LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1955-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

ByggðaheitiSvínadalur
Sveitarfélag 1950Svínavatnshreppur
Núv. sveitarfélagÁrneshreppur
SýslaA-Húnavatnssýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1946

Nánari upplýsingar

Númer17225/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/15.11.2009
TækniTölvuskrift
Nr. 17225

Heimildarmaður: Kristín Á. Þorsteinsdóttir, f. 30. nóv. 1946, Kríuhólum 4  303, 111 Reykjavík


Áheit

Ég hef heitið oftar en einu sinni á Auðkúlukirkju sem er mín gamla sóknarkirkja og veit um aðra sem það hafa gert. Ég einnig heyrt talað um að heitið hafi verið á Blönduósskirkju. Ég hef yfirleitt afhent einhverjum sóknarnefndarmanni upphæðina sem um hefur verið að ræða í lokuðu umslagi merktu, Áheit frá N.N.
Mér er ekki kunnugt um hvort aðrir hafa látið nafns síns getið eða ekki en ég býst við að í flestum tilfellum hafi einhver sóknarnefndarmaður tekið við peningunum. Mér er ekki kunnugt um annars konar áheit á kirkjuna, t.d. dagsverk í hennar þágu.

Þau áheit sem ég veit um voru yfirleitt gerð þegar um veikindi var að ræða. Einnig er mér kunnugt um að heitið hafi verið á kirkjuna þegar veðurfar var óhagstætt, t.d. um sláttinn. Ég veit um fleiri konur en karla sem heitið hafa á kirkjuna.

Ég kannast við að heitið hafi verið á fólk ef minna lá við en alltaf varð að standa við áheitið ef sá sem heitið var á „varð við“ eins og kallað var. Sumarið 1955 var með eindæmum erfitt, votviðrasamt og mjög stórviðrasamt í Svínadal svo að miklir heyskaðar urðu. Föðurbróðir minn og kona hans sem bjuggu í Reykjavík komu og dvöldu nokkra daga. Þau áttu nokkrar kindur heima. Nú stóð til að slá stærstu sléttuna í túninu og pabbi hét á mágkonu sína að fóðra fyrir hana móstrútótta á sem hún átti ef heyið af sléttunni næðist óskemmt. Þetta gekk eftir og Strúta var fóðruð heima veturinn eftir og  alla vetur sem hún átti ólifaða og ég man ekki til að nokkurn tímann hafi fokið hey af þessari sléttu þótt hvasst hafi verið. Það hefur þó aldrei verið tengt við áheitið.

Mér finnst að ekki megi gríða til áheita í óhófi. T.d. dæmis finnst mér óviðeigandi að heita á kirkju til þess að fá lottóvinning. Meira verður að liggja við ef heitið er á kirkjur. Ég sé ekkert athugavert við að atvinnulaust fólk heiti á kirkjur til þess að fá atvinnu. Áheit á kirkjur snerta gjarnan velferð og heilbrigði annarra en þess sem áheitið gerir.
Alltaf verður að standa við áheitið. Ég hef ekki heyrt talað um að neitt sérstakt gerist ef fólk gerir það ekki en varla þarf að búast við að sá eða það sem heitið er á svari áheiti aftur ef ekki er staðið við áheit.

Ég hef heyrt talað um að Strandarkirkja sé sérstaklega góð til áheita en þekki ekki sögur þar um. Ég tel að flestir sem heita á kirkjur segi ekki frá áheitinu, a.m.k. ekki fyrr en það er komið fram og sennilega frekar að nokkrum tíma liðnum. Fólk er miklu opinskárra þegar heitið er á annað fólk enda tilefnin oftast ekki eins alvarleg.
Um kirkjur

Auðkúlukirkja, sem ég þekki best hefur að líkindum alltaf staðið á svipuðum stað, a.m.k. hafa aldrei fundist merki um annan kirkjugarð. Fyrir nokkrum áratugum stóð til að byggja nýja kirkju þar sem núverandi kirkja var illa komin. Ég man ekki eftir neinum áhyggjum af þeirri fyrirætlan. Að tilstuðlan þjóðminjavarðar var kirkjan lagfærð og stendur enn.
Fyrir nokkrum árum var nýjar kirkjur teknar í notkun á Blönduósi og Skagaströnd og ég man ekki eftir að hafa heyrt um nokkrar áhyggjur af því að gömlu kirkjurnar væru afhelgaðar.

Ekki þótti viðeigandi að viðhafa ljótan munnsöfnuð eða aðra slæma framkomu í kirkju þótt ekki væri um helgihald að ræða. Ég hef oft tekið þátt í því að þrífa Auðkúlukirkju. Fólk gekk að því eins og öðrum verkum og spjallaði gjarnan saman á meðan en vandaði orðafar sitt sennilega meira en annars staðar.

Ekki var messað mörgum sinnum á ári. Þegar ég var að alast upp þótti heimilum þótti viðeigandi á flestum heimilum að einhver færi til kirkjunnar þegar messað var. Messudagar voru jafnframt samkomudagar fólksins. Þetta hefur breyst og nú er það oftast fólk frá sömu heimilunum sem sækir messu. Ég hygg að fermingarmessur hafi verið fjölmennastar enda kom þá oft fólk úr öðrum sóknum til að vera viðstatt fermingu barna. Sjálfsagt hefur það að einhverju leyti farið eftir veðri hversu messur voru vel sóttar um jól og áramót. Börn voru mun oftar skírð í heimahúsum en í kirkjunni í mínum uppvexti. Börn munu fremur skírð í kirkjunni núna en áður var. Sjálfsagt tengist það því að ferðamátinn er auðveldari og kirkjan er upphituð núna.

Ég hef heyrt talað um lækningamátt skírnarvatns og að sjóndapurt fólk hafi vætt augu sín með því.

Eftir því sem ég veit eru kirkjum helst gefnar gjafir til minningar um látið fólk eða á merkisdögum í sögu kirkjunnar. Auðkúlukirkju voru t.d. gefnar allmargar gjafir þegar hún var tekin í notkun aftur að lokinni viðgerð. Gefendur voru annaðhvort fólk í sókninni eða ættað þaðan og vildu með gjöfunum sýna kirkjunni virðingu sína og velvild.

Ég hygg að sá siður  að hafa helgiathafnir utanhúss sé ekki gamall, varla er meira en 20 – 30 ár síðan fór að fréttast um slíkar athafnir. Þá er undanskildar helgiathafnir á stórum útisamkomum, t.d. á Þingvöllum. Ég man ekki til að messað hafi verið í Bláfjöllum á páskum fyrr en séra Pálmi Matthíasson tók upp þann sið sem mælst hefur vel fyrir. Má vera að aðrir prestar hafi fetað í fótspor hans og messað á skíðasvæðum.

Allir þekkja sögur af Guðmundi biskupi Arasyni sem vígði björg og brunna, t.d. björgin í Drangey og Gvendarbrunna. Ég þekki ekki aðrar sagnir en þær almennu um slík atriði.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana