátt fór svo að hann útrýmdi keitunni alveg. En ullin var þvegin heima þangað til íslensku ullarverksmiðjurnar fór að taka við henni óþveginni. Mun það hafa verið um 1950. Þegar búið var að þvo ullina var hún flutt þangað sem breiða skyldi hana til þerris. Var best til þess harðvellisbarð eða möl. Ef ekki var þurrkur var hún sett í smá hrauka og beið í þeim þangað til þurrkurinn kom en þá var gengið að því að breiða hana. Svo þegar hún var orðin þurr var hún sett í poka og flutt heim. En þó búið væri að þvo og þurrka ullina var talsvert óunnið við hana áður en farið var með hana í kaupstaðinn. Mestur hluti hennar var hvítt því menn kostuðu kapps um að hafa sem mest af hvítu fé því ullin af því var miklum mun verðmeiri en svört, grá eða mórauð og mislit lang verðminnst eins og enn er þó verðmunurinn væri hlutfallslega meiri
þá. Allt heimilisfólkið gekk að því að skilja ullina nema þeir sem bundnir voru við önnur aðkallandi störf eins og t.d. smalinn sem varð að sitja yfir ánum. Tók það fleiri daga á heimilunum sem höfðu margt fé. Ullin var tekin úr hvítu ullinni, flókar tánir og greiddir sundur eftir því sem hægt var. Voru jafnvel notaðir til þess járnkrókar, fiskiönglar og því um líkt. Til þess að ullin yrði "númer 1" sem kallað var var áskilið að hún væri vel þvegin, þurr, hvít ull sem var blökk eða með írautt tog, kviðull, fætlingar og því um líkt. Þá var ullin aðalinnleggið frá heimilunum og var í háu verði samanborið við núverandi peningagildi. Verð á hvítri ull nr. 1 var á árunum 1890-1910 frá 0.50-0.90 pundið - Kr. 1.00-1.80 kílóið en miðað við verkamannakaup sem þá var kr. 0.20-0.25 á tímann má margfalda þá tölu með allt að 100. Þá var verð á lambi ekki nema 2-4 krónur og ærverð á hausti 6-8 kr. Enskur fjárkaupmaður Coghill sem keypti sauði á Norður- og Austurlandi kom hingað til að kaupa þá nokkur ár um og eftir 1890, keypti hér síðast 1896 og þá var verðið kr. 12.00 fyrir fullorðna sauði. Ég man að ég heyrði talað um að það þótti lágt verð því næsta ár á undan hafði hann gefið heldur hærra verð fyrir þá. Sauðirnir voru reknir til Seyðisfjarðar og fluttir þaðan lifandi til Englands. Ekki man ég hver verðmunur var á því að selja Coghill sauðina eða leggja þá inn í verslun hér en ég heyrði talað um að þeir legðu sig talsvert minna enda borgaði Coghill sauðina með ensku gulli. Englendingar keyptu hér líka hross á hverju ári, komu vanalega í júlí. Munu það hafa verið sömu menn, Coghill og Slimon sem stóðu fyrir þeim kaupum. Voru það kallaðir hrossamarkaðir. Oftast voru það Íslendingar sem komu hingað að kaupa tryppin. Þau urðu að vera á aldrinum 3-5 vetra en þó munu þeir hafa keypt stöku sinnum tvævetur tryppi ef þau voru sérstaklega falleg. Verð á þeim var um 30-40 krónur en þau voru borguð með gulli eins og sauðirnir. Þegar búið var að skilja ullina var hún látin í poka sem hún var flutt í í kaupstaðinn. Var vandlega troðið í þá og valdir til þess stærstu pokar sem til voru á heimilunum.

s3
Voru þeir bundnir í klyfjar og þótti hæfilegt að hafa tunnusekk á hlið en annars 2 minni pokar bundnir saman. Voru bjórar lagðir undir reipin á þá hlið sem sneri að
reiðingnum til þess að hlífa pokunum við sliti og ofan á klifið til þess að hlífa við bleytu ef rigning kæmi á meðan menn voru með lestina á leið í kaupstaðinn. Annars var mikið um það að menn hér í Austur-Skaftafellssýslu notuðu poka úr segldúk til að flytja ullina í og annan kaupstaðarvarning sem ekki mátti blotna því vatn gekk ekki í gegn um þá þó þeim væri dýft í það en það kom oft fyrir þá, sem bjuggu vestan Hornafjarðarfljóta og þurftu að fara yfir öll stórvötn sýslunnar í kaupstaðarferðunum, að vatnið gekk upp á miðjar klyfjar og jafnvel allt að því að skylli yfir á hestunum. Einnig voru pokar úr hrosshári notaðir til kaupstaðarferðanna. Voru þeir heimaunnir að öllu leyti, hárið spunnið á handsnældu og svo ofið í sérstökum vefstól. Lengst mun hrosshár hafa verið unnið í poka í Öræfum. Eftir aldamót var aðeins einn maður þar sem átti vefstól til þess og óf í honum, Sigurður Þorsteinsson á Hnappavöllum. Segldúkur (strigi) fékkst af strönduðum fiskiskútum (duggum). Þær strönduðu hér oft og voru seldar á uppboði ásamt öllu góssi sem bjargaðist úr þeim. Gerðu þeir sem á uppboðinu voru þá félag með sér um kaup á skipskrokkunum, seglum og köðlum. Einn maður bauð í það einhverja smáupphæð og enginn á móti. Skiptu því svo að uppboði loknu. Varningur sá er menn fluttu heim úr kaupstaðnum var rúgur, bankabyggsgrjón, baunir, kaffi og sykur. Mest var keypt af rúg, var hann malaður heima í handkvörn þar sem vatnsmyllur voru ekki en þær voru komnar á nokkra bæi hér í sveit á seinni hluta 19. aldar. Var þá malaður í þeim allur rúgur fyrir heimilið og einnig oft eitthvað fyrir nágrannana. Bankabygg var líka malað og haft í lummur, pönnukökur og kleinur í stað hveitis því lítið var keypt af því. Kaffi var talsvert mikið keypt, stærri heimili tóku heilan sekk í einu. Venjulega mun það ekki hafa verið drukkið nema tvisvar á dag og þá molakaffi. Brauð var ekki haft með því nema á hátíðum og tyllidögum svo sem afmælum og handa gestum sem þó var ekki alltaf en þeim var líka oft gefið staup af brennivíni því bændurnir áttu vanalega eitthvað af því enda var það selt í öllum verslunum og kostaði potturinn aðeins nokkra aura. Sykur þekktist ekki annað en hvítasykur, toppasykur og kandís. Sykurtopparnir voru keilumyndaðir, sívalir, hérumbil 40 cm langir og 12-15 cm í þvermál. Þeir voru höggnir í smástykki með öxi eða hníf sem slegið var á og stykkið síðan klippt í hæfilega mola með þar til gerðum klippum, sykurklippum. Þegar sykur var látið út á pönnukökur var það skafið með hníf. Sykurklippurnar munu oftast hafa verið íslensk smíði.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana