LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1959-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1953

Nánari upplýsingar

Númer17189/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/31.10.2009
TækniSkrift
Nr. 17189

Heimildarmaður: Ingveldur Róbertsdóttir, f. 30.05.1953, Ásvallagata 63, Reykjavík.

s1.
Um áheit.
Ég hef heitið á fólk og sagt sem svo: Ég heiti á þig (t.d.) 5.000 krónum ef ég fæ hæsta vinninginn í Lottóinu/fæ hærra en 9 í prófinu o.s.frv. Þetta er mjög algengt í minni fjölskyldu og held ég þetta sé komið frá móður minni sem oft hét á okkur dætur sínar. Frá þessum „daglegu“ áheitum var sagt, þau voru ekkert leyndarmál. Þegar aftur á móti lífið lá við, t.d. ef mikil veikindi voru, þá var ekki sagt frá áheitinu en ég held hún hafi þá heitið á Strandarkirkju og þá fékk hún líka einhvern til að biðja fyrir viðkomandi, kaþólsku nunnurnar voru stundum beðnar og líka fór hún til miðla og bað um hjálp að handan. Ég man aldrei eftir að heyra föður minn heita á einhvern. Mér finnst áheit vera oftar notuð af konum þegar ég lít yfir þá sem ég umgengst, karla sem konur. Áheit voru sem sagt gerð bæði í gamni og alvöru. Ég hef, að ég held, aðeins einu sinni af illri alvöru heitið á og segi þá sögu hér á eftir:
Ég átti von á barni, vissi að það var drengur. Ég var vön því að ganga með 2 - 3 vikur fram yfir tímann. Þetta var í byrjun mars 1985. Ég var óumræðilega þreytt og alveg búin að fá nóg, sá ekki fram á að þrauka 2 - 4 vikur enn. Ég sat inni í stofu, allir voru farnir að sofa. Ég horfði á málverk eftir Þorvald Skúlason og var að borða cheerios. Þá sagði ég upphátt „Þorvaldur Skúlason ef þú ert einhvers staðar til í einhverri mynd sjáðu þá til þess að barnið fæðist á næstu 12 tímum og ég mun láta hann heita í höfuðið á þér!“ Þetta var skömmu

s2.
eftir miðnætti 3. mars. Svo fór ég að sofa. Kl. 6 vaknaði ég upp með hríðar og kl. 10 var barnið fætt og fékk nafnið Þorvaldur. Þorvaldur Skúlason dó í ágúst 1984, hann og maðurinn minn höfðu þekkst og maðurinn minn mat hann mikils og ég dáði málverk Þorvalds. Ég vissi að Þorvaldur hafði verið góður og gegn maður. Það skipti miklu máli.
Tilgangur með áheiti er yfirleitt að gera lífið léttara, annað hvort hjá manni sjálfum eða öðrum sem eru manni kærir. Yfirleitt var þeim/því sem heitið var á lofað peningaupphæð eða einhverri gjöf. Ég þekki nú engar sögur um að áheit hafi orðið fólki til góðs. Greiðslan fór fram eins fljótt og hægt var, það skipti máli að láta það ekki dragast því annars gat eitthvað farið úrskeiðis. Ég sé nú engin takmörk á áheitum þannig séð nema það er algjörlega útilokað að nota þau til illra verka: óska einhverjum dauða, aðstoða við eitthvað ólöglegt o.s.frv. Ég held að hin „daglegu“ áheit hafi aldrei verið neitt leyndarmál en þar sem „lífið lá við“ þá var þagað um það.

Um kirkjur.
Ég er utan trúflokka (frá 1976 minnir mig). Það sem ég hef um kirkjur að segja er úr æsku minni. Ég var í sveit hjá trúaðri móðursystur undir Eyjafjöllum. Það var alltaf farið í kirkju þegar messað var. Ég hef alltaf trúað því eða haldi að kirkjum væri valinn

s3.
staður þar sem vel sést til þeirra. Þegar ég var lítil mátti ekki hlægja eða klappa í kirkju, ekki tala hátt, ekki sofna, ekki bora í nefið og ekki iða í sætinu. Það var hneyksli að mæta óhreinn og það mátti ekki stara á aðra. Ég veit ekki hvort þetta hefur breyst hvað messur varðar en ég hef verið við jarðarfarir á seinni árum þar sem var skellihlegið og klappað. Á tónleikum í kirkju má klappa og hlægja rétt eins í venjulegum tónleikasal. Ég þekki trú fólks á mátt vígðs vatns. Kaþólskur vinur fjölskyldunnar gaf mér flösku með páfavatni sem ég átti að dreifa um íbúðina til þess að halda frá henni illum öndum, hann hefur áhyggjur af trúleysi mínu. Ég gerði þetta honum til hugarhægðar með það í huga að „Það er sama hvaðan gott kemur“.

Gjafir til kirkju eru einhvers konar þakklætisvottur án einhverra skuldbindinga um að gefandanum hlotnist eitthvað annað í staðinn.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana