Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1896

Nánari upplýsingar

Númer1728/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráEfni óháð spurningaskrám
SentMóttekið27.10.1969
Nr. 1728 p1 Árni Björnsson! Ég var búinn að gleyma skránni sem mér var send á síðastliðnu vori. Þér minntust á gott samstarf mitt við Þór Magnússon. Það gat ekki orðið af samstarfi vegna þess að mér fannst ég gæti ekki orðið að liði. Það er í fyrsta lagi af því að ég er búinn að gleyma svo mörgu frá fyrri tímum, og svo er ég ekki sendibréfsfær og gat þar af leiðandi ekki svarað í ritgerðarformi. Af þessum ástæðum mæltist ég undan því við Þór Magnússon að hann sendi mér þessar spurnginaskrár. En nú skal ég í þetta sinn leitast við að segja frá því sem ég man eftir sumardeginum fyrsta. Ef hret gerði í kringum sumarmálin var það kallað sumarmálahret. Ef frost var á fyrstu sumarnótt var sagt að frysi saman sumar og vetur, þá átti að verða gott undir bú um sumarið. Þegar maður sá sumartunglið fyrst, mátti maður ekki tala orð fyrr en einhver var búinn að ávarpa mann og með því svara manni í sumartunglið. Það mun hafa verið venja að gefa gjafir á sumardaginn fyrsta og gera sér einhvern hátt dagamun, því vissa var á hækkandi sól og hlýnandi tíðarfari. Ég man eftir þegar ég var barn þá fórum við krakkarnir ætíð ofan í fjöru að tína skeljar og einnig var víða venja að heimilisfólkið fór út á tún og færi í leiki, þeas. yngra fólkið. Ekki man ég eftir hvaða gjafir voru gefnar. Þær hafa verið sitt með hverju móti, en ég er viss um að ekki hefur verið farið í kaupstað að kaupa gjafir. Á bæ sem ég átti heima þegar ég var barn var hlemmur, allur útskorinn, ekki man ég hvað var á honum, etv. hefur það verið vers. Þetta var brauðmót. Ég held að sums staðar hafi verið venja að gefa hverjum heimilismanni pottbrauð, misjafnlega stór. Börnin fengu lítil brauð en fullorðna fólkið stærri brauð. þau voru skreytt með brauðmóti. Aldrei sá ég þessi fyrsta sumardagsbrauð og þau hafa tæplega verið útbúin nema á stórheimilum. Líklegt þykir mér að það hafi þótt mest um vert að gjafirnar kæmu á óvart. Á sumardaginn fyrsta áttu ungir, ógiftir menn að fara fyrstir á fætur og út og fanga Hörpu. Ef þurrt og bjart veður var sunnudaginn fyrstan í sumri átti að verða góður eldiviður og heyþurrkur um sumarið. Það var venja eða þekktist amk. í Vestmannaeyjum eitthvað fram yfir 1920 að ef róið var á sumardaginn fyrsta að konan fékk hlut mannsins síns. Ég man þegar ég var barn að maður sem lengi var búinn að vera veikur og rúmfastur og var búinn að fá bjúg var látinn eta skarfakál. Þetta var seinni part vetrar. Ég er búinn að gleyuma vísu sem ég kunni einu sinni og í henni voru taldar upp lækningajurtir og man ég eftir þessum jurtanöfnum: Helluhnoðri, vallhumall, rjúpnalauf, rauð hrafnaklukka. Ekki veit ég hvernig þær hafa verið notaðar, nema ég man eftir að vallhumall var soðinn saman við nýtt ósalt smjör, minnir mig. Það var kallað vallhumals samsuða. Þótti gott og græðandi smyrsl. Alls konar ráð voru notuð til þess að kýr héldu þegar þær voru leiddar undir tarf. Ég hef nýlega heyrt að eitt af líklegum ráðum hafi verið að halda kúnni undir tarfinn á mótum valllendis og mýrar.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana