LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1930-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1923

Nánari upplýsingar

Númer17228/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/2009
TækniSkrift
Nr. 17228

Heimildarmaður: Helgi Arnlaugsson, f. 17.03.1923, Fagrihvammur 4, Hafnarfjörður.

s1.
Persónulegar upplýsingar um heimildarmann.
Ég er fæddur í vesturbæ Reykjavíkur og ólst þar upp og hef búið í Reykjavík til 1996 er ég fluttist til Hafnarfjarðar þar sem ég á heima nú. Var í sveit á sumrin frá 6 eða 7 ára aldri þar til ég náði 14 ára aldri. Vann þar öll landbúnaðarstörf eftir því sem getan leyfði. Á kreppuárunum fyrir síðari heimsstyrjöldina var lítið um vinnu og atvinnuleysi mikið. Þá tók faðir minn á leigu jörðina Haga er náði yfir svæðið frá Melhaga vestur yfir Hofsvallagötu og Einimel allt niður að sjó við Skerjafjörð og hafði þar stórt kúa- og hænsnabú. Er ég hafði lokið barnaskólagöngu 13 ára starfaði ég alfarið við búskapinn með föður mínum. Búskapurinn gekk nokkuð vel þar til Bandaríski herinn tók stóran hluta af túninu undir einhvers konar birgðageymslu þá varð túnið sem eftir var allt of lítið og búskap þar af leiðandi sjálfhætt. Eftir það fór ég að vinna í svokallaðri „Bretavinnu“ fyrst við flugvallagerðina og síðan við uppsetningu og frágang íbúðarbragganna. Í desember 1941 hóf ég nám í skipasmíði og starfaði við það til ársins 1973 en 1. mars 1973 hóf ég störf hjá Málm- og skipasmíðasambandi Íslands og starfaði þar til ársloka 1993 en þá var ég orðinn 70 ára.

Um áheit.
Ég hefi aldrei heitið á eitt eða neitt og hef enga trú á að neinn kraftur komi frá þeim eða því sem heitið er á til bjargar eða hjálpar. Kannski má hugsa sér ef fólk trúir sjálft á að

s2.
slíkt geti hjálpað að það fái aukið sjálfsálit að sjálfskraft og eigi því auðveldara með að takast á við erfiðleikana. Ég kannast við fólk sem hefur heitið bæði á kirkju og annað og hefur trú á að það hjálpi en ekki það vel að ég geti skírt frá slíku.

Um kirkjur.
Ég er ekki í neinu trúfélagi og þar með ekki í þjóðkirkjunni en fer stundum í kirkju, t.d. við giftingar, skírnir og eða jarðarfarir, einnig við tónleika. Það er oft meiri kyrrð og hátíðleiki á tónleikum í kirkju en á öðrum tónleikastöðum. Ég geri engan greinarmun á skírnum eða giftingum hvor þær fara fram í kirkjum eða t.d. heimahúsum. Sem barn og unglingur ólst ég upp á mjög trúuðu heimili og fór með foreldrum mínum bæði á trúarsamkomur og í kirkjur og tel ekki sæma í slíkum samkomum að hlægja eða klappa né neitt slíkt sem gæti spillt trúarathöfninni eða samkomunni. Þar sem ég sæki afar sjaldan kirkjur eftir að ég fullorðnaðist get ég því miður lítið sagt meira um þetta.

Helgi Arnlaugsson.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana