LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1960-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1954

Nánari upplýsingar

Númer17243/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/2009
TækniTölvuskrift
Nr. 17243

Heimildarmaður: Árni Árnason, f. 23.07.1954, Hraunbær 29, Reykjavík.

s1.
Auk þess sem fram kemur á tiltilblaði er rétt að taka fram að ég sagði mig úr þjóðkirkjunni fljótlega eftir fermingu (ca. 16 ára) og hef verið utan safnaða og tel mig trúlausan alla tíð síðan.

Um áheit:
Þessu er fljótsvarað.
Mig rekur mjög óljóst minni til að móðuramma mín hafi einhvern tíma haft um það einhver orð að heita á Strandarkirkju út af einhverju. Hvert tilefnið var eða hvort eitthvað varð af áheiti hefur mér ekki tekist að grafa upp. Vel kann að vera að þetta hafi bara verið eitthvað sem fólk segir sisvona án þess að meina nokkuð með því „Maður ætti kannski bara að heita á Strandarkirkju“ eða eitthvað í þeim dúr.

Að öðru leyti minnist ég þess ekki að málefnið hafi svo mikið sem borið á góma. Enginn sem ég veit um, hvorki í hópi fjölskyldu, vina eða samstarfsfólks, hefur mér vitanlega heitið á neitt (a.m.k. ekki í neinni alvöru) eða tjáð sig um málefnið þannig að draga megi af því einhverja ályktun um skoðun þeirra eða trú á fyrirbærinu áheit. Ég hef þó ekki komist hjá því að anda að mér þeim þjóðlega fróðleik að Strandarkirkja er án efa langfrægust þeirra hluta sem heitið er á en það helgast sjálfsagt af því að sjálf er hún áheit sem gefið var í sjávarháska í vel þekktri „þjóðsögu“.

Af ofansögðu falla spurningarnar um áheit í ófrjóan jarðveg hjá mér því miður þó að feginn vildi ég geta miðlað ykkur einhverjum fróðleik þar um. Ég get þess þó að ég tel sjálfur svona áheit algerlega gagnslaust „kukl“ sem engin viti borin manneskja ætti að bendla sig við.


Um kirkjur.
Fyrir mér er kirkjubyggingin tákn alls þess sem falskt er og rangt. Hún er dæmi um sóun á mannafli og fjármunum sem betur væri komið annars staðar, í einhverju sem inniheldur raunverulegan mannkærleika, meðlíðan og sammennsku. Hún er í hnotskurn hégómleiki þjóðhöfðingja og trúarfrömuða sem flestir voru að reisa sjálfum sér minnisvarða. Hún er tilraun til þess að gefa gufukenndum og óáhöndfestanlegum bábiljum einhvers konar „substans“ sem almúgafólk gæti þreifað á. Það hefur tekist að því leyti að margir leggja einn og sama skilninginn í orðin kirkja (í merkingunni samfélag samdauna trúariðkenda) og kirkja (í merkingunni sérsmíðað hús til bænakvaks).

Fyrir mér eru tröllauknustu og íburðarmestu kirkjurnar svo sem dómkirkjurnar í Köln og Milano einungis markverðar á sama hátt og varðveittar útrýmingarbúðir Nasista í Dachau og Auschwitz. Í áminningunni „Aldrei aftur“.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana