68 Auðkenni og nöfn húsdýra
Nr. 8540
p1
Hestar: Nöfn hesta
voru mjög margvísleg, svo sem að líkum lætur. Í fyrsta lagi voru þeir kenndir
við lit. Í annan stað voru ýmsir eiginleikar og kostir sem hestar höfðu
eða áttu að hafa. Var þá stundum gripið til líkinga t.d. líkingar elds
eða storms. Þá var einnig líking fugla eða líkt var við eitthvað sem minnti
á mýkt, lipurð, hraða osfrv. Þá var líking um veður þegar folald fæddist,
fyrra heimkynni eða eiganda. Einnig voru valin nöfn hesta, manna eða goða
úr sögum og sögnumf omfl. mætti telja. Þetta skýrist allt best mað dæmum,
og skal nú vikið að þeim. Það skal tekið fram að þegar talað er hér um
hesta er þar auðvitað átt við hryssur líka. Rauður litur á hestum
er einn hinn algengasti. Allmörg lýsingarorð eru fleiri til að skilgreina
rauða litinn nánar, ljósrauður, fölrauður, dreyrrauður, fagurrauður, sótrauður,
skolrauður, bleikrauður og sjálfsagt eitthvað fleira. Ekki voru þá heitin
að sama skapi mörg dregin af rauðum lit. Fyrst er auðvitað að nefna Rauður.
Þá þekktust nöfn eins og Stóri Rauður, Litli Rauður eða nafnið var kennt
við fyrra heimkynni eða eiganda. Heyrði ég um hest sem var nefndur Sambands
Rauður. Var hann eitt sinn hafður í haganum í sambandi við annan hest vegna
stroks. Dreyri var haft á dreyrrauðum hesti, en Sóti á dökkrauðum hesti.
Var það mjög vinsælt hestsnafn. Hið eina sem var eitt sinn haft á 2 hestum
í senn á mínu heimili. Þá var þar gamall og traustur vagnhestur sem hét
Sóti, dökkrauður. Þá var að alast þar upp rauður foli, sem bróðir minn
ætlaði sér til reiðhests og nefndi hann Sóta, og báru þá 2 það nafn
þar til gamli var felldur. Nokkru fjölbreyttar voru nöfn sem dregin
voru af brúnum þe. svörtum lit. Þar eru nöfnin Brúnn, Hrafn, Surtur, Krummi,
Blakkur og etv. fleiri. Á þa má benda þótt alþekkt sé að blakkur hefur
í kveðskap verið haft um hest yfirleitt, óháð lit. Einhvers staðar er þessi
vísa. Yfir krár og klungrótt svið Kvika læt ég blakkinn flaskann
nárann fitlar við fyrir aftan hnakkinn.
p2
Og Matthías Jochumsson
talar jafnvel um hvítan blakk í þýðingu sinni á kvæðinu Döbeln eftir Runeberg:
Og hlið hans nærri hvítur blakkur bundinn. Gagnstætt þessu segir Grímur
Thomsen i Skúlaskeiði: Krafsar hraunasalla blakkurinn brúni. Eins og allir
vita nefnir þjóðsagan um Skúla hvorki lit hestsins né nafn. Nafnið Sörli
og brúnn litur er hvort tveggja skáldskapur Gríms. þess má enn geta
að ef nafn var dregið af brúnum lit hryssu, var það oftast Brúnka. Einnig
var til Tinna og Hrefna og etv. fleira. Jarpur litur er algengur
á hestum, en fá hestanöfn eru dregin af þeim lit. Kemur þar naumast til
annað nafn en Jarpur. Hryssunöfn dregin af þessum lit eru Jörp og Irpa.
Bær í Flóanum, nú í eyði hét Irpuholt. Má vera að það sé dregið af þessu
hryssunafni. Eftirtektarvert er að í fornum sögum er aldrei talað
um jarpa hesta, þó að menn séu stundum sagðir jarphærðir. Reyndar er jarpskjóttur
hestur nefndur á einum stað í Sturlungu. Hefur mér dottið í hug að með
brúnum lit á hestum sé þar átt við jarpa. Því að nefndir er þar svartir
hestar og virðist þar gerður munur á þeim og brúnum. Bleikur
hestalitur er einkum tvennskonar. Bleikur hestur er venjulega ljósbleikur
allur, þe. skrokkur, fax og tagl. Bleikálóttur hestur er oft dekkri á belginn,
fax og tagl dökkt og dökk rák eftir endilöngum hrygg. Talað er einnig um
fífilbleikan hest og er sá ljósbleikur ekki bleikálóttur. Hestnafn dregið
af bleikum lit er helst Bleikur, en af fífilbleikum lit Fífill. Nafn á
hryssu Bleik eða Bleikka. Bleikálóttur hestur er einnig oft nefndur Bleikur,
hryssa, Bleikála, sbr. Grettissögu. Líklega hefur verið til hryssunafnið
Bleikkolla, því að í Þjórsárdal er Bleikkollugil. Þá var til hestanafnið
Bleikjalingur. Það var þó sjaldgæft, og hygg ég að það hafi fremur verið
haft um bleikálótta hesta en bleika. Til var hestur á mínu heimili, hann
átti kallast bleikálóttur en naumast þó. Hann var dökkur á fax og tagl
en á skrokkinn var hann lítið eitt dekkri en bleikálóttir hestar eru venjulega.
Þetta var stór og sterkur hestur, afbragðs dráttarhestur, sérstaklega góður
í vöntnum, traustur og stöðugur eins
og sker, varð
gamall. Hann var upphaflega nefndur Bleikjalingur, en nafnið
p3
þótti víst of langt
og var því stytt og hesturinn ætið kallaður Lingur. Bleikálóttur hestur
þótti glæsilegur og einkum þó bleikur, en ekki þótti gott að dreyma bleika
hesta og talið helst boða mannslát, því að menn hugsuðu sér dauðan á bleikum
hesti. Gráir hestar gátu verið all margvíslegir á lit, dökkgráir,
ljósgráir. Hvítir hestar kölluðust oft gráir. Steingráir hestar gátu veri
mjög dökkir. Þótti sá litur eigi fallegur, enda stundum talinn kominn frá
nykrum. Aftur á móti þótti hvítur litur einhver hinn glæsilegasti. Nokkur
nöfn voru á hestum, dregin af gráum lit eða hvítum. Algengast var auðvitað
Gráni. Til var Blágráni grár litur með bláum blæ. Korgur gráskolóttur.
Hvítingur var nafn á hvítum hesti, einnig Svanur eða Jökull. Grá hryssa
gat heitið Grána eða Grása. Ekki var leirljós litur mjög algengur,
en þekktist þó. Nöfn dregin af þeim lit voru Lýsingur og Leiri. Ljóska
var nafn leirljósrar eða ljósgrárrar hryssu. Litföróttir hestar voru sérkennilegir.
Hárin vor með 2 litum: Annar liturinn var ljós, hinn dökkur, en misjafnt
hver sá dökki var. Hann gat verið svartur, jarpur eða rauður. En þótt liturinn
væri margvíslegur voru ekki margvísleg nöfn dregin af þessum lit. Þar kom
varla til annað nafn en Litfari, Litfara. Heyrt hef ég reyndar að til hafi
verið nafnið Svarti Gráni á litföróttum hesti. Litföróttir hestar voru
tiltölulega sjaldgæfir og þótti liturinn ekki skemmtilegur. Á mínu heimili
var eitt sinn grá hryssa. Komu undan henni 3 hestar allri litföróttir.
Þó hver á sinn hátt. Svartgrár, Rauðgrár og jarpgrár. Moldóttur litur
var ekki mjög algengur á hestum, og ekki þekki ég annað nafn þar af dregið
en Moldi og Molda. Móálóttur litur er all algengur. Helsta nafn dregið
þar ef er Mósi, Mósa. Nafnið Valur er sennilega einnig dregið af litnum.
Vindóttir hestar voru að lit með nokkrum hætti andstæða við bleikálótt
og móálótt. Þar er fax og tagl dekkra en skrokkur. En vindóttir hestar
hafa ljóst fax, en dekkri belg, venjulega bleik eða rauðleitan. Vindur
er etv. eina hestsnafnið sem dregið er af þeim lit. Þá er að síðustu að
minnast á einn lit enn, sem hefur ekkert nafn svo ég viti.
p4
Litur þessi var stálgrár,
ekki ósvipaður móálóttum, en ljósari, einna líkastur jökulleir, etv. þó
ljósari. Þannig var hesturinn allur, belgur, fax og tagl. Ég hygg að þessi
litur hafi borist út í Hreppa með kynbótahesti austan úr Skaftafellssýslu
fyrir eða um 1920. Breiddist hann nokkuð út, en síðar dró úr honum aftur,
og er langt síðan ég hef séð hest með þessum lit. Ekki þótti þessi litur
fallegur, en mörg þessi hross voru góðir gripir. Þau hestanöfn sem helst
voru dregin af þessum lit voru Reykur og Silfri. Einum hesti man ég eftir
á mínu heimili með þessum lit. Hann hét Skolur, og var þar liturinn hafður
í huga. Næst er að minnast á tvílitan hest, þe. skjóttan,
hvítur litur og einhver annar, rauður, brúnn, jarpur osfrv. Sé þar kennt
við lit er Skjóni auðvitað algegnasta nafnið. Lo. voru samsett og í fyrri
hluta var nan dekkri litarins: rauðskjóttur, brúnskjóttur, jarpskjóttur
osfrv. Undantekning var að nokkru leirljós litur. Þar var nafnið stytt
og hesturin kallaðist ljósaskjóttur. Skjóttur kallaðist hesturinn aldrei
nema annar liturinn væri hvítur, annars voru önnur nöfn notuð, vindóttur,
föxóttur, móálóttur osfrv. Margir jarpir hestar eru líka tvílitir, þe.
fax og tagl er brúnt, en belgur dökkrauður. Nöfn á skjóttum lit fór þó
ekki eingöngu eftir því hverjir litirnir voru heldur einnig hvar hvor litur
var. Þannig gat hestur verið kúfskjóttur, glámskjóttur, bógaskjóttur, toppskjóttur,
belgskjóttur, skottskjóttur osfrv. Taka má fram, að slík lo. táknuðu að
hvítur var sá líkamshluti sem nefndur var þe. hvítir bógar, hvítur, toppur,
hvítt tagl. Undantekning var kúfskjóttur. Þá var höfuð dökkt. Toppóttur
þurfti ekki að þýða sama og toppskjóttur. Toppóttur hestur hafði hvítan
herðatopp, en oft að mestu dökkur að öðru leyti, en toppskjóttur hestur
var með hvítan topp og einnig hvítur víða annars staðar. Toppóttur litur
var ætíð kenndur við hinn dökka, t.d. jarptoppóttur. Ýmis
konar heiti hesta voru dregin af þessum litanöfnum. Í fyrsta lagi voru
samsett heiti, dregin af dökka litnum t.d. Rauðskjóni, Bleiskjóni, Jarpskjóni
osfrv. EEn slík nöfn voru þó ekki mjög tíðnotuð, heldur var SKjóni oft
látið nægja. Aftur á móti voru tíðnotuð ósamsett nöfn, miðuð við hvar hvor
litur var. Þannig voru nöfn eins og Glámur, Toppur eða Lokkur, Kúfur, Skotti
osfrv.
p5
Enn er að minnast
á hesta sem eru einlitir að mestu, en hafa þó sérstök litareinkenni. Þar
af eru lo. blesóttur, nösóttur, sokkóttur, stjörnóttur og þar af nöfnin
Blesi, Nasi, Sokki, Stjarni. Sjaldan eru þar samsett nöfn, þar sem aðal
liturinn er nefndur nema helst á stjörnóttum hestum, Brúnstjarni. Þó veit
ég að hestur var nefndur Bleikblesi. Laufi gat verið nafn á hesti með stjörnu
í enni, en ekki man ég til að hestur væri nefndur laufóttur. Tígull var
einnig nafn á stjörnóttum hesti. Glámblesi gat verið nafn á hesti ef auk
blesunnar var hvítt út fyrir augu. Þá var talað um tvístjörnóttan hest
sem var stjörnóttur og einnig nösóttur. Þar af var nafnið Tvistur.
Þá er að nefna sérstök litarafbrigði í augun. Var það einkum með
tvennum hætti: Hringeygður var hestur, ef ljós hringur var í lithimnu.
Þar af var dregið Hringur. Glaseygðir voru hestar sem hafa ljósa depla
eða flekki í augum. Hvort tveggja þótti óprýði og voru líkir hestar ekki
seljanlegir á markað. Ýmis nöfn eru dregin af fegurð hests eða kostum.
Eru mörg þeirra mjög falleg. En þar ber að hafa í huga að í þeim hlýtur
oft að hafa falist einkum ósk eða spá um ágæti hestsins, fremur en verið
sé að lýsa honum. Það hefur sennilega verið eitthvað misjafnt hversu gamlir
hestar voru þegar eir fegnu nafn, en ég hygg að oft hafi það verið um það
bil sem þeir voru veturgamlir, en kostir hests koma þá fyrst í ljós er
þeir eru tamdir, en tamning hófst venjulega er þeir voru 4 vetra. Nöfn
eins og Stormur, Þytur, Gustur, Léttfeti. Andvari miða öll að hraða hests
og léttleika. Þannig getur einnig verið um nafnið Vindur. Þá lá beint við
um vindóttan hest, þó má leggja í það svipaðan skilning og heitið stormur.
Faðir minn átti eitt sinn reiðhest afbragðsgóðan, sem hét Vindur. Hann
var alrauður og mun hraði vinds hafa verið hafður í hug við þá nafngift.
Farið gat saman faguryrði og litur. Ég þekkti nöfnin Skinfaxi
og Gulltoppur um glóföxótta hesta. Báðir voru þeir glæsilegir að vallarsýn
og einnig gæðingar. Litur og gæði gat falist í sama nafni. Þannig var nafnið
Logi, en svo hét annar gæðingur sem faðir minn átti. Hann var rauður, en
nafnið miðaði einnig á fjör. Logi var afburða hestur, einkum skeiðgammur
mikill. Hann var reyndur á skeiði á Þingvöllum 1930 og fékk þar 3. verðlaun,
þá aðeins 7 vetra gamall.
p6
Glæsir glæsilegur
hestur, venjulega skjóttur. Faguryrði er einnig hryssunafnið Perla, sama
má etv. segja um hestsnafnið Fákur, sem þýðir raunar gestur almennt, en
einkum haft um góðhesta, sterka og stælta. ALlmörg nöfn eru takin
úr goðafræði eða fornum sögum og ljóðum. Freyr og Freyja, hlutlaus nöfn.
Þór sterklegur. Óðinn fremur reiðhestur. Baldur ljós eða hvítur. Hlýtur
þá að koma í hug hestur Jónasar Hallgrímssonar, er hann yrkir Skjalbreiðarkvæði
sitt. Flestir telgja að Baldur Jónasar hafi verið hvítur, en heyrt hef
ég að hann hafi raunar verið ljósaskjóttur, og hefurhann þá vel getað borið
nafn hins hvíta áss. Sleipnir er auðvitað heiti reiðhests. Mig minnir að
ég hafi heryt nafnið Gullfaxi, vafalaust glóföxóttur og einnig nafn á hesti
Hrugnis. Háfeti úr hestanafnaþulum Snorra Eddu. Þar eru líka Goti og Grani
þekkt hestsnöfn. Dúlsifal úr Göngu Hróflssögu. Úr goðafærði einnig Þjálfi
og Röskva. Rosti sennilega sótt í hetavísu eftir Stefán í Vallanesi. Löpp
til Páls Ólafssonar. Fölskvi bleikálóttur hestur, nafnið sennilega sótt
í eina dýrasögu Þorgils Gjallanda. Þá má nefna fuglanöfn á
bæði hestum og hryssum, hafa þótt heppileg til að tákna lipurð, fjör og
hraða. Áður voru nefnd fuglanöfn, þar sem miðað er við lit: Valur, Hrafn
og Krummi. Hér má nefna fuglanöfn eins og Fálki og Svala einnig Smyrill.
Þá var hestsnafn Þröstur. þar hefur etv. verið höfð í hu
ga lipurð þrastarins
og léttleiki. en þótt ótrúlegt sé var þetta orð stundum notað sem samheiti
um mjög stirðan og þjösnalegan hest: Þetta er mesti þröstur. Eitill
vissi ég að var nafn á hesti,sennilega teki úr vísunni alkunnu: Allvel
finnur Eitill stað - undir svörtum Jóni - Um hádegi fór ég heiman að -
í Hofsós kom ég að nóni. Bógatír var eitt sinn nokkuð notað
sem hestsnafn, auðvitað tekið úr Sögum herlæknisins. Ég held, er þó ekki
alveg viss, að það hafi verið bundið við lit, bógaskjóttur hestur. Sörli
var alþekkt hestsnafn, en miðaðist ekki við neitt sérstakt einkenni.
p7
En orðið er sennilega
skylt latnesku sögninni sero: Flétta, hnýta sbr. ísl. sörvi. Í engilsaxneska
kvæðinu Beowulf kemur fyrir orð sem í íslensku væri sennilega stafsett
fyrðsörvar, þe. herklæði manna. Sörli þýðir þá upphaflega tygjaður hestur.
Þá voru notuð heiti hluta sem minntu á mýkt eða haraða. Slík
nöfn voru ekki síst á hryssum. Af því tagi voru nöfnin Spóla, Trilla, Skopra.
Ekki ætti að gleymast að nefna Flugu, og er það nafn vafalaust sótt
í Landnámu og vafalaust einnig hafður í huga hraði flugunnar. Ekki
var algengt, en þekktist þó, að hestur væri kenndur við bæ sem hann var
frá. Þessum nöfn man ég eftir. Stúfur frá Stúfholti, Gotti frá Gottorp.
Einatt breyttist nafn á hesti við eigandaskipti, og var hann
þá jafnvel kenndur við fyrri eiganda. Vissi ég af hesti sem hét Garðar,
skipti um eiganda. Fyrri eigandi hafði ættarnafnið Melsteð og það nafn
fékk hesturinn við eigandaskiptin. Rauðblesótt hryssa hét Brana, en nefndist
Blesa við eigandaskipti. Nafnið Brana er sennilega komið af sögninni að
brana: æða, þjóta, en er ekki sótt í Hálfdánarsögu Brönufóstra. Hér
skul að síðustu nefnd nokkur nöfn sem lúta að flýti eða styrk hestsins
og hefðu amk. sum þeirra getað farið í einhvern nafnaflokk hér að framan.
Léttir, Leiknir, fjör og flýtir einnig Spilandi. Golíat, kraftur,
sterkur dráttarhestur, nafnið auðvitað í merkingunni hvimpinn, en ekki
baldinn, eins og gefið er í orðabókum. Selur, steingrár hestur eða móálóttur.
Enn má nefna nöfn eins og Trítill, smágengur hestur. Dvergur, smávaxinn.
Þá eru nöfn sem benda til veðurs eða árstíðar. Frosti og Hryðja skýra sig
sjálf. Hausti er haustfolald. Hábrók stór hryssa, nafnið einnig sótt í
fornsögur. Ég hef ekki hirt um að nefna samtíma hestsnöfn,
sem má t.d. sjá í frásögnum af kappreiðum nú. Ég hef að mestu haldið mig
við nöfn sem ég þekkti á mínu æskuheimili eða nágrannaheimilum. Margt mætti
fleira nefna, en hér skal numið staðar. Ég vil þó að endingu minnast á
stóðmeri sem faðri minn átti. Hún var með öllu ótamin, jörp að lit. Hún
var móðir Nasa frá Skarði, sem á sinni tíð var einn þekktasti stóðhestur
landsins. Í ættartöluskrám er hún kölluð Jörp, en það er ekki rétt. Hún
hét Mýra.
p8
Nafnið er eitt af
þeim sem sótt er í ritaðar heimildir. Hún hét eftir móður gæðinganna fjögurra
sem Ben Húr stýrði til sigurs í kappakstrinum fræga í sögunni Ben Húr.
Nautgripir: Nöfn nautgripa voru ekki svipað því eins fjölbreytt
og nöfn hrossa. Lang algengast var að kýr væru kenndar við lit. Helstu
litir miðað við einlit vour þessir: Svartur, rauður, kolóttur, bröndóttur,
skrámóttur, grár. Um einstaka liti má taka þetta fram: Alsvartar
kýr voru mjög sjaldgæfar. Lang flestar höfðu hvítt júgur og kvið aftanverðan.
Ég er ekki viss um að ég hafi séð nema eina kú sem var svört þar. Hún hét
líka Dimma. Rauðar kýr gátu verið ljósrauðar og dökkrauðar. Kolóttar kýr
voru með svipuðum lit og jarpir hestar. Kolóttar kýr voru tvenns konar.
Svartkolótt kýr svipuð að lit dökkjörpum hesti. Rauðkolótt kýr var svipuð
að lit rauðjörpum hesti og gat þó verið enn ljósari. Gráar kyr voru einnig
misjafnlega dökkar. Grár litur var annars fremur sjaldgæfur á kúm. Bröndóttur
litur var í rauninni sambland af dökkjörpum og ljósjörpum lit. Skrámóttur
litur var fremur sjaldgæfur. Hann var hvítgrár, dálítið flekkóttur.
Helstu nöfn, dregin af svörtum lit, voru Surtla og Dimma. Kýrnöfn
dregin af rauðum lit, voru Reyður, Rauðbrá, Rauðka, Rauðskinna.
Ýms lo. voru um tvílit. Þá vourkýr húfóttar, þe. með hvítt höfuð, skjöldóttar
með dökka og hvíta flekki, huppóttar hvítar að neðan, dökkar að ofan, krossóttar
einlitar að mestu, og oftast rauðar með hvítar dröfnur á enni og nefi og
út fyrir augu, svo að sjá mætti þar kross. Kýrnöfn voru dregin af þesusm
orðum. Húfa, f-inu aldrei sleppt í framburði, svo sem gert er í höfuðfatsheitinu.
Krossa, Hryggja, Huppa. Malagjörð gat skjöldótt kýr heitið með hvítan hring
um belginn aftanverðan. Bröndótt kýr gat heitið Branda, þótt raunar væri
hun tvílit. Þrílitar kýr er talað um, en þær voru sjaldgæfar. Var mjólk
úr þeim talin sérlega holl og heilnæm. Lo. um tvílit voru auðvitað
mörg samsett, t.d. svarthuppótt, rauðhuppótt osfrv. en sjaldan voru slík
nöfn sett á kýr.
p9
Nöfn eins og Hryggja,
Kinna, Hosa, Díla, Laufa eru að sjálfsögðu einnig dregin af litum. Lýsingarorðið
frænótt um lit var fremur sjaldgæft. Í orðabók Sigfúss Blöndals er það
talið tengt sérstaklega Austurlandi. Ég vissi aðeins af einum bæ þar sem
notað var nafnið Fræna. Bærinn var Hlíð í Eystrihrepp, en þar höfðu búið
Hreppamenn einir í marga liðu. Fræna var kýr, þar sem aðallitur var hvítur
en með mörgum smáum deplum eða dropum. Lo. frænn er til amk. á einum stað
í ljóði. Sólin braust fram úr frænu skýi. Því miður kann ég þar ekki meira,
en frænt ský væri etv. netþykkni. Þó að horn séu mjög áberandi
einkenni á þeim kúm sem bera þau eru ekki mörg nöfn af hornum dregin. Þar
er varla annað nafn en Myrna og etv. Hnýfla. Hornalag kúa gat verið nokkuð
misjafnt, en lang algengast var að þau stefndu út og fram, en stikillinn
næstum beint fram. Þannig voru flestar kýr með bogin horn. Nafn
andstætt hornum, var auðvitað Kolla og var nokkuð notað auðvitað aðeins
um kollóttar kýr. Áður virðist nafnið Kolla stundum haft um kýr fyrileitt
sbr. Kolluvísur í Sneglu Halla þætti, þýðir sýnilega Kúavísur. Nafnið Flátta
var til, sennilega einnig Þríspen. Ekki þekki ég nafnið Stássa um kú, en
aftur á móti um skjótta hryssu. Flóra var til, borin í flór,
einnig Frenja, Gæfa, Búbót, Búbjörg og Búkolla. Eins og fyrr segir gat
Kolla þýtt kýr yfirleitt, en þó kunni ég aldrei við þegar Búkolla var sýnd
hyrnd eins og einatt var gert, þegar ævintýrið alkunna um Búkollu var prentað
með myndum. Alhvítar kýr voru mjög sjaldgæfar og ekki man ég eftir að ég
hafi séð neina, en þær voru einatt hvítar að verulegu leyti. Ein slík var
á mínu heimili þegar ég var barn. Hún var að lang mestu leyti hvít, en
þó nokkrir svartir blettir í henni smáir og stórir. Hún hét Birta, og var
þar tekið mið af litnum og eins hinu, að hún var frá Birtingaholti. Ekki
man ég eftir annarri kú en Birtu sem var kennd við fyrra heimili. Hér
skal aðeins minnst á naut, þó að ekki sé sérstaklega um þau spurt. Nöfn
á bolum eru að sjálfsögðu miklu fáskrúðugri, því að þeir voru svo fáir.
Flestum bolakálfum var fargað ungum, og oft var ekki boli nema á bæ og
bæ og varð því oft að leiða kýr.
p10
Sjaldan voru bolar
aldir upp heldur fargað fljótt, venjulega á öðru ári og var oft ekki einu
sinni haft fyrir að gefa þeim nafn. Var venjulega látið nægja orðið tuddinn.
Seinna var farið að ala upp kynbótanaut. Urðu þeir bolar oft gamlir, fengu
þeir nöfn. Ég kann varla að nefna þau nöfn, en oft voru þau dregin af lit,
en þó ekki síður bæ sem þeir voru frá. Gátu þau nöfn stundum verið sékennileg.
Þekkti ég nafnið Klufti, þe. frá Kluftum í Ytrihrepp. Hér kemur að
síðustu vísa um kýr: Hér koma kýr mína ofan eftir fjöllunum (eða
koma kýr karlssonar af fjöllum) ganga þær grenjandi götuna setjandi Brók
og hún Brynja og Bjarna Reyður Lykla og Lína Langspen og Gullhyrna mín
Gengur hún eftir öllum hún mjólkar best handa börnunum öllum. Til skýringar
má taka fram að ef heimiliskýrnar ganga allar í einni lest er sagt að þær
setji götuna. Sbr. Kúaþulur í ísl. Skemmtunum IV 234-237. Hér er önnur:
Sól skín á fossa, segir hún Krossa Ég vil heim halda segir hún Skjalda
Ég vil fylla mína hít, segir hún Hvít Ég ét sem ég þoli segir hann boli.
Ég vil verða þungur segir vetrungur.
p11
Ég skal éta sjálfur
segir litli kálfur. Ýmsar útgáfur eru af þessari þulu. Sjá Þjóðs.
Jóns Árnasonar útg. 1954 1. 609. Sauðfé: Mörg lo. voru höfð um hornalag
á sauðfé: úthyrnt, afturhyrnt, stórhyrnt svipað og afturhyrnt, gleiðhyrnt,
gashyrnt svipað og gleiðhyrnt, aðeins haft um stór horn, hringhyrnt, skeifhyrnt,
framhyrnt, krókhyrnt, mjóhyrnt, breiðhyrnt, kýrhyrnt svipað hornalag og
algengast var á kúm, hronin stefndu fyrst út og síðan fram, sbr. það sem
áður var sagt um hornalag á kúm, upphyrnt, niðurhyrnt, smáhyrnt, stórhyrnt,
beinhyrnt, hnýfilhyrnt, sívalhyrnt, stutthyrnt, sauðarhyrnt, krubbhyrnt.
Sérsöku máli gegndi um vaninhyrnt. Það átti eingöngu við sauði.
Það var einatt gert við lambgeldinga skömmu eftir a þeir voru teknir að
borða var gat á enda hvors horns, dregin þar í ól og strengt sem fastast.
Þegar hornin tóku að vaxa gátu þau ekki tekið þá stefnu sem þeim var eðlilegast.
Við það komu ýmsir snúingar og beygjur á horninu. Þá urðu t.d. sumir geldingar
kýrhyrndir. Þetta þótti til prýði. Það var oft kallað að draga í að setja
þannig ól í hornin. Auðvitað var gagnslaust að draga í geldinga nema þeir
fóðruðust vel og væru í framför. Þá komu hornahlaup og snúningar komu á
hornin. Glögglega mátti sjá á hornum lambanna hvort þau fóðruðust vel eða
ekki. Væri framför góð, voru mikil hornahlaup og bárurnar breiðar og flatar.
Þá urðu geldingarnir vel vaninhyrndir. En væri framför lítil, uxu hornin
að sama skapi lítið. Gárurnar á hornunum þéttar og krappar, vöxturinn kyrkingslegur.
Þá komu auðvitað ekki þeir snúningar á hornin sem sóst var eftir. Hornalag
á vaninhyrdnum sauðum varð einkum með tvennu móti auk snúninganna. Þeir
voru úthyrndir eða kýrhyrndir, sbr. kaflann um hornalag á kúm. Stundum
var sett sauðarklukka í horn á sauð, einkum ef hann var forustustauður.
Þótti það mikil prýði. Ég bendi á að mjög glögga mynd af vaninhyrndum sauð
má sjá í heimildamynd sunnlendinga í heimildakvikmyndinni Í dagsins önn,
kaflanum um smalamennsku og rúning. Þar er Bjarni bróðir minn að klippa
vaninhyrndan sauð, kýrhyrndan að mig minnir og arnhöfðóttan.
p12
Flestir höfðu þann
sið að hornskella lömbin seinni part vetrar, þe. nema aðeins oddinn af
hornunum, en aldrei var það gert við vaninhyrnda geldinga, heldur var oddur
hornanna með gatinu látinn halda sér. Þetta var útúrdúr. En nú skal
vikið að nöfnum sem eru dregin af hornum. Fjárnöfn eiga að lang mestu leyti
við ær. Hver ær hafði sitt nafn, en öðru máli gegndi um sauðina. Faðir
minn átti marga sauði um eða yfir 100. Sumir höfðu einkum mislitir eða
með einhverjum sérkennum, en margir, einkum þeir hvítu voru nafnlausir.
Mörg ærnöfn voru dregin af hornalagi, þó ekki öllum lo. hornalags. Nefna
má heitin Stróka, Gleiðhyrna, Skeifa, Mjóhyrna, Breiðhyrna, Smáhyrna með
beinum hornum, Hnýfla, Sauðarhyrna með gild horn, svipouð og á sauð, Skakkhyrna
ef hornin horfðu skakkt hvort við öðru. Þetta var sjaldgæft. Krubba krubbhyrnd.
Þannig voru heitin ýmist samsett eða ósamsett. Ekki man ég til að ær héti
aðeins Hyrna. Þær voru langflestarhyrndar, svo að vart var hægt að miða
við það. Minnast verður á hrúta. Þó að horn þeirra séu venjulega
stór og mikil, eru tiltölulega fá lo. sem eiga við þau. Nokkur þeirra lo.
sem fyrr voru nefnd geta átt við hrúta: Stórhyrnt, stutthyrnt, hnýfilhyrnt,
en mörg þeirra áttu alls ekki við þá, þó þau gætu átt við sauði. Hestu
lo. sem áttu helst við hrúta vour krapphyrnt og hneppilhyrnt. Krapphyrndur
var hrútur ef hornin voru með kröppum beygjum, en hneppilhyrndur
ef hornin uxu mjög að kjálkunum. Voru stundum svo mikil brögð að því að
hornin lögðust í kjálkana og meiddu þá, og varð stundum að saga innan úr
hornunum. Hornagassi var stundum haft um mjög stórhyrndan hrút og einnig
haft um annað fé, einkum sauði. ég man varla eftir hrústanafni miðað við
horn nema Hnýfill. Ég þekki ekki mjög mörg orð sem lýsa vaxtarlagi
sauðfjár. Þó man ég eftir orðum eins og þunnvaxinn, þéttvaxinn, kryppuvaxinn
og sjálfsagt eitthvað fleira, en ekki minnist ég nafna er af því væru dregin.
Einlitir á sauðfé eru raunar hinir sömu og á stórgripum: Hvítt, svart,
grátt, mórautt. Mórauður litur var nokkuð breytilegur og má segja að hann
samsvari rauðum hestalit eða jörpum. Ekki var mikið um ærnöfn dregin
af hvítum lit, svo algengur sem hann er. Til var þó ærnafnið Rjúpa, einnig
Hvít. Helst með fyrri nafnlið t.d. Stór Hvít.
p13
Kindur töldust þó
að þær væru gular eða kolóttar, og var það einkum á höfði. Þar af gátu
komið nöfn eins og GUl, stundum með fyrri lið, t.d. Stóra Gul, GUllkolla,
Kolótt ær nefndist einatt Kola. Á sama hátt vorunöfn sauða og hrúta GUlur,
Kolur osfrv. Svort ær var helst nefnd Svört einnig Surtla, Sauður Svartur.
Grá ær var nefnd Grána, Ljósgrána og Dökkgrána eftir atvikum. Mórauð ær
Móra sauður eða hrútur Móri. Sauðfjárnöfn dregin af einlitum vour ekki
fjölskrúðug. Væru kindur kollóttar voru þær einatt kenndar við það og litinn:
Svartkolla, Grákolla. Tvílitir voru margreytilegir, en ætíð var hvítur
annar liturinn, en hinn grár, mórauður eða svartur. Helstu tvílitir voru
þessir: Golsótt: Höfuð að mestu svart eða dökkleitt, einnig kverk, hringa,
kviður og upp í rass. Ath. Ég nefni í þesum tvílitalýsingum alltaf svartan
lit til hægri verka, en hann gat auðvitað líka verið grár eða mórauður.
Golbíldóttur: Að framan eins og golsótt, en hvítt að aftanverðu.
Botnótt: Hvít kverk. Kviður og rass, hitt svart. Bíldótt: Höfuð svart
og hvítt allt annað hvítt. Arnhöfðótt: Litur að mestu svartur, en höfuð
hvítt að talsverðu leyti, einkum oft hvít blesa og út fyrir augu. Hölsótt:
Svört að framan, hvít að aftan. Væri kindin svört allt aftur fyrir bóga,
var hún stundum nefnd geithölsótt, en hölsótt ef svarti liturinn náði skemmra,
t.d. aftur á herðakamb. Kápótt: Hvít upp í síður, annars svört. Hosótt:
Hvítir fætur, einkum afturfætur, annars svört. Flekkótt: Hvítur og svartur
litur til skiptis um allan skrokk, ekki eftir neinni fastri reglu. Af þessum
lýsingarorðum voru síðan nöfnin mynduð: Golsa, Golsi, Botna, Botni, Bílda,
Bíldi osfrv. Til voru nöfn dregin af ull án litar: Dúða ullarmikil,
síðklædd og Hempa síðulluð ær. Hrútur var stundum nefndur
sonur móður sinnar. Þannig var Fléttuson, Gránuson. Ég man eftir hrút sem
var kallaður Ljómi, ekki af því að hann væri fallegur, heldur hét móðir
hans Ljómalind.
p14
Nokkur nöfn má nefna:
Hetja myndarleg og röskleg ær. Stuttleit nafnið skýrir sig sjálft. Fétoppa,
fétoppur á nefi, uppstandandi sveipur skammt fyrir ofan nasir. Hér
skal botn sleginn í, en að lokum er vísa þar sem koma fyrir nokkur ærnöfn:
Grána, Flekka, Gulkolla - Gleiðhyrna og Flussa - Lepur eskið Loftshyrna
- Loðsa er digur hlussa. Eftirmáli: Þegar ég hafði lokið við
þettan þátt fann ég hjá mér blað og voru á því 16 ærnöfn, og hygg ég að
þau séu af mínu heimili, því að þar hafði hver ær sitt nafn svo sem víða
var. Nöfnin eru þessi: Bára, Gullbrá, Freyja, Gulhyrna, Klubba, Hlíð, Katla,
Hnyðja, Hýra, Kolhöfða, Sóley, Gulbrá, Grettla, Grána, Tobba, Kroka.
Mér virðist að öll nöfnin skýri sig sjálf nema helst Kroka. Það kemur
stundum fyrir að eyra á kind lafir eða beygist niður. Þá er sagt að eyrað
kroki. Þetta stafar oftast af grófmörkuðu undirbeni. Þannig hefur vafalaust
verið um ána Kroku.