LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1940-1950
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

ByggðaheitiRauðisandur
Sveitarfélag 1950Rauðasandshreppur
Núv. sveitarfélagVesturbyggð
SýslaV-Barðastrandarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1930

Nánari upplýsingar

Númer17247/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/18.12.2009
TækniSkrift
Nr. 17247

Heimildarmaður: Sigríður Guðbjartsdóttir f. 05.08.1930, Láginúpur, Rauðasandshreppur, 451 Patreksfjörður

s1
Áheit
Ég hef aldrei heitið á neitt mér til hjálpar en ég veit um fólk sem hefur gert það og talið sig fá umbeðna hjálp. Í þeim tilfellum var heitið á Breiðavíkurkirkju og varð hún vel við áheitum. Ekki man ég vel eftir tilefninu en mikið þótti við liggja. Ég held að það hafi ráðist af því að kvisaðist manna milli að þessi eða hin kirkjan hafi orðið vel við áheiti að fleiri fóru að heita á hana. Það sem ég veit um var peningaupphæð heitið en  „gjalddagann“ veit ég ekki vel en þó mun hann stundum hafa dregist nokkuð en ég hygg að það hafi alltaf komið til skila. Ekki hef ég heyrt um viðurlög við vangoldnum áheitum. Ég held að oftast hafi menn ekki haft orð á áheitinu fyrr en ef það hreif.

Um kirkju.
Kirkjur voru oftast byggðar á grunni gömlu kirkjunnar í miðjum kirkjugarðinum a.m.k. til sveita. Kirkja var byggð í Breiðavík um 1960, vígð 1964 en hún var byggð á brekkubrún ofan við aðrar byggingar en ekki í kirkjugarðinum. Þar stóð eldri kirkja, timburkirkja, orðin gisin nokkuð en lítið fúin og vildi helmingur safnaðarins gera hana upp en nýbyggingarmenn höfðu betur enda staðurinn í uppbyggingu sem ríkisstofnun. Saurbæjarkirkja og Sauðlaksdalskirkja eru í kirkjugörðunum.

s2
Kirkjur voru oft ólæstar áður, en ég held að hætt sé að hafa þær ólæstar nema þar sem fólk er á staðnum sem hefur góða gát á að þær verði ekki rændar, þar sem óaldarlýður er víða á ferð. Ekki hefur komið til hér að leggja niður kirkjur fyrr en þá núna, þar sem Breiðavíkurkirkja stendur frammi fyrir vandamálum vegna fækkunar í söfnuðinum í 4. Ég held að fólk hafi orðið nokkuð frjálslyndara gagnvart kirkjunni, t.d. að í lagi sé að hafa þar ýmsar uppákomur, söng og hljóðfæraleik af veraldlegra tagi en áður þótti við hæfi. Líka þótti ekki viðeigandi að klappa eða hlæja í kirkju sem nú hneykslar engan. Viðhorf fólks til guðsþjónustunnar var og er mjög misjafnt. Sumum finnst engu skipta hvort þeir sæki kirkju til að ræða við guð sinn en öðrum finnst þeir ná meira sambandi við guðdóminn í kirkjunni. Mörgum finnst hugarfró að sækja kirkju, sérstaklega þegar sorgir og erfiðleikar hins daglega lífs sækja að. Skírnarvatnið þótti hafa lækningamátt við sjóndepurð og annarri augnveiki.  Gjafir voru kirkjum gefnar á stórafmælum þeirra af ýmsu tagi, t.d. altarisdúka, skírnarfont eða kertastjaka. Breiðavíkurkirkja fékk nokkuð sérstaka gjöf fyrir nokkrum árum. Það var áletraður kassi utan um grágrýtishellu sem organisti kirkjunnar til fjölda ára hafði í kirkjunni til að hækka sig í sessi en hann var lágvaxinn. Afkomendur hans gáfu þennan kassa og þótti mjög við hæfi.

s3
Síðari tíma siður færist í vöxt að gifting fer fram undir beru lofti eða á undarlegustu stöðum. Sonardóttir mín giftist á Lögbergi 1. des. 2009 og það er sú eina gifting sem ég veit um svona persónulega. Hér í Rauðasandshreppi eru til tveir brunnar sagðir vígðir af Guðmundi góða. Annar er á Látraheiði og þótti ekki af veita þar sem það er eina vatnið sem ferðamenn áttu kost á alla leið yfir heiðina. Þó vildi lindin þorna í langvarandi þurrkum. Hin lindin er í Kollsvík og heitir einnig Gvendarbrunnur eins og hinn. Hann þornar aldrei og þótti hafa lækningamátt að drekka vatn þaðan. Ef fólk veiktist í Kollsvík, þótti gott að sækja vatn úr brunninum fram á 20. öld. Systur tvær fæddar og uppaldar í Kollsvík heimsóttu systur sína til Bandaríkjanna um 1980. Systirin hafði búið í N-Dakota frá því um 1920. Þær færðu henni vatn úr Gvendarbrunni sem Guðmundur góði vígði, einnig hluta úr Látrabjargi þar sem átti heima óvættur sem grandaði sigmönnum. Vorkenndi biskupinn óvættinum og skyldi eftir hluta bjargsins óvígt, því „Einhvernstaðar verða vondar kindur að vera“ eins og vænurinn sagði! Ég veit ekki um neina staði hér sem helgi er á þ.e.a.s. trúarleg. Aftur á móti álfabyggðir.

Kær kveðja
Sigríður Guðbjartsdóttir

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana