LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1960-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

SýslaSkagafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1946

Nánari upplýsingar

Númer17226/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/16.11.2010
TækniTölvuskrift
Nr. 17226

Heimildarmaður: Jón Aðalsteinn Baldvinsson, f. 17.06.1946, Hólar biskupssetur, Skagafjörður.


Um áheit

Svar Jóns Aðalsteins Baldvinssonar, biskups á Hólum, við spurningum Þjóðminjasafnsins

Sjálfur hef ég ekki heitið á neitt eða neinn nema í orði og þá oftast í gamni.  Þó minnist ég þess að hafa á unglingsárum heitið á Guð í erfiðleikum

Ég hef það á tilfinningunni að konur stundi fremur áheit en karlar.  Get ekki rökstutt það nema hvað mér sýnist konur oftar senda áheit í sjóð Guðmundar góða en karlar og þá fullorðnar fremur en yngri konur.  Aldursgreiningin á sömuldeiðis við um karla.

Síðan ég varð biskup á Hólum hef ég haft umsjón með Áheitasjóði Guðmundar góða.  Allmörg áheit berast á ári hverju og eru upphæðirnar yfirleitt fremur smáar.  Þó hafa stöku sinnum borist fjárhæðir sem skipta tugum þúsunda og í einu tilfelli á annað hundrað þúsund.  Um eðli áheitanna er mér ekki kunnugt – flest þeirra eru færð á reikninginn rafrænt.  Heildarupphæð hefur verið um 300.000 á ári síðustu árin.

Eins og ég gat um, þá þekki ég af eigin reynd áheit í gamni t.d. þegar börnum er heitið verðlaunum fyrir viðvik eða fyrir árangur af einhverju tagi.  Ég þekki líka áheit t.d. í tengslum við veikindi og fjárhagsörðugleika.

Á kaþólskri tíð þóttu helgir menn, eins og Guðmundur góði, góðir til áheita.  Hugmyndin var sú að þeir hefðu sérstaka stöðu gagnvart Guði, sem aðrir menn hefðu ekki, og væru því líklegri en aðrir til að geta beitt áhrifum sínum.  Lútherskir höfnuðu þessari hugmynd og vildu að menn sneru sér í bæn til Guðs í Jesú nafni, því hann væri eini meðalgangarinn milli manns og Guðs.  Engu að síður virðist hið forna traust á helgum mönnum hafa viðhaldist meðal einhverra, ef marka má áheitin á Guðmund góða.  Þó verð ég að segja að fólk tók ekki að senda áheit að neinu marki í sjóð Guðmundar fyrr en við fórum að úthluta úr honum styrkjum til góðgerðarmála.  Ég dreg þá ályktun af því sem og samtölum við einstaklinga sem lagt hafa áheit í sjóðinn, að hugsun fólks sé sú, að það vilji þakka með sýnilegum hætti þá bænheyrslu sem það telur sig hafa fengið og styrkja um leið gott málefni í nafni Guðmundar góða.

Sagnir af undraverðum árangri áheita á kirkjur hafa ráðið því hverjar þeirra þykja góðar til áheita.  Margir heita þó á „kirkjuna sína“ í því augnamiði að styrkja hana og það starf sem þar er unnið.

Ég þekki fólk sem telur sig hafa fengið bænheyrslu fyrir áheit.  
Oftast er heitið peningum en stundum þó og kannski býsna oft bót og betrun í eigin framgöngu og líferni, - loforð um bindindi á reyk og tóbak svo eitthvað sé nefnt.

Áheit er ákall um hjálp.  Hégómlegar óskir eiga þá ekki við né heldur ágirnd af neinu tagi.

Ég tel að samviska manna hljóti að líða fyrir vanefndir í þessum efnum eins og öðrum.
Mér finnst ólíklegt að þeir sem efna ekki heit sín telji sér akk í því að stofna til nýrra.

Þekki söguna sem talin er upphafið að áheitum á Strandakirkju.  Get þó ekki rakið hana í smáatriðum.  

Hef heyrt fólk segja frá áheitum sínum eftir á.


Um kirkjur

Sögn er af því hvers vegna kirkja var byggð á Þóroddsstað í Kinn, S-Þing (heimakirkja mín í bernsku).  Hún fjallar um son bóndans á næsta bæ sem villtist í dimmviðri.  Var hann að því kominn að gefast upp er hann  kemur auga á ljós úti í sortanum.  Gekk hann á það uns hann kemur á hól nokkurn, þá hverfur ljósið.  Um leið grillir hann í bæjarhúsin á staðnum.  Hann var sem sé staddur á hólnum sem síðan hefur verið kirkjuhóll, en faðir piltsins þakkaði lífgjöf hans með því að láta reisa þar kirkju.

Kirkjur voru yfirleitt látnar standa opnar svo fólk gæti leitað þar griða bæði fyrir sál og líkama sem og auðvitað til að gera bæn sína.  Margar kirkjur eru enn opnar þrátt fyrir að þær séu í hættu fyrir þjófum og fólki með annarlegar hvatir, sem virðist sækjast eftir því að spilla því sem öðrum er heilagt.

Ég tel að flestir virði helgi kirkjuhússins og líti svo á að það sé frátekið til þjónustu við Guð og því sé nærvera hans þar næstum áþreifanleg.  Í því sambandi hefur altarið sérstaka merkingu.  Ég hef rekið mig á það, að fólk telur sig ekki mega stíga inn fyrir gráturnar.

Kirkjugrið er nokkuð sem flestir taka alvarlega og því orsakaði það reiði margra þegar lögregla réðst inn í kirkju í Kaupmannahöfn nýlega til að handtaka hælisleitendur.  Ég reikna með að Íslendingar hafi svipaða skoðun og Danir í þessum efnum.

Mikil andstaða er gegn því að rífa kirkjur og virðist ekki mikið hafa breyst í þeim efnum frá fyrri tíð.

Viðhorf til helgi kirkjuhússins hefur einna helst breyst í því að nú telja flestir sjálfsagt að klappa í kirkju sem áður fyrr þótti nánast guðlast.

Helgi kirkju og kirkjugarðs er órofaheild í hugum flestra, að minni hyggju.

Klapp á tónleikum er víðast viðhaft í kirkjum.  Enn eru þó undantekningar frá því og er þá höfðað til friðhelgi kirkjunnar.  Nú er orðið gríðarmikið og víða samfellt starf í kirkjum alla vikuna út.  Barnastarf fer oft fram í kirkjusalnum.  Sömuleiðis viðburðir af ýmsu tagi s.s. skólasetningar og slit.  Þá eru söngæfingar ýmissa kóra algengar svo og ýmsar æfingar á hljóðfæri.  Segja má að allt gangi í kirkjuhúsinu sem hægt er að flokka undir menningarstarf og fræðslustarfsemi.  Gert er ráð fyrir að fólk virði þær leikreglur sem gilda um vígð hús.

Helgi hússins skiptir marga miklu er þeir iðka trú sína, sömuleiðs vill fólk hafa styrk af trúsystkinum sínum.  Skírn í heimahúsum er gamalgróin og góð hefð á Íslandi en þekkist óvíða annarsstaðar.  Ferming fer ætíð fram í kirkjunni og í seinni tíð hefur kirkjubrúðkaupum fjölgað.  Útfarir eru undantekningalítið frá kirkju, jafnvel margra þeirra sem vilja ekki við kirkju kannast.

Sá siður að rjóða skírnarvatni á augnalok er algengur og einhverjir trúa því að það geti haft góð áhrif á sjón fólks.  Um trú á einstaka kirkjugripi hef ég ekki heyrt hjá þjóðkirkjufólki.  Altarissakramentið er mjög mörgum heilagt. Í því er nærvera Krists mikilvægust flestum.  Um lækningamátt þess hef ég ekki heyrt.

Gjafir til kirkna eru algengar og stundum til vandræða þegar um gripi er að ræða sem ekki komast fyrir eða stinga í stúf við annað í kirkjunni. Margir gefa peninga sem ætlaðir eru til ákveðinna framkvæmda eða til að kaupa kirkjugripi. Ég hef það ekki á tilfinningunni að fólk sé að gefa fyrir sálu sinni.  Undantekningarlaust virðist mér ástæða gjafarinnar vera væntumþykja og vilji til að fegra og prýða.

Mér er ekki kunnugt um að helgiathafnir utan kirkju séu bundnar ákveðnum stöðum, nema hvað skírnir eru bundnar heimilum viðkomandi.  Um aldur þori ég ekki að segja.  Heimilisguðrækni hefur þó verið meiri hér á landi en víðast hvar annarsstaðar.  Ástæðan áreiðanlega samgönguerfiðleikar og veðurfar sem hömluðu kirkjugöngum.

Gvendarbrunnar, kenndir við Guðmund góða Hólabiskup, eru þau náttúrufyrirbrigði sem algengast er að helgi sé á. Þekki ég nokkra þeirra.  Kunnastur er brunnurinn á Hólum og hef ég tekið eftir því að margir sækja sér þangað vatn t.d. til skírna. Helgun hamrabeltis Drangeyjar kemur einnig í hug og er sagan af því alkunn.
Ýmsir hættustaðir á þjóðleiðum hafa, frá fyrstu tímum kristni í landinu, verið blessaðir.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana