LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1957-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

ByggðaheitiÁrbær
Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1947

Nánari upplýsingar

Númer17236/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/25.11.2009
TækniTölvuskrift
Nr. 17236

Heimildarmaður: Lúðvík Emil Kaaber f. 25.03.1947, Brekkusmári 3, 201 Kópavogur

s1
Um áheit
Hefur þú heitið á eitthvað þér til hjálpar eða þekkir þú fólk sem hefur gert það? Hversu algengt er þetta? Hefurðu heitið á eitthvað einu sinni, tvisvar eða oftar, eða þekkirðu fleiri dæmi?
Ég man ekki eftir að hafa gert slíkt eftir að barnsskóm var slitið. ég man aftur á móti eftir að hafa heitið eitthvað á Strandakirkju þegar ég var smápolli, væntanlega af mjög ómerkilegu tilefni eins og hæfir smádrengjum, enda er ég löngu búinn að gleyma hvað það var. Aldrei stóð ég við það áheit eða hef ekki gert það ennþá að minnsta kosti; tel raunar að það hafi verið barnsórar einir og hef ekkert samviskubit út af því. Vitneskju og tal um slík áheit rek ég í minningunni til afa míns (Ólafs Daníelssonar, 1877-1957), sem þó var materíalisti að hætti menntaðra 19-20 aldarmanna og væntanlega ekki sannfærður í trú á þá himnafeðga og/eða systur hans Dórótheu Kristínar Daníelsdóttur (1882-1963), kommúnista og menntakonu, þótt eigi væri langskólagengin eins og afi og áreiðanlega að mestu trúlaus líka. Stína frænka var vinkona Þórbergs Þórðarsonar og man ég eftir að hafa komist í Gráskinnu eða einhver slík rit Þórbergs og lesið þar um áheit sjómanna á Strandakirkju. Titillinn „Sagnir af Suðurnesjum“ er mér í minni og tengi ég hann við slík rit.

Undir hvaða kringumstæðum og hvernig fer eða fór áheitið fram (t.d þegar mikið lá við)?
Gjarnan í lífsháska en þó alls ekki alltaf. Ég tel það hins vegar ekki til áheita þegar fólk sem lendir í miklum háska af hvaða tagi sem er lofar sjálfu sér einhverju eða ákveður með sjálfu sér að taka málefni sín eða lífshætti til endurskoðunar ef háskinn líður hjá. Ég skil orðið áheit þannig að ákveðið sé eða lofað að aðrir skuli njóta góðs af ef atburðarás fer vel.

Ég tel fremur algengt eða hef a.m.k. af því heyrt að maður sem á stórafmæli biðji vini og vandamenn að sleppa gjöf til sín en gefa þess í stað sposlu til hjálparstofnunar. Og ég man að fyrir fáeinum árum auglýsti einhver hjálparstofnun eða jafnvel fleiri en ein að þær fínanseruðu brunna í þróunarlöndum eða keyptu einstæðum mæðrum í fjarlægum deildum jarðar hænu eða svín í stað tækifærisgjafa til fólks sem hefði nóg af öllu hvort eð er. Skilst mér að þetta hafi þótt sniðugt og orðið vinsælt í góðærinu. Mér finnst það líka sniðugt og kann að vera skammt milli svona tilhögunar og áheita. Ekki held ég að spurningalistinn beinist að þessu, því þarna eru örlagakaup ekki tilgangurinn, þ.e. að minni hyggju er ekki verið með slíku að reyna að hafa áhrif á stjórn Drottins á heiminum

s2
sér í hag. En upplýst get ég að svona tilhögun hafði ég á þegar ég varð sextugur og systir mín líka, það ég man.

Er þér kunnugt um hvort áheit séu hugsanlega kynbundin eða aldurstengd? Geturðu lýst þessu?
Skrýtin spurning, hvort manni sé kunnugt um að eitthvað sé hugsanlegt. Ég hef afskaplega fáar og jafnvel engar spurnir af áheitum á síðari áratugum. Ég hef ekki mikla trú á að áheit séu kynbundin, þó að í þeim tilfellum sem ég hef heyrt af eða lesið um hafi kalmenn þá helst sjómenn á fyrri tíð átt í hlut. Ég tel ekki ósennilegt að slíkt hafi bara frekar verið fært í letur eða umtalað. Kannske hafa tilefni kvenna til áheita verið önnur og meira heimilistengd, svo sem málefni barna og ómaga, heilsufar og þess háttar.

Á hvað var heitið? Var heitið á kirkjur, hjálparstofnanir eða -starfsemi, helga menn, ákveðnar persónur (t.d. einstæðinga eða manneskjur sem eiga við andstreymi að stríða), dýr, hluti eða annað? Tilgreindu nákvæmlega hvaða kirkjur, persónur eða stofnanir, ef hægt er.
Ég hef bara heyrt um áheit á Strandakirkju en tel líklegt að aðrar kirkjur njóti líka eða hafi notið góðs af slíku.

Kannast þú við að áheit geti bæði verið í gamni og alvöru? Er eða var t.d. heitið á börn að gera þeim eitthvað til glaðnings ef þetta eða hitt gengi eftir? Nefndu dæmi.
Nei, þetta kannast ég ekki við. Þetta skil ég þannig að ekki sé átt við umbun til barns ef það stendur sig vel í einhverju enda er það auðvitað afar algengt.

Hvað telur þú að hafi ráðið því að sumar kirkjur, stofnanir eða persónur þykja eða þóttu góðar til áheita?
Í mínum huga er Strandakirkja svo nátengd áheitum að manni dettur hún strax í hug þegar á áheit er minnst. Góð og fjölsótt fiskimið eru þar sem kirkjan blasir við utan af hafi og sjómenn á opnum bátum við hættuleg störf, höfðu hana stöðugt fyrir augum. Kirkja og þar með Strandakirkja er tákn kristni og þar með tengd almættinu og er auk þess mennta-, menningar- og félagsmálastofnun. Eðlilegt er að hún sé það fyrsta sem mönnum kemur í hug að heita á.

Hver var tilgangurinn með áheitinu eða áheitunum?
Mér finnst það skilgreiningaratriði að áheit eru eins konar samningur við örlögin, þess efnis að ég skuli gera eitthvað ákveðið ef atburðarás fer eins og ég vonast til og mér eða mínum kemur vel. Forsenda efnda er að þannig fari. Annars er áheitandinn laus allra mála.

Hverju var eða er heitið?

s3
Eins og fram kemur hér að ofan finnst mér að ákvörðun manns um að taka til í lífi sínu svo sem með því að taka upp betri siðu, falli ekki undir áheit, jafnvel þó að sýnilegt tilefni hafi verið til. Áheit eru til þess að hafa áhrif á framvindu mála með því að víkja góðu að öðrum. Þá held ég að gjöf í benhörðum peningum, eða a.m.k. einhverju verðmæti, sé algengust.

Báru áheitin árangur? Kanntu sögur af því hvernig áheit urðu fólki til góðs?
Ég kann ekki slíkar sögur en er viss um að þær eru til svo sem í bókunum hans Þórbergs Þórðarsonar eða öðrum ritum um þjóðlegan fróðleik eða neftóbaksfræði.

Hvenær og hvernig fer/fór „greiðsla“ fram?
Í mínum huga gildir sú regla að áheitandanum ber að standa við sitt þegar Guð (eða örlögin eða hvað það nú á að heita) hefur staðið við sitt og að greiðslu beri að inna af hendi án ástæðulausrar tafar. Ég tel að það hafi verið gert með því að reiða fram peninga, síðar skrifa tékka og síðast með því að leggja inn á bankareikning, annað hvort fyrir tilstilli gjaldkerans eða með millifærslu í netbanka.

Finnst þér vera takmörk fyrir því í hvaða skyni má nota áheit af þessu tagi? Má t.d. nota þau til þess að fá atvinnu eða vinning í lottói? Útskýrðu hver takmörkin eru, ef hægt er, og af hverju.
Ef heitið er á eitthvað eða einhvern á kristilegum forsendum (og lesið hef ég mér til um að sama á að gilda meðal júða og múslima), bannar V. Mósebók 5:11 að hégóma sé blandað í trúmál, og Mattheus 4:7 að Drottins sé freistað. Þess vegna held ég að trúarleg áheit komi ekki nálægt því sem áheitandinn sjálfur viðurkennir sem hégóma, hvað sem það svo kann að vera. En álit manna á því hvað er hégómi breytist, til dæmis tel ég að á síðari árum hafi þrá eftir klekkilegum lottóvinningi eða skotvexti á hlutabréfagengi orðið betur samrýmanleg trúarviðhorfum en áður var. Hin gömlu goðmögn, svo sem Astarte og Eros og að sjálfsögðu Mammon hafa gengið í endurnýjun lífdaga á síðari tímum og nýtt sér aðstæður í nútímanum til að fá sér sæti innan hinna viðurkenndu trúarbragða svo lítið beri á. Takmörkin eru því færanleg eftir menningu og menningarástandi. Ég efa það mjög að fyrri tíðar fólk hefði tengt sambærilega hluti og þá ofannefndu kristilegum áheitum. Mjótt kann hins vegar að vera á munum milli áheits og einfalds loforðs, leynilegs eða opinbers um að víkja góðu að öðrum ef maður hlýtur happ sjálfur.

Er álitið betra að heita á sumt fremur en annað og hvers vegna? Á það almennt við um áheit eða er það mismunandi eftir aðstæðum? Hvað ræður valinu? Fór þetta hugsanlega eftir stærð mála?
Ekki kann ég nein skil á þessu

s4
Hvað heldur þú að gerist ef áheit er ekki innt af hendi?
Ég held að ósköp lítið gerist annað en það að fyrst áheitandinn trúði á áheitið í upphafi hefur hann með vanefndinni gert sjálfan sig að kjána og varla getur hann verið svo vitlaus að fata það ekki. Samviskan mun naga hann og sjálfsvirðing hans skerðast sem er auðvitað ekki gott.

Var eða er talið athugavert að heita á eitthvað ef ekki hefur verið greitt fyrir síðasta áheit og af hverju?
Enga vitneskju ellegar fróðleik hef ég um slíkt.

Þekkir þú sögur um áheit á kirkjur (Strandarkirkju eða aðrar kirkjur)? Getur þú rifjað upp slíkar frásagnir?
Ég get ekki rifjað slíkar frásagnir upp en man samt eftir að hafa heyrt þær og/eða lesið og aðeins á Strandakirkju.

Hvaða áhrif hefur það á útkomuna ef sagt er frá áheitinu? Er það gert fyrirfram eða eftir á? Hve algengt er fólk greini frá slíku?
Veit ekki. Mér finnst engu máli skipta hvort maður segir frá eða þegir en ég ímynda mér að allur gangur sé á þessu.

Annað sem tengist áheitum og þú vilt benda á.
Skilgreining á fyrirbærinu er mikilvæg svo að ekki sé farið út í snakk handan marka umræðuefnisins. Ég á góðan vin sem er fátækur að veraldlegum gæðum og ákvað eitt sinn að ynni ég góða summu, þ.e. a.m.k. par milljónir í lottói myndi ég reyna að gabba hann til að kaupa af mér hlut í miðanum til að hægt væri að koma á hann parti í vinningnum. Á þetta hefur ekki reynt því að enginn hefur verið vinningurinn. Þetta kalla ég ekki áheit, því að þó mér finnist ákvörðunin harla fögur, þá geri ég hvorki ráð fyrir né ætlast til að vinningslíkur aukist með þessu.

Um kirkjur
Hvað réði því aðallega hvar kirkjunni var valinn staður? Rifjaðu upp frásagnir í þessu sambandi, ef til eru, og gjarnan einnig um smíði guðshússins sem yfirskilvitlegar þykja.
Ég þekki engar slíkar frásagnir en rámar þó að slíks hafi verið getið í einhverjum fornritum (hvað með Kjalnesingasögu, þegar gamli vitri Írinn lagði línurnar um landnám til dæmis; þetta man ég ekki gjörla en tel víst að slíkar sögur séu til og líka frá síðari

s5
öldum). Ekki veit ég um yfirskilvitlega atburði í sambandi við kirkjusmíðar (ekki skil ég söguna um kirkjusmiðinn á Reyn þannig að kirkjan sjálf hafi verið neitt meginþema þar í).

Var eða er kirkjan látin standa opin eða ólæst um lengri eða skemmri tíma? Í hvaða tilgangi er/var það gert?
Mér hefur skilist að lengi hafi tíðkast að láta kirkjur standa ólæstar en varla opnar eins og veðurfar tíðkast norður hér og að reynt sé að hafa þær sem oftast ólæstar. Þó er sennilega farið að læsa þeim víða til varnar gegn pakki og/eða vandölum. Aðeins ein kaþólsk kirkja er á Íslandi það ég veit og held ég að hún sé alltaf opin, því að aldrei er að vita hvenær einhver vill koma inn til að biðjast fyrir eða hugleiða. Slíkt hljóta margir ríkiskirkjufylgjendur einnig að vilja. Vart er raunhæft að láta kirkjur, e.t.v. þar sem dýrgripir eða forn verðmæti eru, eftir ólæstar nema þar sem einhver getur verið tiltækur ef fólk kemur þangað með irrevernz og í skemmtilegum tilgangi.

Tilgang með að láta kirkjur ólæstar tel ég vera að fólk geti komist þangað inn einsamalt eða í smáhóp í þeim erindum sem kirkjur eru gerðar til. Þó man ég ekki betur en að ég hafi annað hvort lesið það hjá Árna Óla eða heyrt það hjá Stínu frænku, áður á minnstri (eða hvort tveggja), að einhverri kirkju hafi alls ekki mátt læsa, gott ef það var bara ekki Reykjavíkurkirkja, því að væri það gert, mátti búast við að bátur færist (á Viðeyjarsundi, tel ég mig jafnvel ráma í). Og þegar ég minnist þessa, þá man ég strax eftir frásögn Stínu frænku af hinu skelfilega Ingvarsslysi 1906, en ekki man ég hvort hún hafi bætt því við að dómkirkjan eða einhver önnur kirkja hafi þá staðið læst.

Er kirkjuhúsið eða hluti þess talið búa yfir verndarmætti? Fyrir hverju þá og hvernig?
Eigi veit ég um það og hef aldrei af því heyrt. Auðvitað má þó segja að kirkjan sem bygging tengist trúarlífi og bænum sem trúuðum finnst hughreystandi og hefur þannig óbeint slík áhrif.

Góðar heimildir eru fyrir því að klukknahljómur possit depellere Satan, eða a.m.k. var áður fyrr svo talið.

Hver er/var afstaða fólks gagnvart því að leggja niður kirkju eða að eiga þátt í að taka hana ofan? Hafa viðhorf gagnvart þessu hugsanlega breyst í tímans rás?
Aldrei hef ég heyrt né hefur mig fyrir því órað að það sé ólukkumerki eða varði viðurlögum frá almættinu að taka þátt í að rífa kirkjubyggingu eða leggja kirkju niður

Hefur viðhorf fólks gagnvart kirkjunni sem helgu húsi breyst á einhvern hátt svo þú vitir til? Á hvaða hátt og hvernig kemur það fram?

s6
Eigi veit ég til þess, nema auðvitað að kirkjan (stofnunin kirkja) skipar ekki sama sess í huga fólks og fyrrum.l

Í almennum hegningarlögum frá 1869 taldist þjófnaður á kirkjumunum eða úr gjafastokk kirkju, stórþjófnaður (án tillits til verðmætis þýfisins), og varðaði þyngri refsingu en margur annar þjófnaður. Í hegningarlögunum 1940 höfðu kirkjur misst þennan status.

Hvernig var afstaða manna til kirkjunnar tengd grafreitnum umhverfis hana og legstöðum ættingja og vina?
Ekkert öðru vísi en því að grafreiturinn er líka helgur staður og er tengdur kirkjunni með nálægð sinni við hana.  

Er eitthvað sem ekki þykir sæma að athafast í kirkju eða annað sem talið er æskilegt að gera? Tengist þetta hugsanlega ákveðnu svæði í guðshúsinu? Má t.d. klappa eða hlæja í messu? Segðu frá öðrum hugmyndum um hegðun fólks í kirkju.
Kirkjan er virðulegt hús og þar á ekki að gera neitt „óviðurkvæmilegt“, þ.e. ósiðsamlegt eða hafa uppi kalls eða hávaða. Tala má þó léttilega og hafa uppi hóflega skemmtan utan messutíma (því þá á auðvitað að þegja), ef gætt er sívilíseraðs og virðulegs yfirbragðs í hvívetna.

Svo að ég segi af eigin reynslu, þá er óviðkunnalegt ef kirkja er tóm og ferðamenn koma þangað eins og stundum gerist á ferðalagi um landið að óvígður komumaður stigi í predikunarstól og segi þar nokkur orð í hálfkæringi, þótt slíkt sé kannske ekki peccatum gravissimum í léttilegri flimtan þar sem enginn sér til nema fáeinir nánir vinir eða kammeratar og prestur, meðhjálpari og annað starfsfólk er víðs fjarri. En slík hegðun svífur ansi nálægt mörkum og ætla ég að margir muni telja hana handan þess sem leyfilegt er. Almennt séð ber alþýðu að fara varlega þegar komið er inn á svæði vígðra manna og starfsfólks en hún getur hegðað sér frjálslegar annars staðar.

Eigi skal klappað í messu en hlæja má ef sívilíserað tilefni er talið til.

Karlmenn skulu ekki bera höfuðföt í kirkjum. Það er konum frjálst að gera en ekki skylt. Gaman væri að vita hvort það hafi einhvern tíma verið talið þeim skylt en um það er mér ekki kunnugt. Tel ég að víða erlendis sé konum talið skylt að bera höfuðföt í kirkjum.

Til þess veit ég að í Evrópu svo sem Þýskalandi og Ítalíu og efalaust víðar er miðlungi vel séð að mikið sjáist af útlimum kvenna svo sem ef þær eru í T-bolum eða stuttpilsum. Ekki veit ég til þess að slíkt gildi hér þannig að meðvitað sé og reglufast en körlum jafnt sem konum mun þó ætlað að vera klædd að fullu og virðulega.

Raula má með kórnum en hljóðlega þannig að aðeins næstsitjendur geti heyrt og aðeins ef raularinn er viss um að hann sé ekki illa falskur

s7
Hvers konar hlutverki gegnir kirkjan sem samkomuhús fyrir ýmsa veraldlega viðburði? Hvaða óskráðar reglur eru í gildi utan messutíma, má t.d. klappa á tónleikum?
Mér finnst lítið viðeigandi að hafa algerlega veraldlegar samkomur í kirkjum en nánast upplagt að hafa þar samkomur þar sem fjallað er um efni sem að einhverju leyti eru trúartengd, svo sem tónleika af því tagi. Þá finnst mér að klappa megi. Annars eru íslenskir klappsiðir athugunarefni út af fyrir sig. Ég tel Íslendinga mikla ofklappendur og að fólk telji sér nánast skylt að klappa margfalt meira en ástæða er til en það er ansi hart að mega ekki láta í ljós þökk eða ánægju með vel gert kúnststykki með því að klappa, þó að í kirkju sé. En fráleitt finnst mér að klappa í messu eða við aðra trúarlega athöfn.

Hvaða máli skiptir sjálf kirkjubyggingin við trúariðkanir fólks? Er jafngilt að stunda trú sína og helgihald utan byggingarinnar og að fara í kirkju, t.d. að skíra heima? Hvenær er þá helst farið í guðshús?
Að sönnu er það jafngilt og Guði má vera sama. Helst hlýtur að vera farið í guðshús við jarðarfarir, því að heimajarðarfarir tíðkast eigi.

Kannast þú við trú á einstaka gripi í kirkjum? Hefurðu heyrt um sérstaka trú á altarissakramenti eða kaleika, mátt skírnarvatnsins (lækningamátt, vörn gegn illum öflum o.fl.)? Geturðu lýst þessu?
Altarissakramentið er mysterium supremum og auðvitað hljóta trúaðir að hafa „sérstaka“ trú á því. Annars væri alveg eins hægt að fá sér júmbósamloku og svala sem auk þess er stórum kalóríuríkara fæði. Mér er það fullkomlega ofviða að ræða um altarissakramentið hér, en vísa bara á litteratúr þar um, sem eigi er lítill. En ef einhverjir hafa sérstaka trú á altarissakramentinu, þá er ég hreint ekki hissa.

Ekki kannast ég við sérstaka trú á gripi ellegar instrumenta sem notuð eru í kirkjum. En hvað skírnarvatn snertir kannast ég vel við að það sé talið færa sérstaka lukku að steinka því á sig og mér er sem ég hafi meira að segja heyrt að heillavænlegt sé að dreypa því í augu sér (þegar ég hef séð til er augnalokið látið duga, sem er skynsamlegt).

Við hvaða tækifæri og af hvaða tilefni eru kirkjunni gefnar gjafir? Hvers konar gjafir er helst um að ræða? Hvaða væntingar hafa gefendur til kirkjunnar?
Ég kannast ekki við að kirkjum séu gefnar gjafir, þó vel þyki mér við hæfi að gefa henni einhvern grip eða skraut, taka þátt í að kosta steinda glugga eða eitthvað þvílíkt ef prestur og sóknarnefnd vilja þiggja.

Messur, giftingar og aðrar helgiathafnir undir beru lofti hafa tíðkast um nokkurt skeið. Fara slíkar athafnir hugsanlega fram á ákveðnum stöðum og ef svo er hvaða? Hvað er þetta gamall siður? Greindu frá því sem þú veist um þetta.
Ekki kæmi mér á óvart að helgiathafnir undir beru lofti séu jafngamlar kristninni. Ég tel að slíkt fari þá gjarnan fram á sögufrægum eða sérkennilegum stöðum. Útimessan á Þingvöllum árið 2000 var eftirminnileg. Slíkar athafnir finnast mér vel við hæfi.

Mjög tel ég afa aukist á síðari áratugum að gleðihelgiathafnir (giftingar og kannske líka skírnir) fari fram undir beru lofti. Gæti ég vel trúað því að slík uppátæki séu aðeins hálfrar aldar gömul eða svo og efast um að þannig hafi verið farið að á fyrri tíð. Þá finnst mér gjarnan að fólkinu sem fyrir því stendur sé umhugað að  láta bera á sér en athöfnin sjálf sé kannske í öðru sæti. Þó að mér finnist slíkt vafasamt er kannske lítið réttlæti í að amast við því, því varla er unnt að segja að þar sé á ferðinni misnotkun af neinu tagi. Á gleiðstund er jú við hæfi að gleðjast, þar á meðal með skemmtilegum uppátækjum.

Þekkir þú lindir, brunna eða læki sem sérstök trú er tengd við? Yfir hvaða eiginleikum eiga þeir að búa? Tengist trúin ákveðnum árstíma?
Til slíks þekki ég ekki og þó að álagablettir og þess háttar séu við annað hvert fótmál er það umhugsunarefni að vatnsföll og vatnsból eru ekki þar á meðal svo ég viti til. Mér finnst trú á helgi vatna bera erlendan svip. Það hefur lengst af lítt verið þjóðlegt, til dæmis að kasta peningum í vötn eins og erlendir gjarnan gera. Kannske er þetta að breytast (eins og íslensk álfapópúlasjón, sem eftir því sem mér skilst á reykvískum álfasérfræðingi innifelur nú orðið bæði gnóma og hobbíta).

Þekkir þú sögur af stöðum sem hafa verið vígðir af helgum mönnum? Eða af stöðum sem tengjast dýrlingum eða öðrum helgum mönnum á einhvern annan hátt? Geturðu sagt frá þessu?  
Ég man bara eftir Gvendi góða í Drangey, sem allir væntanlega þekkja. Þó kann að vera að ég hafi heyrt einhverjar sambærilegar sögur annars staðar frá en ekki get ég rifjað það upp og auk þess kann það að vera vitleysa).  Mér finnst afskaplega líklegt að margir slíkir staðir hafi verið á Íslandi á fyrri öldum en séu nú óþekktir eftir að pápíska var bönnuð og helgir menn flattir niður til annarra.

Segðu frá öðrum stöðum sem sérstök helgi eða átrúnaður er á.
Ég hef enga vitneskju um slíkt en af nógu er að taka í traustum heimildum. Man ég til dæmis eftir frásögn í útvarpinu eitt sinn af óförum bandaríska hersins sem reist hafði sér bragga á bletti í Hvalfirði, þar sem staðkunnugir höfðu varað við vættum og öflum er þar réðu. Ég held að þess háttar sögur séu fjölmargar og hef ég margar þeirra heyrt eða lesið, þó að ég muni ekki eftir að tilgreina þær. Kíktu í Árna Óla til dæmis, varðandi hænsnabúið hans Tönsbergs á Grensási; skemmtileg saga.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana