LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1937-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

SýslaSkagafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1927

Nánari upplýsingar

Númer17233/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/24.11.2009
TækniSkrift
Nr. 17233

Heimildarmaður: Sigrún Hróbjartsdóttir f. 23.05.1927, Hamar, 551 Sauðárkrókur

s1
Um áheit.
Ég hef aldrei heitið á neitt en oft heyrt það nefnt, sérstaklega fyrr á árum ef mikið lá við t.d. veikindi og oftar voru það konur sem nefndu slíkt. Oftast heyrði ég talað um að gefa peninga til Strandarkirkju eða heitið á einhvern góðan vin.

Mér er í minni er ég var að vinna eina viku heima á Hólum í Hjaltadal fyrir tæpum 60 árum. En þar var reistur minnigaturn um Jón Arason biskup. Turninn var byggður á árunum 1949-50 og var faðir minn yfirsmiður. Vikuna fyrir vígsluna rigndi mikið og var fólk orðið áhyggjufullt og var spjallað um í gamni og alvöru að heita á Jón Arason um gott veður. Þar sem mikið var búið að hafa fyrir væntanlegum hátíðarhöldum varðandi turnvígsluna. Kvöldið fyrir var enn rigning og skólastjórafrúin mælti: „Enn rignir hvernig endar þetta“.  En Kristján Karlson skólastjóri mælti : „ Það verður glaða sólskin á morgun“. Það rættist svo sannarlega. Turninn var vígður 13. ágúst 1950 í blíðu veðri og mörg hundurð manns naut dagsins. Ekki veit ég hvort áheit hafa verið efnd ef alvara fylgdi máli, vona að svo hafi verið. Á mínum yngri árum var oft langur dálkur í dagblöðum, sérstaklega í Degi, þar sem stóð. Áheit á Strandarkirkju frá NN kr. 200 eða 100, frá ónefndum kr. 100, 50, 25. (Þá voru 100 kr. talsverður peningur).  Takmörk finnst mér fyrir því hvernig nota á áheit og síst í hagnarðarskini fyrir sjálfan sig t.d. allra síst í lottói. Ég held að það fylgi því meiri gæfa að biðja öðrum velfarnaðar.

s2
Um kirkjur.
Hér fyrr á árum var algengt að kirkjur væru ólæstar. Kirkjur þóttu svo helg hús að nánast engum datt í hug að gera þar neitt ósæmilegt. Fyrir fáum árum þótti ekki við hæfi að klappa eða hlæja í kirkju hvort heldur var messa eða tónleikar nú er það algengt.

Þegar ég var barn og unglingur var meiri helgi yfir messu, allir sátu hljóðir þar til messa hófst. Nú masar fólk á hálfum hljóðum.

Algengt var að flest allt heimilisfólk færi til kirkju á messudögum. Nú er algengara að fara á stórhátíðum.

Börn voru ýmist skírð heima eða í kirkju. Að vetri til var heimaskírn algengari, sérstaklega ef kalt var og langt til kirkju, þá voru kirkjur ekki eins hlýjar og upphitun, stundum léleg. Við heimaskírn man ég að konur þvoðu augu sín úr skírnarvatninu til að vernda sjónina.

Móðir mín var vinnukona á kirkjustað ásamt annari stúku. Sagði hún þær hefðu tekið þvottavatn í svokallaðir kirkjulind sem var stutt frá kirkju og átti huldukona heima þar í klettum. Ætíð báðu þær hana um að gefa sér þvottavatnið.

Kunn er sagan af Guðmundi góða Hólabiskupi er hann var að eiga í Drangey á Skagafirði. Var hann langt kominn með vígsluna þegar loppa kom út úr berginu og sagt var: „Hættu að vígja Gvendur biskup, einhversstaðar verða vondir að vera“. Og heitir sá hluti bjargsins Heiðanberg.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana