LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

ByggðaheitiFljót
Núv. sveitarfélagSveitarfélagið Skagafjörður
SýslaSkagafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1947

Nánari upplýsingar

Númer17205/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/6.11.2009
TækniSkrift
Nr. 17205

Heimildarmaður: Elínbjört Jónsdóttir f. 03.01.1947, Grænahjalla 23, 200 Kópavogur.

s1
Áheit.
Ég hef ekki sjálf stundað að heita eitt né neitt. Frásögn mín er því bundin við minningar mínar frá bernsku minni. Ég man að móðir mín hét oft á mann sem bjó í Fljótum. Hann var líklega milli þrítugs og fertugs þegar þetta var milli 1950 og 1970. Þessi maður var einfeldningur og bjó á næsta bæ. Hann kom oft við heima og var oft hlegið að skondnum og skrýtnum tilsvörum hans og frásögnum hans af samskiptum við samferðamenn sína. Mamma hét oft á hann þegar henni þótti liggja við og var greiðslan alltaf innt af hendi með sendingum og gjöfum til hans. Svo sem fatnaður, sætindi eða öðru sem kom honum vel. Ég veit að hún hélt þessu áfram eftir að við fluttum suður 1957 og allt til þess að hann dó um eða eftir 1970.


s2
Kirkjur og kirkjuhelgi.
Það sem ég man helst eftir um helgi kirkjugarða var að alls ekki mátti stíga á leiði og helst ekki vera með ærsl eða leiki í kirkjugarðinum. Ég minnist þess að mér þótti og þykir enn óþægilegt þegar klappað er í kirkju þó svo að þar fari fram tónleikar sem ekki eru trúarlegir. Aldrei var klappað á tónleikum sem ég hlýddi á í kirkju fyrr en eftir 1970 eða svo. Í minni fjölskyldu hefur bæði tíðkast að skíra heima og í kirkju. Við systkinin vorum öll skírð heima en ég lét skíra öll mín börn í kirkju og það hafa dætur mínar líka gert. Þó var eitt barnabarn skírt á fæðingardeildinni áður en farið var heim. Ég man að þegar bróðir minn var skírður 1954 varð að láta skírnarvatnið þorna í skálinni því ekki mátti hella því niður. Skírnarskálin var úr kristal og höfðu foreldrar mínir fengið hana í brúðargjöf. Skálin brotnaði nokkru eftir að bróðir minn var skírður og sagði mamma þá  „nú verða börnin ekki fleiri þar sem skírnarskálin er farin “.
02.11.2009
Elínbjört.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana